Djúpivogur
A A

Aðalvefur

Sveitarstjórn: Fundarboð 02.12.2010

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  02.12.2010

5. fundur 2010 - 2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 2. des. 2010 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsáætlun 2011, fyrri umræða; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a)    Ákvörðun um útsvarsprósentu 2011.
b)    Gjaldskrár 2011 til fyrri umræðu.  
c)    Eignabreytingar og framkvæmdir 2011.
d)    Styrkbeiðnir o.fl. v. ársins 2011.
e)    Útkomuspá vegna ársins 2010.
f)    Drög að rekstrarútkomu 2011.     
g)    Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2011. Fyrri umræða.

2.    Erindi og bréf.

a)    Rannsóknarsetur forvarna við Háskólann á Akureyri, ódags.
b)    Velferðarvaktin, dags. 25. október 2010.
c)    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dags. 29. október 2010.
d)    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dags. 29. október 2010.
e)    Stígamót, dags. 1. nóvember 2010.
f)    SÍS, dags. 8. nóvember 2010.
g)    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dags. 17. nóvember 2010.


3.    Fundargerðir

a)    Skólanefnd, dags. 2. nóvember 2010.


4.    Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi 30. nóvember 2010;

Sveitarstjóri.


30.11.2010

Jólaföndur foreldrafélags Grunnskólans

Foreldrafélag Grunnskólans stendur fyrir jólaföndri í skólanum miðvikudaginn 1. desember frá 17:00 - 19:00.  Allir íbúar sveitarfélagsins eru velkomnir og verður margs konar föndur til sölu. Þá sjá nemendur 9. og 10. bekkjar um kaffihús þar sem margt góðgæti verður á boðstólnum.  

Vonumst til að sjá sem flesta.

Foreldrafélag Grunnskólans

Vinningshafar í happdrætti foreldrafélags leikskólans.

Að beiðni foreldrarfélags leikskólans birtum við hér nöfn vinningshafa í happdrætti félagsins sem fram fór í dag.

Már Karlsson var fenginn til að draga út vinningshafana og dró hann eftirtalda:

Henrý Daði Þórisson
Kristófer Dan Stefánsson
Steinunn Jónsdóttir
Viktor Ingi Sigurðarson

ÓB

27.11.2010

Rafstöð Djúpavogs auglýsir

Erum með jólaseríur af öllum stærðum og gerðum til sölu, eigum líka flestar gerðir af perum fyrir seríur, aðventuljós og aðrar jólaskreitingar.

Allt efni til að tengja jólaljósin svo sem fjöltengi, millistykki og framlengingarsnúrur.

Komið og kíkið á úrvalið.

Opið alla virka daga frá 8:00 til 18:00. Föst viðvera frá 16:00 til 18:00 (yfir jólin)

Minnum einig á að við þjónustum og seljum nánast allt sem tengist rafmagni. Tökum að okkur nýlagnir og endurbætur á rafkerfum húsa, bíla og bátarafmagn, síma og netlagnir, viðgerðir á tölvum, heimilistækjum og öðrum rafbúnaði.

Kári Snær 846-6679 og Guðjón 861-7022


27.11.2010

Poolmót Við Voginn

Sunnudaginn 28. nóvember kl. 14:00 verður haldið Poolmót Við Voginn.

Skráning í síma 478-8860 eða í afgreiðslu.

Mótsgjald kr. 1.000.-

Aldurstakmark 14 ár.

ÓB

27.11.2010

Tendrun jólatrés Djúpavogsbúa 2010

Jólatré Djúpavogsbúa verður tendrað sunnudaginn 28.nóvember kl.17:00.

Að venju verður sungið og gengið í kringum tréð og von er á jólasveinum í heimsókn.

Eins og undanfarin ár er það Skógræktarfélag Djúpavogs sem gefur íbúum sveitarfélagsins jólatréð.


Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra


Allir velkomnir

Ferða - og menningarmálafulltrúi

26.11.2010

Foreldrafélag leikskólans á markaðinum í Löngubúð

Foreldrafélag leikskólans verður með til sölu markíl, makrílpaté og reykta og grafna gæs á markaðinum í Löngubúð. laugardaginn 27. nóvember.

Einnig verður í gangi happadrætti. Hver miði kostar 500 krónur og verða tveir heppnir aðilar dregnir út. Í vinning eru tvær flottar körfur með vinningum frá Samkaup, Hótel Framtíð, Bakkabúð, Rafstöð og Við voginn.

Hlökkum til að sjá ykkur;
Foreldrafélag leikskólans

26.11.2010

Nýjar myndir

Búið er að setja inn nýjar myndir á myndasíðu leikskólans.  Einnig vil ég benda á nýtt dagatal fyrir desember mánuð en þar má sjá það sem verður á döfunni í leikskólanum þann mánuðinn.  Í nóvember var ýmislegt brallað, við tókum þátt í dögum myrkurs og voru unnin verkefni tengd dögunum sem og að matseðill vikunnar var í anda daga myrkurs.  Síðan kom snjórinn og þá var sko heldur betur gaman að fara út og renna sér á snjósleðum. 


Rosalega gaman að renna í brekkunni hjá Helgafelli

Við fórum á bókasafnið og hlustuðum á sögur og tókum bækur á safninu. 


Eldri bókasafnshópurinn hér á ferð


Yngri bókasafnshópurinn var aðeins rólegri og skoðaði bækur

Hér eru fleiri myndir frá bókasafninu en síðan fóru elstu nemendurnir í heimsókn í grunnskólann á degi íslenskrar tungu.  Þau unnu verkefni með 1. bekk í tilefni þess og síðan var farið í íþróttatíma með 1,2 og 3 bekk. 

Þar var búið að setja upp Tarzan braut sem vakti mikla lukku.  Hér eru fleiri myndir frá þessu. 

Fyrir nokkru voru teknar myndir af þremur elstu árgöngum í leikskólanum.  Gaman að sjá hverjir eru jafngamlir og spurning hvort árgangarnir munu halda sér svona út skólagönguna. 


Árgangur 2005, tilvonandi grunnskólabörn næsta vetrar í aldursröð.


Árgangur 2006  í aldursröð


Árgangur 2007 er fámennasti árgangurinn í leikskólanum, í aldursröð

ÞS

Tilboð í Samkaup Strax

Nú eru jólin að nálgast og Samkaup Strax lætur ekki sitt eftir liggja og senda hér auglýsingu um tilboð sem eru í gangi.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

25.11.2010

Eli Smith og Ingimar Sveinsson

Með góðfúslegu leyfi viðkomandi er hér birt sérlega skemmtileg upptaka og myndir í tilefni heimsóknar listamannsins Eli Smith frá Þórshöfn í Færeyjum til Djúpavogs síðastliðinn þriðjudag.  Á videoupptöku má sjá listamanninn Eli og Ingimar Sveinsson flytja fallegan texta úr ljóðabók sem Eli færði okkur að tilefni heimsóknar sinnar, en í þessari bók eru m.a. tvö íslensk ljóð og hér má sjá þá félaga flytja annað þeirra, "Nú hnígur sól".
Þess má geta að Eli færði sveitarfélaginu sömuleiðis listaverk eftir sig frá Færeyjum og á móti færði sveitarfélagið honum viðeigandi gjöf á móti þ.e. tvær bækur eftir Ingimar Sveinsson sem þekktar eru.
En fyrst og síðast njótið þessa fallega söngs og einstöku upptöku sem hér má sjá meðfylgjandi ásamt ljósmyndum. 
Andrés Skúlason    

 

 

 


Eli Smith og Ingimar Svenisson Mynd tekin við gamla kirkjugarðinn að Hálsi i Hamarsfirði 


Sveitarstjórinn Gauti Jóhannson veitir viðtöku gjöf frá Eli Smith í ráðhúsinu Geysi


Ingimar Sveinsson afhendir Eli bækur eftir sig - 400 ár Við Voginn og Siglt og róið


Eli Smith og Andrés Skúlason oddviti

 

25.11.2010

Svavar Knútur í Löngubúð

Söngvaskáldið Svavar Knútur hefur sent frá sér nýjan geisladisk sem hljóðritaður var á stofutónleikum í október síðastliðnum.

Af því tilefni heldur Svavar Knútur tónleika í Löngubúð á Djúpavogi, föstudaginn 26. nóvember næstkomandi kl. 21:00. Allir eru velkomnir, sérstaklega ömmur og kostar kr. 1.500 inn. Ókeypis er inn fyrir ömmur.

Endilega komið og fjárfestið í jólagjöf ársins fyrir ömmur á öllum aldri! Og gefið sjónvarpinu frí eitt kvöld. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 stundvíslega og gæti orðið mikið stuð þegar líður á kvöld.

Á Ömmu flytur Svavar ýmis lög sem hann hefur tekið ástfóstri við í gegnum tíðina, en plötuna tileinkar hann ömmum sínum þar sem lögin eru flest komin til ára sinna og hafa verið sungin af eldri kynslóðum. Öll lögin nema eitt eru í útsetningum söngvaskáldsins sem leikur ýmist undir á gítar eða ukulele, en í einu lagi kemur píanóleikarinn Árni Heiðar Karlsson við sögu og í öðru lagi ljá Karítur Íslands raddir sínar til að auka á blæbrigðin. Að öðru leyti er hér um hreinræktaða trúbadúrplötu að ræða. Meðal söngva á diskinum eru Kvöldið er fagurt, Draumalandið, Sofðu unga ástin mín, Næturljóð úr Fjörðum og nýtt lag Svavars við Álfareiðina.

Svavar um Ömmu:
Undanfarin ár hef ég staðið sjálfan mig að því að taka öðru hvoru eina eða tvær fallegar gamlar íslenskar voðir meðfram mínu eigin efni á tónleikum. Lög sem hafa haft djúp áhrif á mig eða snert mig í lífinu á einhvern hátt. Mig langaði til að taka þessi lög saman og koma þeim á plötu, að fremja nokkurs konar voðaverk, áður en ég héldi áfram og gæfi út næstu plötu með frumsömdum lögum.
Vinir mínir hvöttu mig til að láta slag standa og Aðalsteinn Ásberg tók hugmyndinni um lifandi tónleika í stofunni sinni á Skólavörðustíg 27 ótrúlega vel. Var þá ekkert að vanbúnaði og við drifum okkur í verkið. Fjölskyldu og nánum vinum var boðið á heimatónleika með léttum veitingum og tilheyrandi. Stemmningin varð ógleymanleg.
Þetta var falleg stund og þarna var hún amma Svava komin og sat og hlýddi á gömlu góðu lögin sem mig hafði alltaf langað til að syngja fyrir hana. Ég tileinka þessa plötu því ömmum mínum, Svövu, Vilborgu og Þórhildi, sem hafa alltaf verið svo góðar og hlýjar og elskað ömmudrenginn sinn út af lífinu. Það var yndislegt að njóta þess að vera með öllu þessa góða fólki inni í stofu og syngja án allrar mögnunar og milliliða fyrir þá sem ég elska.


Hlustið á Ömmu ókeypis hér: http://svavarknutur.bandcamp.com/

ÓB

25.11.2010

Mömmumorgnar í kirkjunni

Nú ætla mömmur Djúpavogshrepps að sameinast og hafa svokallaða "mömmumorgna" á fimmtudögum. Ætlunin er að hittast í Djúpavopgskirkju frá 10:30 - 12:00.

Fyrsta samkoma verður á morgun, fimmtudaginn 25. nóvember.

Mömmur á Djúpavogi

24.11.2010

Auglýsing frá Bakkabúð

Bakkabúð verður opin laugardaginn 27. nóvember frá kl. 14:30 - 16:30.

Verið velkomin

Bakkabúð

BR

24.11.2010

Síldarsala Neista

Sölumenn frá UMF Neista verða á ferðinni um þorpið frá kl. 18:00 miðvikudaginn 24. nóvember að selja síld.

Síldin kemur í 800 ml. dósum og kostar 700 kr.

UMF Neisti

23.11.2010

Foreldrar athugið

Hefðbundinn leikjatími í Íþróttamiðstöðinni milli kl. 11:00 – 12:00 á laugardaginn 27. nóvember fellur niður vegna sérstakrar íþróttahátíðar leikskólabarna á Bjarkatúni sem verður haldin sama dag í sal Íþróttamiðstöðvarinnar.

ÍÞMD

Kosning til stjórnlagaþings

Kosningar til stjórnlagaþings, samkvæmt lögum nr. 90/2010 með síðari breytingum, munu fara fram í Grunnskóla Djúpavogs þann 27. nóvember 2010. Kosning hefst kl. 12:00 og lýkur kl. 20:00.

Kjörskrá liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins.

Kosningar þessar til stjórnlagaþings eru með öðru sniði en venjubundnar kosningar er kjósendur þekkja og kosningin sjálf mun taka kjósendur lengri tíma en vant er. Til þess að tryggja það að kosningarnar gangi sem greiðast fyrir sig, eru kjósendur hvattir til þess að undirbúa sig fyrir kosningarnar með því að hafa með sér á kjörstað útfylltan "hjálparkjörseðil", sem öllum kjósendum hefur verið sendur, eða hafa með sér á kjörstað eigin hjálparseðil, sem kjósendur hafa getað fyllt út sjálfir og prentað út af vefnum www.kosning.is, og færa af hjálparseðlinum númer þeirra fulltrúa sem þeir kjósa, inn á sjálfan kjörseðilinn.

Kjósendur eru minntir á að hafa með sér persónuskilríki á kjörstað.


Kjörstjórn

23.11.2010

Bóndavarðan desemberblað 2010

Desemberblað Bóndavörðunnar kemur út fimmtudaginn 2. desember nk.

Skilafrestur á greinum eða auglýsingum í blaðið er fimmtudagurinn 25. nóvember nk.

Þeir sem hafa áhuga á að skila inn efni eða kaupa auglýsingu er bent á að hafa samband á netfangið bondavardan@djupivogur.is eða í síma 478 8228.

Verðskrá auglýsinga er sem hér segir:

Heil síða 10.000.-
Hálf síða 5.000.-
1/4 síða 2.500.-

Blaðinu er dreift til allra íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu en auk þess býðst áhugasömum utan sveitarfélagsins að gerast áskrifendur að blaðinu en áskriftin kostar kr. 3000.- Hægt er að kaupa áskrift með því að senda póst á netfangið bondavardan@djupivogur.is

BR

23.11.2010

Félag eldri borgara auglýsir

Félag eldri borgara auglýsir spilavist

Nú höldum við félagsvist í Löngubúðinni. Við ætlum að spila eftirtalin kvöld: 


Miðvikudagur 24.nóv. kl. 20:30 - athugið breytt dagsetning !
Föstudagur 3. des kl. 20:30

 

Vekjum athygli á félagsstarfi eldri borgara á Helgafelli

Við hittumst í Helgafelli á fimmtudögum frá kl. 14:00-17:00.

Ef einhver yngri en 60 ára vilja kíkja í heimsókn á Helgafell, þá er það velkomið.

Kaffi kr. 300

Félag eldri borgara

22.11.2010

Basar kvenfélagsins

Kvenfélagið Vaka verður með basar í Löngubúð, laugardaginn 27. nóvember frá kl. 14:00 - 17:00

ÓB

22.11.2010

Opinn fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi

Opinn fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi verður haldinn í Löngubúð þriðjudaginn 23. nóvember nk. kl.20:00

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:


1.    Spurningakönnun meðal ferðamanna á Djúpavogi sumarið 2010  (Bryndís Reynisdóttir ferðamálafulltrúi).
2.    Hvernig gekk árið 2010 í ferðaþjónustunni ? (stutt skýrsla frá ferðaþjónustuaðilum á svæðinu).
3.    Tækifæri í ferðaþjónustu  ( meiri afþreying, minjagripir og  fl. og fl – Bryndís Reynisdóttir).
4.    Umræður

Allir eru velkomnir og eru Djúpavogsbúar hvattir til þess að mæta

Ferða – og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

22.11.2010

Fólkið í plássinu - Bók eftir Má Karlsson

Nú í vikunni kemur út bókin "Fólkið í plássinu" eftir Má Karlsson.

Hér er um að ræða fyrstu bók höfundar, en sögur og þættir eftir hann hafa birst í blöðum og tímaritum. Í þessari bók blandar Már saman, með einkar áhugaverðum hætti, sagnfræði, almennum fróðleik og hnyttnum svipmyndum af atburðum sem hann upplifði í gegnum tíðina. Skiptast þar á skin og skúrir, gamansögur og dýpsta alvara, svo úr verður samofin heildarmynd af lífi fólks í litlu sjávarplássi, gleði þess og sorgum.

Meðal fjölbreyttra frásagna er hér að finna umfjöllun um vöruávísanir Kaupfélags Berufjarðar, sem settar voru í umferð á erfiðum tímum, stundum nefndar Djúpavogspeningarnir. Var hér um að ræða einstaka tilraun lítils samfélags til að halda úti eigin gjaldmiðli um skamma hríð.

Már segir sögur af hrakningum á sjó og landi; meðal annars giftusamlegri björgun skipverja á vélbátnum Björgu sem vakti þjóðarathygli.

Í bókinni er margvíslegur fróðleikur um Papey, til dæmis ítarleg frásögn af því fólki sem lengst bjó í eynni á fyrri hluta 20. aldar.

Söluaðilar verða m.a. eftirtaldir:

Office 1 Egilsstöðum og Reykjavík
Nettó Höfn
Már Karlsson, 478-8838, 866-1353
Kjartan Másson, 898-1944

 

ÓB

 

 

22.11.2010

Djúpavogsþrautin þyngri

Djúpavogsþrautin þyngri stóð yfir á Dögum myrkurs 2010. Þrautin gekk út á það að svara einni spurningu sem var lögð fyrir á hverjum stað en á blaðinu var einnig vísa sem átti að leiða þátttakendur yfir á næsta stað. Spurningarnar voru á mismunandi stöðum í þorpinu, allt eftir því hvar viðburðir voru haldinn í tengslum við Daga myrkurs.

Fyrsta gátan var afhent á árshátíð grunnskólans á Hótel Framtíð föstudaginn 5. nóvember og sú síðasta afhent í Hagleikssmiðjunni Arfleifð laugardaginn 13. nóvember. Á sunnudeginum 14. nóvember var Djúpavogsþrautin þyngri leyst í Löngubúðinni þar sem þátttakendur fengu afhent sérstakt svarblað og dregið var úr réttum svörum.

Hér fyrir neðan má sjá spurningarnar sem voru lagðar voru fyrir þátttakendur og vísuna frá hverjum stað. Einnig hafa svörin verð sett inn til gamans.

1. Árshátíð Grunnskóla Djúpavogs

Gáta: Nefnið þá tvo menn er sagðir eru hafa numið land í Berufirði?
Svar: Þjóðrekur og Björn Hávi

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Ef vantar fóður, fisk og kjamma
skaltu strax þangað þramma
Þar er mjólk, matur og vín
Garnið grátt og fötin fín


2. Samkaup Strax Djúpavogi

Gáta: Við bæinn Skála í Berufirði er nefndur draugur einn, hvert er nafn hans?
Svar: Skála – Brandur
    
Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Sandormarnir næra leppalúða,
er langar þitt í kakó, sykurpúða.
Hreinan þrömmum við brátt saman sandinn
seint mun fara allt í bál og brandinn.


3. Myrkrafjöruferð


Gáta: Hvað hétu bræðurnir þrír er námu samnefndar eyjar úti fyrir Hamarsfirði?
Svar: Úlfur, Eskill og Hrómundur

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....
    
Eldabuskur þar við puða potta
við pöntun taka, grilla og saman hræra.
Kynjaverur út um góma glotta
og gott af hefðu billjardinn að læra.


4. Við Voginn

Gáta: Hvað hét maður Beru?
Svar: Sóti
    
Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Þar lestu bækur, skoðar margar myndir,
magnaða um drauga og þeirra syndir.
og þegar yfir rennur rökkrið dimma
sig ræskir frú og les úr vofukrimma.


5. Bókasafn Djúpavogs

Gáta:  Tröllskessur tvær eru taldar hafa átt heima í Álftafirði. Nefnið aðra af þeim?
Svar: Fluga og Rannveig

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Þar er hátíð bæði svalls og sviða
svo ef ferðu, þarftu að kaupa miða.
Þarna gengur Siggi Már um sali
og súrsar tunnu í litla og stóra hvali.

6. Hótel Framtíð

Gáta: Hverjir eru sagðir dysjaðir í Hamarsfirði?
Svar: Djákninn á Hamri og Presturinn á Hálsi
    
Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Viltu klæðast brussa sem og bykkja
best er gríma ljót og jafnvel skykkja.
Svo er  Sambúð kjörið í að kjaga
í kjól, með hatt og allt of stóran maga.


7. Sambúð – grímugerð

Gáta: Hvar er skútinn sem Álfheiður faldi sig þegar Tyrkirnir rændu og rupluðu á Djúpavogi?
Svar: Í Hálsaskógi

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Farðu í göngu og enn í afturgöngu
með afturgöngu veifar tré þú röngu.
Ef að kjarkinn flestir fara að missa
Faðirvorið gerir vofur hissa.

8. Hálsaskógur - Faðirvorahlaup

Gáta: Hversu oft fór Stefán Jónsson með faðirvorið á leið sinni frá Teigarhorni út á Djúpavog?
Svar: Þrisvar

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Í kjallaranum heyrast kynleg öskur
kona vinnur skraut þar, föt og töskur.
Köngulærnar kjaga um á skjánun
svo krakkarnir þau læðast bara á tánum.


9. Hagleikssmiðjan Arfleifð

Gáta: Sagan segir okkur frá landnámsmönnum tveimur er námu land á Geithellum í Álftafirði. Nefnið annan af þeim ?
Svar:Ingólfur og Hjörleifur

Láttu vísuna leiða þig að næstu gátu....

Langi þig að hitta löngu dauða ?
labbaðu þá út í húsið rauða.
Herramaður hæðinni á sveimar
sem hefur gleymt að binda á skónum reimar.

10. Djúpavogsþrautin þyngri leyst í Löngubúðinni

Tveir þátttakendur voru dregnir út og hlutu að launum vegleg verðalun.

Alls skiluðu 16 lið inn svörum í pottinn og var fjöldi þátttakenda úr þessum 16 liðum alls 47 manns, sem er hin glæsilegasta þátttaka.

Tveir heppnir þáttakendur voru dregnir út; Bjarni Tristan Vilbergsson og fjölskyda hlutu í verðlaun pizzuveislu á Hótel Framtíð og Íris Antonía og Drífa Ragnarsdóttur hlutu að verðlaun fjölskylduhamborgaratilboð í Við Voginn. Svo skemmtilega vildi til að Íris var valin af handahófi til þess að draga úr pottinum og dró hún sig og ömmu sína út.

Undirrituð vill þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og fagnar því hversu margir tóku þátt.

Hótel Framtíð og Við Voginn fá einnig bestu þakkir fyrir að gefa vinninga í leikinn.

Ferða  - og menningarmálafulltrúi

22.11.2010

Vegurinn um Öxi orðinn fær

Hér með tilkynnist að vegurinn um Öxi er orðin fær öllum gerðum bíla.

                                                                                                  AS

 

 

 

20.11.2010

Kirkjuskóli í Djúpavogskirkju sunnudaginn 21. nóv. kl.11:00

Kirkjuskóli í Djúpavogskirkju sunnudaginn 21. nóv. kl. 11.00. 

Djúpavogskirkja

19.11.2010

Einsöngstónleikar í Djúpavogskirkju

Fimmtudaginn 25. nóvember mun József Béla Kiss halda einsöngstónleika í Djúpavogskirkju. Sjá auglýsingu hér fyrir neðan.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

19.11.2010

Gestavika

Svokölluð gestavika verður í grunnskólanum í næstu viku 22. - 26. nóvember. Þessa daga geta ættingjar nemenda komið í skólann og fylgst með hefðbundnu skólastarfi. Nemendur og starfsfólk vona að sem flestir sjái sér fært um að koma í heimsókn. BE

Kjörskrá vegna kosninga til stjórnlagaþings

Vakin er athygli á að frá og með 17. nóvember liggur kjörskrá vegna kosninga til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 frammi í Geysi.

Sveitarstjóri

17.11.2010