Aðalvefur
Vetraropnunartími á bókasafninu
Bókasafnið auglýsir opnunartímann í vetur
Þriðjudagar frá kl.17:00-19:00
Fimmtudagar frá kl. 19:30-21:30
Bókasafnsvörður
Metsumar hjá Papeyjarferðum
Sumarið 2009 hefur verið fádæma gott ferðamannasumar hér á Djúpavogi. Sem dæmi má nefna að Papeyjarferðir eru búnar að bæta rækilega metið yfir fjölda farþega en rúmlega 1800 manns hafa lagt leið sína út í Papey í sumar.
Már Karlsson hjá Papeyjarferðum segist vera mjög ánægður með sumarið og nýja metið sem er bæting um rúm 15% frá fyrra meti. Það verði að teljast nokkuð gott í þessu árferði.
Undirritaður brá sér niður á bryggju í gær (föstudag) áður en ferjan lagði upp í ferð með 7 farþega. Tókst honum að ná áhöfninni á Gísla í Papey og "landformanninum" Má, saman á mynd.
Við á fréttasíðunni óskum Papeyjarferðum innilega til hamingju með góðan árangur.
Nánar verður fjallað um ferðamannasumarið hér á síðunni í september.
ÓB
Gunnar Guðmundsson leiðsögumaður, Jens Albertsson skipstjóri og Már Karlsson framkvæmdarstjóri Papeyjarferða við Papaeyjarferjuna, Gísla í Papey.
UMF Neisti auglýsir eftir fótboltaþjálfara
Um er að ræða fótboltaþjálfun barna frá 5-16 ára. Þjálfað er 3 daga í viku, mánu- miðviku- og föstudaga frá kl.13-14:20.
Umsóknafrestur er til 1.september.
Frekari upplýsingar gefa:
Sóley: 551-1032 / 849-3441
Klara: 478-8272 / 897-0509
Að aflokinni fyrstu vikunni
Þá er fyrsta vika þessa skólaárs liðin. Ekki var annað að sjá og heyra en að flestir nemendur og starfsfólk væru fegin því að komast aftur í reglu og ró, eftir annasamt og skemmtilegt sumar. Einhver forföll hafa verið bæði hjá nemendum og starfsfólki en það þýðir ekki að við hin höfum setið auðum höndum, nei aldeilis ekki. Í morgun fór skólastjóri af stað með myndavélina og kom að nemendum 1. og 2. bekkjar í handavinnu hjá Guðnýju. Vegna forfalla hafði hún fengið frægan trommuleikara til að aðstoða sig við að þræða nálarnar og var ekki annað að sjá en að hann stæði sig með sóma (enda giftur saumakonu og greinilega vanur að aðstoða hana við nálarnar). Krakkarnir í 3.-5. bekk fóru út að safna blómum og skoða muninn á barrtrjám og grenitrjám. Þau ætla að þurrka það sem þau fundu og koma með fleiri sýnishorn að heima í næsta tíma. Myndir af þessu duglega fólki má finna hér. Njótið helgarinnar. HDH
Gamla húsið á Skála rifið
Eins og flestir vita var gamla húsið á Skála rifið nú á dögunum. Húsið var byggt árið 1922 og var því orðið 87 ára gamalt. Fjallað var um þetta í kvöldfréttum RÚV sl. föstudag og rætt við Guðjón Smára eiganda Skála og Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt FAÍ sem m.a. hefur verið að vinna að nýju Aðalskipulagi fyrir Djúpavogshrepp.
Fréttina má skoða með því að smella hér.
ÓB
Menningarstefna Austurlands 2009-2014
Menningarráð Austurlands vann á síðasta vetri stefnu í menningarmálum fyrir Austurlands og var stefnan samþykkt á aðalfundi Menningarráðs 7. maí síðastliðinn og undirrituð af öllum sveitarfélögum innan SSA.
Stefnan er nú aðgengileg hér á heimasíðu Djúpavogshrepps og hana má nálgast með því að smella hér.
ÓB
Hver er höfundurinn?
Okkur á heimasíðunni hefur borist fyrirspurn frá Arndísi Þorvaldsdóttur hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Hún segir að þegar hún var ung hafi stundum birst í Tímanum fyrripartar og í framhaldi af því botnar. Einhverju sinni varð úr því þessi vísa:
Búlandstindur býsna fagur,
Berufjarðar prýðir sveit.
Það var mikill dýrðardagur
er drottinn honum valdi reit.
Hún segist stundum hafa farið með þessa vísu en enginn kannist við hana.
Því fannst okkur upplagt að setja vísu þessa hér inn á heimasíðuna og athuga hvort einhverjir geti frætt Arndísi og þar með okkur um höfunda vísunnar (þ.e. höfund fyrri partsins og höfund seinni partsins).
Allar ábendingar eru að sjálfsögðu vel þegnar og er hægt að senda þær með tölvupósti á netfangið djupivogur@djupivogur.is eða í síma 478-8288.
ÓB
Hinn nýi Djúpivogur
Hvernig myndi Djúpivogur líta út ef hann sneri öfugt? Væri jafnvel staðsettur á Vesturlandi. Undirritaður hefur mikið velt þessu fyrir sér og ákvað að nýta einfalda tækni til að komast að því.
Niðurstaðan er einföld, hann er frekar kjánalegur svona öfugur. En sitt sýnist hverjum og hér gefur að líta nokkur sýnishorn af hinum nýja Djúpavogi.
ÓB
Rætt við Sigurð Guðmundsson um Eggin í Gleðvík
Fimmtudaginn 13. ágúst, deginum fyrir vígsludag listaverksins Eggin í Gleðivík ræddi Ásgrímur Ingi Arngrímsson í svæðisútvaprinu á Austurlandi við Sigurð Guðmundsson höfund verksins, um söguna á bakvið ævintýrið.
Hægt er að hlusta með því að smella hér.
ÓB
Sigurður Guðmundsson við eitt eggjanna, steindepilseggið
Frétt um komu ms. Maasdam á RÚV
Fréttastofa RÚV fjallaði í kvöldfréttum sínum á mánudaginn um komu skemmtiferðaskipsins ms. Maasdam til Djúpavogs. M.a. var rætt við Bryndísi Reynisdóttur, ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogs.
Smellið hér til að skoða fréttina.
ÓB
Skemmtiferðaskipið ms. Maasdam á Djúpavogi
Það var tignarleg sjón sem blasti við íbúum Djúpavogs í gærmorgun þegar skemmtferðaskipið Maasdam sigldi inn fjörðinn og lagðist við festar hér í Berufirðinum. Þetta er í annað skiptið sem Maasdam kemur til Djúpavogs en síðast kom það í júlí 2007. Skipið er í eigu Holland America Line og siglir héðan til Reykjavíkur.
Farþegafjöldinn um borð í skipinu var rétt rúmlega 1200 manns og áhöfnin 450.
Stærðartölur skipsins eru þessar:
Lengd: 220 metrar
Breidd: 32 metrar
Djúprista: 7,65 metrar
Skipulagðar voru ferðir á Jökulsárlón, inn í Fossárdal og út í Papey og má reikna með að samanlagt hafi fjöldi þeirra gesta sem fóru í þessar ferðir verið í kringum 200 manns. Aðrir gestir röltu bara um bæinn og nutu þess sem fyrir augu bar.
Koma skipsins setur óneitanlega mikinn svip á bæjarlífið enda fjöldi farþegana margfalt fleiri en íbúar sveitarfélagsins. Allstaðar um þorpið mátti sjá gesti spóka sig um, njóta náttúrunnar eða nýta sér þá þjónustu og afþreyingu sem hér er í boði.
Á Bjargstúninu var handverksmarkaður í stóru tjaldi, en þar voru á boðstólnum vörur frá handverksfólki hér á Djúpavogi og svo einnig frá Hornarfirði, fjölmargir gestir skipsins lögðu leið sína á markaðinn.
Markaðssetning og móttaka á skemmtiferðaskipum er langtímaverkefni og er unnið markvisst að því að fjölga skipakomum til Djúpavogs. Dagur sem þessi skilur vissulega eftir sig dýrmæta reynslu í reynslubanka ferðamálafulltrúans og tækifæri til þess að gera enn betur við mótttöku á næsta skipi.
Ferða – og menningarmálafulltrúi Djúpavogs vill nota tækifærið og þakka öllum þeim er lögðu hönd á plóg við að taka á móti gestum Maasdam. Áberandi samstaða og samvinna var ríkjandi meðal ferðaþjónustuaðila, sem og íbúa á Djúpavogi sem skilaði sér í einstaklega vel heppnuðum degi. BR/AS
Listaverkið í Gleðivík
Verk Sigurðar Guðmundssonar listamanns var sem kunnugt er vígt með formlegum hætti við Gleðivík síðastliðinn föstudag. Að því tilefni er ekki úr vegi að birta hér nokkrar myndir frá undirbúningi, vígsludeginum svo og af listaverkinu sjálfu lesendum síðunnar til yndisauka.
Fyrir hönd sveitarfélagsins vill undirritaður nota tækifærið hér og þakka listamanninum sérstaklega skemmtilega og gefandi tíma meðan hann dvaldi í Himnaríkinu sínu hér á Djúpavogi. AS.
Eggin komu í þessum trékössum alla leið frá starfstöð listamannsins í Kína
Egill vandar sig við að koma fyrsta egginu á stöpulinn sinn
Bryndís Reynisdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi með Sigurði listamanni við fyrsta eggið (lundaeggið)
Það tóku margar röskar hendur þátt í uppsetningunni og gekk verkið vonum framar
Hér er stóra lómseggið á leiðinni á stallinn, starfsmenn áhaldahússins vanda til verka
Og svo var eggið stóra híft á síðasta stöpulinn
Sigurður Guðmundsson og kona hans Ineke stilla sér stolt upp við lómseggið
Á vígsludaginn, Andrés Skúlason oddviti og listamaðurinn Sigurður Guðmundsson afhjúpa verkið
Björn Hafþór Guðmundsson sveitarstjóri heiðrar hjónin á vígsludegi
Og færir þeim tvær myndir að gjöf
Listamaðurinn flytur ávarp í tilefni dagsins
Svo er spjallað um listina milli atriða
Björn Hafþór Guðmundsson sveitarstjóri og Hlíf Herbjörnsdóttir taka sig vel út við egg skógarþrastarins
Svo gengu menn með 200 m löngu listaverkinu og skoðuðu hvert egg fyrir sig
Ingimar Sveinsson og listamaðurinn á góðu spjalli
Svo var grillað á eftir
Meira grill
Andrés Skúlason oddviti ásamt listamanninum við egg óðinshanans
Ineke og Sigurður bregða á leik við egg steindepilsins
Listamaðurinn og steindepilseggið
Horft yfir höfnina og listaverkið ofan af lýsistanknum
Eggin ólík að lit og formi
Egg skógarþrastarins
Lómseggið í forgrunni
Eggin skarta sínu fegursta við Gleðivíkina
Strandafjöllin eru flott í bakgrunni eggjanna
Sigurður og Ineke alsæl að vígsludegi loknum úti á svölum í Himnaríki ( nafn á heimili listamansins)
Hér fyrir neðan má sjá kynningarbækling um eggin í Gleðivík, unninn af ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepps og sveitarstjóra Djúpavogshrepps.
Bréf frá Ólafi Áka Ragnarssyni bæjarstjóra
Með samþykki Ólafs Áka Ragnarssonar og þess aðila sem málið beindist að hefur verið ákveðið að taka bréfið út.
ÓB
Auglýsing frá Neista
Foreldrar og forráðamenn athugið !
Síðustu sund- og frjálsíþróttaæfingar sumarsins voru í dag (þriðjud. 18. ágúst ) og síðustu fótboltaæfingarnar verða á morgun 19. ágúst.
Sjáumst svo öll á Neista-daginn 20. ágúst kl.17:00
UMF Neisti
Neistadagurinn 2009
Neistadagurinn verður haldinn fimmtudaginn 20. ágúst.
Setningarhátíð verður kl. 17:00 og keppt verður í eftirfarandi greinum:
Frjálsum
Fótbolta
Kubb
Blaki
Skráning á staðnum.
Kaffi og pylsur í boði Neista
Hittumst hress,
Stjórn UMF Neista
Neisti-Einherji á Neistavelli í dag
5. flokkur Neista spilar við Einherja Vopnafirði á Neistavelli kl:12:30 í dag.
Fjölmennum á völlinn og styðjum strákana í síðasta leik sumarsins.
UMF.Neisti
Leikjanámskeið Neista
Leikjanámskeið Neista verður í þessari viku, mánudag - föstudag milli 11:00 og 12:00.
Ester sækir börnin í leikskólann.
UMF Neisti.
Eggin í Gleðivík - að lokinni vígslu.
Listaverkið „Eggin í Gleðivík“ eftir Sigurð Guðmundsson var vígt í dag. Nánar verður gerð grein fyrir athöfninni hér á heimasíðunni m.a. með birtingu mynda, sem teknar voru við athöfnina.
Undirrituð vilja hér með þakka fjölmörgum íbúum byggðarlagssins og öðrum gestum fyrir mikla þátttöku í athöfninni. Einnig eru þakkaðar góðar óskir og kveðjur sem fluttar voru.
Eftirtöldum eru færðar sérstakar þakkir:
SG Vélar - Kristján Karlsson – Austverk - Emil Karlsson - Vísir HF –Flytjandi -Kristján Guðmundsson - Sérleyfisferðir Hauks Elísson –Samkaup Djúpavogi - Hreinn Guðmundsson – Við Voginn – Hornabrauð – Vífilfell og Björgunarsveitin Bára. Enn fremur fá þakkir ýmsir starfsmenn Djúpavogshrepps, sem unnu að uppsetningu og öðrum atriðum er tengjast listaverkinu.
Hæsti einstaki styrkur til þessa er frá Nordic Factory ehf, sem gaf tvær milljónir til verksins og eru fyrirtækinu hér með færðar alúðarþakkir fyrir. Enn fremur hafa borist staðfestingar á fjárframlögum frá Unnþóri Snæbjörnssyni, Birni Hafþór Guðmundssyni og Hlíf Herbjörnsdóttur.
Að lokum viljum við færa listamanninum, Sigurði Guðmundssyni, alúðarþakkir fyrir einstaklega gott samstarf og frábært höfundarverk, sem auka mun enn frekar á hróður hans og verða lyftistöng fyrir Djúpavog um ókomna framtíð.
Andrés Skúlason oddviti,
Bryndís Reynisdóttir ferða – og menningarmálafulltrúi.
Frá Löngubúð
Þó tekið sé að rökkva á kvöldin og haustið ekki svo langt undan, erum við í Löngubúð ennþá í sumarskapi.
Laugardagskvöldið 15.ágúst ætla þeir Kristján Ingimars og Jón Einar að mæta með gítarana sína og spila og syngja fyrir okkur fram eftir kvöldi. Við vonumst að sjálfösgðu til þess að sem flestir nýti sér tækifærið til að sýna sig og sjá aðra áður en sumarið er allt.
Húsið opnar kl. 21:00, aðgangseyrir krónur 500 og tilboð á barnum.
Sjáumst í Löngubúðinni !
Halla Eyþórsdóttir opnar sýningu á Egilsstöðum
Halla Eyþórsdóttir frá Fossárdal í Djúpavogshreppi opnar um helgina ljósmyndasýningu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, nánar tiltekið í "Frystiklefanum". Halla hefur undanfarin ár búið í Amsterdam í Hollandi. Sýning Höllu er litrík fjölbreytt og algjört augnayndi.
Nánari upplýsingar um tímasetningu er hægt að sjá með því að skoða auglýsingu hér fyrir neðan.
Hægt er að skoða myndir eftir Höllu á Flickr-síðu hennar með því að smella hér.
ÓB
Skemmtiferðaskipið Ms Maasdam á Djúpavogi
Þann 18.ágúst næstkomandi er von á skemmtiferðaskipinu Ms.Maasdam til Djúpavogs. Skipið er hið allra glæsilegasta og gríðarlega stórt en farþegafjöldinn er rúmlega 1000 manns. Skipið hefur áður komið til Djúpavogs, sumarið 2007.
Ákveðið hefur verið að hafa opinn markað þennan dag með ýmiss konar vörur til sölu t.d. minjagripi og íslenskt handverk en einnig svæðisbundnar matvörur s.s. hákarl, sultu og fleira þess háttar.
Því vil ég biðja alla þá, sem áhuga hafa á því að selja vörur sínar, að tilkynna þátttöku á netfangið bryndis@djupivogur.is eða í síma 478-8228 sem fyrst, í síðasta lagi fyrir kl.16:00 sunnudaginn 16.ágúst.
Ferða-og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps
Eggin í Gleðivík - vígsluathöfn 14. ágúst 2009
„Eggin í Gleðivík“
Vígsludagur 14. ágúst 2009, kl. 15:00
Föstudaginn 14. ágúst 2009, kl. 15:00 verður vígt á Djúpavogi listaverkið „Eggin í Gleðivík“. Vígslustaður verður austan við húsnæði fyrrum fiskimjölsverksmiðju í Gleðivík, en þar er verkið staðsett.
Höfundur verksins er Sigurður Guðmundsson, einn af þekktustu myndlistar-mönnum okkar Íslendinga, en hann dvelur hluta úr ári hverju hér á Djúpavogi.
Öllum íbúum sveitarfélagsins er hér með boðið á vígsluathöfnina.
Dagskrá vígslunnar er eftirfarandi;
- Setningarávarp frá fulltrúa sveitarfélagsins.
- Samantekt ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepps. Þar verða m.a. rifjuð upp atriði er komu fram í kynningarbæklingi sveitarfélagsins um „Eggin í Gleðivík“ s.l. vor. Einnig verða veittar upplýsingar um þá sem styrkt hafa verkið í einni eða annarri mynd.
- Ávarp frá Signýju Ormarsdóttur, menningarfulltrúa Austurlands
- Ávarp listamannsins, Sigurður Guðmundssonar, sem jafnframt afhjúpar verkið.
- Að lokum verður grillveisla við „bræðsluvegginn“ ef veður leyfir.
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps
Hér fyrir neðan má sjá kynningarbækling um eggin í Gleðivík, unninn af ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepps og sveitarstjóra Djúpavogshrepps.
Fjarfundabúnaður
Vegna töluverðrar eftirspurnar í notkun á fjarfundabúnaði í skólanum eru þeir sem hafa áhuga á að nýta sér hann í vetur beðnir um að hafa samband við skólastjóra grunnskólans sem fyrst þannig að hægt verði að raða niður tímum í hann og skipuleggja vetrarstarfið. HDH
Liðlegur sveitarstjóri
Sveitarstjórinn og vefstjórinn sátu ekki auðum höndum í gær, heldur nýttu góðviðrið og sumarfríið til þess að mála þakið hjá þeim síðarnefnda, í fagurrauðum kommúnistalit. Það má velta því fyrir sér hvort nágranninn á móti hafi haft eitthvað um litarvalið að segja.
Eins og sjá má á myndunum er samvinnan góð og munda þeir penslana af mikilli fagmennsku.
Undirrituð átti leið fram hjá vinnufélögunum og stóðst ekki mátið að smella af nokkrum myndum. Líklegt þykir að þó nokkur eftirspurn myndist eftir slíku málarateymi um leið og myndirnar birtast hér á netinu, enda slíkir menn ekki á hverju strái.
BR
Hafþór og Óli á þakinu
Vinnufélagarnir vinna vel saman
Ásta Birna stendur sig í golfinu
Nú er töluvert um liðið frá því að fluttar voru síðast fréttir af besta golfara sem Austurland hefur átt í kvennaflokki þ.e. Ástu Birnu Magnúsdóttur frá Djúpavogi. Það sem er nýjast að frétta af Ástu Birnu er að hún varð í þriðja sæti í höggleik á Íslandsmótinu og svo kórónaði hún góðan árangur með því að verða Íslandsmeistari í sveitakeppni kvenna með Golfklúbbnum Keili nú fyrir skemmstu. Það er því deginum ljósara að Ásta Birna er þegar búin að festa sig í sessi sem einn af bestu golfurum landsins. Við óskum Ástu innilegar til hamingju með þennan frábæra árangur. AS
Ásta Birna Magnúsdóttir önnur frá vinstri