Djúpivogur
A A

Aðalvefur

Foreldrar nýrra barna í leikskóla

Verið er að ganga frá ráðningu og skipulagningu starfs fyrir næsta vetur og því er mjög mikilvægt að allar umsóknir nýrra barna berist í leikskólann sem fyrst. 

Hægt er að sækja um leikskólapláss á skrifstofu leikskólastjóra ennfremur er gott að láta vita ef vistunartími barna mun taka breytingum næsta vetur. 

Aðlögun nýrra barna mun fara fram frá 17. ágúst til 15 september

ÞS

Sjómannadagurinn 2009 í Löngubúð

Auglýsing frá Löngubúð fyrir Sjómannadaginn. Smellið á myndina fyrir neðan til að sjá hana stærri.

ÓB

 

 

 

 

 

 

04.06.2009

Sveitarstjórn - Fundargerð 2. júní 2009

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

03.06.2009

Útskriftarferð

Í leikskólanum eru 5 nemendur sem hætta nú í haust og fara í grunnskólann.  Eins og venja er þegar stórum áfanga í skólagöngu barns hefur verið náð er farið í útskriftarferðalag.  Útskrift hafði farið fram á laugardeginu 30. maí en þar með luku börnin sínu fyrsta skólastigi og þá var bara eftir að fara í útskriftarferðalagið sem farið var þann 2. júní.  Í ár var byrjað á því að fara inn að Teigarhorni og heimsækja hana Jónínu okkar sem er búin að vera að vinna á leikskólanum í vetur.  Hún sýndi okkur steinasafnið sitt og við fengum að sjá hesta og hænur.  Merkilegast fannst okkur þó að fá að hitta hana Hröfnu Hönnu Elísu idol stjörnuna okkar.  Við fengum að leika okkur í bát sem var líka rosalega skemmtilegt.  Eftir heimsóknina  var brunað inn í Geitadal og þar lékum við okkur í klettunum og grilluðum pylsur sem voru sko alveg hreint rosalega góðar.  Að endingu var svo farið út í Við voginn og fengum við ís í brauði enda veðurblíðan með eindæmum.  Þessi fyrsta útskriftarferð okkar var rosalega skemmtileg og stefnum við öll á að fara í margar útskriftarferðir um ævina.  Fleiri myndir hér.

 

Heimsóttum Teigarhorn

Hittum idolstjörnuna okkar sem var sko rosa gaman

Fórum inn í Geitadal

og fengum ís

 

AE, GLE, ÍAÓ, KRM, ÞA, og ÞS

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins -Spirit of Adventure

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom inn á Berufjörð í blíðskaparveðri mánudaginn 1.júní sl. Skipið heitir Spirit of Adventure, var byggt árið 1980 og er nú í eigu Saga cruises. Skipið tekur 352 farþega og var nánast fullmannað á leið sinni til Íslands. Djúpivogur var fyrsti viðkomustaður skipsins en þaðan hélt það áfram til Vestmannaeyja og mun svo stoppa á sex öðrum stöðum á Íslandi áður en það leggur aftur af stað til Greenock í Skotlandi, þaðan sem það kom.

Spirit of Adventure var komið inn í Berufjörð kl. sjö um morguninn og fyrstu farþegarnir ferjaðir með bátum úr skipinu upp að bryggju á Djúpavogi.  Á bryggjunni beið þeirra skoskur sekkjapípuleikari sem lék fyrir gesti og gangandi. Hægt er að fullyrða að Djúpavogsbúar hafa sjaldan, eða aldrei, vaknað við sekkjapípuleik áður og dagurinn byrjaði því svo
sannarlega öðruvísi en aðrir.

Tæplega 100 farþegar fóru strax um morguninn í Jökulsárlón, 40 manns upp á Vatnajökul og þá fóru 15 manns í sérstakajöklaferð. Papeyjarferðir sigldu út í Papey snemma morguns með fullan bát og var sá hópur sérstaklega ánægður með sína ferð, enda dásamlegt að sækja Papey heim í því veðri sem hér var á mánudaginn.

40 manns nýttu sér tækifærið og fóru í fuglaskoðun með heimamönnunum Alberti Jenssyni og Gauta Jóhannessyni en þeir stofnuðu í haust fyrirtækið Adventura.is og sérhæfa sig í hverskyns leiðsöguferðum og annarri afþreyingu tengdri útivist.

Djúpivogur iðaði af lífi í gær og um allt þorp mátti sjá gesti skipsins spóka sig um. Fjölmargir lögðu leið sína í Löngubúð til þess að fræðast betur um hinn merka Djúpavogsbúa, Ríkarð Jónsson, en aðrir nutu þeirra kræsinga sem Kvennasmiðjukonur bjóða upp og einnig mátti sjá gesti skipsins á Hótel Framtíð og Við Voginn. Nokkrir gestir af skipinu fengu sér sundsprett en þar á meðal voru hjón sem ætla sér að prófa allar sundlaugar á viðkomustöðum skipsins á Íslandi og væntum við þess að þar komum við vel út með okkar frábæru sundaðstöðu.

Koma þessa skips er hluti af samstarfsverkefni á milli Djúpavogshrepps og Hornafjarðar en eins og margoft hefur komið fram, miðar það verkefni að því að markaðssetja þetta svæði sem áfangastað fyrir skemmtiferðaskip.  Ljóst er að með þeirri miklu sérstöðu sem felst í nálægð okkar við Vatnajökul og Jökulsárlón felast gríðarleg tækifæri og því sjáum við vonandi skemmtiferðaskipum fjölga í framtíðinni.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: BR/BHG
Myndir: ÓB/BR/AS

02.06.2009