Djúpivogur
A A

Aðalvefur

Myndir frá febrúarferðum Ferðafélagsins

Hér má sjá myndir frá ferðum Ferðafélags Djúpavogs í febrúar. Byrjað var við Nesbjörgin og gengið frá Hofsá suður í Stapavík, rétt austan við Þvottárskriður. Myndirnar eru hins vegar ekki sundurliðaðar fyrir hverja ferð, heldur koma þær bara í röð.

Þær má sjá með því að smella hér.

Ferðaplan Ferðafélagsins fyrir árið 2010 er komið á vefinn. Hægt að skoða það með því að smella hér.

ÓB

13.03.2010

Dregið í spurningakeppni Neista

Á lokahófi UMF Neista sem fram fór í gær, fimmtudag, var dregið í spurningakeppni Neista 2009.

Viðureignirnar verða því sem hér segir:

1. kvöld - fimmtudaginn 18. mars:

Við Voginn - HB Grandi
Kvenfélagið Vaka - Hótel Framtíð

2. kvöld - þriðjudaginn 23. mars:

Eyfreyjunes - Leikskólinn
Grunnsk. nemendur - Áhaldahús

3. kvöld - fimmtudaginn 25. mars:

Grunnsk. kennarar - Vísir hf.
Djúpavogshr. skrifstofa dróst stök. Því er hér með auglýst eftir 12. liðinu sem myndi þá mæta skrifstofunni.

Viðureignirnar fara allar fram í Löngubúð kl. 20:00. 500 krónur inn. Frítt fyrir ófermda.

Á meðfylgjandi mynd er sigurlið spurningakeppni Neista 2009, HB Grandi.

ÓB

12.03.2010

Lokahóf Neista 2009

Lokahóf Neista fyrir árið 2009 var haldið í Íþróttamiðstöð Djúpavogs í gær að viðstöddu fjölmenni. Verðlaun voru veitt því íþróttafólki fyrir sem þótti skara fram úr, tekin var hópmynd af Neistakrökkum sem fengu svo að fara í leiki sem Gauti stjórnaði af sinni alkunnu snilld. Þá var tekið til við að borða dýrindis skúffukökur og í lokin var dregið í spurningakeppni Neista sem byrjar nú í mars. Nánar má sjá um það hér.

Þeir sem unnu til verðlauna voru eftirtaldir:

Bjarni Tristan Vilbergsson - Sundneistinn 2009

Ásmundur Ólafsson - Mestu framfarir í sundi

Jens Albertsson - Fótboltaneistinn 2009

Friðrik Snær Jóhannsson - Mestu framfarir í fótbolta

Sunddeild Neista - Var í raun kjörin íþróttamaður í ársins. Það var semsagt ákveðið velja ekki íþróttamann ársins sem slíkan heldur fékk sunddeildin í heild bikarinn eftirsótt fyrir frábæran árangur á árinu 2009. Krakkarnir í sunddeildinni unnu stigabikar sundmóts UÍA, urðu Austurlandsmeistar og bikarmeistarar UÍA. Sunddeildin er því sannarlega vel að viðurkenningunni komin.

Myndir frá gærdeginum má sjá með því að smella hér.

Texti: ÓB
Myndir: AS

12.03.2010

Dásamlegur dagur

Eins og aðrir íbúar hér á Austurlandi hafa Djúpavogsbúar baðað sig í góða veðrinu undanfarna daga.  Dagurinn í dag er engin undantekning og hefur veðrið verið alveg dásamlegt.  Í grunnskólanum hefur margt verið brallað í dag.  Nemendur 3.-5. bekkjar, fóru ásamt undirritaðri og Þórunnborgu í Hálsaskóg í morgun.  Nemendur hafa verið að læra um tré undanfarið í náttúrufræðinni, muninn á barrtrjám og lauftrjám, þeir hafa lært hvað brum er, árhringir, lært um lyng o.m.fl.  Það var því tilvalið að fara í skóginn og kanna hversu vel kennslustundirnar sitja í börnunum.  Þau kunnu allt upp á 10, eins og við var að búast.  Við fundum rauðgreni, blágreni, sitkagreni, aspir, furu, lerki, reynitré, lyng o.m.fl.  Auk þess sáum við mikið af fýl, auk þess sem tvær rjúpur heiðruðu okkur með nærveru sinni.  Ekki sáum við ugluna, sem verið hefur í skógræktinni, en heyrðum líklegast í auðnutittlingum.

Nemendur 1. og 2. bekkjar kláruðu verkefni sem þeir hafa verið að vinna að í kristinfræði með Þórunnborgu og Ingu (sem verið hefur hér í vettvangsnámi sl. vikur). 

Eftir hádegið voru börnin í viðverunni út að kríta og krakkarnir sem eru að æfa fótbolta hjá Neista, drifu sig á stuttbuxurnar og höfðu æfinguna úti á sparkvellinum.

Myndir af þessum viðburðaríka degi má finna hér.  HDH

Lið ME í undanúrslitum Gettu betur á morgun

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum, skipað þeim Jóhanni Atla Hafliðasyni úr Beruneshreppi, Arnari Jóni Guðmundssyni úr Gethellnahreppi og Hrólfi Eyjólfssyni frá Egilsstöðum, etur kappi við lið Menntaskólans í Reykjavík í undanúrslitum Gettu betur á morgun.

Viðureignin verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu í sjónvarpinu kl. 20:10.

Við óskum ME góðs gengis.

ÓB

12.03.2010

Aðalfundur Bílaklúbbs Djúpavogs

Nú á að endurvekja Bílaklúbb Djúpavogs og verður aðalfundur haldinn á Hótel Framtíð, laugardaginn 13. mars kl. 17:00.

Rætt verður um framtíð klúbbsins, söfnun heimilda um bílasögu Djúpavogs, hugsanlega umsókn um motocrossbraut og skoðaðir möguleikar um að opna heimasíðu.

Allir áhugamenn um allar tegundir farartækja velkomnir.

Bílaklúbbur Djúpavogs

11.03.2010

Húsaskoðun 4

Enn voru Gestur og Þórunnborg á ferðinni í dag með nemendur 1.-5. bekkjar.  Til stóð að klára yfirferðina um eldri húsin á Djúpavogi í dag, en þau lentu í heimsókn til hans Vilmundar í Hvarfi og gleymdu sér í ævintýraveröldinni sem hann er að búa til þar.  Önnur hús sem þau heimsóttu voru:  Gamla sláturhúsið, gamla frystihúsið, gamla mjólkurstöðin, Rjóður, Steinsstaðir, Melar og Sólheimar.  Krakkarnir og kennararnir vilja þakka Vilmundi sérstaklega fyrir mjög góðar móttökur og allan fróðleikinn.  Myndir eru hér.  HDH

Upplestrarhátíð

Eins og undanfarin ár hafa nemendur 7. bekkjar æft sig fyrir Stóru-upplestrarkeppnina undanfarnar vikur.  Þar sem nemendur bekkjarins eru aðeins tveir, var ekki nauðsynlegt að hafa undankeppni í skólanum í ár, eins og við erum vön.  Þess í stað var ákveðið að hafa upplestraræfingu fyrir nemendurna í kirkjunni, til að hrista úr þeim mesta hrollinn.  Að venju var aðstandendum þeirra boðið til að fylgjast með, auk þess sem nemendur 6.-10. bekkjar komu líka.  Þeir Anton og Bjartur stóðu sig með mikilli prýði og fara þeir sem fulltrúar skólans til Hornafjarðar miðvikudaginn 17. mars en þá fer lokahátíðin fram.  Myndir eru hér.  HDH

Bekkjarkvöld

Bekkjarkvöld var haldið hjá nemendum 1. og 2. bekkjar fyrir viku.  Margt skemmtilegt var í boði.  Börnin voru með leiksýningu, danssýningu, spiluðu á blokkflautu og sungu.  Foreldrarnir voru með myndasýningu og spunaleikþátt um Rauðhettu og úlfinn.  Í lokin buðu foreldrarnir upp á kaffi og kökur.
Mjög góð mæting var á bekkjarkvöldið og var það mjög skemmtilegt.  Myndir eru hér.  HDH

Auglýsing frá Helgafelli - athugið

Við hittumst í Helgafelli á fimmtudögum frá kl. 14:00-17:00.

Ef einhver yngri en 60 ára vilja kíkja í heimsókn á Helgafell, þá er það velkomið.

Kaffi kr. 300

Félag eldri borgara
10.03.2010

Uppskeruhátíð Neista

Uppskeruhátíð Neista vegna ársins 2009 fer fram í íþróttahúsinu fimmtudaginn 11. mars klukkan 18:00.

Veitt verða verðlaun fyrir 2009, veitingar verða í boði Neista auk þess sem krakkarnir fá að leika sér í salnum. 

Hvetjum alla til að mæta í Neistagöllunum sínum

Við hvetjum fyrirtæki, félög og hópa til að skrá sig í spurningakeppni Neista en dregið verður í riðla á hátíðinni.  Þannig að nú fer hver að verða síðastur að skrá lið.

Allir velkomnir;

UMF Neisti

09.03.2010

Gestavika

Við viljum minna á að vikuna 15. - 19. mars verður seinni Gestavikan á þessu skólaári.  Þá viku eru forráðamenn, frænkur og frændur, afar og ömmur sérstaklega boðin velkomin í heimsókn.  Fólki er frjálst að mæta í þær kennslustundir sem það óskar eftir.  Ekki þarf að gera boð á undan sér.  HDh

Leiðrétting

Hér með leiðréttist auglýsing frá grunnskólanum sem birt var sl. föstudag.  Þar stendur að það vanti afleysingar í heimilisfræði og myndmennt, hið rétta er að það vantar afleysingar í heimilisfræði og handmennt, auk viðveru eftir hádegið.  Þetta leiðréttist hér með og er beðist velvirðingar á þessum mistökum.  HDH

Nýtt útlit

Eins og glöggir og dyggir lesendur heimasíðu Djúpavogshrepps hafa tekið eftir, hefur sveitarfélagið nú endurnýjað útlit hennar. Segja má að það sé í takt við tímann og auk þess endurnýjun á svo veigamiklum upplýsingamiðli, sem heimasíða okkar er, hluti af eðlilegri þróun. Bætt hefur verið við nýjum „flipum“, þ.e. höfuðsíðum, og þar með aukið og flýtt fyrir aðgengi að hinum ýmsu valmöguleikum sem við viljum bjóða uppá. Þær höfuðsíður eru fyrir höfnina og ferðamál, þar sem ferðaþjónusta hefur sífellt aukið vægi í umsvifum sveitarfélagsins og íbúa þess. Í hjáleið má bæta því við að gárungarnir í okkar hópi halda því fram að það að bæta við höfuðsíðum og leysa þar með aðgengismál séu nokkurs konar höfuðlausnir og gerir Egill Skallagímsson ekki athugasemdir við þá orðnotkun.

Á næstu vikum munum við þurfa að fínstilla ákveðna þætti umhverfis þess sem við ætlum að bjóða upp á og verða allar ábendingar um það sem betur mætti fara teknar til skoðunar.

Við viljum nota tækifærið og þakka jákvæð viðbrögð við mörgu af því sem okkur dettur í hug að bjóða lesendum upp á að skoða og stundum er sett fram á léttvægum nótum. Jafnframt lýsum við því yfir að við ætlum áfram að bjóða upp á metnaðarfulla og áhugaverða heimasíðu, en gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar að viðhalda því orðspori sem hún hefur nú þegar unnið sér.

 

Djúpavogi 5. mars 2010;

Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri
Ólafur Björnsson, ritstjóri heimasíðu Djúpavoghrepps
Bryndís Reynisdóttir, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

05.03.2010

Starfsmann vantar í afleysingar

Vegna væntanlegs veikindaleyfis vantar starfsmann í afleysingar í grunnskólann, í allt að 6 vikur.  Auglýsinguna má lesa alla með því að smella hér.   HDH

Konukvöld á Hótel Framtíð

Konukvöld verður haldið á Hótel Framtíð, laugardaginn 13. mars nk. kl. 20:30.

Léttar veitingar, tískusýning, söngur, glens og grín.

Takið kvöldið frá og eigum ljúfa stund saman.

Föt seld á staðnum.

Kvenfélagið Vaka

04.03.2010

ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA UM ICESAVE-LÖGIN

Ágætu íbúar í Djúpavogshreppi!

Athygli er vakin á því að kosið verður um Icesave-lögin í Grunnskólanum á Djúpavogi laugardaginn 6. mars 2010. Kjörfundur hefst kl. 10:00 og lýkur kl. 20:00.

Kjörstjórn

04.03.2010

Félagsmenn AFLs í atvinnuleit athugið

Í Sambúð er nú hægt að fá mánaðarkort í Íþróttamiðstöðina.

Skrifstofan er opin  á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl.15:00 – 17:00.

Minni einnig á hittinginn á þriðjudagsmorgnum kl. 10:00 -12:00.

 

BR

03.03.2010

Úthlutun Menningarráðs Austurlands 2010

Þann 25. febrúar úthlutaði Menningarráð Austurlands styrkjum til meira en 65 menningarverkefna samkvæmt samningi sveitarfélaga viðmennta- og menningarmálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Samtals var úthlutað alls 23 milljónum króna og námu hæstu styrkir 1 milljón króna en þeir lægstu 100 þúsund krónum. Alls bárust menningarráðinu 135 styrkumsóknir að þessu sinni.

Ráðherrar mennta- og menningarmála og iðnaðar endurnýjuðu samstarfssamning ríkis og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál þann 9. janúar 2008 og gildir hann til ársloka 2010. Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi ríkis og sveitarfélaga en fyrsta úthlutun fór fram árið 2002.Af umsóknum og úthlutunum í ár má ráða hve fjölbreytt og blómlegt lista- og menningarlíf er á Austurlandi, allt frá Vopnafirði og suður í Öræfi. Sérstaklega er sýnileg nýsköpun og gróska í starfsemi sem viðkemur vídeólist og kvikmyndun og hljóta mörg slík ný verkefni styrk í ár.

Sérstaka athygli vekur einnig hversu margir ungir listamenn á Austurlandi sækja um stuðning til verkefna sem þeir ætla að hrinda í framkvæmd. Mikilvægt er að fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sjái tækifæri í að efla samstarf við listamenn á Austurlandi nú á tímum atvinnuleysis og þrenginga á vinnumarkaði. Menning og listir auðga samfélagið. Auk þess hafa listamenn lengi verið helstu hugmyndasmiðir í nýsköpun hverskonar og komið að gerð nýrrar vöru og vöruflokka. Menningarráð Austurlands telur mikilvægt fyrir uppbyggingu í fjórðungnum að fá listamennina í aukið samstarf á sem flestum sviðum, ekki bara til að auðga menningarlífið heldur ekki síður til að efla nýsköpun.

76 verk voru valin í ár úr 642 innsendum verkum sem bárust frá 49 löndum.

Það er gaman að segja frá því að Djúpavogshreppur fékk úthlutað í tvö verkefni. Hammondhátíð 2010 fékk úthlutað kr. 400.000 og þá fékk listaverkið "Eggin í Gleðivík" úthlutað kr. 600.000 í merkingar og frágang við listaverkið. Að auki fékk verkefnið Söguslóð á Suðausturlandi úthlutað kr. 500.000 en það er klasaverkefni aðila í menningar- og ferðaþjónustu á Suðausturlandi í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð og Djúpavogshrepp.

Listi yfir styrkþegar má sjá í heild hér

Menningarráði Austurlands er hér með færðar bestu þakkir fyrir veittan stuðning.

Myndir frá úthlutuninni má sjá hér fyrir neðan

Styrkþegar við úthlutun Menningarráðs Austurlands

 

Hafliði H. Hafliðason stjórnarmaður í Menningarráði Austurlands

Tónlistaratriði frá ungri stúlku úr Fellabæ

BR

02.03.2010

Aðalfundur Neista

Aðalfundur Umf. Neista verður haldinn í Löngubúð kl: 20:00 í kvöld, þriðjudaginn 2. mars.

Á dagskránni eru venjuleg aðalfundarmál og önnur mál.

Allir velkomnir og heitt á könnunni.

Sjáumst vonandi sem flest;

Stjórn Neista

02.03.2010

Aðalfundur UMF Neista í kvöld

Aðalfundur Umf. Neistaverður haldinn í kvöld (þriðjudaginn 2.mars) kl. 20:00 í Löngubúð.


Á dagskránni eru venjuleg aðalfundarmál og önnur mál.

Allir velkomnir og heitt á könnunni.

Sjáumst vonandi sem flest.

Stjórn Neista.

02.03.2010

Smíði 8.-10. bekkur

Nemendur í smíði í 8.-10. bekk hafa verið að vinna þessa fallegu lampa í kennslustundum.  Þeir eru unnir úr gleri og læra nemendur þá aðferð auk þess að vinna í rafmagninu.  Myndir eru hér.  HDH

Húsaskoðun 3

Þann 24. febrúar sl. héldu nemendur 1.-5. bekkjar áfram yfirreið sinni um þorpið og skoðuðu eldri hús bæjarins.  Að vanda voru Þórunnborg og Gestur með í för.  Að þessu sinni skoðuðu þau:  Bjarg, Hammersminni, Sjólyst, Birkihlíð og Holt.  Myndir eru hér.  HDH

Bæjarlífið

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá nokkrum sem sig lætur málið varða, að langt er síðan síðasta bæjarlífssyrpa leit dagsins ljós. Mörgu er sjálfsagt um að kenna, en þó sérstaklega því að undirritaður hefur einfaldlega ekki verið nógu duglegur að munda vélina.

Hér er semsagt samsafn af myndum frá því í desember og til loka febrúarmánaðar og skal því lofað að með hækkandi sól verður myndavélin meira á lofti og ný bæjarlífssyrpa mun líta dagsins ljós um hver mánaðarmót.

Nýjustu syrpuna má sjá með því að smella hér.

ÓB

01.03.2010