Djúpivogur
A A

Fréttir

Rafmagnsleysi á Djúpavogi aðfaranótt föstudags

Straumlaust verður í hluta Djúpavogs aðfaranótt föstudagsins 30.10.2015 frá miðnætti til 03:00 vegna viðgerða í spennistöðvum.
Nánar tiltekið við Búland, Steina, Hraun, Hamra, Hlíð og hluta Markarlands.

Bilanasími Rarik er 5289790

RARIK ohf.

29.10.2015

Sinfóníuhljómsveit Íslands - báðum tónleikunum aflýst

Búið er að aflýsa báðum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem áttu að vera á Egilsstöðum í dag vegna ókyrrðar í lofti.

Stefnt er því að tónleikarnir verði haldnir fljótlega.

Vinsamlegast látið þetta berast ef mögulegt er.

 

29.10.2015

Dagar myrkurs í Djúpavogshreppi í algleymingi

Dagar myrkurs standa yfir um allt Austurland dagana 28. okt. – 1. nóv.

Í ár verður þema Daga myrkurs í Djúpavogshreppi: kertaljós og kósíheit. Kynnið ykkur dagskrá okkar Daga myrkurs hér að neðan og í viðburðadagatalinu hér til hliðar. 

Þakkir fá þau félög, fyrirtæki og stofnanir sem standa að viðburðum á þessu tímabili: Félag eldri borgara, Íþróttamiðstöð Djúpavogshrepps, Skógræktarfélag Djúpavogs, Kvenfélagið Vaka og Djúpavogskirkja.

 

Njótum myrkursins saman næstu dagana,

Djúpavogshreppur

ED

 

29.10.2015

Safnahelgi á suðurlandi

Nágrannar okkar af suðurlandi vekja athygli á Safnahelgi á Suðurlandi, sem fer fram núna um helgina.

Frekari upplýsingar um Safnahelgina er að finna á plakatinu hér að neðan og hér.

 

 

 

 

 

 

 

29.10.2015

Rökkurréttir á Hótel Framtíð

Sjá hér að neðan auglýsingu frá Hótel Framtíð vegna rökkurrétta á Dögum myrkurs.

Við vekjum athygli á að tímasetningin er 17:00 - 21:00 alla dagana en ekki 17:00 - 19:00 eins og misritaðist í auglýsingum frá Djúpavogshreppi.

ÓB

 

 

 

 

 

28.10.2015

Árshátíð grunnskólans

Ég vil vekja athygli á því að ákveðið hefur verið að færa árshátíð grunnskólans fram um einn dag.  Hún verður því fimmtudaginn 5. nóvember klukkan 18:00 á Hótel Framtíð !!!
Allir að taka daginn frá.  Sýning þessa árs er "Emil í Kattholti."
Nánar auglýst síðar

Skólastjóri

Fundur með Stuðningsaðilum Cittaslow

Haldinn verður fundur með Stuðningsaðilum Cittaslow í Djúpavogshreppi 2. nóvember, kl. 20:00 í Geysi.

Nýir meðlimir eða aðrir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!

 

Eftirtalin fyrirtæki og félagasamtök eru nú þegar Stuðningsaðilar Cittaslow í Djúpavogshreppi:

Bragðavellir Cottages - www.bragdavellir.is 

Adventura ehf. - www.adventura.is

Hótel Framtíð - www.hotelframtid.com

Kvenfélagið Vaka - kvenfélagið

Íþróttamiðstöð Djúpavogs - íþróttamiðstöð

Við Voginn

Arfleifð - www.arfleifd.is

Langabúð

Landsbankinn - www.landsbankinn.is

Havarí - www.havari.is

 

Stuðningsaðilar Cittaslow í Djúpavogshreppi

 • Hafa í heiðri hugmyndafræði Cittaslow og starfa samkvæmt henni.
 • Eru tilbúnir til að skuldbinda sig til að fylgja viðmiðum Cittaslow sem sett eru fram af hálfu Cittaslow International á hverjum tíma.
 • Sýna ofangreind atriði í vilja og verki t.d. með þátttöku í þróun verkefna og tilfallandi viðburðum tengdum Cittaslow í Djúpavogshreppi, s.s. Cittaslow Sunday.
 • Stuðningsaðilar eru opnir fyrir samstarfi við aðra Stuðningsaðila Cittaslow innan sveitarfélagsins um framleiðslu, þróun, sölu og notkun á staðbundnum afurðum og þjónustu.
 • Eigendur og starfsmenn geta miðlað grunnupplýsingum um Djúpavogshrepp og hugmyndafræði Cittaslow, kynna samtökin og þátttöku fyrirtækisins eftir föngum, s.s. í bæklingum og á vefsíðu.
 • Eigendur gæta að því að merkingar utandyra falli vel að umhverfinu og séu í samræmi við reglur og viðmið Cittaslow International og Djúpavogshrepps.
 • Starfsfólk sýnir góða þjónustulund og jákvætt viðmót.
 • Byggingum og nærumhverfi fyrirtækis er vel við haldið þannig að það sé snyrtilegt og aðlaðandi.

Merki Cittaslow er gæðastimpill og loforð um uppruna afurða og/eða þjónustu í Djúpavogshreppi. 

 

Tilgangur fundarins er að allir Stuðningsaðilar Cittaslow í Djúpavogshreppi hittist ásamt fulltrúa sveitarfélagsins og farið verði yfir hvernig hægt sé að nýta betur og efla tenginguna við Cittaslow í Djúpavogshreppi og hvað leggja megi áherslu á hjá hverju fyrirtæki sem Cittaslow.

Því sýnilegra sem Cittaslow er, því sterkara er merkið sem kynning á sveitarfélaginu sem og fyrirtækjunum/félögunum sem eru Stuðningsaðilar. Allt vinnur þetta saman að því að gefa flotta og aðlaðandi heildarmynd af sveitarfélagi sem er með rétta hugsjón og viðmið.

 

Þátttaka Djúpavogshrepps í Cittaslow var auglýst talsvert í sumar – skilti voru sett upp, sérstakt rými inni á upplýsingamiðstöðinni var helgað Cittaslow í Djúpavogshreppi og sagt var frá Cittaslow í öllu kynningarefni sem sent var út eða sett í bæklinga. Þá voru settar inn upplýsingar um Cittaslow og Stuðningsaðila Cittaslow á vefsíðu Djúpavogshrepps bæði á ensku og íslensku. Þetta hafði talsverð áhrif og margir spurðu um snigilinn og vildu vita meira, eða þekktu Cittaslow og höfðu áhuga á að vita meira um hvað væri Cittaslow í Djúpavogshreppi.

Á ársfundi norðurlandanets Cittaslow samtakanna í Ulvik, Noregi, sl. september var ákveðið að næsti ársfundur samtakanna yrði haldinn hér í Djúpavogshreppi 24.-26. maí 2016. Þá verður gaman að sýna fulltrúum annarra Cittaslow samfélaga hvað er Cittaslow í Djúpavogshreppi.

23.10.2015

MurMur leikur í Sköpunarmistöðinni á Stöðvarfirði

Hljómsveitin MurMur, með trommuleikaranum og Djúpavogsbúanum Bergsveini Ási Hafliðasyni, mun leika í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði á Dögum myrkurs, 30. október, kl. 21:00.

Aðgangseyrir kr. 1.000,-

Eins og kom fram í síðustu Bóndavörðu stefna strákarnir í hljómsveitinni á að taka þátt í Músíktilraunum 2016. Þeir sem vilja leggja strákunum lið og styrkja þá aukalega er bent á reikning 0175-05-070425, kt. 1130798-4389 (Ívar Andri Bjarnason) og skrifa "MurMur" sem skýring greiðslu.

 

23.10.2015

Djúpavogshreppur auglýsir eftir starfsfólki í liðveislu

Djúpavogshreppur auglýsir eftir fólki til að vera liðveitendur fyrir börn og/eða unglinga.

Liðveislan felst í því að rjúfa félagslega einangrun og aðstoða einstaklinginn við að taka þátt í ýmis konar uppbyggilegu tómstundastarfi s.s. útivist og hreyfingu. Vinnutími getur verið breytilegur.

Hæfniskröfur:
• Sveigjanleiki og færni í mannlegum samskiptum
• Frumkvæði og sjálfstæði í starfi
• Stundvísi og áreiðanleiki

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélög.

Upplýsingar gefur Þorbjörg í síma 470 0705, thorbjorgg@egilsstadir.is.
Upplýsingar fást einnig á skrifstofu Djúpavogshrepps, 478-8288.

Sveitarstjóri

22.10.2015

Sveitarstjórn: Fundargerð 16.10.2015

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

19.10.2015

Djúpavogshreppur auglýsir Löngulág 10 til sölu

Til sölu fjárhús í Löngulág 10. Byggt 2006.

Stærð húss 61m². Stendur á 1.966m² leigulóð í eigu Djúpavogshrepps.

Óskað er eftir tilboðum í eignina fyrir 1. nóvember 2015.

Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu Djúpavogshrepps.

Sveitarstjóri

 

 

 

 


Langalág 10

19.10.2015

Myndasýning í Tryggvabúð í dag kl 17:00

Minnum á myndasýningu í Tryggvabúð í dag mánudaginn 19. október kl. 17:00. 

Andrés og Ólafur munu sem áður varpa myndum upp á tjald frá ýmsum tímum og jafnhliða skrá myndefni eftir því sem þörf er á með góðri aðstoð gesta. 

Allir velkomnir.
 

 

 

 

 

 Við Skála á Berufjarðarströnd - mynd í eigu Hjalta Ólafssonar 

 

 

19.10.2015

Frá Ferðafélagi Djúpavogs - Aðalfundur

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs verður haldinn í Löngubúð þriðjudaginn 20. október kl. 20:00.

Fundurinn átti upphaflega að vera 15. október en vegna óviðráðanlegra orsaka þurfti að fresta honum.

Dagskrá: venjuleg aðalfundarstörf

Félagar hvattir til að mæta og nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

14.10.2015

Auglýsing um breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Hringvegur...

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti þann 29. september 2015 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020, skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan tekur til breyttrar legu Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglínu Z.

Skipulagsuppdráttur ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu mun liggja frammi til kynningar í skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, Djúpavogi og hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík frá 14. október til 25. nóvember 2015. Einnig mun tillagan vera aðgengileg hér að neðan og undir liðnum Aðalskipulag.

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til sveitarstjóra Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpavogi eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is, eigi síðar en 25. nóvember 2015. Vinsamlegast gefið upp nafn, kennitölu og heimilisfang sendanda innsendra ábendinga og athugasemda. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan gefins frests telst vera henni samþykkur.

Sveitarstjóri Djúpavogshrepps

Umhverfisskýrsla
Greinargerð

14.10.2015

Sveitarstjórinn í fréttum vegna bensíndælanna

Gauti Jóhannesson var í vikunni í viðtali við Rúnar Snæ Reynisson, fréttamann RÚV, um þetta endalausa vesen sem fylgt hefur bensíndælum N1 á Djúpavogi. Bilanir hafa verið tíðar og það ítrekað komið fyrir að ferðamenn og aðrir hafi orðið strandaglópar hér á Djúpavogi vegna þessa. Það kom vel á vondan daginn eftir viðtalið, því þá vildi svo skemmtilega til að dælurnar biluðu. 

Viðtalið má sjá með því að smella hér og hér að neðan eru myndir af ástandinu í gær.

ÓB

 

 

 

 

14.10.2015

Nýr bíll björgunarsveitarinnar Báru

Síðastliðinn sunnudag tók Björgunarsveitin Bára á móti glænýrri bifreið af gerðinni Toyota Hilux á 38" dekkjum.

Bíllinn er mjög vel útbúinn með öllu því helsta sem prýðir góðan bjorgunarsveitabíl.

Ákveðið var að bifreiðinni skyldi gefið nafnið Garðar, en Garðar Reimarsson ánafnaði Bjsv. Báru allar sínar eigur við andlát sitt.

Björgunarsveitin Bára bíður bæjarbúum og öðrum sem áhuga á hafa að koma og líta bifreiðina augum og skoða húsakynni sveitarinnar milli 12 og 14 á laugardaginn 17. október.

Boðið verður uppá kaffi og léttar veitingar.

Sveitin minnir ennfremur á styrktarreikning sinn, hverjum þeim sem styrkja vilja kaup þessi og starf sveitarinnar, en það er allt saman unnið í sjálfboðavinnu af félögum Bjsv. Báru.
Reikningsnúmerið er 0169-26-31092, kt: 480982-0379

Ingi Ragnarsson
Formaður Bjsv. Báru, Djúpavogi

Djúpavogshreppur óskar Björgunarsveitinni Báru innilega til hamingju með þennan glæsilega bíl.

ÓB

 

14.10.2015

Sveitarstjórn: Fundarboð 16.10.2015

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 16.10.2015

16. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps föstudaginn 16. október 2015 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni – Fjárhagsáætlun 2016

2. Fundargerðir

a) Heilbrigðisnefnd Austurlands, dags. 2. september 2015.
b) Stjórn Brunavarna á Austurlandi, dags. 4. september 2015.
c) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. september 2015.
d) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 15. september 2015.
e) Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags 21. september 2015.
f) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 21. september 2015.
g) Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 22. september 2015.
h) Félagsmálanefnd, dags. 23. september 2015. Lögð fram til kynningar.
i) Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, dags. 25. september 2015.
j) Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 1. október 2015.
k) Hafnarnefnd, dags. 6. október 2015.
l) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 13. október 2015.
m) Fræðslu og tómstundanefnd, dags. 14. október 2015.

3. Erindi og bréf

a) Skólastjórafélag Austurlands, dags. 23. september 2015. Ályktun vegna kjarasamninga.
b) Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, dags. 24. september 2015. Styrkbeiðni.
c) Heimili og skóli, dags. 25. september 2015. Ályktun vegna gervigrasvalla og eiturefna í dekkjakurli.
d) Ungliðahreyfing Slow Food á Íslandi, dags. 28. september 2015. Styrkbeiðni vegna ferðar ábúenda á Karlsstöðum á ráðstefnuna We Feed the Planet.
e) Kálkur ehf, dags. 4. október 2015. Heimild til breytinga á rekstrarformi Ríkarðsafns í Löngubúð.
f) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. október 2015. Móttaka sveitarfélaga á flóttamönnum.
g) Kristín Rögnvaldsdóttir, stofnun lóðar undir sumarhús Múli II, dags. 12. október 2015.
h) Félag eldri borgara, öldungaráð, dags. 12. október 2015.

4. Sala á Löngalág 10
5. Þjónusta N1 á Djúpavogi
6. Grenndarkynning – Hamrar 6
7. Skýrsla sveitarstjóra


Djúpavogi 13. október 2016

sveitarstjóri

14.10.2015

Íbúafundur nr. 2 - deiliskipulag á miðsvæði

 
 

Opin íbúafundur nr. 2 um deiliskipulag á miðsvæði Djúpavogs verður haldinn í Löngubúð fimmtudaginn 15.okt. 2015 kl 17:30.

Á fundinn mun mæta Páll J Líndal  fulltrúi skipulagsskrifstofu TGJ  

Dagskrá

Miðsvæði Djúpavogs.
Kynntar verða frumhugmyndir að deiliskipulagi miðsvæðisins á Djúpavogi, þar sem fulltrúi TGJ mun meðal annars fara yfir helstu forsendur sem lagðar hafa verið til grundvallar við undirbúningsvinnu sem skipulags-framkvæmda og umhverfisnefnd Djúpavogshrepps hefur samþykkt að leggja upp með.  
Að lokinni kynningu verður viðhaft sama fyrirkomulag og á síðasta íbúafundi þar sem efnt var til umræðu meðal fundarmanna um framtíðarþróun á miðsvæðinu og óskað eftir hugmyndum og ábendingum.

Jafnframt verða kynntar niðurstöður frá síðasta íbúafundi og er markmiðið nú að taka í framhaldi til umræðu þau svæði sem eftir stóðu á deiliskipulagssvæðinu. 


Bent skal á að íbúafundir sem þessir eru ekki lögbundnir við gerð deiliskipulags á þessu stigi máls en hér er hinsvegar litið svo á að gott sé að gefa íbúum kost á að koma ábendingum á framfæri strax á fyrstu stigum áður en hið lögbundna ferli og vinna hefst við mótun skipulagsins.
.   

                                                      Hér með eru íbúar hvattir til að mæta

                                                                 F.h. Djúpavogshrepps
                                                        Andrés Skúlason oddviti / form. SFU

13.10.2015

Auglýsing um breytingu á Aðalskipulagi: Hringvegur

Auglýsing um breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020: Hringvegur um Berufjarðarbotn

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti þann 29. september 2015 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020, skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan tekur til breyttrar legu Hringvegar um Berufjarðarbotn - veglínu Z.

Skipulagsuppdráttur ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu mun liggja frammi til kynningar í skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, Djúpavogi og hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík frá 14. október til 25. nóvember 2015. Einnig mun tillagan vera aðgengileg á heimasíðu Djúpavogshrepps: www.djupivogur.is undir liðnum Aðalskipulag.

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til sveitarstjóra Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpavogi eða á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is, eigi síðar en 25. nóvember 2013. Vinsamlegast gefið upp nafn, kennitölu og heimilisfang sendanda innsendra ábendinga og athugasemda. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan gefins frests telst vera henni samþykkur.

 

Skipulagsuppdráttur og greinagerð

Umhverfisskýrsla

 

Sveitarstjóri Djúpavogshrepps

 

 

 

13.10.2015

Auglýst eftir verkefnastjóra á Djúpavog

Nýsköpunarmiðstöð Íslands auglýsir eftir sjálfstæðum og skipulögðum starfsmanni sem getur tekist á við fölbreytt og krefandi störf við verkefnastjórnun, atvinnuþróun og þjónustu við frumkvöðla og fyrirtæki. Starfsmaðurinn vinnur að verkefnum á landinu öllu en hefur starfsstöð á Djúpavogi og verður stór hluti verkefna unnin á Austurlandi. Um fullt starf er að ræða.

Sjá nánar hér að neðan.

 

 

 

 

 

12.10.2015

"Með allt á hreinu" til sölu

Hægt er að panta eintak af árshátíðinni 2014 (Með allt á hreinu) með því að hringja í 478-8246 eða senda tölvupóst á skolastjori@djupivogur.is 

Vinsamlegast pantið fyrir 15.10.

Skólastjóri

Leiksýningin Eldklerkurinn í Djúpavogskirkju á sunnudaginn

Möguleikhúsið sýnir leik­sýninguna Eldklerkinn í Djúpavogskirkju sunnu­daginn 11. október kl. 20:00. Verkið byggir á ævisögu Jóns Steingríms­sonar og Eldriti hans.

 

Eldklerkurinn Jón Stein­grímsson er kunnastur fyrir eldmessuna er hann flutti í miðjum Skaftár­eldum, en hver var hann, hvaðan kom hann og hver urðu örlög hans? Hér er sögð saga frá 18. öld af góðum bónda, lækni og presti sem þarf að takast á við afleiðingar skelfilegustu náttúruhamfara Íslandssögunnar á tímum örbirgðar og undirokunar.

“Árið 1783 þann 8. júní, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil, kom upp fyrir norðan næstu byggðafjöll á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna”. 

Þannig segir séra Jón Steingrímsson frá upphafi Skaftárelda í eldriti sínu. Jón var prófastur Vestur-Skaftfellinga á árunum 1778-1791 og sjónarvottur að eldsumbrotunum og áhrifum þeirra. Frá honum eru komnar nákvæmustu lýsingarnar af Skaftáreldum sem varðveittar eru, auk þess sem sjálfsævisaga hans er einstakt rit innan íslenskrar bókmenntasögu og gefur góða sýn inn í daglegt líf og hugmyndaheim fólks á 18. öld. Skarpskyggni Jóns endurspeglast víða í ritum hans og eru lýsingar á Skaftáreldum glöggt dæmi um það.

Leikverkið byggir að mestu á skrifum Jóns, en um leið vekur það spurningar um hliðstæður við hamfarir af völdum manna og náttúru sem yfir þjóðina hafa dunið á síðustu árum.

Höfundur handrits og leikari er Pétur Eggerz, leikstjóri Sigrún Valbergsdóttir, leikmynd gerði Rósa Sigrún Jónsdóttir, búninga Thelma Björnsdóttir og hljóðmynd er eftir Guðna Franzson.

 

Almennt miðaverð er kr. 3.500, en kr. 2.800 fyrir eldri borgara, öryrkja og nemendur.

Miðasala verður við innganginn.

 

Hótel Framtíð, Djúpavogskirkja og Djúpavogshreppur styrkja sýninguna.

 

 

Úr gagnrýni um sýninguna:

„Pétur og Sigrún hafa unnið þetta verk af alúð“ Silja Aðalsteinsdóttir

„Þessi handritsgerð öll er afburða vel heppnuð og Pétur er sjálfur góður sögumaður sem heldur okkur föstum í tvo klukkutíma (...) Afar vel heppnuð tilraun til að endursegja eitt af höfuðritum bókmenntanna og veita innsýn inn í eitt dramatískasta tímabil Íslandssögunnar.“ Jón Viðar Jónsson

„Því verður hiklaust haldið fram að Eldklerkurinn sé með bestu einleikjum, sem sést hafa á sviði hér á landi að undanförnu.“ Arnþór Helgason

 

 

 

08.10.2015

Trjágróður í boði

Grisjun í gangi.

Viðja, há tré. Alaskavíðir, mjög stór tré, eða greinar (sprotar) og allt þar á milli. (Ýmis afbrigði).

Gulvíðir, gljávíðir, Heggstaðavíðir. Aspar, há tré og allt þar á milli.

Berjarunnar, einkum rifs- og sólber.

Sími 478-8867.

07.10.2015

Dagar myrkurs - hugmyndafundur í dag!

Dagar myrkurs færast nú sífellt nær og standa yfir dagana 28. október - 1. nóvember um allt Austurland. 

Opinn hugmyndafundur verður því haldinn um framkvæmd Daga myrkurs í Djúpavogshreppi í Geysi í dag, miðvikudaginn næstkomandi, 7. október, kl. 17:00.

 

Ef þú ert með hugmynd um hvað þig langar til að sé að gerast á Dögum myrkur þá skaltu endilega mæta á fundinn.

Hittumst, kynnum okkar hugmyndir, fáum nýjar og skipuleggjum dagana þannig að viðburðir stangist ekki á.

Fyrirtæki og félagasamtök í Djúpavogshreppi eru hvött til þess að taka þátt og senda fulltrúa á fundinn.

 

Þeir sem ekki komast á fundinn en hafa hugmyndir, vinsamlegast sendið þær á netfangið erla@djupivogur.is

Það er aldrei of mikið af góðum hugmyndum!

 

ED

07.10.2015

Góður Cittaslow sunnudagur 2015

Cittaslow sunnudagurinn var haldinn hátíðlegur í þriðja sinn í Djúpavogshreppi sunnudaginn 27. september, kl. 16:00-17:00, í Löngubúð.

Djúpavogshreppur hefur verið í Cittaslow samtökunum síðan 13. apríl 2013 og það að sveitarfélagið hafi hlotið aðild að samtökunum er einstakur stimpill sem segir öðrum hvernig samfélag er hér, hvaða gildi eru höfð í heiðri og að hér viljum við halda í okkar sérstöðu.

Djúpavogshreppur hefur sett sér mjög metnaðarfulla stefnu um verndun náttúru- og menningarminja, hér er lögð er áhersla á sérstöðu náttúrunnar, t.d. í gegnum verkefnið birds.is, flokkun og endurvinnsla sorps hefur verið innleidd ásamt því sem stór skref hafa verið tekin til fegrunar umhverfis, leitað hefur verið leiða til að finna gömlum byggingum nýtt hlutverk, lögð er áhersla á að tryggja fjölbreytni í atvinnumálum þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki með vistvænan atvinnurekstur eru sérstaklega boðin velkomin, skólarnir starfa undir merkjum Grænfánans, kaffi- og veitingahús leggja sig fram um að bjóða upp á staðbundið hráefni og framreiðslu, horft er til lífræns landbúnaðar og afurða úr sveitum Djúpavogshrepps, áhersla er lögð á á sjávartengdar afurðir og strandmenningu og hvatt er til íþróttaþátttöku og félagslegra samskipta með margvíslegum uppákomum, samkomu- og mótahaldi.

 

Cittaslow sunnudagur er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow og markmiðið er að kynna staðbundna framleiðslu, menningu og/eða sögu.

Árið 2013 var gestum Cittaslow sunnudagsins í Djúpavogshreppi boðið upp á að bragða afurðir unnar af heimamönnum s.s. sultu, saft, sveppi, líkjöra og hundasúrusúpu.

Árið 2014 var lögð áhersla á sauðkindina og afurðir hennar. Boðið upp á ótrúlegt úrval rétta, bæði hefðbundna og óhefðbundna, allt frá blóðpönnukökum til sviðalappa, og veggir Löngubúðar voru skreyttir með handverki úr ull.

Að þessu sinni var lögð áhersla á göngumenninguna hér í sveitarfélaginu í samstarfi við Ferðafélag Djúpavogs. Tveir meðlimir í Ferðafélaginu, þau Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir og Ólafur Áki Ragnarsson, fjölluðu um gönguleiðir í sveitarfélaginu, sögðu frá Ferðafélaginu og göngum á vegum félagsins og sýndu myndir með.

Anna Sigrún sagði frá strandgöngu Ferðafélags Djúpavogs árin 2009-2011, þegar öll strandlengja sveitarfélagsins eins og hún leggur sig var gengin og ferðin nýtt til að týna rusl úr fjörunum. Einstaklega flott verkefni sem Ferðafélagið á heiður skilið fyrir.

Ólafur Áki sagði frá ótal fallegum gönguleiðum og stöðum í náttúru sveitarfélagsins sem vel er vert að leggja leið sína um og til.

 

Við þökkum gestum Cittaslow sunnudagsins kærlega fyrir komuna og Ferðafélagi Djúpavogs fyrir samvinnuna.

 

Gott er að nýta þetta tækifæri til að kynna að eftirfarandi fyrirtæki hafa gerst Stuðningsaðilar Cittaslow í Djúpavogshreppi og hafa hugmyndafræði samtakanna í heiðri:

 • Arfleifð
 • Adventura
 • Bragðavellir
 • Við Voginn
 • Landsbankinn
 • Hótel Framtíð
 • Havarí
 • Kvenfélagið
 • Langabúð

 

 

Myndir frá Cittaslow sunnudeginum:

 

 

 

06.10.2015

Bóndavarðan september 2015

Nýjasta útgáfa Bóndavörðunnar, staðarblaðs Djúpavogshrepps, er nú aðgengileg á netinu.

Hægt er að smella hér til að skoða síðasta tölublað, en það ætti einnig að birtast hér að neðan.

Hægt er að skoða þær Bóndavörður sem komnar eru á netið með því að smella hér.

ÓB

 

 

 

 

 

 

05.10.2015

Rúllandi snjóbolti hlaut menningarverðlaun SSA 2015

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem haldinn var hér á Djúpavogi um helgina, voru hin árlegu menningarverðlaun SSA veitt. Verðlaunin eru veitt einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar á liðnu ári (starfsári SSA). Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í landshlutanum. Verðlaunin hafa verið veitt síðan 1999. Meðal viðburða sem hafa hlotið viðurkenninguna má nefna LUNGA, Bræðsluna, Hammondhátíð, Eistnaflug, Bláu kirkjuna og Djasshátíð Egilsstaða. Í fyrra fékk Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði verðlaunin.

Í ár var það myndlistarsýningin Rúllandi snjóbolti sem hlaut verðlaunin. Þessi glæsilega sýning var haldin annað árið í röð á liðnu sumri í bræðslunni á Djúpavogi og tókst sérstaklega vel og var gífurlega vel sótt. Það var Alfa Freysdóttir, verkefnisstjóri Rúllandi snjóbolta sem tók á móti verðlaununum, krónum 250.000 og heiðursskjali.

Við óskum Ölfu og öllum þeim sem standa að þessari glæsilegu sýningu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Umfjöllun og myndir frá Rúllandi snjóbolta má skoða með því að smella hér.

ÓB

 


Alfa Freysdóttir tekur við verðlaununum úr hendi Sigrúnar Blöndal, formanns SSA.


 

05.10.2015