Djúpavogshreppur
A A

1. og 2. bekkur gróðursetja tré

1. og 2. bekkur gróðursetja tré
Cittaslow

1. og 2. bekkur gróðursetja tré

Greta Mjöll Samúelsdóttir skrifaði 05.06.2019 - 11:06

Í morgun fóru nemendur í 1. og 2. bekk, ásamt skólastjóra, umsjónarkennara og tveimur öðrum starfsmönnum bak við skólann til að gróðursetja tré. Hópurinn lét veðrið ekki stoppa sig og var vel búinn til verka. Gróðursetningarverkefnið hefur verið árvisst í skólanum til margra ára, en trén eru fengin úr Yrkjusjóði sem er á vegum Skógræktarfélags Íslands. Oftast höfum við fengið birki, en þetta árið vorum við svo heppin að fá elri, sem er skylt birkinu, harðgert og einstaklega fallegt.

Skólastjóri ræddi við nemendur um mikilvægi trjáa og var fræðslan alveg í takt við það sem nemendur hafa verið að læra í náttúrufræði nú í vor hjá kennaranum sínum. Rætt var um hversu mikilvægt hlutverk okkar er sem einstaklinga að rækta jörðina okkar og hugsa vel um náttúruna.

Alls settum við niður 80 elriplöntur og eru þær nú komnar í sambýli við birki og greni hér bak við skólann. Mörg trjánna eru vaxin nemendum yfir höfuð og hafa minnstu nemendur skólans gaman af því að leika sér í frímínútum við og á milli trjánna. Okkar von, sem gróðursettum þessi tré í morgun, er sú að eftir 9 og 10 ár, þegar þau útskrifast úr grunnskólanum sínum, þá verði trén orðin stærri en þau.

Skólastjóri Djúpavogsskóla