Djúpivogur
A A

Fréttir

Djúpavogshreppur hlýtur 3,8 millj. kr. styrk

Djúpavogshreppur hlýtur styrk að verðmæti 3,8 milljóna króna úr Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fyrir eflingu gönguferðamennsku í Djúpavogshreppi.

Þarna kemur sterkt inn að Djúpavogshreppur er í Cittaslow þar sem áhersla er lögð á að bæta aðgengi að náttúru og gera fólki auðveldara fyrir að njóta hennar. Gönguferðamennska er "slow" ferðamennska, umhverfisvæn og þarna gerum við út að fá hingað þá ferðamenn sem við kjósum okkur: fólk sem stalrar lengur við og gefur sér tíma til að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Verkefnið er á höndum Djúpavogshrepps, en unnið í samstarfi við Ferðafélag Djúpavogs, fuglaáhugafélagið birds.is og staðkunnuga dreift um sveitir Djúpavogshrepps. T.d. hefur verið haldinn fundur um endurútgáfu gönguleiðakorts fyrir svæðið og kallað eftir tillögum um breytingar. Einnig hefur verið unnið ötullega að því undanfarið að leiðrétta staðsetningu örnefna á gönguleiðakortinu frá 2008. Þeim sem hafa komið að þeirri vinnu er hér með þakkað kærlega fyrir framlag sitt. Sérstakar þakkir fær Skúli Benediktsson fyrir einstaklega mikla hjálp.

 

Um verkefnið

Ár frá ári eykst gönguferðamennska í Djúpavogshreppi, en nokkur ár eru síðan unnið var markvisst að því að efla göngumenningu í sveitarfélaginu. Nú er svo komið að upplýsingum og þjónustu við þessa ferðamenn er orðið nokkuð ábótavant þar sem kominn er tími á almennt viðhald og endurbætur. Verkefnið snýr því að eftirfarandi þáttum sem allir lúta að því efla á ný gönguferðamennsku í heild á svæðinu:

 • Nauðsynlegt er að fara í nokkrar endurbætur á gönguleiðakorti sem gefið var út 2008. Þá viljum við auka öryggi ferðamannsins enn frekar með því að kynna safetravel.is á kortinu. Hafþór Snjólfur Helgason, landfræðingur og Austfirðingur, sem unnið hefur flest gönguleiðakort á Austurlandi mun taka að sér endurbætur á kortinu.
 • Ráðist verður í það verk að endurstikaða gönguleiðir. Skipta þarf út skemmdum stikum á stikuðum leiðum og stika leiðir sem áður voru óstikaðar. Þetta er mjög mikilvægur hluti verkefnisins, enda leiða stikur göngufólk um örugg vöð yfir ár og stig um klettabelti.
 • Merkingar munu verða settar upp við upphaf/enda gönguleiða göngufólki til upplýsingar. Þær hefur alfarið skort og það valdið óánægju og óöryggi hjá göngufólki. Komið verður fyrir korti af gönguleiðinni sem um ræðir á hverjum stað (tekið upp úr nýja gönguleiðakortinu) ásamt ýmsum upplýsingum um gönguleiðina á íslensku og ensku: áætlaðan tíma sem hún tekur, vegalend og hækkun.
 • Endurbætur verða gerðar á upplýsinga- og fræðsluskiltum sem standa á gönguleiðum sem liggja um fuglaskoðunarsvæðið á Búlandsnesi. Skipta þarf út eldri skiltum auk þess að reisa ný.  Skiltin munu fræða göngufólk um leiðirnar, ýmsar fuglategundir, sögur og sagnir af svæðinu.

Markmið verkefnisins er að styrkja svæðið sem viðkomustað ferðamanna, bæta aðgengi og öryggi þeirra sem ferðast fótgangandi um svæðið, auka upplýsingagjöf til þeirra og þar með ánægju og upplifun.

 

Umsögnin um umsóknina var eftirfarandi:

Vel unnið verkefni sem tengist annari uppbyggingu sjálfbærrar ferðamennsku í Djúpavogshreppi. Auk þess styrkir verkefnið öryggi með stikun og uppsetningu skilta.

 

Fréttin á vef Ferðamálastofu.

 

Ferða- og menningarmálafulltrúi fyrir hönd Ferða- og menningarmálanefndar

31.03.2016

Hverfaveisla!

SUNNUDAGINN 10. APRÍL KL. 15:00-17:00 VERÐUR HALDIN

HVERFAVEISLA Í ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐINNI!

 

Um er að ræða sama hverfaskipulag og haft er á 17. júní. Hverfin skarta hvert sínum lit - gulum, bleikum og appelsínugulum - og keppast um að bjóða hinum hverfunum upp á flottasta hlaðborðið. Skipulagið er galopið og það er í höndum hvers hverfis að útbúa sitt svæði. Ef veður er gott gæti verið gráupplagt að grilla, en boltinn er algjörlega í ykkar höndum (:

 

Hugmyndin er að skipta íþróttahúsinu niður í þrjú „hverfi“ og hrista okkur vel saman fyrir sumarið.

Allir mæta með með eigin drykki og borðbúnað og taka heim með sér að lokinni veislu.

 

VEITT VERÐA VEGLEG VERÐLAUN FYRIR BESTA HLAÐBORÐIÐ!

 

Leggið höfuðið í bleyti og komið nágrönnum ykkar skemmtilega á óvart.

Tökum daginn frá og skemmtum okkur vel!

 

 

Ferða- og menningarmálanefnd Djúpavogshrepps

31.03.2016

Spurningakeppni Neista 2016

Nú er komið að hinni árlegu spurningakeppni Neista.

Við hvetjum við alla áhugasama til að skrá sitt lið í gegnum neisti@djupivogur.is fyrir kl. 17:00 sunnudaginn 3. apríl.

Fyrsta keppniskvöld er 5. apríl næstkomandi.

Önnur keppniskvöld verða auglýst þegar fjöldi þátttakenda liggur fyrir.

Undankeppnnir fara fram í Löngubúð og úrslit á Hótel Framtíð.

Þátttökugjald liða 10.000 kr.

Aðgangseyrir hvert kvöld 500 kr.

Sem fyrr rennur öll innkoma til Ungmennafélagisins Neista til áframhaldandi uppbyggingar íþróttastarfs á Djúpavogi.

Við hvetjum alla til að skrá sitt lið og taka þátt í þessum samfélagslega og frábæra viðburði.

Stjórn Neista

30.03.2016

Næsta félagsvist

Næsta spilavist, sem verður sú síðasta sem félag eldri borgara stendur fyrir í bili, fer fram föstudagskvöldið 1. apríl.

Byrjum kl. 20:30.

Allir velkomnir.

Kvenfélagið Vaka mun svo taka við umsjón félagsvistarinnar næstu þrjá föstudaga þar á eftir.

Félag eldri borgara

23.03.2016

Opinn fundur um skólamál

Opinn fundur um skólamál verður haldinn miðvikudaginn 30. mars kl. 20:00 í grunnskólanum.

Dagskrá fundarins:

 • Skýrsla Skólastofunnar slf. um Djúpavogsskóla
 • Staðan í Djúpavogsskóla
 • Niðurstöður starfshóps um húsnæðismál Djúpavogsskóla
 • Reglur um dagforeldra kynntar
 • Opnar umræður

Hvetjum alla til að láta sig málið varða og mæta :)

Fræðslu-og tómstundanefnd

23.03.2016

Íþróttamiðstöðin um páskana

Um páskana verður opnunartími sem hér segir.

Skírdagur 24. mars: lokað
Föstudagurinn langi 25. mars: lokað
Laugardagur 26. mars: opið 11:00 – 15:00
Páskadagur 27. mars: lokað
Annar í páskum 28. mars: lokað

Forstöðumaður ÍÞMD

23.03.2016

Helgihald í dymbilviku og á páskadag

Skírdagur 24. mars: Fermingarmessa í Djúpavogskirkju kl. 14.00

Fermdar verða:
Eydís Una Jóhannsdóttir, Kambi 8
Hafrún Alexía Ægisdóttir, Markarlandi 1
Viktoría Brá Óðinsdóttir, Kambi 2

Föstudagurinn langi: Lestur Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í Djúpavogskirkju

Lesarar verða sóknarbörn á ýmsum aldri, þau yngstu á 13. ári, þátttakendur í stóru upplestrarkeppninni. Lesturinn hefst kl. 11.00 og lýkur væntanlega um kl. 15.30. Fólk hvatt til að koma til kirkju, hlýða á lestur um stund og þiggja vöfflur og kaffi í safnaðarheimilinu.

Páskadagur: Hátíðarguðsþjónusta kl. 9.00 í Djúpavogskirkju

Boðið til morgunverðar eftir guðsþjónustu og við deilum með okkur nokkrum páskaeggjum og lesum málshættina.

Sóknarprestur og sóknarnefnd

23.03.2016

Kynningardagurinn í þættinum Að austan

Að austan er nýr þáttur á sjónvarpsstöðinni N4 en þátturinn sá tók við af Glettum Gísla Sigurgeirssonar sem höfðu verið á dagskrá í allmörg ár. Stjórnendur eru þau Gunnar Gunnarsson, Kristborg Bóel Steinþórsdóttir og Sigríður Lund Hermannsdóttir, betur þekkt sem blaðamenn Austurgluggans og vefsíðunnar austurfrett.is

Í þriðja þætti Að austan var sýnt frá kynningardeginum á Djúpavogi sem fram fór í íþróttahúsinu í lok janúar.

Hægt er að horfa á þáttinn með því að smella hér.

ÓB

17.03.2016

Framkvæmdafréttir - Berufjarðarbotn

Í útgáfu Framkvæmdafrétta hjá vegagerðinni kemur fram að stefnt er að því að bjóða út vegagerð um Berufjarðarbotn á þessu ári en þungi framkvæmda verði 2017 - 2018. Ekki þarf að orðlengja mikilvægi þess að bundnu slitlagi verði komið á fyrir botn Berufjarðar og eru því væntingar uppi um að málið muni ganga hnökralaust eftir sem stefnt er að. Sjá meðfylgjandi úr fréttablaði vegagerðar.  

                                                                                                                                         AS 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

16.03.2016

Ferð á leiksýningu

 

Laugardaginn, 19. mars ætlar Félag eldriborgara að fara til Egilsstaða á leiksýninguna „Allra meina bót“ eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni. Lagt verður af stað kl. 14:00.  Sýning hefst klukkan 17:00.  Eftir sýningu ætlum við að fá okkur eitthvað gott að borða. 

Nokkur sæti eru laus í rútunni og myndum við hafa mikla ánægju af því ef einhverjir, á hvaða aldri sem er, vildu notfæra sér það og slást í för með okkur.  Ef þið hafið áhuga, vinsamlegast hringið í síma 868-9925 í Þórunnborg og þið fáið nánari upplýsingar.

15.03.2016

Efni í Bóndavörðuna og fundur vegna utandagskrár Hammondhátíðar

Bóndavarðan

Senn líður að útgáfu næstu Bóndavörðu - sem kennd verður við Hammondhátíðina.

Hér með er óskað eftir efni til birtingar, bæði auglýsingum og greinum.

Allra síðasti dagur til að skila inn efni er miðvikudagurinn 16. mars, annað hvort í tölvupósti eða bréfleiðis í Geysi, Bakka 1.

 

Erla Dóra Vogler,

ritstjóri

 

Utandagskrá Hammondhátíðar - fundur kl. 17:00

Senn líður að elleftu Hammondhátíð Djúpavogs með sinni stórglæsilegu dagskrá.

Hér með er kallað til fundar til að skipuleggja utandagskrá Hammondhátíðar (off venue viðburði), þ.e. aðra viðburði en þá sem hátíðarskipuleggjendur standa fyrir. Hátíðin nær auðvitað yfir fjóra daga og það væri gaman að ná saman dagskrá yfir það sem er í gangi allan þann tíma, og lang best ef ekkert (eða sem fæst) stangast á.

Bóndavarðan mun koma út í byrjun apríl og þar verður utandagskrá hátíðarinnar birt. Stefnt er að því að efni fyrir Bóndavörðuna skilist inn fyrir 14. mars þannig að það liggur á að hefjast handa við skipulagningu.

Viðburðirnir þurfa alls ekki að vera bundnir við Djúpavog, heldur væri skemmtilegt að dreifa þeim um allt sveitarfélagið. Uppi eru ýmsar skemmtilegar hugmyndir um viðburði, s.s. gönguferðir, leiki í sundlauginni eða jafnvel einhvers konar tónleika, heimboð á sveitabæi, upplestra… Því fjölbreyttari dagskrá, því betra. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fundur til að skipuleggja utandagskrána, fara í hugmyndavinnu og önnur skemmtilegheit verður haldinn:

Í Geysi

Mánudaginn 14. mars

Kl. 17:00

Allir eru velkomnir á fundinn - ungir sem aldnir, fyrirtæki jafnt sem einstaklingar.

Ef einhver kemst ekki á fundinn, en vill taka þátt eða ef einhver er með frábærar hugmyndir sem sá hinn sami getur/vill ekki framkvæma sjálfur, en vill koma á framfæri, þá endilega hafið samband við Erlu Dóru Vogler (s. 470 8703, erla@djupivogur.is), ferða- og menningarmálafulltrúa.

ED

14.03.2016

Sveitarstjórn: Fundargerð 10.03.2016

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

11.03.2016

Djúpavogshreppur auglýsir eftir minkaveiðimönnum

Djúpavogshreppur auglýsir eftir minkaveiðimönnum til starfa í Djúpavogshreppi til eins árs frá og með maí 2016.

Greiðslur til minkaveiðimanna verða eftirfarandi:

Aksturstaxti 117.- kr./km.
Tímakaup fyrir grenjaleit verður kr. 1.500.-
Verðlaun fyrir unnin dýr eru: Fullorðin dýr: kr. 3.000. Hvolpar kr. 3.000.
Fyrir hvolpafullar læður, veiddar e. 15. apríl skal auk þess gr. fyrir ígildi 4ja hvolpa.
Æskilegt er að í umsóknum komi fram upplýsingar um; tækjakost, hundakost og eftir atvikum um aðstoðarmenn.

Gengið verður frá sérstökum samningum við veiðimenn líkt og undanfarin ár.

Vakin er athygli á að samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins eru 700.000 kr. ætlaðar til minkaveiða í ár.

Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2016. Umsóknir og frekari fyrirspurnir berist skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpivogur /netfang: sveitarstjori@djupivogur.is

Sveitarstjóri

11.03.2016

Djúpavogshreppur auglýsir eftir refaveiðimönnum

Djúpavogshreppur auglýsir eftir refaveiðimönnum til starfa á eftirtalin veiðisvæði í Djúpavogshreppi til eins árs frá og með miðjum maí 2016:

Svæði 1: Streiti til og með Berufirði (að Selnesi)
Svæði 2: Fossárdalur að Hamarsá (Lindarbrekka meðtalin)
Svæði 3: Sunnan Hamarsár að Múlahálsi
Svæði 4: Múlaháls að hreppamörkum í Hvalnesskriðum (Hærukollsnes meðt.)

Greiðslur til refaveiðimanna verða samkvæmt tillögum landbúnaðarnefndar frá 3. mars 2016. Drögin verða send / afhent þeim, er þess óska.

Vakin er athygli á að samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er 1,25 milljón kr. ætluð til refaveiða í ár.

Umsóknarfrestur er til 1. maí 2016. Umsóknir og frekari fyrirspurnir berist skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpivogur eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is.

Sveitarstjóri

11.03.2016

Auglýst eftir umsóknum fyrir styrki

Átak til atvinnusköpunar

Nú er opið fyrir umsóknir í Átak til atvinnusköpunar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ég hvet ykkur eindregið að deila eftirfarandi upplýsingum á heimasíðu ykkar sveitafélags og þar með hvetja íbúa sem eiga nýsköpunarhugmynd á fyrstu stigum til að sækja um:

http://nmi.is/frettir/2016/03/opid-fyrir-umsoknir-i-atak-til-atvinnuskoepunar/

 

 

Umhverfissjóður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna

Umhverfissjóður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna veitir styrki á tveggja ára fresti.  

Fyrirtæki, einstaklingar, eignarhaldsfélög, félagasamtök, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta fengið framlög frá sjóðnum. Umsóknaraðilar geta einnig verið í samstarfi við nokkra aðila. 

Umsóknafrestur rennur út 10. april 2016.

 

Nánar hér.

Eða hjá:

 

Andreu Burgherr

Alferðadeild - Incoming groups

andrea@mountainguides.is

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn - Icelandic Mountain Guides
Íslands Flakkarar - Iceland Rovers

Tel:  +354 587 9999
Direct nr:+354 522 4991
Fax:+354 587 9996
Address:Stórhöfði 33, 110 Reykjavík, Iceland

www.mountainguides.is

www.icelandrovers.is

 


 

 

11.03.2016

Guðsþjónusta og messukaffi fermingarbarna

Guðsþjónusta og messukaffi fermingarbarna verður í Djúpavogskirkju sunnudaginn 13. mars kl. 14:00. 

Börn og unglingar taka virkan þátt í helgihaldinu. 

Verum öll hjartanlega velkomin,

sóknarprestur

11.03.2016

4G komið í Djúpavogshrepp

Frá og með gærdeginum er komið 4G samband í Djúpavogshreppi.

„4G kerfi Símans er komið upp á fjölmennustu stöðunum og vinsælustu ferðamannasvæðum landsins. Við hjá Símanum ætlum þó að gera betur og stefnum að því að ná til 93,5% landsmanna í lok árs,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

Farsímanetið verður æ mikilvægara í nútímasamfélagi. „Við sjáum að gagnanotkunin á farsímaneti Símans eykst gríðarlega milli ára. Hún jókst um rétt tæp 75% að jafnaði milli áranna 2014 og 2015. Við yrðum ekki hissa þótt hlutfallið yrði hærra nú milli ára.“

Síminn tilkynnti í ágúst um nýjan fimm ára samstarfssamning við Ericsson um frekari útbreiðslu og öflugra farsímanet Símans hér á landi. Samhliða uppsetningu 4G LTE snjallsenda verður farsímakerfið allt uppfært til að tryggja uppbyggingu netkerfis á heimsmælikvarða.

4G sendar Símans styðja allt að 100 Mb/s og virka bæði fyrir 4G farsíma og spjaldtölvur. Jafnframt hefur átt sér stað markviss uppbygging á 3G dreifikerfinu og styðja því öflugustu sendarnir allt að 42 Mb/s hraða. Eigendur öflugra 3G snjalltækja geta því notað tækin á enn meiri hraða á 3G neti Símans.

Hafa ber í huga að hraði yfir farsímakerfi miðast alltaf við fjölda samtímanotenda og fjarlægð frá sendi. Raunverulegur hraði sem næst yfir 3G og 4G kerfi er því alltaf minni en hámarkshraði sem sendarnir styðja. Þannig má gera ráð fyrir að yfir 4G verði algengur hraði um 20 – 40 Mb/s við góð skilyrði.

Nánar um 4G.

Hér að neðan er samanburðartafla fyrir farsímakerfi, tengingin í Djúpavogshreppi er 4G (LTE)

ÓB

 

09.03.2016

Félagsvist í Löngubúð

 

Félag eldri borgara sér um spilavistina í Löngubúð næstu þrjú föstudagskvöld. Spilað verður eftirfarandi kvöld:

Föstudaginn 11. mars, kl. 20:30

Föstudaginn 18. mars, kl. 20:30

Föstudaginn 1. apríl, kl. 20:30 

Félag eldri borgara

09.03.2016

Fréttir af Kvenfélaginu Vöku

 

Starfsárið okkar er frá október og fram í maí. Fundir eru haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði nema aðalfundur sem alltaf haldinn 9. desember, en þann dag árið 1928 var félagið stofnað.

 

Í dag eru 24 konur í félaginu. Fastir liðir hjá félaginu eru sala á blómum fyrir bóndadaginn, bollusala fyrir bolludaginn, bingó, sala á sumarblómum, kertasala, félagsvist, erfidrykkjur og jólamarkaður. Allur peningur sem við söfnum rennur til íbúa í sveitarfélaginu.

 

Á árinu 2015 styrktum við m.a. þessi verkefni:

 • 500.000 kr. til kaupa á orgeli fyrir Djúpavogskirkju.
 • 100.000 kr. til kaupa á líkkistustandi sem snýst, stöngum og ólum sem notuð eru ef fleiri en sex manns vilja halda undir kistu.
 • 230.000 kr. til kaupa á rólum fyrir yngstu börnin í leikskólanum.
 • 110.000 kr. til kaupa á hægindastól í Tryggvabúð.
 • Einnig styrktum við þrjár fjölskyldur um samtals 450.000 kr.

Vökukonur sáu um veitingar á opnunarhátíð listasýningarinnar Rúllandi snjóbolta/6, Djúpivogur í Bræðslunni.

 

 

Við þökkum öllum þeim sem tóku vel á móti okkur á árinu,

Vökukonur

08.03.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 10.03.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 10.03.2016
21. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 10. mars 2016 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:

1. Fundargerðir

a) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. janúar 2016.
b) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 10. febrúar 2016.
c) Stjórn SSA, dags. 11. febrúar 2016.
d) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 12. febrúar 2016
e) Stjórn SSA, dags. 16. febrúar 2016.
f) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 18. febrúar 2016.
g) Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 18. febrúar 2016.
h) Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, dags. 19. febrúar 2016
i) Framkvæmdastjórn Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 24. febrúar 2016
j) Fundur sveitarstjóra um ljósleiðaravæðingu, dags. 24. febrúar.
k) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 24. febrúar 2016.
l) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. febrúar 2016.
m) Landbúnaðarnefnd, dags. 3. mars 2016.
n) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 8. mars 2016.

2. Erindi og bréf

a) Austurbrú, þjónustusamningur við sveitarfélög vegna 2016, dags. 8. febrúar 2016.
b) Heimili og skóli, ályktun um niðurskurð í leik- og grunnskólum, dags. 11. febrúar 2016.
c) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, svæðisáætlanir um meðferð úrgangs, dags. 12. febrúar 2016.
d) Félagsmálanefnd, gjaldskrá heimaþjónustu, dags. 16. febrúar 2016.
e) Skólastjóri Djúpavogsskóla, Læsisstefna Djúpavogsskóla, dags. 17. febrúar 2016.
f) Stjórn SSA, tilnefning fulltrúa í starfshóp um svæðisskipulag á Austurlandi, dags 29. febrúar 2016.
g) Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, fjárhagsáætlun 2016-2019, dags. 29. febrúar 2016

3. Innkaupareglur
4. Kerhamrar – afmörkun lóðar
5. Staðan á húsnæðismarkaði á Djúpavogi
6. Skýrsla um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og áhrif þess á byggðafestu
7. Flutningur þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga
8. Húsnæðismál Djúpavogsskóla
9. Samþykkt um byggingarleyfisgjöld
10. Ljósleiðaravæðing Djúpavogshrepps
11. Skýrsla sveitarstjóra

Djúpavogi 4. mars 2016

Sveitarstjóri

07.03.2016

Utandagskrá Hammondhátíðar - skipulagningarfundur

Senn líður að elleftu Hammondhátíð Djúpavogs með sinni stórglæsilegu dagskrá.

Hér með er kallað til fundar til að skipuleggja utandagskrá Hammondhátíðar (off venue viðburði), þ.e. aðra viðburði en þá sem hátíðarskipuleggjendur standa fyrir. Hátíðin nær auðvitað yfir fjóra daga og það væri gaman að ná saman dagskrá yfir það sem er í gangi allan þann tíma, og lang best ef ekkert (eða sem fæst) stangast á.

Bóndavarðan mun koma út í byrjun apríl og þar verður utandagskrá hátíðarinnar birt. Stefnt er að því að efni fyrir Bóndavörðuna skilist inn fyrir 14. mars þannig að það liggur á að hefjast handa við skipulagningu.

Viðburðirnir þurfa alls ekki að vera bundnir við Djúpavog, heldur væri skemmtilegt að dreifa þeim um allt sveitarfélagið. Uppi eru ýmsar skemmtilegar hugmyndir um viðburði, s.s. gönguferðir, leiki í sundlauginni eða jafnvel einhvers konar tónleika, heimboð á sveitabæi, upplestra… Því fjölbreyttari dagskrá, því betra. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fundur til að skipuleggja utandagskrána, fara í hugmyndavinnu og önnur skemmtilegheit verður haldinn:

Í Geysi

Mánudaginn 14. mars

Kl. 17:00

Allir eru velkomnir á fundinn - ungir sem aldnir, fyrirtæki jafnt sem einstaklingar.

Ef einhver kemst ekki á fundinn, en vill taka þátt eða ef einhver er með frábærar hugmyndir sem sá hinn sami getur/vill ekki framkvæma sjálfur, en vill koma á framfæri, þá endilega hafið samband við Erlu Dóru Vogler (s. 470 8703, erla@djupivogur.is), ferða- og menningarmálafulltrúa.

ED

07.03.2016

Greinar og auglýsingar í hammondútgáfu Bóndavörðunnar

Þá fer að líða að útgáfu næstu Bóndavörðu - sem kennd verður við Hammondhátíðina.

Hér með er óskað eftir efni til birtingar, hvort sem eru auglýsingar eða greinar. 

 

 

Efni berist fyrir mánudaginn 14. mars, annað hvort í tölvupósti eða bréfleiðis í Geysi, Bakka 1.

 

Erla Dóra Vogler,

ritstjóri

07.03.2016

Myndasýning í Tryggvabúð í dag

Það verður myndasýning í Tryggvabúð í dag, 7. mars kl. 17:00.

Allir velkomnir.

 

06.03.2016

Frá Djúpavogskirkju

Kirkjuskóli í Djúpavogskirkju sunnudaginn 6. mars kl. 11:00.

Jóhanna, József og Sjöfn

04.03.2016

Stóra upplestrarkeppnin

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar verður haldin í Djúpavogskirkju miðvikudaginn 2. mars.
Keppnin hefst klukkan 14:00 og eru allir velkomnir.
Aðgangur er ókeypis og verða kaffiveitingar í boði í hléi.

Nemendur 7. bekkjar Djúpavogsskóla etja kappi við nemendur frá Grunnskóla Hornafjarðar.

Ég hvet ykkur öll til að mæta á skemmtilegan menningarviðburð.

Halldóra Dröfn, skólastjóri

Félag eldri borgara - fundarboð

Fundur verður haldinn hjá Félagi eldri borgara, föstudaginn 4. mars kl. 14:00 í Tryggvabúð.

 

Stjórnin

02.03.2016

Fyrirlestrar í Breiðdalssetri á laugardaginn

 

Næstkomandi laugardag, 5. mars kl. 13:30-15:30, verða haldnir þrír fyrirlestrar í Breiðdalssetri í tilefni þess að jarðfræðingurinn og bretinn George P.L. Walker sem kortlagði Breiðdalseldstöðina hefði orðið 90 ára í mars á þessu ári.

Meðal annars mun Ómar Bjarki Smárason segja frá stöðu jarðhitaleitar á Austurlandi, þ. á m. á við Djúpavog. Sjá dagskrána nánar hér að neðan.

 

 

 

 

 

01.03.2016