Fréttir
Síðasti opnunartími bókasafnsins í sumar er í dag
Síðasti opnunartími bókasafnsins er í dag frá 16:00 - 19:00.
Bókasafnsvörður
Kristrún Björg heimsmeistari í Hornafjarðarmanna
Þau stórtíðindi bárust úr Hornafjarðarumdæmi um helgina að Djúpavogsbúinn Kristrún Björg Gunnarsdóttir hafi staðið uppi sem sigurvegari í hinum víðfræga Hornafjarðarmanna, sem haldinn var á Humarhátíð.
Eins og flestir vita er þetta heimsmeistaramót, þannig að nú eigum við semsagt heimsmeistara í Kristrúnu "okkar" Gunnarsdóttur.
Kristrún fékk að launum flugmiða með Flugfélaginu Erni, 25.000 í penginum og síðast en ekki síst humarskálina eftirsóttu, til varðveislu í eitt ár.
Það verður spennandi að sjá hvort Kristrúnu takist að verja titilinn að ári.
Til hamingju með heimsmeistaratitilinn elsku Kristrún okkar!
ÓB
Hér að neðan er lýsing á Hornafjarðarmanna, fyrir þá sem vilja kynna sér hann betur:
Hornafjarðarmanni hefur verið einkennismerki Humarhátíðar í gegnum árin og hefur verið mjög vinsæll. Spilið er eitt afbrigði mannaspils og sagt er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi sé höfundur af því upprunalega. En hvernig á að spila Hornafjarðarmanna?
Spilið er þriggja manna spil og notaður er venjulegur spilastokkur. Spilaröðin er venjuleg, ásinn er hæstur nema í nóló, þá er hann lægstur. Í gjöf er fyrst dregið um hver skuli gefa. Sá sem dregur hæsta spilið er í forhönd og sá sem situr honum á hægri hönd gefur fyrstur.
Gefið er sólarsinnis á hefðbundinn hátt, fyrst fjögur spil í mannann og síðan þrjú spil á hvern spilara. Manninn fær þá sextán spil en hvern spilari tólf (ekki má stokka mannann og lögð er áhersla á að spilin í rammanum sé í þeirri röð sem gefið er).
Spilarar skiptast á að gefa. Það er dregið um sagnir, sá sem er í bakhönd ( á hægri hönd gjafara) dregur hluta ofan af spilastokknum og sýnir spilið sem upp kemur: komi upp tvistur til fimma er spilað nóló. Reynt er að fá sem fæsta slagi og ásinn er lægstur. Komi upp sexa til nía er spilað tromp í þeim lit sem dreginn er. Komi upp tía til ás er spilað grand (alltaf á að setja þann hluta spilastokksins sem dreginn er undir þannig að gjafari fær spilið sem ræður sögninni).
Áður en spilið hefst má sá sem er í forhönd skipta á allt að sjö spilum. Sá næsti allt að fimm spilum og gjafari fjórum spilum eða afganginum ef aðrir hafa ekki notað sér forkaupsrétt sinn. Sá sem er í forhönd slær fyrsta spilinu út og eftir það sá sem á slaginn í hvert skipti.
Sá spilari sem tekur slag leggur hann á grúfu fyrir framan sig og slær út næst. Í grandi og trompi er gefið eitt + prik (plús) fyrir hvern slag umfram fjóra og eitt – prik (mínus) fyrir hvern slag undir fjórum.
Í nóló er stigagjöfin öfug. Fyrri hvern slag undir fjórum er gefið eitt + prik og eitt – prik umfram fjóra. Í grandi og trompi er hægt að fá sem mest átta + prik og fjögur – prik en í nóló fjögur +prik og átta – prik. Spilað er þangað til einn hefur fengið tíu + prik og þá er gert upp.
Pétur Jóhann með uppistand á Djúpavogi
Hinn eini sanni Pétur Jóhann Sigfússon ætlar að heimsækja Djúpavog með sýninguna sína "Pétur Jóhann óheflaður" laugardagskvöldið 27. júní.
Það er ekki á hverjum degi sem að þessi fáránlega fyndni og prýðisgóði piltur er með uppistand öllum opið og hvað þá á Djúpavogi. Því er um að gera að nýta þetta einstaka tækifæri til að sjá Pétur Jóhann live.
Pétur er eins og alþjóð veit gríðarlega skemmtilegur og eftirsóttur uppistandari. Og þar að auki hefur hann unnið marga og stóra sigra í kvikmyndum og sjónvarpi.
Sýningin PÉTUR JÓHANN ÓHEFLAÐUR er 2 klst uppistandssýning samin af Pétri sjálfum. Síðustu mánuði hefur hann flakkað um Ísland með þetta show og fyllt hvert húsið á fætur öðru.
Forsala miða verður á Hótel Framtíð og hefst 19. júní.
2.900 í forsölu // 3.900 við hurð.
16 ára aldurstakmark er á sýninguna.
Húsið opnar kl 20:00. Skynsamlegt er að mæta snemma til að ná góðum sætum.
Taktu kvöldið frá og græjaðu frí í vinnunni fram að jólum. Harðsperrur í maga munu orsaka fjarveru þína.
Sumarmessa og samvera í Malvíkurrétt í Álftafirði
Sunnudaginn 28. júní kl. 14.00 verður sumarmessa og samvera í Malvíkurrétt í Álftafirði.
Fært á bílum að messustað. Þegar ekinn er þjóðvegurinn frá Djúpavogi, er beygt til vinstri rétt áður en komið er að brúnni yfir Selá (skilti) í Álftafirði til móts við bæinn Starmýri.
Nánari leiðsögn við veginn og aðgengi er gott. Munið að klæða ykkur vel og gott að hafa með sér teppi.
Ólafur Eggertsson og Unnþór Snæbjörnsson spila saman harmonikku og gítar og leiða söng.
Malvíkurrétt er umvafin klettum og skjólgóður og einstakur staður.
Kaffi og meðlæti í boði sóknarnefndar Hofskirkju að lokinni messu.
Allir hjartanlega velkomnir;
sóknarnefnd og sóknarprestur.
UMF. Neisti - Leiknir laugardaginn 27. júní
Næstkomandi laugardag mun UMF. Neisti taka á móti Leikni Fáskrúðsfirði í Launaflsbikarnum. Leikurinn fer fram á Neistavelli kl. 16:00. Þetta er þriðji leikur Neista í sumar og jafnframt þriðji heimaleikurinn í röð.
Nú fjölmennum við og styðjum strákana okkar til sigurs!
Facebook event fyrir leikinn.
ÓB
Íbúafundur um skipulagsmál
Opin íbúafundur um skipulagsmál af hálfu Djúpavogshrepps verður haldinn í Djúpinu / Sambúð 25. júní 2015 kl 17:00.
Á fundinn mun fulltrúi skipulagsskrifstofu TGJ mæta sem hefur vinnu sveitarfélagsins á höndum.
Dagskrá
1. Breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020.
Kynnt verður lýsing á breytingu á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 er varðar breytta legu Hringvegar um Berufjarðarbotn, sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Um er að ræða fyrstu kynningu á skipulagsbreytingaferli sem liggur fyrir að ráðist verði í af hálfu sveitarfélagsins sem mun svo á síðari stigum verða sent út til frekari kynningar og umsagnar ásamt lögbundnu auglýsingaferli.
2. Miðsvæði Djúpavogs.
Kynntar verða frumhugmyndir að deiliskipulagi miðsvæðisins á Djúpavogi, þar sem fulltrúi TGJ mun meðal annars fara yfir áherslur og helstu forsendur sem lagðar hafa verið til grundvallar við undirbúningsvinnu sem skipulags-framkvæmda og umhverfisnefnd Djúpavogshrepps hefur samþykkt að leggja upp með. Að lokinni kynningu verður efnt til umræðu meðal fundarmanna um framtíðarþróun á miðsvæðinu og verður óskað eftir hugmyndum og ábendingum frá fundarmönnum.
Hér með eru íbúar hvattir til að mæta
F.h. Djúpavogshrepps
Andrés Skúlason oddviti / form. SFU.
Tré gróðursett til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur
Laugardaginn 27. júní munu sveitarfélögin í landinu ásamt skógræktarfélögum halda upp á þau tímamót að 35 ár eru frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, en Vigdís var jafnframt fyrsta konan í heiminum til að verða þjóðkjörin forseti.
Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur á hverjum stað líkt og Vigdís gerði með táknrænum hætti í forsetatíð sinni. Í Djúpavogshreppi verða það nemendur úr 4. bekk grunnskólans sem sjá um gróðursetninguna í skógræktinni í Hálsaskógi kl. 14:00.
Allir eru velkomnir.
Sjómannadagurinn 2015
Sjómannadagur rann upp á Djúpavogi í blíðskaparveðri. Dagskrá var hefðbundin, sjómannadagsmessa í Djúpavogskirkju, dorgveiðikeppni á bryggjunni og bátasigling. Í kjölfar hennar stóð Björgunarsveitin Bára fyrir sjómannadagskaffi í Sambúð.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í dorgveiðikeppninni og í siglingu á aflaskipinu Öðlingi, sem stóð svo sannarlega undir nafni í þeirri siglingu. Áhöfnin á Öðlingi hafði nefnilega laumast til að leggja eina línu deginum áður og komu gestum siglingarinnar svo á óvart þegar þeir hófu að draga línuna í lok siglingar. Það var svo að segja fiskur á hverjum einasta öngli, sem endaði svo með því að rennan var yfirfull af boltaþorski, ýsu og steinbít.
Uppátækið vakti mikla lukka hjá viðstöddum og aðrir bátar flykktust að til að fylgjast með. Þetta er líklega einn fjölmennasti línudráttur sem sögur fara af.
Myndir má sjá með því að smella hér.
ÓB
Hátíðarhöld liðinnar viku
17. júní
Þjóðhátíðardagur Íslendinga
Mikið var um dýrðir og gaman á Djúpavogi á þjóðhátíðardaginn. Ungmennafélagið Neisti sá um skipulagningu og alla viðburði hátíðarhaldanna.
Helstu fréttir af hátíðinni eru þær að...
- appelsínugulir unnu hverfakeppnina.
- Nína og Stebbi voru með best skreytta húsið í ár.
- Elísa Hasler frá Karlsstöðum var tíguleg fjallkona.
- Neisti lék fyrsta fótboltaleik sinn í 8 ár á heimavelli við Ungmennafélag Borgfirðinga, sem lyktaði 1-3 fyrir Borgafirðingum.
- krakkarnir tók þátt í skemmtilegum leikjum á vellinum og undir lokin var sett upp sápurennibraut sem vakti mikla lukku.
- grillað var á Neistagrillinu.
- vítaspyrnumeistari Djúpavogs 2015 var Ingunn (kærasta Sigga Más).
19. júní
Kvenréttindadagurinn
Djúpavogshreppur og mörg fyrirtæki í sveitarfélaginu gáfu starfsmönnum sínum frí eftir hádegi til að fagna 100 ára kosningarafmæli kvenna.
Haldin var kvöldvaka í Löngubúð kl. 20:00 til að fagna deginum. Skipulagsnefnd skipuðu: Bergþóra Birgisdóttir, Birta Einarsdóttir og Guðrún Aradóttir. Meðhjálparar voru Hrönn og Erla.
Sýndir voru gamlir og nýir kjólar á allan aldur. Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir kom í upphlut sem hún saumaði sjálf á þessu ári. Þarna var smábarnakjóll af Hrönn, barnakjóll af Dúnu, kjóll af Önnu Sigrúnu sem gengur í 3. ættlið saumaður af Rúnu, jakki af lækninum Þórarni, kjóll sem Álfheiður í Hátúni saumaði og fleira.
Dagskráin var eftirfarandi:
- Erla Ingimundardóttir flutti erindi um konur í Búlandshreppi. Hún sagði frá Sigurbjörgu Einarsdóttur frá Hlíð.
- Ásdís Heiðdal las um Nicolínu Weiwadt og Masselinu sem stofnaði kvenfélagið Vöku.
- Erla sagði frá lífi Erlu Jóhannsdóttur og hennar sorgasögu og til dagsins í dag.
- Hrönn Jónsdóttir var með fróðlegt erindi um getnaðarvarnir fyrri tíma og las ljóð eftir Böðvar Guðmundsson.
- Þorbjörg Sandholt las samantekt Hrannar um frumkvöðlakonur á Berufjarðarströnd.
- Rán Freysdóttir las mjög athyglisverða frásögn um konur allra tíma á Íslandi.
- Margrét Ásgeirsdóttir spilaði á gítar undir fjöldasöng á milli liða.
- Íris Birgisdóttir gladdi okkur með söng. Hún söng lag Baggalúts við texta eftir Hrönn Jónsdóttur (Mamma fær að kjósa) og svo tók hún lag Bergþóru Árnadóttur. Óðinn Sævar Gunnlaugsson lék undir hjá henni.
- Dúna las upp kveðju frá Afli Starfsgreinafélagi og las og talaði um Guðrúnu Ketilsdóttir sem var uppi á 18. öldinni. Alveg ótengd Djúpavogi.
- Þórunnborg Jónsdóttir sagði frá konum í Geithellnahreppi.
- Kynning á nýbúum. Katrín Reynisdóttir sagði frá sér og sínum aðstæðum. Hún vinnur hjá Austurbrú.
- Svo tók við söngur á meðan beðið var eftir heiðurskvinnu.
- Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir tók til máls og sagði okkur skemmtilega sögu.
- Heiðursviðurkenning undir stjórn Bergþóru Birgisdóttur:
Tvær heiðurskonur í sveitafélaginu fengu viðurkenningu fyrir sín störf. Annarsvegar Guðrún Guðjónsdóttir (Rúna í Grænuhlíð) og hinsvegar Ágústa Margrét Arnardóttir. Gripirnir voru steinar sem keyptir voru hjá Auðunni Baldurssyni og Birta gróf á málmplötu. Þetta eru mjög fallegir gripir.
(Unnið upp úr texta Guðrúnar Aradóttur á fésbókinni: Kvenréttindadagurinn á Djúpavogi)
20. júní
Menningarvitar á Jónsmessu
Menningardagskráin við Æðarsteinsvita aðfaranótt 21. júní gekk afskaplega vel og var stórskemmtileg. 30 manns hittust þar í alveg hreint unaðslegu veðri og nutu frábærrar dagskrár sem Hrönn Jónsdóttir annaðist.
Hrönn sagði sögur af fyrrverandi vitaverði Æðarsteinsvita, Stefáni Aðalsteinssyni, og Ingibjörg, núverandi vitavörður, bætti inn í frásögnina. Hrönn fór einnig með ljóð tengt Búlandstindi og sagði þjóðsögur frá svæðinu. Þá lásu skáldin Aron Daði Þórisson og Gísli Hjörvar Baldursson alveg hreint kostuleg frumsamin ljóð sem tengdust vitum. Söngvararnir Baldur Gunnlaugsson og Unnþór Snæbjörnsson sungu og léku á gítar.
Hugmyndin um að halda menningarviðburði við og í sem flestum vitum landsins á sama tíma, kl. 23:55, 20. júní, er komin frá Hilmari Sigvaldasyni hjá Akranesvitum. Skemmtileg hugmynd sem heppnaðist mjög vel hér hjá okkur.
Djúpavogshreppur auglýsir: Starfsmaður í heimaþjónustu
Djúpavogshreppur auglýsir eftir starfsmanni í hlutastarf við heimaþjónustu (þéttbýli og dreifbýli).
Starfshlutfall ræðst af umfangi hverju sinni en áformað er að ráða í u.þ.b. 15-20% starf í upphafi.
Starfið er laust nú þegar.
Nánari upplýsingar veita:
Sveitarstjóri og launafulltrúi Djúpavogshrepps (478-8288, varðandi launamál).
Umsóknir með upplýsingum um menntun, reynslu, fyrri störf og annað, er að gagni má koma, berist skrifstofu Djúpavogshrepps eigi síðar en kl. 15:00 miðvikudaginn 1. júlí.
Umsóknareyðublöð má nálgast á vef Djúpavogshrepps og á bæjarskrifstofu.
Djúpavogi 27. maí 2015;
Sveitarstjóri
Námskeið í Djúpinu í haust
Nú eru í fæðingu tvö námskeið sem fyrirhugað er að halda í Djúpinu í september og október.
Annars vegar er um að ræða víravirkisnámskeið (silfursmíði) og hins vegar grjóthleðslunámskeið.
Við hvetjum að sjálfsögðu áhugasama að skrá sig því lágmarksfjölda þarf til að námskeiðin verði haldin.
Sjá nánar hér að neðan, hvar hægt er að skrá sig og fleira.
5.-6. september: Víravirkisnámskeið.
Kennari: Júlía Þrastardóttir
Verð: 25.000
Sjá nánar og skráning á austurbru.is
Lágmarksfjöldi þátttakenda eru 6. Athugið að hámarksfjöldi á námskeiðið eru 8 þátttakendur. Þannig að fyrstur kemur fyrstur fær.
10. – 11. október: Grjóthleðslunámskeið.
8 klst. hvorn daginn.
Kennari: Helgi Sigurðsson
Verð: 25.000
Á námskeiðinu verða kennd grundvallaratriði grjóthleðslu og endurgerður gamall veggur.
Þátttakendur þjálfist í hefðbundnum vinnubrögðum við grjóthleðslu úr náttúrlegu grjóti.
Lágmarksfjöldi 10 þátttakendur.
Sjá nánar og skráning á austurbru.is
ÓB
Hengla í lélegu gsm símasambandi
Hengla hefur verið í frekar slæmu gsm símasambandi að undanförnu og hefur ekki sent frá sér síðan 17.06.
Sjá mynd frá Náttúrustofu Austurlands frá því í morgun.
sjá fyrri fréttir um málið.
Sjá ferilkort Henglu frá upphafi - síðasta uppfærsla er efst.
Andrés Skúlason
Síðasti ferill Henglu sem hefur verið í slæmu gsm sambandi - sending síðast 17. 06.
Ferill Henglu síðast uppfært 13. júní
Ferill Henglu síðast uppfært 10 júní 2015
Feril Henglu í 19 viku frá merkingu
Ferill Henglu með kálfinn í 18 viku
Ferill Henglu í 16 viku og nú er hún hugsanlega borinn þarna undir Hrútbotninum
Ferill Henglu í 15 viku
Ferill Henglu í 12 viku
Ferill Henglu í 11 viku
Ferill Henglu í 10 viku
Ferilkort í 8 viku
Ferilkort 7 vika
Staða Henglu 8 mars. og ferilkort síðustu viku
Uppfærð mynd af slóðum Henglu 22.02.2015 - ferll hennar síðustu viku
Uppfærsla nr. 3
Uppfærsla nr. 2. af ferðum Henglu á Búlandsdal
Fyrsta uppfærsla af ferðum Henglu - þar sem hún var merkt í Henglavík í Hamarsfirði 18,01.2015
Dagskrá við Æðarsteinsvita - Menningarvitar á Jónsmessu
Í kvöld, 20. júní kl. 23:55 verður haldin menningardagskrá við Æðarsteinsvita.
Viðburðurinn er liður í landlægri dagskrá sem kallast Menningarvitar á Jónsmessu og er haldin um allt land þetta kvöld.
Dagskráin við Æðarsteinsvita verður á léttum nótum.
Hrönn Jónsdóttir mun segja sögur af vitaverðinum Stefáni Aðalsteinssyni (svala) sem bjó í Svalbarði, fara með þjóðsögur af svæðinu og kvæði tengt Búlandstindi. Þá mun Aron Daði Þórisson lesa ljóð. Eitthvað fleira verður á dagskránni sem skemmtilegt verður á að hlýða.
Við hvetjum alla til að mæta og halda upp á vitana okkar!
Upplýsingar um Menningarvita á Jónsmessu er að finna hér.
100 ára kosningarafmæli kvenna
Höldum upp á 100 ára afmælið!
Konur og karlar sem búið í Djúpavogshreppi.
19. júní 2015 eru liðin 100 ár síðan stór hluti kvenna fékk kosningarétt og kjörgengi í fyrsta sinn á Íslandi. Sama dag fengu vinnumenn og aðrir eignalausir karlmenn 40 ára og eldri einnig kosningarétt.
Þó 19. júní sé fyrst og fremst minnst sem dagsins sem konur fengu kosningarétt er það einnig dagur þar sem hin snauða alþýða fékk kosningarétt að einhverju leyti.
Fyrir ungt fólk, fátæka og konur hefur kosningaréttur ekki verið sjálfsagður hlutur. 1843 höfðu aðeins ríkustu karlmenn kosningarétt – eða um 2% landsmanna. Jafnrétti var síðan náð með áföngum þannig að það var ekki fyrr en 1984 sem allir þeir sem skilgreindir eru sem fullorðnir – þ.e. 18 ára og eldri fá fullan kosningarétt án tillits til kyns eða stöðu í samfélaginu.
Höldum upp á daginn!
Í kvöld, 19. júní, munum við hafa flotta og fræðandi dagskrá í Löngubúð,
Dagskráin hefst stundvíslega kl 20.00
Nefndin
Mátun á Neistagöllum föstudaginn 19.júní
Áður auglýst mátun á göllum frá Neista sem átti að vera í dag hefur verið frestað fram á morgundaginn kl 17:30-18:30 í Íþróttamiðstöðinni. Þá verður kominn galli í minnstu stærð (116) sem og kvennasniði.
Vonandi koma sem flestir og festa kaup á frábærum göllum á ótrúlegu verði.
Síðbúið myndband frá sjómannadeginum
Hér má sjá síðbúið myndband frá sjómannadeginum - https://vimeo.com/130934660
AS
Nýr leikskólastjóri
Nýr leikskólastjóri hefur verið ráðinn við Leikskólann Bjarkatún. Það er Guðrún Sigríður Sigurðardóttir, sem starfaði áður sem deildarstjóri við leikskólann.
Guðrún tekur við nýja starfinu þann 1. ágúst nk. og mun starfa í nánu samstarfi við skólastjóra Djúpavogsskóla. Guðrún kemur til með að stýra öllu starfi leikskólans en skólastjóri Djúpavogsskóla stýrir faglegu samstarfi milli skólastiganna tveggja.
F.h. skólasamfélagsins á Djúpavogi óska ég Guðrúnu hjartanlega til hamingju með nýja starfið og óska henni velfarnaðar í því.
Halldóra Dröfn, skólastjóri Djúpavogsskóla
17. júní í Djúpavogshreppi
Hátíðardagskrá 17. júní
12:30 – andlitsmálun við íþróttahús
13:00 – skrúðganga frá ÍÞMD niður á Neistavöll
14:00 – dagskrá á Neistavellinum
Ávarp fjallkonu
Úrslit úr hverfakeppnum
Leikir og sprell fyrir börnin – gleði og hamingja!
Á staðnum verða skóflur og fötur ásamt
sápurennibraut! J
18:00 Grillað á Neistavellinum – allir mæta með gómsætt á grillið og meðlæti. Kveikt upp í Neistagrillinu og öllum frjálst að nota það.
19:00 Fótboltaleikur – fyrsti fótboltaleikur meistaraflokks Neista í 8 ár!!
Neisti vs. Umf.B. (Borgarfjörður Eystri)
Umf. Neisti verður með sjoppu bæði á hátíðarhöldunum yfir daginn sem og á fótboltaleiknum um kvöldið.
Enginn posi – bara peningar! (:
Sveitarstjórn: Fundargerð 11.06.2015
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Skógardagur leikskólans
Föstudaginn 19. júní verður Skógardagur leikskólans.
Að þessu sinni ætlum við að hafa þetta einfalt í sniðum. Við ætlum að hittast klukkan 17:00 við hliðið og ganga saman í gegnum skóginn. Við hengjum Óskaboxið upp á sínum stað og í Aðalheiðarlundi ætlum við að borða saman nesti (sem hver kemur með fyrir sig) og fara í nokkra leiki.
Allir velkomnir.
Dóra
Haldið upp á kosningarafmæli kvenna
Hátíðarkvöldstund 19. júní 2015
Í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna verður dagskrá í Löngubúð til að minnast þess.
Flutt verða erindi og frásagnir af konum úr byggðarlaginu, söngur og ýmislegt fleira.
Heiðraðar verða tvær konur úr sveitarfélaginu.
Dagskráin hefst kl. 20:00; húsið opnar 19:30.
Hlökkum til að sjá þig,
nefndin
Innheimtuviðvörun
Nokkur fjöldi íbúa hefur undanfarið fengið innheimtuviðvörun vegna ógreiddra fasteignagjalda þrátt fyrir að hafa staðið í skilum.
Ástæðu þessa má rekja til þess að bilun virðist hafa orðið í innheimtukerfi Landsbankans þegar sveitarfélagið skipti um viðskiptabanka þegar Sparisjóðnum var lokað.
Um leið og beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda eru skilvísir íbúar beðnir að láta viðvörunina sem vind um eyru þjóta.
Sveitarstjóri
Frí eftir hádegi 19. júní vegna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna
Starfsmönnum Djúpavogshrepps verður gefið frí eftir hádegi föstudaginn 19. júní til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Baráttan hafði þá staðið yfir frá árinu 1885 en þá skrifaði Valdimar Ásmundsson grein um stjórnmálaréttindi kvenna í blað sitt Fjallkonuna og sömuleiðis Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og Páll Briem hélt opinberan fyrirlestur um kosningarétt og önnur réttindi kvenna.
Árið 1894 var stofnað í Reykjavík Hið íslenska kvenfélag og hafði það jafnrétti kynjanna og þátttöku kvenna í opinberum málum á stefnuskrá sinni. Félagið safnaði 2000 undirskriftum með áskorun til Alþingis um að veita konum kosningarétt árið 1895. Þetta var fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna sem skipulögð samtök kvenna lögðu fram.
Allar stofnanir sveitarfélagsins verða því lokaðar frá hádegi 19. júní.
Tengt efni:
Kvennasögusafn Íslands
Kosningaréttur í 100 ár
Konur og stjórnmál
Wikipedia
Vísindavefurinn
Sumarhreingerning
Djúpavogshreppur og Umf. Neisti boða til allsherjar tiltektardags í sveitarfélaginu laugardaginn 13. júní n.k. Íbúar eru hvattir til að taka til í görðum sínum og næsta nágrenni og hjálpa svo til á Neistavellinum kl. 14:00. Nýi hreppsbíllinn verður á ferðinni og hirðir upp það sem til fellur í þorpinu.
Boðið verður upp á pylsur á Neistavellinum kl. 15:00.
Minnum líka á Kvennahlaupið kl. 11:00-12:00.
Komum öll saman og eigum góðan dag í sól og blíðu.
Djúpavogshreppur og Umf. Neisti
Bæjarlífið maí 2015
Þá er verkefninu sem fengið hefur nafnið bæjarlífsmyndasyndauppgjörið nú loksins lokið, nú þegar maímánuður er kominn á veraldarvefinn.
Í honum fögnum við m.a. 1. maí, fylgjumst aðeins með gömlu kirkjunni, kíkjum á garðsölu hjá Skúla Andréssyni, förum í heimsókn á Bragðavelli og Brynjólfur Reynisson málar húsið sitt.
Myndirnar má skoða með því að smella hér.
ÓB
Hótel Framtíð auglýsir starf á tjaldsvæði Djúpavogs
Hótel Framtíð auglýsir eftir starfskrafti til að starfa á tjaldsvæði Djúpavogs sumarið 2015.
Starfstímabil er frá 16. júní til 31. ágúst.
Starfslýsing felur í sér daglegan rekstur á tjaldsvæði Djúpavogs, t.d í móttöku gesta, upplýsingaveitu, uppgjöri og þrifum og viðhaldið á svæðinu.
Vinnutími frá kl. 09:00 til kl. 15:00 alla daga vikunnar (frídagar samkvæmt samningi)
Leitað er að einstakling 16 ára og eldri sem hefur;
- ríka þjónustulund,
- góða tungumálakunnáttu (enska og eitt Norðurlandamál skilyrði),
- góða skipulagshæfileika, getur unnið sjálfstætt og tekið frumkvæði,
- góða hæfni í mannlegum samskiptum,
- mikla ábyrgðartilfinningu og síðast en ekki síst,
- góða þekkingu á staðháttum á Djúpavogi og nágrenni.
Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi AFLs.
Nánari upplýsingar um störfin veitir Þórir Stefánsson í síma 8968887, netfang: framtid@simnet.is
Umsækjendur fylli út umsóknareyðublað sem fæst hjá Hótel Framtíð ehf.
Umsóknir berist í síðasta lagi föstudaginn 15 . júní n.k.