Aðalvefur
Um áramót - Pistill frá sveitarstjóra
Nýlega bárust athyglisverðar tölur frá Hagstofu Íslands um íbúaþróun á Austurlandi. Þar kemur fram að í öllum sveitarfélögum utan Djúpavogshrepps og Borgarfjarðarhrepps hefur íbúum fækkað sl. ár. Í Djúpavogshreppi fjölgaði íbúum um rúmlega tvö prósent. Þetta eru gleðifréttir og gott veganesti fyrir okkur í ársbyrjun. Á sama tíma er það dapurlegt hvað fækkar annars staðar í fjórðungnum og umhugsunarefni hverju er um að kenna.
Það er undarlegt hlutskipti okkar landsbyggðarfólks að þurfa að sitja og standa samkvæmt byggðapólitík sem umturnast eftir því hver er ráðherra sveitarstjórnarmála hverju sinni. Gleymum ekki að byggðamál snúast nú orðið ekki eingöngu um landsbyggð og höfuðborgarsvæði heldur um landið sjálft. Stefnir ekki í að skortur á læknum og öðrum fagstéttum, sem hefur verið viðvarandi víða í dreifbýli um árabil, sé að verða vandamál á landsvísu? Eru ekki skipasmíðar t.d. meira og minna aflagðar í landinu og ungt fólk sem fer utan til náms, kemur það allt til baka? Setjum byggðamálin í stærra samhengi og munum að í samanburði við Evrópu er Ísland Grímsey.
Sundurlyndi og núningur milli landshluta, að ekki sé minnst á milli sveitarfélaga ber í þessu ljósi vott um heimóttarskap sem við höfum ekki efni á. Við þurfum á að halda heildstæðri stefnu til framtíðar um byggðamál sem gerir fólki kleift að búa og starfa þar sem það kýs, ekki stefnu sem gefur síendurtekinn gálgafrest að því er virðist. Á nýju ári er tilvalið að krefja ráðamenn um þess konar stefnu.
Upp úr miðri síðustu öld tók Davíð Stefánsson mönnum vara við skyndilausnum á atvinnu- og byggðamálum og það er full ástæða til að rifja það upp hér.
Hörku þarf til að heyja stríðið
við hafrót, frost og kröm.
Sé kjarnanum hafnað, en kosið hýðið
er komið á ystu þröm.
Ef napur vindur norrænna vetra
næðir um slitna flík,
hyggur æskan, að allt sé betra
í annarri Grunnavík.
En þar koma líka válynd veður
og vellandi brim og frost.
Og margur sem bernskubyggðina kveður
má búa við þröngan kost.
Í ár getur verið þar afbragðs veiði,
sem ekkert að vetri fæst.
Hvað er að gerast og hvað er á seyði
og hvert á að flýja næst ?
Mínar bestu óskir sendi ég íbúum Djúpavogshrepps um farsæld á komandi ári og kærar þakkir fyrir ánægjuleg samskipti á því sem er að líða.
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri
Frá Bakkabúð
Bakkabúð sendir viðskiptavinum og öllum Djúpavogsbúum sínar bestu óskir um heillaríkt komandi ár.
Þökkum góðar móttökur á árinu sem er að líða
Bakkabúð
BR
Jólahappdrættisleikur
Dregið hefur verið í Samkaup Strax í jólahappdrættisleiknum og var það Kristófer Dan Stefánsson sem var dreginn út
Hótel Framtíð hefur einnig dregið úr sínum potti og þar var dreginn út Sævar Atli Sigurðarson.
Í verslunni Við Voginn var það Gréta Jónsdóttir sem var dregin út.
Vinningshöfum er óskað til hamingju !
BR
Áramótabrenna 2010
Kveikt verður í áramótabrennunni á Hermannastekkum kl. 20:30 á gamlárskvöld. SVD Bára verður með flugeldasýningu.
Golfklúbbur Djúpavogs og Djúpavogshreppur
Við minnum á ljósmyndasamkeppnina - Síðustu forvöð
Heimasíða Djúpavogshrepps minnir á ljósmyndasamkeppni Djúpavogs 2010, en skilafrestur er á miðnætti 31.12.2010.
Nánar má kynna sér hana með því að smella hér.
ÓB
PubQuiz í Löngubúð
Fimmtudaginn 30.desember er komið að allra síðasta PubQuizi ársins. Að þessu sinni eru það í höndum sigurvegaranna í síðustu keppni, Gísla Hjörvars og Natans að spyrja spurninga. Húsið opnar 21:00 og leikar hefjast 21:30.
Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra
Sjáumst!
Langabúð
BR
Happdrættisleikur Birds.is
Í sumar stóð Birds.is fyrir skemmtilegum happdrættisleik sem gekk út á það að þátttakendur skiluðu inn afrifu af fuglagreiningarlista sem Birds.is gefur út.
Í ár var 82 afrifum skilað inn og koma þátttakendur allstaðar að úr heiminum. Einn heppinn þátttakandi var dreginn út og var það Gunnar Orri Ólafsson á Akureyri. Hann hlýtur í verðlaun bókina "Fólkið í plássinu" eftir Má Karlsson
Verkefnahópurinn Birds.is vill þakka öllum þeim sem tóku þátt og óskar Gunnari til hamingju með verðlaunin.
Birds.is
BR
Úrslit í piparkökuhúsasamkeppni
Eins og sagt hefur verið frá hér á heimasíðunni voru úrslit í piparkökuhúsasamkeppninni tilkynnt á Þorláksmessu. Við áttum hins vegar alveg eftir að greina frá því hverjir unnu keppnina og úr því verður bætt hér með.
Það var Þórunn Amanda Þráinsdóttir sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir glæsilegt hús sitt en m.a. kom fram í umsögn dómnefndar...
Þórunn Amanda við verðlaunahúsið sitt
Í öðru sæti varð fjölskyldan í Borgarlandi 24, Guðmundur H. Gunnlaugsson, Svala B. Hjaltadóttir, Bryndís Þóra og Embla Guðrún en þau gerðu nákvæma eftirmynd af húsi sínu í Borgarlandi. Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram ....
Hér má sjá húsið sem varð í 2. sæti
Í þriðja sæti varð hús frá fjölskyldunni í Þórshamri en þar búa Egill Egilsson og Þórdís Sigurðardóttir ásamt börnum sínum. Þau gerðu einnig nákvæma eftirmynd af húsi sínu eins og það kemur til með að líta út eftir fyrirhugaða stækkun sem Egill vinnur nú hörðum höndum að.
Þórshamar eins og húsið verður eftir stækkun. Meira að segja mótórhjólið hans Egils er komið í bílskúrinn.
Hótel Framtíð auglýsir
29. des: Pizza tilboð 12” með 3 álegg og pepsí kr.1.850.- frá 18:00 til 20:00
30. des: Pizza tilboð 12” með 3 álegg og pepsí kr.1.850.- frá 18:00 til 20:00
31. des: (nýársnótt). D.J.
forsala 29 og 30. des. miðaverð kr.1.500.-
Miðaverð kr.2.850.- eftir að forsölu líkur.
Aldurstakmark 18 ára (dagurinn).
Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra
Hótel Framtíð
BR
Öxi orðin fær á ný
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur vegurinn um Öxi verið opnaður. Við minnum vegfarendur á að keyra varlega.
ÓB
VSK-lausir dagar í Bakkabúð!
Þriðjudaginn 28.des til föstudagsins 31. des. verða vasklausir dagar í Bakkabúð.
Allar vörur nema handverks- og umboðssöluvörur án virðisauka þessa daga!
Opið frá 13:00 - 18:00
Gamlársdag frá 10:00 - 13:00
Verið velkomin!!
Bakkabúð
BR
Hækkun á aldurstakmarki / ný reglugerð tekur gildi um áramót
Sundlaug Djúpavogshrepps - foreldrar/ábyrgðarmenn athugið !!!
Aldurstakmark barna í sund á almennum sund- og baðstöðum á Íslandi er í dag með þeim hætti að yngri en 8 ára þurfa fylgdarmann sem þarf að vera orðin 14 ára.
Samkvæmt nýrri reglugerð um almenna sund- og baðstaði á Íslandi munu aldursmörk taka breytingum og hækka nú um áramótin þannig að frá og með 1. janúar 2011 eru börnum yngri en 10 ára óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri.
Viðkomandi má ekki hafa með sér fleiri en tvö börn, nema ef um er að ræða foreldri eða forráðamann.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Reglugerðin er einnig sett að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið hvað varðar öryggisráðstafanir á sund- og baðstöðum, sbr. ákvæði 14. gr. íþróttalaga nr. 64/1998.
Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2011. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 457/1998 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.
Umhverfisráðuneytinu, 12. október 2010. Svandís Svavarsdóttir.
Foreldrar/forráðamenn barna eru hér með vinsamlega beðnir um að virða aldursmörk þessi frá 1 jan. næstkomandi.
Forstöðum. ÍÞMD
Umfjöllun á kylfingur.is - Ásta Birna stefnir á Evrópumótaröðina 2012
Hér má sjá jólafrétt á kylfingur.is þar sem birt er viðtal við Ástu Birnu Magnúsdóttir frá Djúpavogi, en Ásta stefnir nú ótrauð á Evrópumótaröðina 2012. Sjá annars umfjöllun og viðtalið hér í heild.
Lítið fór fyrir Ástu Birnu Magnúsdóttur á árinu sem er að líða. Hún hélt til Þýskalands í nám og lék því ekkert á Eimskipsmótaröðinni í sumar. Hún gekk í Lippstadt golfklúbbinn og varð klúbbmeistari í sumar. Hún er með háleit markmið og ætlar sér að reyna við Evrópumótaröðina árið 2012. Ásta segir söknuðinn af keppni á íslensku mótaröðinni ekki vera mikinn en saknar fjölskyldunnar. Í nýjasta tölublaði Golfs á Íslandi var rætt við Ástu Birnu.
Hvernig gekk þér í golfinu í Þýskalandi á árinu?
Golfið í sumar gekk alveg þokkalega. Þetta var fyrsta sumarið hér úti og var í rauninni bara til þess að sjá hvernig þetta gengi fyrir sig. Á næsta ári er markið sett hærra og enn hærra fyrir 2012. Ég stefni á að fara í úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina í desember 2012.
Hvernig var að vera ekki með á mótaröðinni í sumar?
Ég verð að segja það að það var rosalega gaman að prufa eitthvað annað en að spila bara á Íslandi og ég hlakka til næsta tímabils hér úti. Ég ætla að spila á nokkrum stærri mótum á næsta ári í Þýskalandi.
Er söknuður af Íslandi og íslenska golfinu?
Það er ekki mikill söknuður af íslenska golfinu, en það er erfitt að vera svona langt frá fjölskyldunni. Þau komu til mín í sumar í fjórar vikur og var alveg frábært að hafa þau hjá mér. Þau styðja vel við bakið á mér í því sem að ég er að gera og það er mjög mikilvægt.
Hefur þú bætt þig mikið á tíma þínum í Þýskalandi?
Já, ég hef bætt mig eitthvað. Sveiflan er orðin mjög góð og ég er að slá töluvert lengra. Í sumar var ég að spila mjög stöðugt golf, meðalskorið mitt var um þrjú högg yfir par. Forgjöfin lækkaði einnig, er komin niður í einn og ég er komin í topp-100 meðal kvenna í Þýskalandi.
Hver var hápunktur sumarsins og hver voru mestu vonbrigðin?
Hápunkturinn var að vinna Präsidentin Cup með vallarmeti á þremur höggum undir pari. Mestu vonbrigðin var að það kom smá lægð í upphafi tímabilsins.
Hvaða kylfingur á Íslandi kom að þínu mati mest á óvart í sumar?
Guðmundur Ágúst og Ólafía komu skemmtilega á óvart í sumar.
Verður þú með á íslensku mótaröðinni á næsta ári?
Ég á eftir að skoða það hvernig það kemur saman með sumarfríið og mótin hér úti. Mótaskráin er komin út fyrir næsta tímabil hér úti en ég veit ekkert hvenær mótin eru heima á Íslandi.
Ásta Birna á 30 sekúndum:
Klúbbur: Golfclub Lippstadt
Aldur: 22
Forgjöf: 1
Besti hringur: -4
Hola í höggi: Einu sinni á 3. holu í Keili (par-4)
Uppáhalds kylfingur: Martin Kaymer
Draumaráshópurinn: Martin Kaymer, Adam Scott og Tiger Woods
Uppáhaldskylfa: 50° fleygjárn
Við óskum Ástu Birnu að sjálfsögðu áframhaldandi velgengni á sviði golfíþróttarinnar og sendum henni okkar bestu jólakveðjur.
Áfram svo Ásta Birna. AS
Jólakveðja frá Bakkabúð
Búið er að draga í jólahappdrættisleiknum í Bakkabúð og var það Viktor Ingi Sigurðarson sem var sá heppni að þessu sinni.
Um leið og vinningshafanum er óskað til hamingju vill Bakkabúð óska viðskiptavinum sínum og Djúpavogsbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Með þökk fyrir góðar móttökur á árinu sem er að liða.
Jólakveðjur,
Bakkabúð
BR
Úrslit í piparkökuhúsasamkeppninni
Piparkökuhúsasamkeppni hefur staðið yfir síðustu vikurnar og hefur mörgum glæsilegum húsum verið skilað inn. Í dag verða úrslitin ráðin en dómnefnd hefur staðið í ströngu nú síðustu klukkustundirnar við að velja þau þrjú hús sem hreppa efstu sætin.
Úrslitin verða tilkynnt í Samkaup Strax í dag, Þorláksmessu, um kl. 17:00 en þá verður mikið fjör í versluninni, sungnir jólasöngvar, fluttar frumsamdar jólasögur eftir nemendur Grunnskólans og von er á rauðklæddum sveinum í heimsókn.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru í dag þegar dómnefndin var við störf en nú er um að gera að mæta í Samkaup Strax um kl.17:00 í dag til þess að sjá hver hlýtur verðlaunin fyrir fallegasta húsið.
BR
Það þarf að vanda valið
Dómnefndin önnum kafin
Er einhver heima?
Eða er verið að reyna að borða húsið?
Jólakveðja frá skrifstofu Djúpavogshrepps
Það er orðinn gamall og góður siður hjá starfsfólki skrifstofu Djúpavogshrepps að senda út jólakveðju í dansformi. Því var það áhyggjuefni þegar fordansari síðastliðinna ára, Bj. Hafþór Guðmundsson, kvaddi okkur eftir síðasta kjörtímabil. Að sjálfsögðu kemur maður í manns stað en það var strax ljóst að það gríðarlega skarð sem Hafþór skildi eftir sig yrði erfitt að fylla upp í. Myndi nýr fordansari búa yfir sömu dansreynslu og sömu leiðtogahæfileikum og hann?
Með hnút í maga hélt starfsfólk skrifstofunnar, ásamt nýjum fordansara, Gauta Jóhannessyni, á fyrstu dansæfingu aðventunnar. Sá hnútur var svo sannarlega óþarfur. Gauti hefur enda komið víða við, t.a.m. sótt fjölmörg og fjölþjóðleg dansnámskeið bæði austan hafs og vestan, nú síðast lagði hann stund á hinn þjóðlega Fawn Thai dans (nánar tiltekið Fawn Marn Mong Kol tilbrigði) í Kanchanaburi í vesturhluta Tælands.
Það er þó ekki hægt að segja þá kunnáttu hafi hann nýtt sér í sínum fyrsta jóladansi með skrifstofunni, en engu að síður er ljóst að þar fer dansari sem býr yfir gríðarlegri fjölhæfni og ótvíræðum leiðtogahæfileikum.
Nóg um hann.
Eftir miklar vangaveltur um hvað skyldi taka fyrir í jólakveðju þessa árs var ákveðið að prófa eitthvað alveg nýtt. Brimbrettadans.
Meðfylgjandi mynd er tekin á fyrstu dansæfingu. Gauti og Anna Sigrún í forgrunni og Óli og Bryndís í bakgrunni. Gríðarlegir leiðtogahæfileikar Gauta leyna sér ekki.
Dansinn má skoða með því að smella hér.
Með jólakveðju;
Starfsfólk skrifstofu Djúpavogshrepps
Samkeppni um fallegasta piparkökuhúsið
Piparkökuhúsasamkeppni Djúpavogs 2010 verður haldin dagana 29. nóv. til 20. des. Húsunum er skilað inn til starfsfólks í Samkaup Strax á þessum dögum og mun dómnefndin skera úr um það hver er með flottasta húsin en veittir eru vinningar fyrir 3 flottustu húsin.
Verðlaun eru veitt á Þorláksmessu en þá verður mikið um dýrðir í Samkaup Strax á Djúpavogi. Sungnir verða jólasöngvar, fluttar frumsamdar jólasögur eftir nemendur Grunnskólans og von er á rauðklæddum sveinum í heimsókn.
Fjörið byrjar kl. 16:00 og stendur til kl. 18:00 og verða léttar veitingar í boði.
Djúpavogsbúar, nú er um að gera að þurrka af keppnisskapinu og hefjast handa
Sjáumst hress og kát
Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir
Opnunartími í Löngubúð yfir hátíðarnar
Þorláksmessa, 23.desember: Talið niður í jólin með jólaglöggi og kertaljósum frá 21:00 til 23:30.
Annar í jólum, 26.desember: Spilakvöld: Húsið opið fyrir gesti og gangandi að hittast og spila borðspilin sem leyndust í pökkunum þetta árið eða jafnvel bara uppí hillu. Auk þess verða spil á staðnum. Opið 21:00 til 23:30.
Fimmtudagur, 30.desember: Vegna áskorana hefur verið ákveðið að koma fyrir enn einu PubQuizi árið 2010. Það verður í höndum sigurvegaranna í síðustu keppni, Gísla Hjörvars og Natans. Húsið opnar 21:00 og leikar hefjast 21:30.
Starfsfólk Kvennasmiðjunnar vill að lokum þakka Djúpavogsbúum og öðrum gestum sem lögðu leið sína í Löngubúð kærlega fyrir árið sem nú rennur brátt sitt skeið.
Sjáumst árið 2011!
Jólakveðjur, Langabúð
Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra
BR
Peran 2010
Menningarmálanefnd Djúpavogs efnir til lýðræðislegrar kosningar um bestu jólaskreytingu Djúpavogshrepps.
Kosningin fer þannig fram að hver og einn má kjósa 3 hús. Best skreytta húsinu skal gefa 3 stig, því næsta 2 og síðan 1 atkvæði til þess húss sem þar á eftir kemur.
Nóg er að nefna númer húss eða eiganda / eigendur.
Vinningshafinn mun síðan fá "Peruna" afhenta á Þorrablótinu, laugardaginn 30. janúar.
ATKVÆÐUM SKAL SKILA Á SKRIFSTOFU DJÚPAVOGSHREPPS EÐA NETFANGIÐ peran@djupivogur.is FYRIR KL. 13:00 ÞRIÐJUDAGINN 26. JANÚAR 2011.
Þeim sem ekki geta sent atkvæðin í tölvupósti bendum við á að prenta þessa frétt út, fylla út atkvæðaseðilinn hér fyrir neðan og skila á skrifstofu Djúpavogshrepps.
ATKVÆÐASEÐILL:
1. sæti (3 atkvæði): ____________________________________
2. sæti (2 atkvæði): ____________________________________
3. sæti (1 atkvæði): ____________________________________
Nafn þess sem kýs: _____________________________________
Við voginn auglýsir - Skötuveisla á Þorláksmessu
Skötuveisla verður í versluninni Við voginn, í hádeginu á Þorláksmessu.
ÓB
Búinn 2010 - verðlaunahafar
Frá því í september hafa fjölmargir Djúpavogsbúar svitnað rækilega í íþróttahúsinu og tekið þátt í íþróttaátakinu Búinn 2010. Í gær var Búanum formlega lokið þetta árið og því veitt verðlaunfyrir besta árangurinn.
Hjónakornin Andrés Skúlason og Gréta Jónsdóttir fengu verðlaun sem Djúpavogsbúaparið 2010 en þau voru með besta árangurinn af þeim pörum sem tóku þátt og hlutu í verðlaun gjafaöskju af humri frá Ósnesi.
Magnús Hreinsson fékk verðlaun fyrir besta árangurinn hjá körlum og hlaut í verðlaun 30 tíma kort í sund, þreksalinn og íþróttasalinn að andvirði kr. 9000.-
Guðrún S. Sigurðardóttir fékk verðlaun fyrir besta árangurinn hjá konum og fékk í verðlaun gjafabréf hjá Arfleifð að upphæð kr. 10.000 . -
Það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir voru tilbúnir að taka þátt í átakinu og nýta sér þá frábæru íþróttaaðstöðu sem hér er í boði. Nú vonum við bara að sem flestir haldi áfram á nýju ári.
Búinn 2010
BR
Umboðsmaður Jólasveinsins
FORELDRAR ATHUGIÐ
Umboðsmaður sveinka verður í Íþróttamiðstöð Djúpavogs frá kl.18-19 á Þorláksmessu og tekur á móti pökkum sem dreift verður innan sveitarfélagsins (líka í dreifbýli) á aðfangadag.
500 kr á hús.
Frá bókasafninu
Bókasafnið verður lokað þriðjudaginn 21. desember en opið verður fimmtudaginn 23. des frá kl. 18:00 – 20:00.
Bókasafnsvörður
BR
Már Karlsson áritar í Samkaup strax
Eins og kunnugt er sendi Már Karlsson frá sér bókina Fólkið í þorpinu nú á dögunum.
Már ætlar að árita bókina í Samkaup strax miðvikudaginn 22. desember frá 16:00 - 18:00
ÓB
Hvert er fólkið - Jólagáta
Ásdís Þórðardóttir færði okkur meðfylgjandi mynd fyrir nokkru. Ekki sagðist hún vita hverjir væru á henni og fannst okkur því tilvalið að skella henni hér inn og leyfa lesendum að spreyta sig.
Það er alls ekki skilyrði að menn þekki alla á myndinni, enda búumst við ekkert frekar við því að það takist. Þekki menn einhverja er hægt að senda línu á djupivogur@djupivogur.is
ÓB
Lokahátíð Búanna
Í allt haust hefur staðið yfir heilsuátak í íþróttamiðstöð Djúpavogs undir nafninu Djúpavogsbúinn 2010.
Nú á að klára þetta fyrsta átak með stæl í heita pottinum í sundlaug Djúpavogs kl. 18 í dag mánudaginn 20. des. Léttar veitingar verða í boði og viðurkenningar veittar til þeirra sem best hafa staðið sig.
Miðvikudaginn 22. des verður síðasta þrek fyrir jól kl. 17:00
Allir velkomnir til að slást í hópinn, jafnt karlar sem konur á öllum aldri.