Fréttir
Lið ME mætir Kvennó í Gettu Betur í kvöld
Við minnum á að lið Menntaskólans á Egilsstöðum mætir Kvennó í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu Betur, í kvöld.
Eins og við höfum áður sagt frá hér á heimasíðunni þá er Kristófer Dan Stefánsson, Djúpavogsbúi, í liði ME og því hvetjum við Djúpavogsbúa til að kveikja á tækjunum í kvöld.
Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst hún kl. 20:05.
Við óskum Kristófer Dan og félögum alls hins besta í komandi keppni.
BR
Dagskrá Hammondhátíðar 2018
Þrettánda Hammondhátíð Djúpavogs fer fram dagana 19.-22. apríl næstkomandi.
Nú hafa forsvarsmenn hátíðarinnar tilkynnt dagskrána og segja hana fjölbreyttari og framsæknari en nokkru sinni fyrr.
Meðal atriða í ár eru Moses Hightower, Úlfur Úlfur, Mammút og Sólstafir. Þá kemur Salka Sól fram á lokatónleikunum í Djúpavogskirkju.
Það ættu að minnsta kosti allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Dagskrána í heild sinni má sjá hér að neðan.
Miðasala verður auglýst fljótlega.
Fylgist með á heimasíðu Hammondhátíðar og Facebooksíðu hátíðarinnar.
BR
Deildarstjóri við Tónskóla Djúpavogs / organisti við Djúpavogskirkju
Deildarstjóra vantar við Tónskóla Djúpavogs
Djúpavogsskóli er samrekinn grunn- og tónskóli og fyrir skólaárið 2018 – 2019 vantar okkur deildarstjóra í tónskólann í 100% starf. Hann heyrir undir skólastjóra en sinnir daglegri skipulagningu, foreldrasamstarfi og almennu utanumhaldi. Þá vantar einnig tónlistarkennara við grunnskólann til að sinna tónmenntakennslu og samsöng u.þ.b. 23% starfshlutfall.
Djúpavogskirkja auglýsir samhliða eftir organista við kirkjuna en starfshlutfallið þar er 27%
Um frábært tækifæri er að ræða t.d. fyrir tvo tónlistarkennara og eru möguleikar á 100% starfshlutfalli fyrir báða aðila, t.d. með því að kenna í grunnskólanum, eða bjóða uppá tónlistarnám fyrir einstaklinga, kóra eða hvað sem er.
Í Djúpavogsskóla er lögð mikil áhersla á umhverfismennt og átthagafræði og stendur nú yfir innleiðing á hugmyndafræði Cittaslow en sveitarfélagið Djúpavogshreppur varð aðili að Cittaslow hæglætishreyfingunni árið 2013. Mikil samvinna er milli grunn- og tónskólans og á hverju ári er settur upp söngleikur þar sem allir nemendur grunnskólans taka þátt með aðstoð frá nemendum og starfsfólki tónskólans. Mikil hefð er fyrir frábæru tónlistarstarfi í sveitarfélaginu og margir aðilar hér sem sinna tónlistariðkun og því fjölbreyttir og skemmtilegir möguleikar í boði fyrir hugmyndaríkt fólk.
Laun greiðast skv. kjarasamningi KÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Skólastjóri, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir veitir nánari upplýsingar á skolastjori@djupivogur.is eða í síma 470-8713.
Sóknarprestur, Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir veitir nánari upplýsingar á sjofnjo@simnet.is eða í síma 892-7651
Umsóknarfrestur er t.o.m. 2. mars 2018.
Teigarhorn í Djúpavogshreppi - deiliskipulagstillaga
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti þann 16. nóvember 2017 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi á Teigarhorni, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Smellið hér til að skoða auglýsinguna í heild, auk allra gagna sem henni fylgja (undir "Skipulagsmál í kynningu / auglýsingu").
ÓB
Stuðningsfulltrúa vantar í grunnskólann
Í grunnskólann vantar stuðningsfulltrúa á yngra stig í 65% starf. Viðkomandi þarf að geta hafið störf 1. mars nk. Vinnutími er frá 8:00 – 13:10.
Stuðningsfulltrúi er kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð. Starfið miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum. Yfirmaður stuðningsfulltrúa er skólastjóri og aðstoðarskólastjóri í umboði skólastjóra.
Unnið er eftir kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og stéttarfélags umsækjanda.
Skólastjóri, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir veitir nánari upplýsingar á skolastjori@djupivogur.is eða í síma 470-8713.
Umsóknarfrestur er t.o.m. 26. febrúar 2018.
Skólastjóri
Rúllandi snjóbolti eitt af þremur verkefnum tilnefnd til Eyrarrósarinn...
Það er með mikilli ánægju og stolti sem við segjum frá því að Rúllandi snjóbolti er eitt af þeim þremur verkefnum sem hafa hlotið tilnefningu til Eyrarrósarinnar 2018. Verðlaunaafhendingin fer fram í Neskaupsstað 1. mars næstkomandi.
Hin tvö verkefnin sem einnig eru tilnefnd eru verkefnin Ferskir vindar í Garði og Skjaldborg - Hátíð íslenskra heimildamynda.
Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár, hvaðanæva að af landinu. Valin voru 6 verkefni á Eyrarrósarlistann en nú er búið að þrengja hringinn velja þau 3 verkefni sem eru tilnefnd til sjálfrar Eyrarrósarinnar.
Sjá nánari upplýsingar í fréttatilkynningu frá Listahátíð með því að smella hér
Við óskum Rúllandi snjóbolta innilega til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu.
BR
Rúllandi snjóbolti/12, 2018 Djúpivogur
Sýningin Rúllandi snjóbolti 12/ 2018 Djúpivogur verður formlega opnuð í Bræðslunni á Djúpavogi þann 14.júlí nk. Vinna við undirbúning sýningarinnar er í fullum gangi og má búast við glæsilegri sýningu í ár, líkt og hin fyrri.
Takið opnunardaginn frá, 14.júlí 2018.
BR
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands
Uppbyggingarsjóður Austurlands úthlutaði þann 12. febrúar sl. rúmum 60 milljónum króna til yfir 80 verkefna sem efla munu atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. Hlutverk sjóðsins er að styrkja menningar-, nýsköpunar,- og atvinnuþróunarverkefni í samræmi við sóknaráætlun landshlutans.
Þrjú verkefni á vegum Djúpavogshrepps hlutu styrki að þessu sinni en það eru verkefnin "Rúllandi snjóbolti/12, 2018 Djúpivogur" sem fékk styrk að upphæð 1.500.000, "Miðstöð Cittaslow á Íslandi" fékk úthlutað styrk að upphæð 1.000.000 og verkefnið "Tankurinn" fékk styrk að upphæð 600.000.
Þá voru tvö önnur verkefni tengd staðnum sem einnig fengu styrki en það eru verkefnin "Gammur, griðungur, dreki og bergrisi" - sýning í Ríkarðssafni, Löngubúð þar sem forn skjaldamerki Íslands verða skoðuð og greind og verkefnið "Sósa" .
Athöfnin fór fram í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Athöfninni stýrði bæjarstjóri Fjarðabyggðar Páll Björgvin Guðmundsson. Ávarp fluttu forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar Jón Björn Hákonarson, Eiríkur Hilmarsson formaður úthlutunarnefndar og Sigrún Blöndal, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
Frekari upplýsingar um athöfnina og lista yfir styrkþega má finna með því að smella hér.
Djúpavogshreppur þakkar Uppbyggingarsjóði Austurlands kærlega fyrir veittan stuðning og óskar öðrum styrkhöfum innilega til hamingju!
BR
Sveitarstjórn: Fundargerð 08.02.2018
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Við Voginn auglýsir
Kalt hlaðborð verður í hádeginu í dag, 9. febrúar.
Allskonar kræsingar í boði, eftirréttur og kaffi
Fyrir aðeins 1.800 kr á manninn.
Vertu velkomin
Við Voginn
BR
Djúpavogshreppur kaupir fálka Ríkarðs Jónssonar
ndanfarið hefur í fjölmiðlum verið fjallað um um sölu á útskornum fálka eftir Ríkarð Jónsson sem seldur var á uppboði hjá Chiswick-uppboðshúsinu í London 6. febrúar sl.
Það er með mikilli ánægju sem það upplýsist hér að kaupandinn er Djúpavogshreppur f.h. Ríkarðshúss en fálkanum er ætlaður staður þar þegar fram líða stundir.
Milligöngu um kaupin fyrir hönd sveitarfélagsins höfðu Elísabet Guðmundsdóttir í Bakkabúð og þau Felicity og Michael Bullock sem eru okkur hér á Djúpavogi að góðu kunn en þau dvelja töluvert á Djúpavogi og á Hvalnesi í Lóni sem þau keyptu fyrir nokkrum árum.
Gert er ráð fyrir að fálkinn verði fluttur heim fljótlega og mun hann verða til sýnis ásamt öðrum gripum í Ríkarðssafni í Löngubúð í sumar og vonandi áður en langt um líður í nýju Ríkarðshúsi.
Er þeim Elísabet, Felicity og Michael hér með færðar bestu þakkir fyrir þeirra þátt í þessu ævintýri.
Sveitarstjóri
Mynd: Felicity Bullock
Rúllandi snjóbolti valinn á Eyrarrósarlistann 2018
Rúllandi snjóbolti er meðal þeirra sex verkefna sem hafa verið valin á Eyrrarósarlistann 2018.
Eyrarrósin er viðurkenning sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár hvaðanæva af landinu.
Á Eyrarrósarlistanum 2018 birtast nöfn þeirra sex verkefna sem eiga möguleika á að hljóta verðlaunin í ár. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun. Hér fyrir neðan má sjá þau sex verkefni sem tilnefnd eru í ár:
Eyrarrósarlistinn 2018:
- Aldrei fór ég suður, Ísafirði
- Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Nothern Wave), Snæfellsbæ
- Ferskir vindar – alþjóðleg listahátíð í Garði
- LungA skólinn, Seyðisfirði
- Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi
- Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, Patreksfirði
Þetta er í þriðja sinn sem verkefni frá Djúpavogi er valið á listann, en sýningin Rúllandi snjóbolti var einnig á listanum í fyrra. Þar áður var Hammondhátíð Djúpavogs valin á listann árið 2015.
Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 1. mars næstkomandi í Neskaupsstað, heimabæ þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.
Við óskum Rúllandi snjóbolta innilega til hamingju með tilnefninguna.
Sjá nánari upplýsingar um þau verkefni sem tilnefnd eru í ár á heimasíðu Listahátíðar, með því að smella hér.
BR
Sveitarstjórn: Fundarboð 08.02.2018
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 08.02.2018
42. fundur 2014-2018
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 8. febrúar 2018 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:
1. Fráveitumál
2. Fundargerðir
a) Félagsmálanefnd, dags. 16. janúar 2018.
b) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 22. janúar 2018.
c) Stjórn SSA, dags. 22. janúar 2018.
d) Stjórn Samb. ísl. sveitarfélaga, dags. 26. janúar 2018.
e) Samstarfsnefnd, dags. 29. janúar 2018.
f) Stjórn Brunavarna Austurlands, dags. 31. janúar 2018.
g) Fundur með Búnaðarfélagi Beruneshrepps 1. febrúar 2018.
h) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 2. febrúar 2018.
i) Samráðsf. v. húsnæðisáætl. f. Austurland, dags. 6. febrúar 2018.
j) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 7. febrúar 2018.
3. Erindi og bréf
a) Búnaðarfélag Beruneshrepps, lausaganga búfjár, dags. 17. janúar 2018.
b) Skipulagsstofnun, deiliskipulag á Teigarhorni, dags. 22. janúar 2018.
c) Skógræktin, deiliskipulag á Teigarhorni, dags. 23. janúar 2018.
d) Umhverfisstofnun, breyting á aðalskipulagi v. Bragðavalla, dags. 24. janúar 2018.
e) Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, samstarf sveitarfélaga, dags. 25. janúar 2018.
f) Björgunarsveitin Bára og Djúpavogsdeild RKÍ, dags. 1. febrúar 2018.
4. Viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd.
5. Almenningssamgöngur – Strætisvagnar Austurlands
6. Skipulags- og byggingarmál
7. Skýrsla sveitarstjóra
Djúpavogi 5. febrúar 2018
sveitarstjóri