Djúpavogshreppur
A A

Fréttir

Heimsókn í grunnskólann

Elstu nemendur leikskólans eru búin að fara í eina heimsókn til 1.bekkjar á þessu ári.  Þau fóru í ensku og grennd þar sem þau fengu að skoða og snerta dýr.  Einnig fara elstu nemendurnir aðra hverja viku í íþróttatíma með 1. bekk og byrjaði það líka eftir áramót.  Þetta er liður í því að brúa bilið milli þessarar tveggja skólastiga, leikskóla og grunnskóla. 

Í skólastofunni

Að læra um dýrin í Grennd

Að strjúka dýrunum

 

Fleiri myndir eru hér

ÞS

Ýmsar upplýsingar um Teigarhorn

Eins og þegar hefur verið kunngert þá hefur ríkissjóður að tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra  fest kaup á Teigarhorni í Djúpavogshreppi. Teigarhorn er um 2000 hektarar að stærð, steinsnar frá þéttbýlinu á Djúpavogi, og þar eru mikilvægar menningar- og náttúruminjar. Jörðin er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (seólíta) í heiminum og var hluti hennar því friðlýstur sem náttúruvætti árið 1975. Teigarhorn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sögu og skráningu veðurfars hér á landi, þar hafa verið stundaðar veðurfarsathuganir síðan 1881 og mælingar á hitafari frá 1873 – og þar hefur mælst hæstur hiti á Íslandi. Þá er Búlandstindur, eitt formfegursta fjall landsins og kennimerki Djúpavogshrepps, í landi Teigarhorns. Gert er ráð fyrir að ríkið taki við jörðinni 15. apríl næstkomandi, en fram að þeim tíma verður framtíðarfyrirkomulag og umsjón með svæðinu útfærð. Hér má einnig nálgast fróðleik umTeigarhorn. 

AS

 

Búlandstindur séður frá heimreið að Teigarhorni

Fasteignir að Teigarhorni með Búlandstind í baksýn. 

04.02.2013

Bátasmiðjan Rán í sjónvarpsfréttum í kvöld

Fjallað var um Bátasmiðjuna Rán í sjónvarpsfréttum og sýndar myndir af frumsmíðinni þeirra, Gná.

Smellið hér til að skoða fréttina.

ÓB

02.02.2013

Spáð í söngvakeppnina

Fimmtudaginn 31. janúar gerðu nemendur 4. og 5. bekkjar skoðanakönnun í Djúpavogsskóla til þess að spá um úrslitin í Söngvakeppni Sjónvarpsins n.k. laugardag. Nemendurnir þeystust um allan skóla og fengu að vita eftirlætis lag nemenda og starfólks skólans. Útkoman úr könnun 4.-5. bekkjar var eftirfarandi:

1. sæti: Birgitta – Meðal andanna (33 atkvæði)

2. sæti: Magni – Ekki líta undan (12 atkvæði)

3. sæti: Unnur – Ég syng! (10 atkvæði)

4. sæti: Eyþór Ingi – Ég á líf og Svavar Knútur og Hreindís Ylfa – Lífið snýst (5 atkvæði (á hvort lag))

5. sæti: Jógvan og Stefanía – Til þín (3 atkvæði)

6. sæti: Halli Reynis – Vinátta (0 atkvæði)

Það verður spennandi að sjá hvort spá Djúpavogsskóla rætist að þessu sinni.

Meðfylgjandi er mynd af 4.og 5. bekk og þess má geta að mikill meirihluti þeirra halda með Birgittu Haukdal í keppninni í ár.

UMJ og nem. 4.-5. b.

Nýdönsk og Dúndurfréttir á Hammondhátíð 2013

Hammondhátíð hefur nú gefið út hverjir það eru sem búið er að staðfesta á hátíðina í ár, sem haldin verður dagana 25. - 28. apríl nk.

Ekki er búið að ganga endanlega frá fimmtudagskvöldinu og þá á eftir að tilkynna hverjir leika á lokatónleikum Hammondhátíðar á sunnudeginum.

Hljómsveitin Dúndurfréttir mun spila á föstudagskvöldinu 26. apríl og Nýdönsk á laugardagskvöldinu 27. apríl. Þá mun Karlakórinn Trausti syngja á fimmtudagskvöldinu og hljómsveit frá Tónlistarskóla FÍH leika á föstudegi.

Það er því óhætt að fara að hlakka til Hammondhátíðar 2013 og ljóst að þau atriði sem enn á eftir að tilkynna verða stór bónus við það sem nú er klárt.

Miðasala verður auglýst síðar.

Fylgist með framvindu á heimasíðu Hammondhátíðar og Facebooksíðu Hammondhátíðar.

01.02.2013

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður í hladinn í félagi eldri borgara laugardaginn 2. febrúar kl. 14:00 á Helgafelli.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

01.02.2013