Djúpivogur
A A

Aðalvefur

Bæjarlífið júní 2009

Bæjarlífspakki júnímánaðar er uppfullur af fjöri.

Hann má sjá með því að smella hér.

ÓB

30.06.2009

17. júní 2009 - Fleiri myndir

17. júní var haldinn hátíðlegur hér á Djúpavogi 20. júní sl, eins einkennilega og það kann nú að hljóma. Vegna veðurs á 17. júní var ákveðið að fresta hátíðardagskrá til laugardagsins 20. júní.

Margt var um að vera. Dorgveiðikeppni var á bryggjunni um morguninn, en þar tóku fjölmargir krakkar þátt. Þá var grillað við félagsmiðstöðina og skógardagur leikskólans var haldinn í skógræktinni. Kl. 16:00 var síðan dagskrá á Neistavellinum þar sem farið var í ýmsa leiki og fleira skemmtilegt brallað.

Undirritaður var því miður ekki á staðnum á laugardaginn en fékk myndirnar fyrir neðan hjá Andrési Skúlasyni. Hann lumar eflaust á fleiri myndum sem verða settar hér inn síðar.

Bryndís Reynisdóttir var með myndavélina á auganu á 17. júní og tók nokkrar myndir inni í skógrækt og á fótboltavellinu. Sjá má þær myndir ásamt áður birtum myndum Andrésar með því að smella hér.

Texti: ÓB
Myndir: AS / BR

 

 

 

 


Þátttakendur í dorgveiðikeppninni


Reynir Arnórsson vigtar aflann


SVD Báran grillar ofan í mannskapinn, Magnús og Binni vígalegir


Ester blæs í blöðrur


Frá skógardegi leikskólans


Frá Neistavelli

 

 

 

29.06.2009

Hrekkjalómurinn næst á myndband

Hrekkjalómurinn sem fór mikinn í Borgarlandinu sl. sunnudagsnótt og var getið hér á heimasíðunni í sérstakri frétt á dögunum, hefur nú gerst svo framfærinn að senda inn myndband af gjörningnum.
Nú er unnið að greina persónuna á myndbandinu og hefur jafnhliða verið ákveðið að breyta þessari líflegu frétt í gátu.

Hver er maðurinn á myndbandinu? Svar óskast á djupivogur@djupivogur.is.

 

 

25.06.2009

Hreiður

Þegar börn og starfsfólk mætti til vinnu sinnar einn morgun í maí blasti við þeim hreiður alveg við innganginn ofan á útiljósinu.  Það hafði verið ein af þessum löngu helgarfríum  og þá hafði skógarþröstur gert sér lítið fyrir og komið upp hreiðri og verpt í það 4 eggjum.  Við héldum að nú myndi hann yfirgefa hreiðrið þegar allt í einu yrði umgangur og skellir í útihurðinni en svo var nú ekki og fylgdumst við með því þegar Þrösturinn kom upp 3 ungum.  Þegar við kíktum í hreiðrið sáum við að einn unginn hafði dáið í hreiðrinu sínu. Fleiri myndir hér.

 

ÞS

Slökkviliðið heimsótt

Í byrjun júní heimsóttu elstu nemendur leikskólans slökkviliðið en það er einn liður í samstarfsverkefni leikskólans og brunaliðs Austurlands.  Nemendurnir voru 3 talsins auk þess sem Íris Dögg fylgdi hópnum.  Í heimsókninni fengu krakkarnir að skoða búnað slökkviliðsins, prófa að sprauta úr slöngunni og fóru einn rúnt á slökkvilðisbílnum um þorpið.  Eftir þessa heimsókn útskrifuðust börnin sem aðstoðarmaður slökkviliðsins og fengu það staðfest með viðurkenningarskjali.  En myndirnar tala sínu máli svo endilega skoðið þær.   Myndir hér. 

 

ÞS

Frá bókasafninu

Nú er bókasafnið að fara í sumarfrí, en verður opið einn dag áður, fimmtudaginn 25. júní frá 19:30 - 21:30.

Opnað verður aftur eftir sumarfrí fimmtudaginn 20. ágúst og verður einnig opið fimmtudaginn 27. ágúst. Báða dagana er opið frá 19:30 til 21:30.

Þriðjudaginn 1. september verður bókasafnið síðan opið skv. hefðbundnum opnunartíma:

Þriðjudaga frá 17:00 - 19:00
Fimmtudaga frá 19:30 - 21:30

Gleðilegt sumar!

Bókasafnsvörður

23.06.2009

Hrekkjalómur á ferð í Borgarlandinu

Í morgun þegar íbúi nokkur í Borgarlandi ætlaði að setjast inn í bílinn sinn sá hann sér til mikillar undrunar að það var búið að pakka bílnum  inn í filmuumbúðir.  Eftir harðvítuga baráttu við plastið, með skærum og hnífabrögðum komst eigandinn inn í bílinn, þá orðin allt of seinn til vinnu.   
Nú spyrja íbúar í Borgarlandinu sig hvaða hrekkjalómur hefur verið á ferð síðastliðna nótt með plastfilmu þessa og sömuleiðis spyrja menn sig hvort hann muni láta til skarar skríða aftur í nótt.  

 

 

 

 

 

 

Hátíðardagskrá Umf. Neista og Slysavarnarfélagsins Báru, 20. júní

Umf.Neisti og Slysavarnarfélagið Bára standa fyrir síðbúinni skemmtun vegna 17. júní, laugardaginn 20. júní og er dagskráin eftirfarandi:


10:00 – 11:00      Dorgveiðikeppni fyrir 14 ára og yngri. Mæta með sín eigin veiðifæri niður á bryggju. 10 ára og yngri í fylgd með fullorðnum

11:00 – 12:00      Bátsferðir frá flotbryggjunni

12:00 – 13:00      Grillað verður við Neistahúsið (gamla leikskólann), Slysavarnarfélagið Bára selur pylsur og svala. Blöðrur seldar á staðnum.

16:00                  Dagskrá hefst á Neistavelli

  • Leikir
  • Pokahlaup
  • Fótbolti
  • Reiptog og fleira
  • Kassabílarall börn skrái sig á staðnum.

Nammi er selt niður á Neistavelli.

Hvetjum alla til að mæta og eiga góðan dag

Umf. Neisti og Slysavarnarfélagið Bára

19.06.2009

Frá Löngubúð

Laugardaginn 20.júní fögnum við 420 árum við voginn. Langabúð hefur spilað stórt hlutverk í sögu Djúpavogs í gegnum árin og að því tilefni ætlum við að gera okkur glaðan dag og vonumst til að sem flestir taki þátt í því með okkur.

   *Frítt á byggðasafnið á Löngubúðarloftinu allan daginn.
   *Vöfflur og kakó/kaffi á afmælistilboði
   *Ásamt því að myndbandsupptökur og svipmyndir frá 400 ára afmælishátíðinni 1989  verða sýndar á skjá.

Um kvöldið mætir svo Kristján Ingimars með gítarinn og spilar og syngur fyrir okkur fram eftir kvöldi.  Húsið opnar kl 21:00 og kostar 500 kr inn.

Djúpavogsbúar, til hamingju með daginn!

19.06.2009

Skógardagur Bjarkatúns

Skógardagur Bjarkatúns verður á laugardaginn, 20. júní kl. 14:00.  Málað verður á steina og þeim komið fyrir við göngustíginn síðan verður gengið um skógræktina og listaverk Bjarkatúnsbarna skoðuð.  Í Aðalheiðarlundi verður síðan hægt að borða nesti.  Hvetjum við alla til að koma og eiga góðan dag saman.

ÞS

Krakkagrill

Fimmtudaginn 11. júní sl. var haldið grill inni í bræðsluporti fyrir þau börn sem tóku þátt í hreinsunarviku á vegum hreppsins, en henni lauk föstudaginn 12.

ÓB

 

 

 

 

 

18.06.2009

17. júní skemmtun á Djúpavogi - FRESTAÐ

Áður auglýstri 17. júní dagskrá á Djúpavogi hefur verið frestað vegna veðurs.

Nánari tímasetning auglýst síðar.

UMF Neisti og SVD Báran.

17.06.2009

Líf á bryggjunni

Það var svo sannarlega líf á bryggjunni um miðjan dag á mánudaginn, þegar hver báturinn á fætur öðrum kom í land með fullfermi. Þegar mest lét biðu 6 bátar eftir löndun. Handagangur var í öskjunni, menn sungu sjómannalög og nokkrir stigu létt dansspor á meðan þeir biðu eftir að komast undir kranann.

Myndir má sjá með því að smella hér.

ÓB

17.06.2009

Ferðafélag Djúpavogs - Stapavík

Hér koma síðbúnar myndir frá ferð Ferðafélags Djúpavogs í Stapavík og Þangbrandsbryggju. Ferðin var farin 10. maí.

Myndirnar má sjá með því að smella hér.

ÓB

16.06.2009

PubQuiz í Löngubúð

Þriðjudagskvöldið 16. júní kl 21:00 er komið að síðasta Pub Quizinu áður en það heldur í sumarfrí. Sífellt fleiri hafa verið að kveikja á þessum létta og skemmtilega spurningaleik* og vonumst við að sjálfsögðu til að sjá fleiri.

Þemað að þessu sinni verður Ísland og allt sem íslenskt er, enda sjálfur þjóðhátíðardagurinn við það að renna upp og því tilvalið að eiga skemmtilega stund í góðra vina hópi.

Hversu mikið veist þú í raun og veru um “stórasta land í heimi”?
                                        
Langabúð



*Leikurinn fer þannig fram að liðin (hámarki 4 manns í hverju) skrifa svör  spurninga sem lesnar eru upp á blað og að því loknu er farið yfir svörin og stigin talin saman. Spurningarnar spanna alla flóruna hvort sem það er landafræði, líkindareikningur, leikskólasöngvar eða eitthvað allt, allt annað, flestar hverjar laufléttar, sumar lúmskar og  aðrar sem valda örlítið meiri hugarbrotum.

15.06.2009

Til þeirra sem eru búnir að panta Neistagalla

Ungmennafélagið Neisti bendir þeim sem pantað hafa Neistagalla að þeir verða afhentir í félagsmiðstöðinni Zion á morgun, þriðjudaginn 16. júní, á milli kl. 13:00 og 17:00.

UMF Neisti

15.06.2009

Innheimta á vegum Djúpavogshrepps

Upp á síðkastið hefur borið á því að fólk virðist eiga í auknum erfiðleikum með að greiða m.a. fasteignagjöld og/eða þjónustugjöld til sveitarfélagsins.

Nokkuð langt er síðan sveitarfélagið gerði samning við innheimtufyrirtækið Intrum að taka við innheimtu, þegar og ef hefðbundnar aðferðir duga ekki.

Út frá jafnræðissjónarmiðum verður að hafa einhvern slíkan hátt á og einnig að koma í veg fyrir að slík mál séu um of á borðum starfsmanna Djúpavogshrepps. Hins vegar hefur allan tímann verið til staðar valkostur að semja beint við Intrum um greiðsludreifingu (sem hefur þá umboð frá okkur að ganga frá samkomulagi). Rétt þykir að benda greiðendum nú á þennan möguleika og eru þeir, sem lent hafa / lenda kunna í tímabundnum erfiðleikum, hvattir til að setja sig í samband við greiðendaþjónustu Intrum í síma 440-7700 og leita samninga.

Það er ekki hagur Djúpavogshrepps að fólk lendi í auknum kostnaði v/ erfiðleika við að greiða gjöld til sveitarfélagsins og það hlýtur að vera hagur okkar allra að greiðslugetan lamist ekki sökum aukins innheimtukostnaðar. Jafnframt verður þó að hafa í huga að sveitarfélagið þarf að geta staðið við sínar skuldbindingar, án þess að lenda sjálft í umtalsverðum fjármagnskostnaði.

Djúpavogi í júní 2009;

Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri

12.06.2009

Föstudagsgátan - Svar og ný gáta

Það er svosem ekkert nýtt hjá okkur hér á heimasíðunni að það dragist að birta rétt svar við vísnagátum.

Föstudaginn 22. maí birtum við eftirfarandi vísnagátu eftir Hrönn Jónsdóttur í Sæbakka:

Með fimm þú hittir mey og fuglinn fleyga,
með fjórum annað konunafn og bein.
Með þremur er hún búin barn að eiga,
blítt með tveim þá raular stundum ein.

Sannarlega komu svör við þessari gátu og birtum við hér nöfn þeirra sem sendu inn, en allir höfðu rétt svar:

Stefán Bragason
Ingimar Sveinsson
Baldur Gunnlaugsson

Eins og kom fram voru lausnaroðin eru 4, eitt fyrir hverja línu og snérust um að menn kynnu að telja og ríma.

Lausnarorðin voru, í þessari röð:

Svala
Vala
ala
la

Semsagt, eins og sveitarstjórinn orðaði það: "Hrein snilld."

Við þökkum þeim sem tóku þátt og biðjum lesendur að skoða nýja vísnagátu hér fyrir neðan.

 



Fyrir nokkru kíkti Ingimar Sveinsson til undirritaðs og sveitarstjóra í kaffi. Eftir um hálfan bolla dró Ingimar upp blaðsnepil sem innihélt ansi skemmtilega vísnagátu sem hann var nýbúinn að setja saman. Þær vísnagátur sem hingað berast er sveitarstjórinn yfirleitt ansi fljótur að ráða en þessi vafðist fyrir honum, jafnvel svo mikið að heyrst hefur að hann hafi misst svefn hvað eftir annað og verið algerlega viðþolslaus þar til Ingimar ákvað að létta honum kvölina og segja honum svarið. Það er því ljóst að lausnin er strembin. Það skala taka fram að um kunnáttu undirritaðs við að leysa gátur þarf ekki að fjölyrða, þar sem hann er einstakur amlóði við það og ákvað þess vegna að reyna ekki einu sinni.

Þegar sveitarstjórinn fékk svarið í hendur ákvað hann að setja saman vísu um það, en við vonum að hún geti hjálpað lesendum við ráðninguna.

Vísa Ingimars er svona:

Ég ók frá Höfn og austur í Lönd,
er æði skrýtið vopn ég sá.
Það blasti við mér á hægri hönd,
en huldi að nokkru þoka grá.
IS

Ingimar spyr: Hvert var ég að fara og hvað sá ég?
Til að koma lesendum á sporið er rétt að upplýsa að Ingimar var að keyra frá Höfn í Hornafirði austur í Lönd í Stöðvarfirði og spyr um örnefni á hægri hönd.

Vísa sveitarstjórans um svarið er svona:

Eyjar nafnið mun einatt það,
eystra og vestra þess finnur stað.
Spakir nefna það spjót og sverð
spegilpússað af bestu gerð.
BHG

Svör sendist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 19. júní.

ÓB

12.06.2009

Sjálfsmatsskýrsla 2009

Sjálfsmatsskýrsla Grunnskóla Djúpavogs er nú tilbúin.  Í henni má finna upplýsingar um sjálfsmatsvinnu vetrarins og upplýsingar um úttekt sl. fimm ára á vegum menntamálaráðuneytisins.  Til að lesa skýrsluna þá farið þið inn á heimasíðu grunnskólans, veljið "Sjálfsmat" á stikunni til vinstri og síðan ártalið 2008 - 2009.  Þar má einnig finna fylgiskjölin sem eiga við skýrsluna t.d. þriggja ára áætlun og úrbótalista. 
Skýrslan verður send til sveitarstjórnar og skólanefndar til kynningar.  HDH

Sveitarstjórn - Fundargerð 11. júní 2009

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

11.06.2009

Sveitarstjórn - Fundarboð 10.06.09

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  11. 06. 2009

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 11. júní 2009 kl. 08:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni, stofnanir o. fl.:

a)    Ársreikningar Djúpavogshrepps 2008. Síðari umræða.
b)    Viðtöl við forstöðumenn helztu stofnana sem boðaðir hafa verið á fundinn.
c)    Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir 2009. Endurskoðun, fyrri umræða.
d)    Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2009 til endurskoðunar.
e)    Atvinnuátak vegna skógræktar.

2.    Fundargerðir / afgreiðslumál frá nefndum:

a)    LBN, 9. júní 2009.

3.    Málefni Helgafells.
4.    Skipulagsmál
.
5.    Hugmyndir um skútuhöfn í Djúpavogshreppi.
6.    Erindi og bréf:

a)    Austurfjarðatröllið 2009, styrkbeiðni.
b)    Samband íslenskra sveitarfélaga, 27. maí 2009.
c)    Samgönguráðuneytið, rafrænar kosningar, 28. maí 2009.
d)    Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Austurlandi, 4. júní 2009.

7.    Skýrsla sveitarstjóra

Djúpavogi 9. júní 2009;

Sveitarstjóri

10.06.2009

Skútuhöfn Norður-Atlantshafsins

Frétt af ruv.is

Formaður Ferðamálasamtaka Íslands vill að Djúpivogur verði skútuhöfn Norður-Atlantshafsins og þar verði útbúin sérstök aðstaða fyrir skútur í vetrarlegu. Hann vill að ríkisvaldið styðji við verkefnið.

Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, skrifaði grein í Morgunblaðið sem birtist undir fyrirsögninni "Skútuhöfn Norður-Atlantshafsins á Djúpavogi". Þar viðrar hann hugmyndir sínar um að útbúin verði sérstök aðstaða fyrir skútur á Djúpavogi, og þá ekki eingöngu yfir siglingatímann, heldur einnig fyrir skútur í svokallaðri vetrarlegu. Djúpivogur liggi landfræðilega vel við skútusiglingum og eftir ýmsu sé að slæðast því skútueigendur séu einn efnaðasti hópur ferðamanna sem til er.

Pétur segir að verði hugmyndin að veruleika, geti það skapað miklar tekjur fyrir sveitarfélagið. Skútur í vetrarlegu þurfi viðhald og örugga geymslu, auk margvíslegrar þjónustu.

Smellið hér til að hlusta á umfjöllun í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

09.06.2009

Söguslóð á Suðausturlandi - opnunarhátíð

Sýning Söguslóð á Suðausturlandi var opnuð síðastliðna helgi en opnunarhátíð var haldin í Löngubúð á laugardeginum og á Þórbergssetri á sunnudeginum. Eftir stutta athöfn í Löngubúðinni var siglt með Papeyjarferðum út í Papey en þar fengu gestir að fræðast betur um sögu þessa merku eyjar. Á sunnudeginum eftir athöfn á Þórbergssetri var farið inn að Papbýli, fyrir neðan Steinafjall, og skoðaðar rústir sem taldar eru frá tímum Papa á Íslandi.

Verkefnið Söguslóð á Suðausturlandi hefur verið unnið í samvinnu fjölmargra aðila á svæðinu frá Djúpavogi að Skaftafelli. Ferðafólki gefst nú kostur á að ferðast eftir merktri söguslóð allt frá Berufirði og út á Skeiðarársand. Einnig verða settar upp tvær nýjar sögusýningar í Löngubúð og Þórbergssetri sem fjalla um mannaferðir og fyrstu búsetu manna á svæðinu, papa , landnámið og tengingar íbúa Suðausturlands við höfðingjaættir á Norðurlöndum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Um er að ræða verkefni sem unnið hefur verið í samvinnu fjölmargra aðila á svæðinu frá Djúpavogi að Skaftafelli. Ferðafólki gefst nú kostur á að ferðast eftir merktri söguslóð allt frá Berufirði og út á Skeiðarársand. Einnig verða settar upp tvær nýjar sögusýningar í Löngubúð og Þórbergssetri sem fjalla um mannaferðir og fyrstu búsetu manna á svæðinu, papa, landnámið og tengingar íbúa Suðausturlands við höfðingjaættir á Norðurlöndum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Í allt sumar verður síðan hægt að koma við á öllum helstu söfnum og gestastofum á svæðinu og nálgast bækling um söguslóðina. Síðan er bara að leggja af stað, njóta fræðslu á hverjum stað, ýmist af fræðsluskiltum úti í náttúrunni eða með heimsóknum á söfn, sýningar og í gestastofur.

Við bjóðum alla velkomna á sýningu og vonum að sem flestir nýti sér þetta skemmtilega tækifæri til þess að fræðast betur um þá merku sögu sem við eigum hér á þessu svæði.

Myndir frá helginni má sjá með því að smella hér

BR

09.06.2009

DJÚPAVOGSHREPPUR / SKEMMTIFERÐASKIP

Forsvarsmenn Djúpavogshrepps færa hér með íbúum sveitarfélagsins og öðrum, er að málinu komu, þakkir fyrir góðar móttökur veittar gestum skemmtiferðaskipsins „Spirit of Adventure”1. júní s.l.

Von er á næsta skemmtiferðaskipi til Djúpavogs þann 16. ágúst n.k., en það er töluvert stærra en hið fyrra. Allar hugmyndir um, hvernig bæta megi móttöku gesta skipanna eða auka á afþreyingu hér í þorpinu á meðan á dvöl þeirra stendur, eru vel þegnar. Hægt er að hafa samband við F&M fulltrúa með því að senda tölvupóst á netfangið bryndis@djupivogur.is eða hringja í 478-8228.

Djúpavogi 8. júní 2009;  
Sveitarstjóri

08.06.2009

DJÚPAVOGSHREPPUR AUGLÝSIR / HREINSUNARÁTAK

Almenn hreinsunarvika á Djúpavogi hefst þriðjudaginn 9. júní 2009. Eru bæði íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja hér með hvattir til að hreinsa lóðir sínar og lendur nú næstu daga og um komandi helgi og koma afrakstrinum að vegkanti, þar sem hann verður sóttur af starfsmönnum sveitarfélagsins og fjarlægður.
Fyrsta ferð hreinsunartækis verður miðvikudaginn 10. júní og sú síðasta mánud. 15. júní. Tekið verður rusl við gangstéttir og lóðamörk miðvikudag, föstudag og mánudag í hreinsunarvikunni.

 

Djúpavogi 8. júní 2009;  
Sveitarstjóri

08.06.2009

Söguslóð á Suðausturlandi 6. og 7. júní

Samstarfshópur um sögutengda ferðaþjónustu býður til opnunarhátíðar Söguslóðar á Suðausturlandi helgina 6. og 7. júní.

Söguslóð á Suðausturlandi verður opnuð formlega helgina 6. og 7. júní næstkomandi. Um er að ræða verkefni sem unnið hefur verið í samvinnu fjölmargra aðila á svæðinu frá Djúpavogi að Skaftafelli.
Ferðafólki gefst nú kostur á að ferðast eftir merktri söguslóð allt frá Berufirði og út á Skeiðarársand. Einnig verða settar upp tvær nýjar sögusýningar í Löngubúð og Þórbergssetri sem fjalla um mannaferðir og fyrstu búsetu manna á svæðinu, papa , landnámið og tengingar íbúa Suðausturlands við höfðingjaættir á Norðurlöndum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Dagskrá verður á Djúpavogi 6. júní þar sem Marteinn H Sigurðsson norrænufræðingur fjallar um Papa og Papaörnefni í Vestur Evrópu og Þorvaldur Friðriksson fréttamaður um keltnesk áhrif á Íslandi. Siglt verður út í Papey og söguslóðir þar kannaðar. Daginn eftir 7. júní verður svipuð dagskrá fí Þórbergssetri og farið í ferðalag í Papbýli í Steinadal að skoða þar ævafornar fornleifar sem fundust fyrir nokkrum árum og sanna búsetu þar fyrir árið 1000.

Í allt sumar verður síðan hægt að koma við á öllum helstu söfnum og gestastofum á svæðinu og nálgast bækling um söguslóðina.. Síðan er bara að leggja af stað, njóta fræðslu á hverjum stað, ýmist af fræðsluskiltum úti í náttúrunni eða með heimsóknum á söfn, sýningar og í gestastofur .
Allir eru velkomnir á opnunarhátíð í Löngubúð og Þórbergssetri,  en panta þarf sérstaklega í ferðina í Papey kl 14:00 laugardaginn 6. júní.

Opnun söguslóðar í Löngubúð og formleg opnun verkefnisins Söguslóðar á Suðausturlandi

Laugardagur 6. júní

11:00 Opnun söguslóðar í Löngubúð
11:30 Ingimar Sveinsson ávarpar samkomuna
11:50 Papar fyrir vestan haf og sögulegur bakgrunnur þeirra: Marteinn H Sigurðsson
12:20 Léttar veitingar, súpa og brauð
12:50 Keltnesk orð og örnefni, Þorvaldur Friðriksson fréttamaður
13:20 Sýningar skoðaðar
14:00 Ferð til Papeyjar

Opnun söguslóðar í  Þórbergssetri og formleg opnun verkefnisins Söguslóðar á Suðausturlandi

Sunnudagur 7. júní
11:00 Opnun söguslóðar í Þórbergssetri
11:30 Papar fyrir vestan haf og sögulegur bakgrunnur þeirra: Marteinn H Sigurðsson
11:50 Rögnvaldur Eysteinsson jarl af Mæri og synir hans: Fjölnir Torfason
12:20 Léttar veitingar, kjötsúpa, kökur og kaffi
12:50 Keltnesk orð og örnefni, Þorvaldur Friðriksson
13:20 Sýningar skoðaðar
14:00 Ferð í Papbýli

VONUMST TIL AÐ SJÁ SEM FLESTA

ALLIR VELKOMNIR

05.06.2009

Til þeirra skólabarna sem ætla að taka þátt í hreinsunarátaki

Af óviðráðanlegum ástæðum hefur dregist að koma á framfæri við þau börn (í 4. bekk og upp úr) sem ætla að taka þátt í hreinsunarátaki, að það mun hefjast kl. 08:00 á mánudaginn 8. júní.

Vinnutími er frá 08:00 - 11:00. Börnin mæti við áhaldahúsið og æskilegt er að þau klæði sig eftir veðri.

F.h. sveitarstjóra,
Skúli Benediktsson

05.06.2009