Djúpavogshreppur
A A

Fréttir

Bergsveinn Ás tekur þátt í Músíktilraunum í kvöld

Fossárdælingurinn Bergsveinn Ás Hafliðason tekur þátt í Músíktilraunum í kvöld, ásamt hljómveit sinni MurMur. Bergsveinn, sem er í 10. bekk í Djúpavogsskóla, spilar á trommur en hann hefur stundað nám í trommuleik í tónskólanum frá unga aldri. Hljómsveitin MurMur var stofnuð í ágúst í fyrra og hefur farið mikinn síðustu misseri og spilað víða hér á Austurlandi. Hljómsveitina skipa ásamt Bergsveini, þeir Ívar Andri Bjarnason frá Egilsstöðum og Daði Þór Jóhannesson frá Reyðarfirði.

Í kvöld stíga þeir á stokk í Músíktilraunum, en þá hefst fyrsta undanúrslitakvöld þessarar fornfrægu keppni sem haldin hefur verið frá árinu 1982. MurMur verða fyrstir á svið. Í heildina taka 48 hljómsveitir þátt á 4 undanúrslitakvöldum. 2 hljómsveitir komast áfram eftir hvert undanúrslitakvöld. Úrslitakvöldið fer svo fram eftir viku.

Framundan er nóg um að vera hjá MurMur, en þeir munu m.a. koma fram á Hammondhátíð Djúpavogs, þann 22. apríl og á SpaceFest á Akureyri daginn eftir.

Við óskum Bergsveini og félögum góðs gengis í kvöld!

ÓB

 


MurMur: Daði Þór Jóhannesson, Ívar Andri Bjarnason og Bergsveinn Ás Hafliðason 

02.04.2016

Auglýst eftir auglýsingum í nýtt gönguleiðakort

Endurbætt gönguleiðakort fyrir Djúpavogshrepp verður gefið út í vor.

Hér með er auglýst eftir auglýsingum frá fyrirtækjum til að prýða bakhlið kortsins (sjá mynd).

 

Auglýsingum þarf að skila inn fyrir 11. apríl.

Takmarkað pláss er fyrir auglýsingar aftan á kortinu og fyrirtæki í Djúpavogshreppi eru vitanlega í forgangi.

Fyrstir panta - fyrstir fá (:

 

Auglýsingar geta verið af tveimur stærðum: 

  • 9 cm á breidd og 7,6 cm á hæð - verð: 12.000 kr.
  • 9 cm á breidd og 15,6 cm á hæð - verð: 24.ooo kr.

 

Innifalið í verðinu eru 10 stk af kortinu sem viðkomandi getur þá selt til að hafa fyrir kostaði af auglýsingunni.

Auglýsingum þarf að skila inn fullunnum og í góðri upplausn. Til eru fyrirtæki og einstaklingar m.a. í Djúpavogshreppi sem bjóða upp á þjónustu við gerð auglýsinga fyrir mjög sanngjarnt verð.

Fyrirtæki geta einnig tekið sig saman um að búa til auglýsingu

 

Auglýsingar sendist á erla@djupivogur.is fyrir 11. apríl.

 

ED

01.04.2016