Aðalvefur
Arfleifð fær frábæra umfjöllun
Að undanförnu hefur Ágústa Margrét Arnardóttir
verið á ferð og flugi í höfuðborginni með kynningu
á fyrirtækinu sínu Arfleifð og þeim frábæru vörum
sem hún hefur upp á að bjóða. Ágústa hefur heldur betur verið dugleg
við að koma framleiðslu sinni og
fyrirtækinu sínu hérna á Djúpavogi á framfæri í
höfuðborginni og má í því sambandi benda hér á tengla þar sem sjá má
flott viðtöl við hana bæði í Ísland í dag og svo á sjónvarpstöðinni ÍNN.
Ísland í dag sjá viðtal 09.12.2011
http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid
=CLP8052
Frumkvöðlar ÍNN sjá viðtal 28.11.2011
http://inntv.is/Horfa
_%C3%A1_%C3%BE%C3
%A6tti/Frumkv%C3%B6%C3%
B0lar$1322438460
Það má öllum þegar ljóst vera að Ágústa er að gera gríðarlega góða hluti í sínu fagi og
krafturinn sem hún býr yfir og afköstin eru aldeilis með ólíkindum.
Það verður því gaman að fylgjast áfram með Ágústu á komandi misserum þar sem
hún er einstaklega skapandi í verkum sínum og er sífellt að þróa metnaðarfulla
framleiðslu sina áfram. Eitt af því sem er alveg einstakt að fylgjast með er hversu
Ágústa er næm og hugmyndarík á að nýta okkar hreinu íslensku náttúruafurðir sem eru
í mörgum tilfellum afgangsafurðir sem annars er hent. Úr þessum afgangsafurðum er
Ágústa að vinna hreinustu listaverk.
Heimasíðan óskar Ágústu enn og aftur til hamingju með frábæran dugnað og árangur. AS
Ágústa Margrét Arnardóttir
Jólatrjáasala Skógræktarfélagsins
Sunnudaginn 11. desember 2011, frá kl. 13:00 - 15:00 verða seld jólatré úr skógræktinni. Farið er upp afleggjarann við kirkjugarðinn og fólk getur valið sér tré. Félagar skógræktarfélagsins verða á staðnum og saga fyrir fólk. Verð kr. 2.000.-
Ath. aðeins þessa tvo tíma.
Stjórn Skógræktarfélags Djúpavogs
Rafstöð Djúpavogs auglýsir
Erum með jólaseríur af öllum stærðum og gerðum til sölu, eigum líka flestar gerðir af perum fyrir seríur, aðventuljós og aðrar jólaskreytingar.
Allt efni til að tengja jólaljósin svo sem fjöltengi, millistykki og framlengingarsnúrur.
Komið og kíkið á úrvalið. Opið frá 8:00 til 18:00, reynum að hafa fasta viðveru á verkstæði frá 16:00 til 18:00.
Minnum einnig á að við þjónustum og seljum nánast allt sem tengist rafmagni. Tökum að okkur nýlagnir og endurbætur á rafkerfum húsa, bíla og bátarafmagn, síma og netlagnir, viðgerðir á tölvum, heimilistækjum og öðrum rafbúnaði.
Kári Snær 846-6679 og Guðjón 861-7022.
Gestavika
Í gestavikunni, sem haldin var í Djúpavogsskóla um miðjan nóvember komu margir góðir gestir í grunn-. leik- og tónskólann. Er þetta í fyrsta sinn sem allir skólarnir eru opnir fyrir heimsóknum í heila viku og gafst þetta mjög vel. Ein af þeim sem kom í heimsókn var Auðbjörg frá Hvannabrekku. Hún mætti með kanínu með sér og heimsótti marga með kanínuna.
Á Hvannabrekku er rekið býli sem kallast "Opinn landbúnaður" og það merkir að þangað eru allir velkomnir í heimsókn. Þar er líka margt að skoða og eigum við í Djúpavogsskóla eftir að nýta okkur það vonandi fyrr en síðar. HDH
Rökkur ratleikurinn
Vegna fjölda fyrirspurna koma hérna vísurnar úr Rökkur Ratleiknum í heild sinni:
Ratað í rökkrinu
(Höfundur: Unnur Malmquist Jónsdóttir)
Byggt á grunni húss sem brann
-þar sem Þórunn ekkja fyrir sér vann.
Glæsilegt hótel í fyrstu þar var
-nú skrifstofur allstaðar.
Í rökkrinu á morgun leita þú skalt
og láttu þér ekki verða kalt,
því úti við húsið vísbending bíður
og tíminn hægt í myrkrinu líður.
Fuglaáhugafólki til handa
hús lítið er á leið út á Sanda.
Við Ytri-Selabryggjur það stendur
á sumrin þar vappandi gæsir og endur.
Ef þangað á morgun þorir þú
í rökkrinu bíður vísbending sú
sem hjálpar þér þá áfram að halda
þrátt fyrir myrkur í nóvember kalda.
Á horninu hurðin á húsinu er
um dyrnar dag hvern margur fer,
í forstofu kíkir á bleðlana
og heldur svo inn með seðlana.
Eftir rökkur á morgun þangað skalt
halda inn og finna malt
-kvarta um að hlandvolgt það sé
og vísbending mun þér þá falla í té.
Á safninu er eitthvað fyrir alla
stelpur stráka konur og kalla.
Kannski færðu eitt eintak heim
og flýgur í huganum lengst út í geim.
Í rökkrinu á morgun halda þú skalt
á safnið og leita út um allt
af skræðu um fólkið í plássinu hér
og vísbending mun þá hlotnast þér.
Með bakið í suður til vinstri þá er
leikskólinn okkar einn og sér,
undir klettum á móti er húsaskjól
og fallegt að líta þangað um jól.
Í rökkrinu á morgun líttu þar við
og sjáðu myndirnar hlið við hlið,
mikil sýning sem augað gleður
og gott er líka að setjast þar "neður."
Af næsta stað er margt hægt að sjá
yfir þorpið og ofan í lág,
firði, fjöll og langt út á haf
og sker sem mara hálf í kaf.
Þangað á morgun í rökkrinu ferð
umlukin myrkri og ekkert þú sérð.
Þrátt fyrir það skaltu vörðuna finna
og orðin sem á næsta stað minna.
Í svartan botninn menn eitt sinn spyrntu
og yfir Breiðavoginn syntu.
Sund bak við skólann var seinna hlýrra
en svo tók við eitthvað betra og nýrra.
Þar er kósý annað kvöld
þegar rökkrið tekur aftur sín völd.
Kertin þá lokka þig falleg til sín
og í afgreiðslunni bíður vísbending þín.
Í þorpinu okkar bygging ein er
með fallegum turni sem krossinn ber.
Í upphafi að utan hún 12 álnir var
svo bættist við kórbygging og fordyrnar.
Á morgun í rökkrinu seinnipartinn
skaltu líta þangað inn,
læðast um og á bekkjum þig passa
og líta eftir fallegum kassa.
Út um gluggana þar sérðu dimmbláan sæ
og ferðir fólks um fallegan bæ.
Inni er hlýtt þó að úti sé kalt
og ýmislegt girnilegt er þar falt.
Þarna er hægt að versla á morgun
fyrir eina tölu sem borgun
-allra síðasta bókstafinn
og finna svo nafnið á heiðursdrauginn!
Nú skaltu raða saman með glans
stöfunum í nafnið hans
manns sem auk þess Jónsson var
og átti sérstöku buxurnar.
Hann vakir yfir ey og landi
og kannski er fé hans fólgið í sandi?
Um það enginn maður veit
Og tímabært kannski að hefja leit
Upplestur úr jólabókum
Mánudagskvöldið 12. desember ætlum við að eiga saman notalega stund í Löngubúðinni þar sem lesið verður úr nýútkomnum bókum. Lesinn verður stuttur kafli úr hverri bók. Þau sem ætla að lesa upp eru: Reynir Arnórsson, Ásdís Þórðardóttir, Drífa Ragnarsdóttir og Eðvald Ragnarsson. Auglýst verður síðar upp úr hvað bókum þau munu lesa.
Við ætlum svo að nota tækifærið og afhenta Hugrúnu verðlaun fyrir bestu ljósmyndina í ljósmyndasamkeppni Daga Myrkurs.
Verið velkomin
Langabúð
Albert Jensson býður upp á draumráðningar, lófalestur og fleira
Fimmtudaginn 8. desember ætlar Albert okkar Jensson að bjóða Djúpavogsbúum upp á draumráðningar og lófalestur. Þá mun hann einnig spá í spil og bolla fyrir þá sem vilja.
Albert hefur kynnt sér þessi málefni af kostgæfni og hefur síðustu misserin öðlast mikla reynslu á þessu sviði.
Áhugasamir geta haft samband við Albert í síma 893-4013.
Opinn fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi
Opinn fundur um ferðaþjónustu verður haldinn í Löngubúð í kvöld kl. 20:00. Farið verður yfir sumarið hjá ferðaþjónustunni ásamt fleiru.
Allir eru velkomnir og eru Djúpavogsbúar hvattir til þess að mæta.
Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs
Jólaföndur foreldrafélagsins
Verður haldið í grunnskólanum miðvikudaginn 7. desember. Það hefst klukkan 17:00 og lýkur klukkan 19:00. Vinsamlegast takið með ykkur tréliti og grófar nálar.
Þá verða nemendur 8. og 9. bekkjar með kaffisölu á sama tíma.
|
Allir hjartanlega velkomnir.
Foreldrafélagið
Skautasvellin á Búlandsnesi
Það má segja að svæðið hér út á Búlandsnesi sé sannkallað útivistarsvæði vetur, sumar, vor og haust. Nú þegar frost er á fróni hafa vötnin á Búlandsnesi breyst í spegilslétt skautasvell sem krakkarnir hérna á Djúpavogi kunna sannarlega að meta. Meðfylgjandi myndir eru teknar um liðna helgi þegar nokkrir duglegir krakkar tóku fram skautana og renndu sér fram og aftur á Nýjalóni (vatninu við flugvöllinn). Ekki þarf að óttast um börnin á þessu svæði því vatnið þarna er örgrunnt og svellin töluvert þykk þessa dagana meðan kalt er í veðri. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir þarna á svæðinu er vert að benda á að vötnin á Fýluvogi og Breiðavogi eru dýpri en á Nýjalóni. Hér á meðfylgjandi mynd er Nýjalón afmarkað svo ekkert fari á milli mála. Svellið á Nýjalóni er geysistórt og rennislétt á löngum köflum og til gamans má nefna að undirritaður mældi stærð vatnsins lauslega á loftmynd og reyndist það c.a. 700 x 400 metrar þannig að nóg er rýmið til að renna sér. Allir út að skauta. AS
Aðventuhátíð í Djúpavogskirkju
Í kvöld var efnt til Aðventuhátíðar í Djúpavogskirkju þar sem barnakórinn - kirkjukórinn og karlakórinn Trausti voru í aðalhlutverkum undir stjórn tónlistakennara Djúpavogskóla Josefs og Andreu. Má með sanni segja að þessi stund í kirkjunni sem var vel sótt af íbúum hafi verið hátíðleg í alla staði og má sömuleiðis segja að þessi viðburður hafi undirstrikað um leið hve mikil gróska er í sönglífinu hér á Djúpavogi. Við lok dagskrár sameinuðust svo allir kórarnir í einum söng og heilluðu viðstadda upp úr skónum. Sannarlega skemmtileg stund og þeim sem að stóðu til mikils sóma. AS
Sjá stutt myndbandsbrot hér frá kvöldinu:
Ljósin á jólatré Djúpavogshrepps tendruð
Hér getur á að lita stutt myndskeið frá sunnudeginum síðasta þegar ljósin voru tendruð á jólatré Djúpavogshrepps á Bjargstúninu í bliðskaparveðri. AS
Smellið á linkinn: http://www.youtube.com/watch?v=7D3lYN43Pfs
Líflegt í Löngubúð - Basar á vegum Kvenfélagsins
Í dag var líflegt um að litast í Löngubúð en þar stóð yfir hinn árlegi basar kvenfélagsins Vöku á Djúpavogi sem hefur notið mikilla vinsælda á liðnum árum. Aðsókn að basarnum var mjög góð og salan í samræmi við það. Á boðstólnum var m.a. mikið úrval af vönduðu handverki frá aðilum af svæðinu og margt fleira. Þá var kaffitería Löngbúðar með kaffi, kakó og rjómavöfflur á boðstólnum. AS
Úthlutun hreindýraarðs
Drög að úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2011 á ágangssvæði/jarðir í sveitarfélaginu liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til 14. desember. Það er jafnframt sá frestur sem gefinn er til að gera skriflegar athugasemdir sem skulu sendast til:
Skrifstofa Umhverfisstofnunar
Tjarnarbraut 39A
Pósthólf 174
700 Egilsstaðir
HRG
Opinn fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi
Haldinn verður opinn fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi miðvikudaginn 7. desember. Fundurinn byrjar kl. 20:00 og verður í Löngubúð. Dagskrá kemur í næstu viku.
Allir eru velkomnir og eru Djúpavogsbúar hvattir til þess að mæta.
Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps
Jólamarkaður Kvenfélagsins Vöku
Hinn árlegi jólamarkaður kvenfélagsins verður haldinn í Löngubúð næstkomandi laugardag kl. 14:00-17:00. Á boðstólum verður handverk og jólavörur ásamt ýmsum öðrum varningi. Börn úr grunnskólanum ætla að koma við og syngja jólalög með Kristjáni Ingimarssyni og Hrönn Jónsdóttir verður með upplestur. Kaffihúsið verður með tilboð á vöfflum og kakó/kaffi á 750 kr.
Hlökkum til að sjá ykkur
Kvenfélagskonur
Jólahlaðborð Við Voginn
Hið árlega jólahlaðborð Við Voginn verður haldið föstudaginn 2. desember í hádeginu.
Veitingar sem eru í boði:
- Hangikjöt
- Bayonneskinka
- Lambakjöt
- Purusteik
- Pate
- Lax
- Sjávarréttasalat
- Síld
- Ávaxtasalat - meðlæti
- Ljúffengir eftirréttir
HRG
Tombóla
Neisti verður með tombólu í grunnskólanum þann 1. des frá kl.17:00. Til sölu verður kaffi/kakó/svali/mjólk og vöfflur og börnin úr samsöng grunnskólans munu syngja nokkur lög. Ágóðinn mun fara í að kaupa skólahreystis æfingartæki. Tækin má skoða á www.skolahreysti.is
Vonumst til að sjá sem flesta!
Sóley
Seinkun á Bóndavörðu
Því miður kemur Bóndavarðan ekki í hús fyrr en á morgun vegna óviðráðanlegra orsaka.
HRG
Stjörnuskoðun
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn sendu nemendum í 5. 6. og 7. bekk stjörnukort. Fengu þeir kortin afhent í dag með leiðbeiningum um hvernig á að nota þau. Viljum við hvetja fólk til að horfa til himins og njóta þeirrar fegurðar sem dimmustu mánuðirnir bjóða uppá. Á bókasafninu er hægt að fá lánaðar bækur og mynddiska um stjörnufræði og viljum við einnig benda stjörnufræðivefina www.stjornufraedi.is og www.astro.is. Það eru vefir þeirra sem gáfu stjörnukortin og Galíleósjónaukann í fyrra.
Mjög áhugasömum vil ég einnig benda á forritið Stellarium (www.astro.is/stellarium/) sem er bráðskemmtilegt, ókeypis og fræðandi stjörnufræðiforrit á íslensku.
Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir vel veittar gjafir. LDB
Úrslit í ljósmyndasamkeppni Daga Myrkurs
Eftir miklar vangaveltur og hugleiðingar komst tveggja manna dómnefnd að sameiginlegri niðurstöðu um hver myndi vera sigurvegari ljósmyndakeppninnar sem stóð yfir á Dögum Myrkurs. Myndin "Kross yfir Krossdal" sem Hugrún Malmquist Jónsdóttir sendi inn, hefur verið valin sigurvegari ljósmyndakeppninnar. Hugrún náði þarna alveg einstakri mynd sem er vel að sigrinum komin. Hér fyrir neðan er svo vinningsmyndin.
"Kross yfir Krossdal" Hugrún Malmquist Jónsdóttir
Við viljum þakka þeim sem tóku þátt í ljósmyndakeppninni og við birtum hér aftur myndirnar sem voru sendar inn ásamt nöfnum ljósmyndaranna.
HRG
"Þoka að læðast upp blána" Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir
"Hvert leiðir ljósið?" Íris Hákonardóttir
"Hvað leynist á bakvið trén?" Íris Hákonardóttir
"Myrkrafjöruferð" Hugrún Malmquist Jónsdóttir
"Áttavilltar prinsessur á dögum myrkurs" Íris Hákonardóttir
Fjáröflun leikskóladeildar foreldrafélagsins
Seinnipartinn í dag, þriðjudag, munu foreldrar ganga í hús til að afla fjár fyrir leikskóladeild foreldrafélagsins. Við biðjum ykkur að taka vel á móti þeim og styrkja gott málefni. Eftirfarandi er söluvara og verð:
Servíettur: 800 kr.
Kúlukerti: 1000 kr.
Dagatalskerti: 500 kr.
Jólapappír: 1.800 kr. (Fjórar rúllur, merkimiðar, skrautband og límband)
HRG
Dagatal fyrir desember
Dagatal fyrir desember er komið inn á leikskólasíðuna. Sérstök athygli er vakin á því að leikskólinn verður lokaður frá og með laugardeginum 24. desember, til og með mánudagsins 2. janúar. Er þetta í fyrsta sinn sem leikskólinn er lokaður á þessum tíma. Ástæður eru nokkrar: í fyrsta lagi teljum við mjög mikilvægt að nemendur fái frí eins og aðrir og hafi tækifæri til að njóta jólahátíðarinnar í faðmi fjölskyldunnar, í öðru lagi hefur starfsólkið líka gott af því að hlaða batteríin auk þess sem verið er að samræma opnunartíma leikskólans að hluta við opnunartíma grunn- og tónskóla, þar sem þetta er orðinn ein og sama stofnunin. Leikskólinn opnar aftur 3. janúar 2012. HDH
Tendrun jólatrésins 2011
Jólatré Djúpavogsbúa verður tendrað sunnudaginn 27. nóvember kl. 17:00. Að venju verður sungið og gengið í kringum tréð. Einnig er von á jólasveinum í heimsókn. Eins og undanfarin ár er það Skógræktarfélag Djúpavogs sem gefur íbúum sveitarfélagsins jólatréð.
HRG
Sveitarstjórn: Fundargerð 24.11.2011
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér