Fréttir
Fyrsti vetrardagur og bangsadagur
Þann 27 október var fyrsti vetrardagur og alþjóðlegi bangsadagurinn. Leikskólabörnin héldu upp á það á föstudegunum fyrir og fengu að hafa með sér einn bangsa að heiman. Í tilefni komu vetrarins var svo haldið diskótek þar sem börnin dönsuðu bæði hópdansa og síðan frjálst eins og þau gátu. Eftir hádegismat fengu svo allir íspinna til að minna okkur á veturinn. Við í leikskólanum höfum fagnað vetrinum í þó nokkuð mörg ár með mismunandi hætti og hefur það alltaf vakið mikla lukku meðal barnanna sem skilja stundum ekki af hverju það kemur ekki snjór víst nú sé kominn vetur. En snjórinn kom nú fljótlega því í dag fögnuðu krakkarnir snjónum enda alhvít jörð þegar börnin vöknuðu í morgunsárið. Það voru margir foreldrar sem töluðu um það að sjaldan hefðu börnin verið svona snögg á fætur eins og í morgun.
Alþjóðlegi bangsadagurinn er hins vegar nýr á nálinni hjá okkur hér í leikskólanum en hann er þann 27. október ár hvert og fjölmargir leik- og grunnskólar eru farnir að taka upp þennan dag með því að bjóða börnum skólans að koma með sinn bangsa að heiman.
Með bangsa í leikskólann
Diskótek til að fagna vetrinum og með bangsa
Ís í eftirrétt er algjört lostæti
ÞS
Árshátíðin er eftir tvo daga - myndir og myndband
Árshátíð Grunnskólans fer fram föstudaginn 2. nóvember kl. 18:00 á Hótel Framtíð.
Hér að neðan fylgir smá myndband af æfingum og undirbúningi fyrir árshátíðina.
Þá eru hér einnig nokkrar myndir sem teknar voru á æfingu í gær.
ÓB
AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi auglýsir eftir umsóknum
AVS rannsóknasjóður hefur að markmiði að styrkja verkefni, sem stuðla að auknu verðmæti íslensks sjávarfangs og styrkja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og fiskeldis. Sjóðurinn auglýsir nú eftir umsóknum í verkefni með þetta að markmiði. Skilafrestur umsókna er til kl. 17, 1. desember 2012.
Umsóknum ber að skila rafrænt á netfangið avs@avs.is og bréflega á póstfangið AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi, Háeyri 1, 550 Sauðárkrókur.
Sjá nánar með því að smella á auglýsingu hér að neðan.
Sviðamessa 2012 (uppfært)
Það styttist óðum í Sviðamessu 2012. Hér eru allar upplýsingar sem máli skipta.
Bendum einnig á mjög skemmtilega Fésbókarsíðu Sviðamessu.
ÓB
Verslunin Ljósálfar á Djúpavogi
Verslunin Ljósálfar verður á Djúpavogi sunnudaginn 28. október nk. frá kl. 13 - 17.00.
Staðsetning: Við Voginn, Vogalandi 2.
Fullt af flottum fötum, góð tilboð
Verslunin Ljósálfar
Það styttist í árshátíð Grunnskólans - myndband
Hér að neðan er auglýsing fyrir árshátíð Grunnskólans, en hún fer fram 2. nóvember nk.
ÓB
Frá Djúpavogskirkju
Sunnudaginn 21. okt. verður kirkjuskóli og fjölskyldusamvera í kirkjunni kl. 13.00. Börnin fá myndir til að setja í fjársjóðskistuna og brúður koma í heimsókn. 10-12 ára börnin og unglingar taka þátt í samverunni.
Eftir samveruna ætla unglingar að selja kaffi og vöfflur til fjáröflunar fyrir ferðalag á Æskulýðsmót kirkjunnar sem verður á Egilsstöðum 26-28. okt., en þar munu væntanlega koma saman um 600 unglingar víðs vegar af landinu.
Vöfflur og kaffi kosta kr. 500.- fyrir fullorðna, en 250 kr. fyrir börn.
Á fimmtudags- eða föstudagskvöld munu unglingarnir safna áheitum fyrir Biblíumaraþon, þau ganga í hús og biðja um áheit, en þau ætla að lesa Biblíuna frá kl. 14.00- 17.00 á sunnudaginn og eru öllum boðið að hlýða á og fá sér kaffi og vöfflur.
Mig langar að biðja fólk að taka vel á móti unglingunum þegar þau safna áheitum og styðja þau og munum, að margt smátt getur orðið stórt.
Við ætlum að eiga góðan dag í kirkjunni á sunnudaginn, verum öll hjartanlega velkomin,
sóknarprestur.
Kjörfundur vegna þjóðaratkvæðagreiðslu
Kjörfundur vegna þjóðaratkvæðagreiðslu verður í grunnskólanum á Djúpavogi þann 20. október, 2012.
Kjörfundur hefst kl. 12:00 og opið verður til kl. 22:00.
Þó verður tekið tillit til 89. gr. laga um kosningar þar sem eftirfarandi kemur fram undir hvaða kringumstæðum megi slíta kjörfundi fyrir kl. 22:00.
89. grein hljóðar svo:
"Kjörfundi má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að hann hófst og ekki fyrr en hálf klukkustundu hefur liðið frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Atkvæðagreiðslu má þó slíta er allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund frá því að kjósandi gaf sig síðast fram."
Kjörstjórn Djúpavogshrepps.
Hunda- og kattahreinsun
Hunda- og kattahreinsun fer fram þriðjudaginn 16. október milli kl. 13:00 og 14:00 í áhaldahúsi Djúpavosghrepps.
Sveitarstjóri.
Sveitarstjórn: Fundargerð 10.10.2011
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Laufblaðaleiðangur
Börnin á Kríudeild fóru í laufblaðaleiðangur þar sem þau leituðu að allskonar laufblöðum í öllum litum haustsins. Gengið var frá leikskólanum og endaði hópurinn hjá Hvammi þar sem mikið af fallegum rauðum laufblöðum voru á trjánum en einnig skemmtileg brekka og klettar sem gaman var að leika sér í. Laufblöðin voru síðan pressuð og þurrkuð og til stendur að nota þau í sérstakt verkefni sem börnin munu gera í listakrók.
Haldið af stað í halarófu.
Leitað af laufblöðum
Leikið í klettunum
ÞS
Fyrirhuguð framkvæmd við smábátahöfn
Stefnt er að því að framkvæmd við nýja trébryggju í Djúpavogshöfn verði boðin út í lok október 2012.
Um er að ræða bryggju, 5 x 56 metrar sem verður lögð við hlið núverandi smábátabryggju sem fær að standa að mestu á meðan á framkvæmdunum stendur. Stefnt er að verklokum 1. júní 2013. Áhugasamir geta kynnt sér útboðsgögn hér á heimsíðunni auk þess sem útprentuð gögn má nálgast í Geysi og hjá hafnarverði.
Ábendingum / athugasemdum er hægt að koma á framfæri með tölvupósti sveitarstjori@djupivogur.is
eða í umslagi merkt:
Djúpavogshreppur
v/ smábátabryggju
Bakki 1
765 Djúpivogur
Athugasemdir skulu berast fyrir kl. 16:00, föstudaginn 19. október.
Útboðsgögn:
Grunnmynd
Innri (suður) hlið
Ytri (norður) hlið
Sveitarstjóri
Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu
Vakin er athygli á að frá og með miðvikudaginum 10. október liggur kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 frammi í Geysi.
Sveitarstjóri
Félagsþjónusta á Djúpavogi
Samkvæmt samkomulagi Djúpavogshrepps við Félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs sinnir Félagsþjónustan á Héraði allri félagslegri þjónustu við íbúa Djúpavogi.
Í því sambandi gæti verið ágætt að spyrja sig eftirfarandi spurninga;
• Hefur þú þörf fyrir félagslega ráðgjöf ?
• Eða jafnvel fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu ?
• Gæti heimaþjónusta komið þér að gagni ?
• Þarft þú hjálp til að rjúfa félagslega einangrun eða stuðning til að auka á félagslega færni þína í daglegu lífi ?
• Hvað með aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn ?
• Er uppeldisleg ráðgjöf eitthvað sem gæti gagnast þér ?
Séu aðstæður þínar þannig að félagsleg þjónusta af einhverju tagi geti bætt lífsgæði þín er rétt að hvetja þig til þess að nýta þjónustuna.
Ráðgjafi kemur á Djúpavog:
Að minnsta kosti einu sinni í mánuði mætir Eygló Sigurvinsdóttir, ráðgjafi á svæðið og sinnir þeim erindum sem íbúar sveitarfélagsins óska eftir hverju sinni. Til þess að mæla sér mót við Eygló er hægt að hafa samband á eftirfarandi hátt:
• 478 8288 Sveitarstjórnarskrifstofa Djúpavogs
• 470 0705 Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs
• eyglo@egilsstadir.is - netfang Eyglóar Sigurvinsdóttur, ráðgjafa
• gudrunf@egilsstadir.is - netfang Guðrúnar Frímannsdóttur, félagsmálastjóra
Ráðgjafi verður til viðtals á sveitarstjórnarskrifstofu Djúpavogs miðvikudaginn 10. október n.k. kl. 10.30-12.00
Fyrir hönd Félagsmálanefndar Fljótsdalshéraðs,
Guðrún Frímannsdóttir,
Félagsmálastjóri
Dýr í heimsókn
Nú í september hafa leikskólabörnin fengið tvö dýr í heimsókn. Fyrst kom hann Magnús með litla mús í krukku og vakti hún mikla lukku meðal barnanna en svo fengum við hana Rönd í heimsókn en hún er naggrís sem eitt barnið í leikskólanum var að fá sem gæludýr. Hún sagði okkur að hún væri búin að fá gæludýr sem héti Rönd og væri svona næstum því hrekkjusvín. Kom svo í ljós að gæludýrið var naggrís. Vakti Rönd líka mikla lukku.
Lítil mús í heimsókn
Hún Rönd í heimsókn
Krummadeild að skoða Rönd
Sveitarstjórn: Fundarboð 10.10.2012
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 10.10.2012
30. fundur 2010 – 2014
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikudaginn 10. október 2012 kl. 16:00. Fundarstaður: Langabúð.
Dagskrá:
1. Fjárhagsleg málefni
2. Fundargerðir
a) HAUST, dags. 12. september 2012.
b) Framkvæmdastjórn SKA, dags. 12. september 2012.
c) Stjórn SSA, dags. 15. september 2012.
d) Stjórn SSA, dags. 2. október 2012.
e) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 7. september 2012.
f) Hafnasamband Íslands, dags. 19. september 2012.
3. Erindi og bréf
a) Lögmenn Lækjargötu, dags. 9. september 2012.
b) HAUST, dags. 13. september 2012.
c) HAUST, dags. september 2012.
d) Fjárlaganefnd Alþingis, dags. 3. september 2012.
e) World wide friends, dags. 18. september 2012.
f) Skipulagsstofnun, dags. 24. september.
g) Innanríkisráðneytið, dags. 21. september 2012.
h) Svavar Kjarrval Lúthersson, dags. 6. september 2012.
i) Pétur Pétursson, dags, 13. sept. 2012.
j) Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, dags. 26. sept. 2012
4. Málefni Helgafells
5. Sóknaráætlun landshluta
6. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga
7. Skýrsla sveitarstjóra
Djúpavogi, 8. október 2012;
sveitarstjóri
Frá stjórn kirkjukórsins
Ágætu sveitungar !
Nú er að hefjast nýtt söngár hjá Kirkjukórnum. Jószef Bela Kiss, sem er kórstjóri og hefur verið það síðustu ár, er ráðinn af sóknarnefnd Djúpavogskirkju til að stjórna kórnum. Kirkjukórinn samanstendur af fólki á öllum aldri vítt og breytt úr sveitarfélaginu. Með bréfi þessu vilja forsvarsmenn kórsins vekja athygli á kórnum og hvetja alla, sem hafa gaman af því að syngja og vera með í góðum félagsskap, til að mæta á æfingu. Í kirkjukórnum er ekki eingöngu flutt kirkjuleg tónlist. Hlutverk kórsins er að syngja við kirkjulegar athafnir, sem eru fjölbreyttar og kalla á fjölbreyttan tónlistarflutning. Því fleiri sem eru í kórnum því öflugra verður starfið sem bíður einnig upp á ákveðna verkaskiptingu í kórstarfinu. Það er enginn skuldbinding sem fylgir því að taka þátt í kirkjukórnum. Hver og einn meðlimur stjórnar alfarið við hvaða athafnir hann syngur. Í litlu samfélagi eins og okkar getur kirkjukór verið undirstaðan að góðu tónlistarlífi. Við æfum einu sinni í viku á miðvikudagskvöldum milli kl. 20.00- 22.00. Ef þú vilt mæta á eina æfingu og/eða kynna þér starfið með því að koma í kirkjuna þá verður tekið vel á móti þér.
Í bígerð er að fara í söngferðalag til Ungverjalands næsta sumar og verða kórar að austan með í ferð. Þeir eru þegar farnir að æfa þau lög sem sungin verða í ferðinni. Aðventan er einn af skemmtilegustu tímum í kórstarfi. Á aðventunni verður farið í heimboð til munkanna á Reyðarfirði.
Með bréfi þessu viljum við bjóða þig velkominn/velkomna í Djúpavogskirkju þann 10. október.
Stjórn Kirkjukórsins
Langabúð auglýsir breytta dagskrá
Gulltopparnir verða því miður að fresta tónleikunum sem áttu að vera annað kvöld og stefnan tekin á næstu helgi.
En félagsvistin á föstudegi kl. 20:30 og Pubquiz-ið hans Natans á laugardagskvöldinu verða á sínum stað.
Langabúð
Íþróttaálfurinn í heimsókn
Foreldrafélag Djúpavogs bauð leikskólabörnum og nemendum 1.-3. bekkjar uppá skemmtilega heimsókn í gær. Íþróttaálfurinn sjálfur kom í íþróttahúsið og sprellaði og skemmti börnunum í góða stund. Hann fékk alla krakkana til að hreyfa sig, hoppa og skoppa og gera alls konar æfingar. Þau fóru í fjársjóðsleit eins og sjóræningjar, teygðu sig og toguðu, fóru í splitt, spörkuðu í ímyndaða bolta og margt fleira.
Það var greinilegt að flest börnin þekkja íþróttaálfinn og félaga hans í Latabæ vel og kunnu þau margar hreyfingar og takta sem íþróttaálfurinn er þekktur fyrir. Einhverjir söknuðu Sollu stirðu og er aldrei að vita nema hægt verði að fá hana í heimsókn síðar meir.
Leikskólabörnin og nemendur 1.-3. bekkjar þakka foreldrafélaginu kærlega fyrir frábæra skemmtun. Myndir frá heimsókninni eru hér. HDH
Haustgangan
Haustganga Djúpavogsskóla var farin þriðjudaginn 25. september í einmuna blíðu.
Yngstu nemendur gengu sem leið lá upp Klifið og inn að Olnboga. Þar settist hópurinn niður og borðað nesti og lék sér aðeins í klettunum. Frá Olnboga var gengið yfir að Hermannastekkum og inn í Hálsaskóg. Þar léku nemendur sé í frjálsum leik eða hvíldu sig í blíðunni. Hópurinn gekk svo alla leið heim aftur. Ferðin gekk vel enda frábært veður og góð stemming í hópnum.
Nemendur í 5. 6. og 7. bekk fóru saman í hóp. Ferðinni var heitið í Æðarsteinsvita. Á leiðinni var komið við íbátasmiðjunni Rán og var Villi á staðnum og leyfði hann nemendum að skoða bátinn þeirra og prófa að klifra upp í hann. Nesti var tekið við Bræðsluna í skjóli og svo var farið í fjörugöngu að Æðarsteinsvita. Sumir brögðuðu á skarfakáli en aðrir skoðuðu hella við sjávarminnið. Eftir klifur í vitann fór hópurinn í skemmtilegan flækjuleik og þaðan í gamla fjárrétt rétt hjá vitanum. Endastöðin var æfingahúsnæði Tónleikafélags Djúpavogs og snertu nokkrir nemendur lítillega á hljóðfærum.
Unglingarnir gengu sem leið lá suður eftir flugbrautinni og síðan yfir í Kiðhólma. Margt var skoðað og rætt á leiðinni og þegar farið var tilbaka var gengið inn með ströndinni og síðan upp með Borgargarðsvatni.
Í öllum ferðalögum á vegum skólans er fjallað um örnefni og sögu eins og kennarar hafa vitneskju til.
Haustgangan í ár var í alla staði mjög skemmtileg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. HDH (og starfsfólk)
Skólamjólkurdagurinn
Skólamjólkurdagurinn var þann 27. september sl. Að því tilefni fengu krakkarnir á leikskólanum mjólk með hádegismatnum en vanalega fá þau vatn með matnum.
Skálað í mjólk
Fleiri myndir af skólamjólkurdeginum eru hér
ÞS
Fashion with flavour
12. og 13. október nk. stendur Ágústa Margrét Arnardóttir fyrir sýningunum "Fashion with Flavor" á Grand hótel Reykjavík og 17. nóvember á Hótel Höfn á Hornafirði.
Sýningarnar eru hugmynd Ágústu sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á fatnaði og fylgihlutum úr íslensku fiskiroði, hreindýra- og lambaleðri, hornum, beinum og fleiru.
Grunnhugmynd viðburðanna er að sýna fullnýtingu íslenskra hraéfna á flottann hátt.
Fashion with Flavor - "tíska sem bragð er af" er eina sýningin í heiminum þar sem fyrirsætur bera fram mat klæddar fatnaði úr aukaafurðum matarins sem þær bera fram.
6 rétta matseðill, diskar og dress- ferðalag fyrir öll skilningarvitin.
1. Lax, lax, lax og aftur lax - Léttur og ferskur.
2. Seyðandi saltfiskur - Troll og töfrandi tónar færa okkur suður á bógin. Olé!
3. Lamb á teini, tja eða á beini - Kyndum í kolunum, Hinni býður í grillpartý.
4. Til hafs og heiða - Karfi, hlýri, blóðberg og blómkál. Landið og miðin mætast.
5. Gala og glamúr - Hreindýr og hross skapa galastemmningu með gráðosti, piparkökum, kartöflumús og kræsingum á diskum, og í dressum.
6. Eitthvað blátt, eitthvað nýtt, eitthvað gott, eitthvað hvítt - Eftirminnilegur eftirréttur sem færir þig nær altarinu.
Reykjavík Distellery býður upp á rabarbara- og berjafordrykki - Að sjálfögðu íslensk hráefni og íslensk framleiðsla.
Greta Salóme ásamt stórhljómsveit spilar fjölbreytta og flotta tónlist í takt við hvern munnbita.
Íslenskir matvælaframleiðendur útvega fersk hráefni sem matreiðslumeistarinn Hinrik Carl Ellertsson galdrar fram á ótrúlegan og ógleymanlegan hátt. Þess má til gamans geta að hann Hinrik er bróðir Geira, mannsins hennar Særúnar dóttir Steinunnar og Jóns í Bergholti.
Þáttakendur í Fashion with Flavor eru tæplega 30 og þar af eru fyrirsætur og fleiri frá Djúpavogi.
Miðaverð 9.900 krónur
Pantanir á netfangið veitingar@grand.is í gegnum símann 514 8000.
http://www.grand.is/Islenska/Fashion-with-Flavour/
Hér er glæsileg videokynning sem tekur bara 2 mínútur að horfa á og heillast: http://vimeo.com/50430614
Ágústa Margrét Arnardóttir