Djúpivogur
A A

Fréttir

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs

 

FERÐAFÉLAG DJÚPAVOGS

 

AÐALFUNDUR FERÐAFÉLAGS DJÚPAVOGS VERÐUR HALDINN Í TRYGGVABÚÐ fimmtudaginn 30. Júní  2016.

HEFST KL. 20:00.

  1. VENJULEG AÐALFUNDARSTÖRF
  2. ÖNNUR MÁL

ALLIR FÉLAGSMENN HVATTIR TIL AÐ MÆTA OG NÝIR FÉLAGAR BOÐNIR VELKOMNIR.

STJÓRNIN

30.06.2016

Tónlistarveisla framundan í Löngubúð

Í júlí verður sannkölluð tónlistarveisla í Löngubúð – ekki láta þetta framhjá þér fara.

 

Laugardaginn 2. Júlí kl. 17:00

Munnhörpuleikarinn Þorleifur Gaukur tekur með sér hinn frábæra bassaleikara Colescott alla leið frá Portland, Oregon.   Trylltur jazz/blús.

 

Þriðjudaginn 5. Júlí kl. 20:00

Eva Ingólfsdóttir fiðuleikari flytur verk sitt DJÚPIVOGUR sem er samsett af fiðlu, gítar og videóverki.  Verkið samdi Eva í heimsókn sinni á Djúpavogi síðasta sumar.

 

Þriðjudaginn 26. Júlí kl. 20:00

Hljómsveitin Jackie Ferguson er tríó sem er starfrækt í Köln í Þýskalandi. Tríóið samanstendur af Inga Unnsteinssyni á bassa, Leo Engels á gítar og Jan Philipp á trommur.

29.06.2016

Bæjarlífið maí 2016

Bæjarlífssyrpa maímánaðar er komin á netið, fjölbreytt og fræðandi en umfram allt hjartastyrkjandi.

Smellið hér til að skoða hana.

ÓB

28.06.2016

Við Voginn sýnir landsleikinn á breiðtjaldi

Við Voginn sýnir landsleik Íslands og Englands á EM í knattspyrnu á breiðtjaldi, en leikurinn hefst kl. 19:00.

Ýmis konar tilboð verða í gangi.

Mætum öllu og styðjum okkar menn,
áfram Ísland!

Við Voginn

27.06.2016

Útimessa í Malvíkurrétt 3. júlí

Útimessa

 

 í Malvíkurrétt í Álftafirði

 Sunnudaginn 3. júlí kl. 15.00

 

Malvíkurrétt er fallegur staður umkringdur klettum sem veita gott skjól og margir líkja við kirkju í náttúrunni. 

  

Sr. Gunnlaugur Stefánsson sóknarprestur í Heydölum þjónar og prédikar og kirkjukór Djúpavogs leiðir sönginn.

 Barn borið til skírnar.

 

Malvíkurrétt er um 45 km. fyrir sunnan Djúpavog.  Þegar komið er að brúnni yfir Selá (skilti) í Álftafirði er beygt til vinstri til móts við bæinn Starmýri.  Nánari leiðsögn verður við veginn og aðgengi gott.  Gott að hafa með teppi til að sitja á og vera í skjólgóðum og hlýjum fötum. 

 

Kaffiveitingar í boði sóknarnefndar Hofskirkju að lokinni athöfn og allir hjartanlega velkomnir. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

27.06.2016

Til hundaeigenda

Hundaeigendur athugið.

Að gefnu tilefni er fólki sem á hunda bent á að því ber að hirða upp eftir hundinn sinn, þ.e. hundaskít. Sbr. samþykkt um hundahald í Djúpavogshreppi.

                        

  SAMÞYKKT

Um hundahald í Djúpavogshreppi.

3.gr.

7. Hundar skulu aldrei ganga lausir á almannafæri. Utandyra skulu hundar ávallt vera í taumi í fylgd með aðila, sem hefur fullt vald yfir þeim. Þegar hundur er í festi á húslóð, skal lengd festarinnar við það miðuð að óhindrað megi ganga að aðaldyrum hússins.

8. Hundaeigendum ber að hlíta að öðru leyti lögum og reglum, er hundahald varða, þ. á m. reglum um árlega hreinsun hunda og greiðslu leyfisgjalds, svo og fyrirmælum sem heilbrigðisnefnd setur.

 

5.gr.

Eigendum hunda ber að sjá svo um, eftir því sem framast er unnt, að dýrið valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði né óhollustu. Eigendum eða forráðamönnum hunda er skylt að sjá til þess að saur eftir hundinn sé fjarlægður á tryggilegan hátt. Ef hundur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða forráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

 

23.06.2016

Forsetakosningar

Kosið er í Grunnskóla Djúpavogs kl. 10:00-20:00 laugardaginn 25. júní 2016.

Kjörstjórn Djúpavogshrepps

23.06.2016

Styrkur frá Erasmus+

Eins og komið hefur fram áður hófst innleiðing Cittaslow í Djúpavogsskóla um áramótin 2015/2016 að hugmynd og tilstuðlan Bryndísar Skúladóttur leikskólakennara og landvarðar, sem varð verkefnastjóri yfir verkefninu. Hugmyndin er að innleiðingin nái yfir 2,5 ár eða 5 annir.

Í framhaldið sótti Bryndís um styrk fyrir innleiðingu Cittaslow í Djúpavogsskóla til Sprotasjóðs Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Úr varð að skólinn hlaut 2,1 milljón krónu styrk fyrir verkefninu frá Sprotasjóði.

Á vormánuðum var svo sótt um annan styrk, í þetta sinn til Erasmus+ m.a. til þess að vera í samstarfi við grunn- og leikskóla í Orvieto á Ítalíu um innleiðinginu Cittaslow í skólana, en höfuðstöðvar Cittaslow eru í Orvieto. Styrkurinn var veittur og nemur allt að 9,6 milljónum íslenskra króna.

Þetta verkefni hefur því fengið vægast sagt mjög góðar undirtektir og ljóst að sérstaða Djúpavogsskóla, Djúpavogshrepps og aðild sveitarfélagsins að Cittaslow samtökunum hefur mikið að segja. Bryndís verkefnastjóri hefur með þessum styrkumsóknum aflað allt að 11,7 milljónum króna fyrir verkefnið þannig að innleiðingin mun ekki einungis geta haldið áfram með góðum hætti heldur er því lyft á annað plan, þar sem það er orðið hluti af alþjóðlegri mynd, sem skólinn, kennarar, nemendur og samfélagið mun allt hagnast gríðarlega á. Yfirmarkmið verkefnisins er að ala upp nýja kynslóð meðvitaðra og ábyrgra borgara í Djúpavogshreppi þar sem virðing fyrir fólki, staðbundinni menningu, sterkri umhverfisvitund og sjálfbærni er í heiðri höfð. Með þessu framtaki eflir Djúpavogsskóli verulega innleiðingu hugmyndafræði Cittaslow í samfélaginu öllu og leggur þar með sitt á vogaskálarnar til að hafa jákvæð áhrif á framtíð Djúpavogshrepps. 

Við þökkum Bryndísi innilega fyrir hennar þátt í að efla innleiðingu Cittaslow í Djúpavogshreppi, en hún mun láta af störfum sem verkefnastjóri við Djúpavogsskóla og fljúga á braut til annarra starfa undir haustið.

 

Til hamingju Djúpavogsskóli og Djúpavogshreppur og áfram Cittaslow!

22.06.2016

Bæjarlífið apríl 2016

Þá er komið að bæjarlífspakka aprílmánaðar 2016. Hann er að stórum hluta tileinkaður utandagskrárviðburðum Hammondhelgarinnar, en hátíðin fór fram dagana 21.-24. apríl. Þess utan gengur Hreinn að sjálfsögðu berserksgang og náttúran í Djúpavogshreppi fær sitt pláss að venju.

Við fengum myndir að láni hjá Katrínu Reynisdóttur og Eiði Ragnarssyni. Við kunnum þeim bestu þakkir fyrir.

Smellið hér til að skoða myndasafnið.

ÓB

21.06.2016

Bókasafnið

Bókasafnið verður lokað á morgun, þriðjudaginn 21. júní. Síðasti opnunardagur fyrir sumarfrí verður þriðjudaginn 28. júní kl. 16:00 - 19:00.

 

Þorbjörg Sandholt

Bókasafnsvörður

20.06.2016

Íþróttamiðstöð Djúpavogshr

Íþróttamiðstöðin / sundlaugin er að venju lokuð á þjóðhátíðardaginn 17.júní. 

                                                                         Forstöðum. ÍÞMD 

17.06.2016

Kvenréttindadagurinn 19. júní

Í tilefni Kvenréttindadagsins 19. júní verður haldin kvöldvaka með glensi og gamni kl. 20:00 í Löngubúð.

Allir velkomnir!

16.06.2016

17. júní 2016

Dagskrá 17. júní í Djúpavogshreppi 2016

 

13:00

Bæjarbúar hittast við grunnskóla Djúpavogs. Hvetjum alla til að mæta í litríkum og skemmtilegum búningum eða okkar hefðbundna fallega þjóðbúning og spariklædd.

Íslenski fáninn og veifur verða seldar við grunnskóla.

 

13:30

Skrúðganga frá grunnskóla að Neistabrekku.

 

14:00

Leikið á „Samverusvæði“, fjallkona,

barnatónleikar, andlitsmálning,

leikir, þrautir og skemmtun.

Fótbolti - fullorðnir á móti börnum.

Varningur, veitingar og kaffi til sölu á vegum Neista

 

16:30- 18:00

PÁSA

 

18:00

Grill, gleði og gaman á „samverusvæði“.

Grill verður á staðnum en hver og einn kemur með sitt á grillið.

 

20:00

Varðeldur við þrettándabrennustæðið við slökkvistöðina.

Fjöldasöngur og gleði.

Þeir sem eiga gítar eða önnur hljóðfæri eru hvattir til að mæta með þau.

 

21:00

Formlegri dagskrá lokið

 

22:00

Fjörugt og skemmtielgt PUB QUIS fyrir eldri kynslóðina í Löngubúð.

 

 „Samverusvæði“

Hvert hverfi fær úthlutað svæði á þríhyrnda túninu milli slökkvistöðvar og fótboltavallar

til að skreyta og skapa með þetta að leiðarljósi:

 „Leikir, þrautir og sköpun, náttúru- og endurnýting“

Auk þess má hver og einn að sjálfsögðu skreyta heimili sitt og hverfi.

Samverusvæðið má skreyta 16. júní þegar hverfunum hentar.

 

„Eggið“

Bæjarbúar búa til egg. Einstaklingar eða í hóp.

Öll hráefni leyfileg, því náttúrulegri og endurnýttari því betra.

Eggin má svo setja í „hreiður“ á samverusvæði þar sem bæjarbúar geta skoðað.

 

ATH!

Margar hendur vinna létt verk.

Við óskum eftir því að GULA liðið skipuleggi og sjái um létta leiki fyrir 0-6 ára og að

APPELSÍNUGULIR OG BLEIKIR komi hvor um sig með 5 þrautir fyrir þrautabraut (hjólböruhlaup, eggjahlaup, hopp, skopp, kast og annað skemmtilegt sem hverfunum dettur í hug)

 

Fyrir hönd 17. júní-nefndar,

Ágústa Margrét Arnardóttir

16.06.2016

Leikhópurinn Lotta sýnir Litaland

Leikhópurinn Lotta sýnir Litaland, glænýtt íslenskt leikrit með söngvum á Djúpavogi þann 9. júlí klukkan 18.00. Þetta er tíunda sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Litlu gulu hænuna, Hróa hött, Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Hópurinn frumsýnir Litaland í Elliðaárdalnum í Reykjavík miðvikudaginn 25. maí, en í framhaldinu mun hópurinn ferðast með sýninguna og heimsækja yfir 50 staði víðsvegar um landið.

Höfundur Litalands er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er sjötta leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru eftir Sævar Sigurgeirsson, utan eins sem er eftir Baldur Ragnarsson en lögin samdi Baldur ásamt þeim Birni Thorarensen og Rósu Ásgeirsdóttur.

Enginn þekkir söguna um Litaland enda er um glænýtt ævintýri að ræða sem aldrei hefur heyrst áður. Þó er hægt að lofa áhorfendum því að þessi sýning er algjörlega í anda Lottu. Húmor fyrir jafnt fullorðna sem börn er alls ráðandi, sýningin lifandi og skemmtileg og sérstaklega við hæfi fyrir fólk frá fjögurra til hundrað ára. Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín 15 hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera. Þessu er síðan öllu haldið saman af leikstjóranum og er hann enginn annar en Stefán Benedikt Vilhelmsson.

Miðaverð á sýninguna er 1.900 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.

ÓB

 

15.06.2016

Þjófaholan rannsökuð

Nú á dögunum fór vaskur hópur í leiðangur að Þjófaholu í Álftafirði. Þjófaholan hefur verið sveipuð dulúð alla tíð og margar sögur henni tengdar verið sagðar, m.a. að hún sé botnlaus og að þú komir út úr henni a.m.k. á tveimur stöðum annars staðar í Álftafirði. Holan hefur aldrei verið að fullu rannsökuð en einhverjar tilraunir hafa þó verið gerðar til þess, fyrst árið 1961 í frægri ferð og á heimasíðu sveitarfélagsins segir frá ferð ungmenna frá Djúpavogi ofan í holuna árið 2008. Fyrir vikið hefur ímyndunaraflið eitt ráðið því hingað til hvað það er sem leynist neðan við þá syllu sem menn komust neðst niður á.

Nú hefur hulunni verið svipt allrækilega af þessu fyrirbæri.

Hópurinn vaski samanstóð af systkinunum Andrési og Bryndísi Skúlabörnum, Grétu Jónsdóttur, Þuríði Harðardóttur og jarðfræðingnum Martin Gasser, sem búsettur er á Breiðdalsvík. Martin er þaulvanur hellakönnuður og því kjörið að fá hann til að síga niður og kanna holuna.

Það er skemmst frá því að segja að Martin komst alla leið niður á botn og skoðaði sprunguna í bak og fyrir og er nú búinn að teikna upp afstöðumynd af Þjófaholunni. Því miður fann hann engan fjársjóð, engin göng til annarra heima og heldur engar menjar tengdar þjófum eða misyndismönnum. Hann komst hins vegar að því að holan er mjög hættuleg fyrir óvana og hann mátti heita heppinn að sleppa óskaddaður á leið upp úr holunni þegar hnullungur hrundi niður og skall á hjálmi hans.

Martin var að sjálfsögðu sendur niður með GoPro vél á höfðinu og Andrés Skúlason er nú búinn að vera að setja inn myndbönd á netið úr þeirri vél. Hér að neðan má sjá afrakstur þeirrar upptöku.

Fyrir neðan er einnig afstöðumyndin sem Martin teiknaði.

Þá eru hér tenglar í myndasöfn frá leiðöngrunum árið 1961 og 2008.

ÓB


Martin Gasser teiknar upp afstöðumynd af holunni.

 

Afstöðumynd af Þjófaholu. Smellið á myndina til að stækka.

 

15.06.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 14.06.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 14.06.2016

7. aukafundur 2014 – 2018

Aukafundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjudaginn 14. júní 2016. kl. 08:15. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Kjörskrá


Djúpavogi 13. júní 2016
Sveitarstjóri

13.06.2016

Breyttur opnunartími í Tryggvabúð í júlí og ágúst

Tryggvabúð, félagsaðstaða eldri borgara í Djúpavogshreppi, verður opin í júlí og ágúst sem hér segir:

Frá 1. júlí til 22. júlí opið frá kl. 09:00-14:00.
Frá 8. ágúst til 31. ágúst opið frá kl. 09:00-14:00
Lokað frá 25. júlí til 5. ágúst.

Forstöðukonur

13.06.2016

Auglýsing um kjörskrá vegna forsetakosninga

Kjörskrá vegna kjörs forseta Íslands laugardaginn 25. júní 2016 mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins á skrifstofutíma frá og með miðvikudeginum 15. júní 2016 til kjördags. Athygli er vakin á því að kjósendur geta nú kannað á vefnum kosning.is hvar þeir eru á kjörskrá.

Sveitarstjóri

13.06.2016

Opnunarhátíð veitinga- og viðburðastofu Havarí

Kæru nærsveitungar, gestir, vinir og vandamenn!

Það er með auðmýkt og gleði sem við bjóðum ykkur að fagna með okkur, og öllum þeim, sem komu að því breyta hlöðunni á Karlsstöðum í undurfallega veitinga- og viðburðarstofu.

Húsið verður opnað klukkan 20:00 og verður fyrstu gestum boðið uppá Bulsusnittur og drykk.

Veitinga- og viðburðastofa Havarí verður svo opin alla daga milli klukkan 11:00 og 21:00 um leið og öll leyfi eru komin upp á vegg.

Hlökkum til að bjóða ykkur upp í dans.

Berglind og Svavar
Karlsstaðabændur

 

 

11.06.2016

Sveitarstjórn: Fundargerð 09.06.2016

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

10.06.2016

Tilkynning frá 17. júní hópnum

 

Nú líður að 17. júní sem undanfarin ár hefur verið okkar litla bæjarhátíð.

Sem fyrr munu bæjarbúar hittast við grunnskóla Djúpavogs þann 17. júní  og verður skrúðganga þaðan að Neista brekku og sameiginlegu samverusvæði Djúpavogsbúa og hverfanna þriggja.

 

Í Neista brekku og á íþróttavelli munu fara fram leikir og þrautir fyrir börn og fullorðna, barnatónleikar og fleira fjörugt og fallegt sem auglýst verður betur síðar.

 

Ákveðið hefur verið að breyta örlítið fyrirkomulagi skreytinga og hverfakeppninni í ár. Öllum er að sjálfsöðgu frjálst að skreyta sín hús og sín hverfi, en við hvetjum bæjarbúa alla til að koma saman og skreyta sameiginlegt „Samverusvæði“ á túninu milli íþróttavallar og slökkviðstöðvar 15. og 16. júní þegar hentar.

 

Við hvetjum ennfremur bæjarbúa til að hafa þetta að leiðarljósi í sambandi við skreytingar og skemmtun þessa hátíðar: „Leikir, þrautir og sköpun, náttúru- og endurnýting“

 

Um kl. 16: 30 er gert ráð fyrir að hefðbundinni dagskrá ljúki í brekkunni þann 17. júní en kl. 18:00 hvetjum við fólk til að mæta á samverusvæðið til að grilla og hafa gaman saman fram á kvöld á „Samverusvæði“. Hver og einn kemur með sitt á grillið og munið að maður er manns gaman.

 

 „Samverusvæði“ :

Hvert hverfi fær úthlutað svæði á þríhyrnda túninu milli slökkvistöðvar og fótboltavallar til að skreyta. Þema skreytinga er: „Leikir, þrautir og sköpun, náttúru- og endurnýting“. Auk þess má hver og einn að sjálfsögðu skreyta heimili sitt og hverfi. Samveruvæðið er skreytt 15. og 16. júní þegar hverfunum hentar.

Barnatónleikar“:

Írís Birgisdóttir hefur umsjón með söngæfingum fyrir:

5-9 ára milli kl. 14-15:00 dagana 13., 14. og 15. júní

10-15 ára milli kl. 15-16:00 dagana 13., 14. og 15 júní

Söngæfingar fara fram í Zion og enda á tónleikum á 17. júní. Nánari upplýsingar gefur Íris Birgisdóttir.

„Sköpun og skreytingar“ 

Ágústa Margrét Arnardóttir bíður upp á skapandi skemmtun fyrir:

6-16 ára milli kl. 18-20:00 dagana 13., 14. og 15.  júní við Zion/slökkviðstöð.

Sköpun og skreytingagerð úr lopa, grjóti, timbri og tré. 1000 kr. þátttökugjald upp í kostnað á málningu, lopa, böndum, skrauti og fleiru en þátttakendur eru hvattir til að taka með sér efnivið ef þeir eiga eitthvað sniðugt.

„Fallegasta eggið“

Bæjarbúar búa til egg, einstaklingar eða í hóp. Öll hráefni leyfileg, því náttúrulegri og endurnýttari því betra.

Eggin verða sett í „hreiður“ á samverusvæði þar sem bæjarbúar geta notið þess að skoða og njóta.

 

Það vantar enn eina drottningu í gula liðið og eina drottningu í appelsínugula liðið.

Enn má bæta við dagskrárliðum ef áhugasamir sjá sér fært að taka þátt og stjórna þeim lið.

Við tökum öllum áhugasömum, sem vilja aðstoða á einhvern hátt, fagnandi og hvetjum fólk til að vera virkt.

Nánari upplýsingar um dagskrárliði, skráningu sjálfboðaliða, drottninga og fleira gefur Ágústa í síma 863-1475 eða á agusta@arfleifd.is

 

Fh. áhugasamra bæjarbúa í 17. júní nefnd

Ágústa Margrét Arnardóttir

 

10.06.2016

Tankurinn - fundur

Eins og fram kom í síðustu Bóndavörðu þá sótti Djúpavogshreppur um styrk til Uppbyggingarsjóðs Austurlands í samstarfi við fjölda skapandi fólks í Djúpavogshreppi til að gera gamla lýsistankinn innan við Bræðsluna að margvíslegu viðburða- og sýningarrými. Verkefnið hlaut 500.000 kr. styrk sem nægir til algerra grunnframkvæmda við tankinn, þ.e. þrífa lýsið innan úr honum, taka rör og annað úr gólfi og gera manngengt inn í hann. Nú er Hallgrímur Jónsson tankahreinsir frá Höfn búinn að þrífa allan tankinn nema gólfið, sem hann stefnir á að fara klára í næstu viku, og Kalli, Auji og Skúli hjá Smástál eru búnir að vera að gera hurð á tankinn og taka vinkla úr botni hans. Tankurinn ætti að verða klár vonandi í næstu viku.

Styrkurinn fékkst út á að það að mótframlag á formi vinnu er 50% móti styrkupphæðinni. Djúpavogshreppur leggur verkefninu til tankinn sjálfan, vinnu við umsýslu og utanumhald, aðstoð við fjarlægingu skolvatns og mun sjá til þess að svæðið umhverfis tankinn verði gert meira aðlaðandi. Fjöldi íbúa í Djúpavogshreppi hafa svo samþykkt að taka þátt í verkefninnu með einum eða öðrum hætti – með viðburði, með því að sýna verk eða hverju sem þeim dettur í hug - og enn er leitað eftir áhugasömum þátttakendum. Eftirtaldir aðilar hafa þegar skráð sig til þátttöku:

Hrönn Jónsdóttir, Þorbjörg Sandholt, Þór Vigfússon, Jón Friðrik Sigurðsson, Magnús Kristjánsson, Alfa Freysdóttir, Rán Freysdóttir, Ágústa Arnardóttir, Skúli Andrésson, Sigurður Már Davíðsson, Erla Dóra Vogler, Vilmundur Þorgrímsson, Skúli Benediktsson, József Gabrieli Kiss, Andrea Kissné Refvalvi, Berglind Häsler, Svavar Pétur Eysteinsson, Íris Birgisdóttir og Saga Unnsteinsdóttir

Ofangreindir og fleiri áhugasamir eru eindregið hvattir til að mæta á fund 14. júní kl. 17:00 í Geysi, eða setja sig í samband við undirritaða til að skipuleggja hvenær hver vill gera eitthvað skemmtilegt í Tanknum.

 

Hugmyndin að í tanknum verði lifandi röð sýninga og viðburða frá vori til hausts sem íbúar Djúpavogshrepps á öllum aldri standi að í sameiningu. Þarna getur verið um að ræða upplestur ljóða eða sagna, tónleika, myndlistarsýningar, kennslu, dans, skúlptúra... í rauninni hvað sem er frá íbúum á öllum aldri.

Auðvitað hentar tankurinn alls ekki til allra sýninga eða viðburða, t.d. vegna kulda, lögunar, staðsetningar, lýsingar eða annars. Tækifærin eru þó næg og ýmislegt skemmtilegt hægt að gera, þannig að það er um að gera að gefa ímyndunaraflinu og sköpunargleðinni lausan tauminn.

 

Erla Dóra Vogler

Ferða- og menningarmálafulltrúi

 

Hallgrímur Jónsson tankahreinsir frá Höfn í Hornafirði

 

Kalli og Auji hjá Smástál skera fyrir hurð

09.06.2016

Neistafréttir í maí 2016

Dagskrá Neista var yfirtroðin af fjölbreyttum viðburðum og verkefnum í maí og framundan er ekkert minna í júní og júlí.

Eitt af verkefnum mánaðarins var að gera Neista völlinn kláran fyrir sumarið og var því hinn árlegi Tiltekardagur Neista haldinn þann 21. maí í fínasta veðri. Mæting var mjög góð og verkefnunum var rúllað upp á góðum tíma. Það sem nauðsynlegt er að gera fyrir hvert sumar er að raka það sem gæsir og hreindýr skilja eftir sig þar eftir veturinn, sem og laga sandgrifjuna, koma upp auglýsingaskiltum og gera umhverfið fallegra. Neisti bauð öllum sem lögðu hönd á plóg upp á grillaðar pylsur og Hótel Framtíð og Búlandstindur buðu upp á kaffi. Við þökkum þeim og öllum sem komu og aðstoðuðu innilega fyrir.

Hreyfivika UMFÍ fór fram um allt land vikuna 23. – 29. maí. Dagskrá Neista var glæsilega samsett undir stjórn Gretu Mjallar með fjölbreytileikann í fyrirrúmi. Gafst bæjarbúum á öllum aldri tækifæri til að kynna sér badminton, körfubolta, zumba, glímu, fimleika, fjallgöngu, sjósund og fleira. Allt var þetta í boði fyrir íbúa þeim að kostnaðarlausu í boði Neista. Mæting var misgóð en allir viðburðir tókust ofsalega vel og þeir sem mættu voru yfir sig ánægðir. Fjölmargir þjálfar og sjálfboðaliðar lögðu hreyfivikunni lið og kunnum við þeim innilega þakkir fyrir.

Í maí fór líka Vormót Neista í sundi fram. Þetta er eina mótið sem Neisti heldur hér á vorönn á heimavelli/ í heimalaug fyrir öll lið á Austurlandi. Þátttaka var ágæt og komu lið frá nokkrum stöðum á Austurlandi. Var mótið gríðarlega skemmtilegt og vel heppnað í alla staði sem er ekki síst þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum að þakka sem leggja sunddeild Neista, iðkendum og stjórn lið með óeigingjörnu og góðu starfi. Við þökkum þessum sjálfboðaliðum innilega fyrir þeirra mörgu og mismunandi störf og vonum að þeir viti hversu mikils við metum þeirra aðkomu.

Sundiðkendur Neista stóðu sig frábærlega. Keppendur voru allt niður í 1. og 2. bekkinga sem fengu að spreyta sig á sínu fyrsta móti og gekk þeim mjög vel og var dásamlegt að sjá þau synda sín sund, gleðjast og taka þátt. Allir undir 10 ára aldri fengu viðurkenningar pening hengdan um hálsinn og glöddust þau mjög. Eldri en 10 ára stóðu sig einnig frábærlega og unnu margir úr Neista til verðlauna fyrir 1.2. eða 3. sætið í einstaklings- og boðsundi.

Fótboltinn var á sínum stað í maí og margt um að vera, t.d. voru Fjarðaálsmótin haldin yfir 2 helgar í maí (flokkaskipt). Þótti ritara sérstaklega skemmtilegt að sjá framför yngstu keppenda sem kepptu í fyrsta sinn á fótboltamóti í janúar sl. þegar Greta Mjöll var búin að þjálfa í 2 mánuði og nú aftur eftir 6 mánuði og framfarirnar voru magnaðar. Eldri lið stóðu sig líka vel og allir skemmtu sér vel. Að fara á svona mót er hin mesta fjölskyldu skemmtun og gerir fótboltastarfið fjölbreyttara fyrir iðkendur sem bæði fá þjálfun í að keppa og koma vel fram sem og kynnast öðrum keppendum og hafa gaman.

Þær frábæru fréttir bárust svo í síðustu viku að 5 fótboltaiðkendur Neista voru valin af KSÍ í úrvalshóp fótboltakrakka í 4. flokki á Austurlandi í hæfileikamótun í knattspyrnu. Þarna komast bara þau bestu að og fá einstakt tækifæri til að undirbúa sig fyrir frekari fótboltaferil, fá leiðsögn og fræðslu. Neisti kynnir með miklu stolti okkar iðkendur, en eru þau Þór Albertsson, Diljá Snjólfsdóttir, Hafrún Alexía Ægisdóttir, Ragnar Ingason og Askur Egilsson. Innilega til hamingju, þið eruð vel að þessu komin og fyrirmyndir okkar allra.

Þess má til gamans geta að Neisti borgar öll keppnisgjöld fyrir sína iðkendur á þeim mótum sem farið er á saman. Kostnaðurinn sem að því hlýst er nokkuð stór og er það greitt með innkomu úr ýmisskonar fjáröflunum td. spurningakeppni fyrirtækjanna, yfirsetu á spilavist, sölu á varningi og veitingum á 17. júní, sölu á veitingum á mótum og fleira. Við þökkum öllum sem styðja og styrkja iðkendur Neista með kaupum og aðkomu fjáraflanna.

Framundan eru fjölbreyttir fjölskylduvænir viðburðir, námskeið og fleira:

Ævintýranámskeið og æfingar í fótbolta, frjálsum og sundi í júní og júlí fyrir börn og unglinga fædda 2000-2010. Námskeiðin verða vel auglýst mjög fljótlega.

17. júní. Stjórn Neista, Ferða- og menningamálanefnd og íbúi úr hverju hverfi sameina krafta sína í að skipuleggja og halda glæsilega 17. júní hátíð fyrir alla bæjarbúa. Við hvetjum alla íbúa til að taka virkan þátt og hafa gaman saman og gleðjast. Áhugasamir um aðkomu að skipulagi eða öðru mega gjarnan hafa samband við Ágústu Margréti Arnardóttur síma 863-1475.

18. júní. ÞS mótið í fótbolta 6. 7. og 8. flokkar í Fellabæ. Nánari kynning, skráning og fleira verður kynnt á Facebook.

8. -10. júlí. Sumarmót ÚÍA á Egilsstöðum fyrir 6 ára og eldri. Keppt verður í frjálsum íþróttum, sundi, kvöldvaka, stutt námskeið og fleira frábærlega skemmtilegt og fjölskylduvænt. Einnig hægt að nálgast upplýsingar á Facebook og www.uia.is.


Fyrir hönd Neista
Ágústa Margrét Arnardóttir.

Myndir frá maímánuði má sjá með því að smella hér.

08.06.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 09.06.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 09.06.2016

24. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 9. júní 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni - Viðauki við fjárhagsáætlun 2016

2. Fundargerðir

a) Félagsmálanefnd, 27. apríl 2016.
b) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 17. maí 2016.
c) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 17. maí 2016.
d) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 18. maí 2016.
e) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 19. maí 2016.
f) Stjórn SSA, dags. 24. maí 2016.
g) Félagsmálanefnd, dags. 25. maí 2016.
h) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 27. maí 2016.
i) Stjórn Héraðsskjalasafns, dags. 31. maí 2016.
j) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 1. júní 2016.

3. Erindi og bréf

a) Landskerfi bókasafna, ársreikningur, dags. 15. apríl 2016.
b) Bæjarstjórn Seyðisfjarðar, bókun, dags. 13. maí 2016.
c) HSA, minnisblað, dags. 18. maí 2016.
d) Strympa skipulagsráðgjöf f.h. Bagga ehf., beiðni um afgreiðslu skipulagslýsingar, dags. 20. maí 2016.
e) Strympa skipulagsráðgjöf, heimild fyrir stofnun lóðar úr lóðinni Lindarbrekku 2, dags. 23. maí 2016.
f) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, ársskýrsla 2015, dags. 24. maí 2016.
g) Aðalfundur SSA 2016, drög að dagskrá, dags. 25. maí 2016.
h) Guðmundur Eiríksson og Sigrún Snorradóttir, athugasemd vegan niðurfellingar Starmýrarvegar, dags. 30. maí 2016.
i) Auðunn Baldursson, umsókn um nýtt gistileyfi í flokki II, dags. 31. maí 2016.
j) Rafey ehf., nettengingar, dags. 31. maí 2016.
k) Havarí ehf., umsókn um nýtt gistileyfi í flokki II, dags. 31. maí 2016.
l) Velferðarráðuneytið, orlofsmál fatlaðs fólks, dags. 2. júní 2016.
m) Haukur Elísson og Stefanía Björg Hannnesdóttir, vegna gistiþjónustu í íbúð, ódagsett.

4. Svæðisskipulag fyrir Austurland
5. Viðauki vegna samnings um almenningssamgöngur
6. Skýrsla sveitarstjóra

Djúpavogi 6. júní 2016
Sveitarstjóri

06.06.2016

Ferð í Múlagljúfur með Ferðafélagi Djúpavogs

Ferðafélag Djúpavogs

Múlagljúfur við Kvísker í Öræfum

Laugardaginn 11. júní 2016

Mæting við Geysi kl. 09:00

 

Fararstjóri: Kristján Karlsson, sími 892-5887

Takið með ykkur nesti!

06.06.2016

Sjómannadagshelgin á Djúpavogi 2016

 

LAUGARDAGUR 4. júní

11:00-12:00 Útskrift Djúpavogsskóla i kirkju

12:00-14:00 Sumarhátíð foreldrafélags Djúpavogsskóla: hoppukastalar, grill, gleði og gaman fyrir alla fjölskylduna á tjaldstæðinu á Djúpavogi.

14:00- 16:00 Hoppukastalar í boði álfanna á tjaldstæðinu á Djúpavogi.

16:00-18:00 Kynning og stuttar siglingar á kajak fyrir börn og fullorðna innst í höfninni. Börn verða að mæta í fylgd með fullorðnum. Björgunarbáturinn Dröfn og sjálfboðaliðar sjá til þess að allir séu öruggir í sjónum. Öllum hjartanlega velkomið að mæta með sína eigin báta, blautbúninga, kafaragræjur eða annað skemmtilegt sjósport.

19:00 Hvetjum fólk til að panta sér borð á Hótel Framtíð og borða þar saman góðan mat i tilefni sjómannadagsins. Pöntunarsími 478-8887.

20:30-21:30 "Open mic" kvöld fyrir börn og fullorðna í Löngubúð. Hljóðkerfi tengt fyrir börn til að syngja, segja sögur, brandara eða annað skemmtilegt. Kynnir og umsjónarmaður er Ágústa Margrét sem einnig mun segja skemmtilegar barnvænar sjóarasögur.

22:00 kvöldstund fyrir fullorðna i Löngubúð. Hljóðkerfi tengt fyrir þá sem vilja syngja, segja sögur, fara með ljóð eða annað létt og skemmtilegt. Valinkunnir menn munu segja "fullorðins" sjóarasögur.

 

SUNNUDAGUR 5. júní

11:00 Sjómannadagsmessa í Djúpavogskirkju. Lifandi tónlist. Sjóarasöngvar sungnir, spilað á harmonikku og gítar. Pálmi Fannar Smárason og Ágústa Margrét Arnardóttir sjá um ritningalestur.

12:30 Dorgkeppni. Börn verða að vera í fylgd með fullorðnum.

13:30 Siglingar á trillum og bátum. Börn verða að vera i fylgd með fullorðnum. Eftir siglingu báta gefst áhugasömum tækifæri til að taka rúnt með Björgunarbátnum Dröfn.

15:00-16:30 Sjómannadags kaffi og kræsingar í Sambúð á vegum björgunarsveitarinnar Báru.
2000 kr. fyrir fullorðna.
750 kr. fyrir börn.
Frítt fyrir 5 ára og yngri.

15:00- 19:00 Hoppukastalar í boði útgerða og fiskvinnsla á Djúpavogi. Staðsettir á tjaldstæðinu á Djúpavogi. Börn undir 6 ára aldri verða að vera í fylgd með fullorðnum.

 

Óðinn Sævar og Ágústa

 

 

 

01.06.2016