Fréttir
Djúpavogshreppur auglýsir: Félagsleg íbúð, laus til umsóknar
Neðangreind íbúð er laus til umsóknar hjá Djúpavogshreppi:
Staðsetning: Borgarland 20a
Byggingarár: 1992
Herbergi: 3
Stærð: 87,8 m2
Leiga: U.þ.b. 64.500 á mánuði (vísitölutengt) + hiti og rafmagn
Laus (u.þ.b.): 1. september 2017
Ath. að vegna lokunar skrifstofu (til 24. ágúst) skulu umsóknir sendar á netfangið djupivogur@djupivogur.is. Frá og með 24. ágúst verður einnig hægt að nálgast eyðublöð og skila inn umsóknum á skrifstofu sveitarfélagsins.
Eyðublöð er hægt að nálgast hér á heimasíðunni.
Djúpavogi 26. júlí 2017;
Sveitarstjóri
Sameiginleg ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknastofnunar
Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafa ákveðið að leggja fram eftirfarandi ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknarstofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi, sem birt var nú í júlímánuði.
Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafa þungar áhyggjur af stöðu framtíðaruppbyggingar fiskeldis á Austfjörðum út frá þeim forsendum sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar byggir á.
Eins og atvinnuuppbygging á suðurfjörðum Vestfjarða er til marks um, bendir flest til þess að fiskeldi feli í sér eitt helsta sóknarfæri jaðarbyggða í atvinnuþróun og samfélagslegri uppbyggingu. Í ljósi þess falast sveitarstjórnir Fjarðabyggðar og Djúpavogshrepps eindregið eftir fundi með ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og forsvarsmönnum Hafrannsóknarstofnunar við fyrsta tækifæri, svo fara megi yfir þau efnislegu rök sem standa til jafn umsvifmikillar skerðingar á fiskeldi á Austfjörðum og lagt er til í niðurstöðum áhættumatsins.
Jafnframt er lögð áhersla á að stjórnvöld skjóti allri ákvarðanatöku á frest sem byggir með einhverju móti á áhættumatinu þar til ljóst er að forsendur matsins séu réttar.
Frekari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, 895 6810 og Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, 843 9889.
Ljósmynd: Frá uppsetningu sjókvíar í Reyðarfirði 12. júní sl. (G. Halldórsson)
Verndarsvæðið við voginn
Sveitarstjórn Djúpavogshepps samþykkti á fundi 13. júlí 2017 að leggja fram tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan þéttbýlisins á Djúpavogi, sbr. 4. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Svæðið sem um ræðir er 60-150 m breið skák meðfram strönd sjálfs Djúpavogs að austanverðu, inn fyrir botn vogsins og út fyrir gömlu verslunarhúsin að vestanverðu (Löngubúð og Faktorshús), og þaðan upp með götunni Búlandi að austanverðu og suður á hæðina Aurinn eða Kirkjuaurinn, þar sem gamla Djúpavogskirkja stendur. Tillagan fjallar um verndargildi byggðarinnar á umræddu svæði, sem þrátt fyrir rösklega 400 ára búsetu og athafnalíf, skartar að talsverðu leyti nánast ósnortinni fjöru, minjum sem gefa góða mynd af sögu og þróun byggðar við voginn allt frá lokum 16. aldar og byggingum sem eru meðal þeirra elstu á landinu. Við þetta tvinnast síðari tíma framkvæmdir, svo sem hafnargerð, veglagningar og önnur mannvirkjagerð. Saman eru staðhættir, umhverfi, húsin, mannvirkin og leifar þeirra áhugavert dæmi um aldalanga byggðaþróun. Með tillögu um verndarsvæðið við voginn verður verndargildi svæðisins fest í sessi.
Til grundvallar tillögunni er Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 - 2020 og fyrri tillögur að aðalskipulagi, Húsakönnun í Djúpavogshreppi 2014 - aukin og endurútgefin 2015, Fornleifaskráning á Djúpavogi - verndarsvæði í byggð sem gefin var út 2017, ítarleg samantekt um Djúpavog og byggð innan verndarsvæðisins í greinargerð tillögunnar og greining á núverandi svipmóti svæðisins, sem einnig birtist í greinargerð tillögunnar.
Tillagan ásamt greinargerð og uppdráttum liggur frammi á skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpavogi, frá 21. júlí til og með 1. september 2017.
Tillögu, greinargerð og uppdrætti má einnig nálgast með því að smella hér.
Þeim sem vilja er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna til 1. september 2017. Senda skal skriflegar athugasemdir til sveitarstjóra Djúpavogshrepps eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is.
Sveitarstjóri
Sumarlokun Tryggvabúðar
Tryggvabúð verður lokuð frá 1. ágúst til og með 13. ágúst.
Opnum aftur mánudaginn 14. ágúst kl. 09:00.
Starfsfólk Tryggvabúðar
Sumarlokun skrifstofu Djúpavogshrepps
Skrifstofa Djúpavogshrepps verður lokuð frá 24. júlí til og með 20. ágúst vegna sumarleyfa.
Skrifstofan opnar aftur mánudaginn 21. ágúst kl. 13:00.
Sveitarstjóri
Stikun gönguleiða á Búlandsnesi
Ef þið hafið gaman af góðum félagsskap, göngu á fallegu svæði, grilluðum pylsum og því að styrkja góð málefni, þá mælum við með því að þið takið laugardaginn 22. júlí frá. Þá stendur til að endurstika gönguleiðir á Búlandsnesinu.
Við gefum okkur auðvitað að veðrið muni leika við okkur og að þetta verði fjölskylduvænn samveru-vinnudagur.
Mæting 22. júlí er kl. 10:00 á Bjargstúninu við hliðina á Við Voginn. Þar verður skipt í hópa sem dreift verður á nokkrar gönguleiðir á Búlandsnesinu. Svo verður stikað, borðað nesti, stikað meira og loks enda allir á sama stað og grilla saman pylsur.
Allir hafi með sér:
- Hádegisnesti
- Drykkjarvatn fyrir daginn
- Vinnuföt (ekki verra að hafa vinnuhanska)
- Við verðum með nokkra bakpoka fyrir stikur, en ef einhverjir eiga gamla bakpoka sem þeim er ekki annt um þá væri gott að kippa þeim með.
- Ruslapoka til að kippa með rusli sem verður á vegi okkar
Djúpavoghreppur er í samstarfi við Ferðafélag Djúpavogs, Björgunarsveitina Báru og Ungmennafélagið Neista vegna stikuninnar og fá félögin styrk fyrir verkið. Félagsmenn, sem og allir aðrir, eru því hvattir til að hjálpa til og styrkja þannig félögin.
Stikunin er hluti af verkefninu Efling göngumenningar og gönguferðamennsku í Djúpavogshreppi sem styrkt er af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Erla Dóra Vogler
Ferða- og menningarmálafulltrúi
Sveitarstjórn: Fundargerð 13.07.2017
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Dagskráin laugardaginn 15. júlí
Það verður nóg um að vera hérna í sveitarfélaginu á morgun, laugardag 15. júlí. Ferðafélag Djúpavogs ætlar að standa fyrir gönguferð að Steinkatli, Rúllandi snjóbolti/9 opnar í Bræðslunni kl. 15:00 og svo verður Gylfi Ægisson með söng, glens og grín í Löngubúð milli 21:00 og 22:30.
Sjá meira um hvern viðburð fyrir sig hér að neðan.
Gönguferð Ferðafélags Djúpavogs að Steinkatli
Verð: 1000 kr.
Jóhann Hjaltason sími 6613913
Opnun Rúllandi snjóbolta/9, Djúpivogur í Bræðslunni - Allir hjartanlega velkomnir!
Sýningin opnar við hátíðlega athöfn 15. júlí kl. 15:00
- Sérlegur gestur verður Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Austurbrú, og mun hún opna sýninguna.
- Kvenfélagið Vaka mun sjá um veitingar úr héraði, í anda Cittaslow
- Langabúð mun sjá um sölu áfengra veitinga
- Katrín frá Núpi mun leika nokkur lög
- Gjörningur eftir Tuma Magnússon
- Ræðuhöld og fleira
Gylfi Ægisson í Löngubúð milli 21:00 og 22:30, með söng, glens og grín.
Aðgangseyrir 2000 isk
Sveitarstjórn: Fundarboð 13.07.2017
36. fundur 2014-2018
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 13. júlí 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:
- 1. Fundargerðir
a) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 20. maí 2017.
b) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 7. júní 2017.
c) Umf. Neisti, dags. 8. júní 2017.
d) Aðalfundur Brunavarna á Austurlandi, dags. 13. júní 2017.
e) Sveitar- og bæjarstjórar á Austurlandi, dags. 14. júní 2017.
f) Framkvæmdastjórn Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 19. júní 2017.
g) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 19. júní 2017.
h) Stjórn SSA, dags. 20. júní 2017.
i) Félagsmálanefnd, dags. 21. júní 2017.
j) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 21. júní 2017.
k) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 22. júní 2017.
l) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 30. júní 2017.
m) Stjórn Kvennasmiðjunnar, dags. 30. júní 2017
n) Stjórn SSA, dags. 5. júlí 2017.
- o) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 7. júlí 2017.
- 2. Erindi og bréf
a) Sóknarnefnd Djúpavogskirkju, kirkjugarðurinn á Hálsi, dags. 27. apríl 2017.
b) Eðvald Smári Ragnarsson, göngustígur, dags. 22. júní 2017.
c) Íris Birgisdóttir, athugasemdir vegna færslu hringvegar, dags. 26. júní 2017.
d) Skipulagsstofnun, lýsing fyrir deiliskipulagstillögu – Stórsteinar, dags. 28. júní 2017.
e) Fornleifastofnun, tilboð í skráningu fornleifa á Búlandsnesi, dags. 30. júní 2017.
f) Foreldrar barna fædd 2016 og 2017, leikskólamál, dags. 1. júlí 2017.
g) Skúli Benediktsson, sandkassaleikur á bakka, dags. 3. júlí 2017.
h) Umhverfisstofnun, Stórsteinar, dags. 3. júlí 2017.
i) Umhverfisstofnun, umsögn vegna deiliskipulags á Blábjörgum, dags. 10. júlí 2017.
- 3. Byggingar- og skipulagsmál
- 4. Sparkvöllur
- 5. Fiskeldi og vinnsla á Djúpavogi
- 6. Sumarleyfi sveitarstjórnar 2017
- 7. Ljósleiðaravæðing í Djúpavogshreppi
- 8. Skýrsla sveitarstjóra
Djúpavogi 10. júlí 2017
Sveitarstjóri
Sumarlokun Geysis
Skrifstofa Djúpavogshrepps í Geysi verður lokuð 24. júlí til 21. ágúst vegna sumarleyfa.
ED
Opnun Rúllandi snjóbolta/9 í Bræðslunni
Samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti/9, Djúpivogur verður opnuð með viðhöfn laugardaginn 15. júlí kl. 15:00. Verið hjartanlega velkomnin á opnunina!
- Sérlegur gestur verður Signý Ormarsdóttir, verkefnasjóri menningarmála hjá Austurbrú, og mun hún opna sýninguna.
- Kvenfélagið Vaka mun sjá um veitingar úr héraði, í anda Cittaslow
- Langabúð mun sjá um sölu áfengra veitinga
- Katrín frá Núpi mun leika nokkur lög
- Gjörningur eftir Tuma Magnússon
- Ræðuhöld og fleira
2017 er fjórða sumar listasýningarinnar á Djúpavogi og verður hún opin alla daga frá 16. júlí til 20. ágúst kl. 11:00-16:00.
Aðgangur er ókeypis og við reiknum með að bæði íbúar Djúpavogshrepps, Austfirðingar og Íslendingar allir, sem og auðvitað erlendir ferðamenn, muni sækja sýninguna af kappi líkt og síðustu þrjú sumur.
Á Rúllandi snjóbolta/9, Djúpivogur verða sýnd verk eftirfarandi 31 listmanna:
Árni Ingólfsson / Árni Páll Jóhannsson / Arnout Mik / Dagrún Aðalsteinsdóttir / Egill Sæbjörnsson / Gjörningaklúbburinn / Guðlaug Mía Eyþórsdóttir / Guido van der Werve / Haraldur Jónsson / Helgi Þórsson / Hrafnkell Sigurðsson / Hreinn Friðfinnsson / Kan Xiuan / Kristján Guðmundsson / Magnús Logi Kristinsson / Margrét Blöndal / Marlene Dumas / Meiya Lin / Mercedes Azpilicueta / Ólafur Elíasson / Pauline Curnier-Jardin / Ragnar Kjartansson / Sara Björnsdóttir / Sigurður Guðjónsson / Sigurður Guðmundsson / Sirra Sigrún Sigurðardóttir / Stevens Vaughn / Tumi Magnússon / Þór Vigfússon / Wei Na / Yang Jian
Styrktaraðilar Rúllandi snjóbolta/9, Djúpivogur eru:
JOSIKANGA, Uppbyggingarsjóður Austurlands, Myndlistarsjóður, Orkufjarskipti og Fiskeldi Austfjarða.
Við þökkum styrktaraðilum sýningarinnar kærlega fyrir stuðninginn!
MS Rotterdam á Djúpavogi
Við settum saman lítið myndband frá gærdeginum en þá stoppaði MS Rotterdam við hér á Djúpavogi. Komur skemmtiferðaskipa eru svosem engin stórtíðindi núorðið á Djúpavogi, við tökum t.a.m. við 26 skipum í sumar, en Rotterdam er með þeim stærri og veðrið í gær var líka alveg dásamlegt.
Myndbandið má skoða hér að neðan.
ÓB
Sjónlistamenn athugið
Nú er komið að því að senda listamann frá Austurlandi til Vesterålen í Noregi eins og hefur verið árlegt lengi. Boðið er upp á dvöl frá 15. september til 1. desember í ár. Ferðir og húsnæði greitt að fullu. Listamaðurinn verður að sjá sjálfur um fæði. Vel er tekið á móti listamanninum og er hópur listamanna í Vesterålen nokkur slags bakland fyrir gestinn sem kemur.
Frábært tækifæri til að fara og njóta veru í Norður-Noregi, vinna að list sinni og tengjast listamönnum í Vesterålen ef vilji er fyrir hendi.
Sjá auglýsinguna frá Austurbrú hér að neðan.