Djúpivogur
A A

Fréttir

Styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamanna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í gær grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til 33 verkefna um allt land árið 2020 sem nema samtals 501,5 milljónum króna. Hæstu styrkirnir að þessu sinni eru styrkir til byggingar útsýnispalls á Bolafjalli í Bolungarvíkurkaupstað, áframhald uppbyggingar við Stuðlagil beggja vegna árinnar og bætt fráveitumál í Hrafntinnuskeri.

Fyrir okkur í Djúpavogshreppi er gaman að segja frá því að rúmum 9 milljónum var úthlutað til Bragðavalla til að gera göngustíg að Snædalsfossi og Gömlubrú til að vernda viðkvæman mosagróður á svæðinu.

Þessu til viðbótar fékk Teigarhorn úthlutað úr landsáætlun 2020-2022 um uppbyggingu innviða til verndunar náttúru og menningarsögulegum minjum 60 milljónir til uppbyggingar þjónusstuhúss á vegum Umherfisstofnunar.

Auk þessa fær Umhverfisstofnun þrjár milljónir til að gera tröppur, göngustíga og merkingar við Blábjörg í Berufirði, sem eru ný á landsáætluninni.

10.03.2020

Valið stendur á milli sex nafna fyrir nýtt sveitarfélag

Íbúar nýs sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Djúpavogshrepps og Fljótsdalshéraðs geta valið á milli sex tillagna um nafn á nýtt sveitarfélag samhliða sveitarstjórnakosningunum þann 18. apríl.

Tugir tillagna bárust frá íbúum en nafnanefnd á vegum sveitarfélagsins valdi 17 úr og sendi til Örnefnanefnd til umsagnar. Álit nefndarinnar liggur nú fyrir.

10.03.2020

Nýtt sveitarfélag formlega stofnað

Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið hefur staðfest Samþykkt um stjórn sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar nr.190/2020 og hefur hún verið birt á vef Stjórnartíðinda. Þá hefur fyrirtækjaskrá Skattsins gefið út kennitölu sveitarfélagsins, sem er 660220-1350. Sveitarfélagið er því formlega orðið til, en tekur til starfa eftir sveitarstjórnarkosningar 18. apríl næstkomandi og fær í kjölfarið nafn.

Í samþykktum um stjórn og fundarsköp er fjallað um stjórn sveitarfélagsins, verkefni, stjórnskipulag og fleiri atriði sem áhugavert er fyrir íbúa að kynna sér. Samþykktin gildir í þrjá mánuði eftir sveitarstjórnarkosningar, en á þeim tíma skal sveitarstjórn ákveða hvort hún gildir óbreytt áfram eða gera breytingar.

10.03.2020

Djúpavogshreppur augýsir: Störf í Íþróttamiðstöð Djúpavogs

Djúpavogshreppur auglýsir laus til umsóknar eftirfarandi störf í Íþróttamiðstöð Djúpavogs.

Laust er til umsóknar starfs forstöðumanns Íþróttamiðstöðvar Djúpavogs

Um er að ræða fjölbreytt starf í íþróttamiðstöð þar sem er líf og fjör allan daginn. Forstöðumaður er ábyrgur fyrir daglegum rekstri íþróttamiðstöðvarinnar ásamt starfsmannahaldi. Hann hefur umsjón með viðhaldi mannvirkja, tækja og búnaðar, gerð fjárhagsáætlana og annast undirbúning að gerð verk- og framkvæmdaáætlana, ásamt tilheyrandi kostnaðaráætlunum í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun.

Forstöðumaður skipuleggur störf starfsmanna og sér um ráðningar, annast gerð vinnuskýrslna og skipuleggur vaktir að teknu tilliti til þarfa skóla, íþróttafélaga, annarra samtaka og almennings. Forstöðumaður skal hafa réttindi í björgun og skyndihjálp og taka sundpróf starfsmanna sundlauga.

Laust er til umsóknar fast stöðugildi við Íþróttamiðstöð Djúpavogs.

Starfið felst í meginatriðum í gæslu/eftirliti við sundlaug og í baðklefum, við afgreiðslu, þrif og eftir atvikum öðrum tilheyrandi verkum er falla til í ÍÞMD. Starfshlutfall er breytilegt milli sumars og veturs. Upplýsingar um starfshlutfall og kjör er hægt að fá hjá launafulltrúa. Óheimilt er að ráða starfsmenn yngri en 18 ára.

Gert er ráð fyrir að nýir starfsmenn hefji störf eigi síðar en 1. maí.

Umsóknarfrestur um bæði störfin er til 1. apríl.

09.03.2020

Hans klaufi í Íþróttamiðstöðinni

Þann 11. mars mun Leikhópurinn Lotta sýna Hans klaufa í Íþróttamiðstöð Djúpavogs.

Leiksýningin hefst kl. 17:30 og það er frítt inn fyrir alla í boði foreldrafélaga grunn- og leikskólans.

09.03.2020

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs verður haldinn í Löngubúð fimmtudaginn 12. mars nk. kl. 20:30.

Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar félagsins fyrir árið 2019 lagðir fram til samþykktar.
3. Árgjald félagsins fyrir 2020 ákveðið.
4. Kosning stjórnar
5. Önnur mál

Cittaslow

Hammondhátíð 2020 - miðasala hefst 6. mars

Hammondhátíð 2020 fer fram dagana 23.-26. apríl næstkomandi. Þetta er í fimmtánda skipti sem hátíðin er haldin. Dagskráin var kynnt í lok febrúar og hana má sjá hér að neðan.

Cittaslow

Grákráka á Djúpavogi

Laugardaginn 22. febrúar síðastliðinn sá ég grákráku (Corvus corone cornix) í garðinum mínum við Dali á Djúpavogi og smellti myndum af henni í gegnum eldhúsgluggann. Í framhaldinu fór ég að forvitnast um þennan áhugaverða fugl og komst að því hann er sjaldséður á Íslandi enda tilheyrir hann ekki íslensku fuglafánunni.

Grákráka er af hröfnungaætt og er því náinn ættingi hrafnsins. Hún er mun minni en hrafninn en annars mjög lík honum í vexti. Grákrákan er auðgreind á öskugráum kviði og baki en blásvörtum og gljáfandi fjöðrum á höfði, hálsi, vængjum og stéli. Nef og fætur krákunnar eru einnig svört. Kynin eru eins í útliti fyrir utan það að kvenfuglinn er aðeins minni en karlfuglinn. Krákur para sig fyrir lífstíð og sagt er að kvenkyns kráka sem missir maka sinn pari sig aldrei aftur. Grákrákur eru alætur eins og Krummi frændi þeirra.

Cittaslow

Orkuskipti á Austurlandi - málþing

Austurbrú og Hafið öndvegissetur standa fyrir málþingi um orkuskipti á Austurlandi. Málþingið er opið öllum og fer fram í Fróðleiksmolanum á

Reyðarfirði við Búðareyri 1, föstudaginn 6. mars kl. 10:00-14:00.

Djúpavogshreppur auglýsir eftir flokkstjórum sumarið 2020

Djúpavogshreppur auglýsir eftir 2-3 flokkstjórum sem einnig þurfa að geta tekið að sér slátt lóða og opinna svæða, hreinsun, snyrtingu, o.fl. Umsækjendjur þurfa að hafa bílpróf. Starfstímabil er júní-ágúst.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl.

Umsóknir má senda á sveitarstjori@djupivogur.is

Djúpavogshreppur auglýsir starf verkefnastjóra umhverfismála

Laust er til umsóknar starf verkefnastjóra umhverfismála í Djúpavogshreppi. Um er að ræða 100% starf frá maí - ágúst.

Starfið felst í meginatriðum í umsjón með grænum og opnum svæðum í samráði við forstöðumann Þjónustmiðstöðar Djúpavogshrepps. Umsóknarfrestur er til 1. apríl.

Umsóknir má senda á sveitarstjori@djupivogur.is