Djúpivogur
A A

17. júní 2014 - góð stemming og þátttaka

17. júní 2014 - góð stemming og þátttaka

17. júní 2014 - góð stemming og þátttaka

skrifaði 17.06.2014 - 20:06

Þjóðhátíðardagurinn fór vel fram á Djúpavogi og var bærinn fallega skreyttur að venju og hverfin virk í þátttöku í þeim efnum. Þátttaka í sjálfum hátíðarhöldunum var sömuleiðis með allra besta móti og var margt til gamans gert að venju.

Safnast var saman við grunnskólann, þar var boðið upp á andlitsmálun og fleira. Þá var flott skrúðganga frá skólanum inn á íþróttavöll þar sem fjallkonan sem var Elísabet Ósk Einarsdóttir sem flutti ljóð með stakri prýði.

Á íþróttavellinum var farið í ýmsa leiki milli hverfa og tekist á í reipitogi og fleira. Þá var vísir að húsdýragarði þar líka sem að kryddaði mjög upplifun barnanna, en kálfur og kanínur voru meðal dýra sem komu frá þeim Hvannabrekkubændum og þá var tófuyrðlingur einnig þarna til sýnis í boði Didda og Lilju. Vatnsrennibraut var mjög vinsæl og tóku margir ungir sem eldri bunu niður Neistabrekkuna, á flughálum plastdúk sem komið hafði verið fyrir í brekkunni.

Þegar kom að afhendingu verðlauna hlutu einstök hús í hverfunum sérstök verðlaun, í gula hverfinu fengu þau Stebbi og Kristborg Ásta sérstök verðlaun, Stebbi og Nína fengu verðlaun fyrir sinar skreytingar fyrir appelsínugula hverfið og svo fékk Ingibjörg Stefánsdóttir verðlaun fyrir best skreytta húsið í bleika hverfinu.  

Í heildarstigakeppninni vann svo bleika hverfið sem best skreytta hverfið. Hátíðarhöldin fóru fram í blíðskaparveðri og frábært hve góð þátttaka var í öllu og greinilega góð samstaða með allt.  Að þessu sögðu er rétt að þakka stjórn Neista og öðrum þeim sem komu að því að gera þennan dag svo skemmtilegan kærlega fyrir skemmtilegt skipulag og dagskrá.

Myndir má sjá með því að smella hér.

 

AS