Fréttir
Þjálfari óskast
Ungmennafélagið Neisti óskar eftir að ráða þjálfara fyrir skólaárið 2012-2013. Samkvæmt skipulagi er um að ræða 6 tíma í sundi, 3 tíma í íþróttum, 2 tíma í frjálsum íþróttum og 9 tíma í fótbolta. Leitað er eftir einstaklingi eða einstaklingum til að taka þessa þjálfun að sér.
Áhugasamir vinsamlegast hafi strax samband við Ester í síma 899-7600, neisti@djupivogur.is eða Lilju í síma 867-9182, lilja@djupivogur.is
Æfingar Neista hefjast eftir helgi.
Stjórn Neista
Göngu-fjöruferð Kríudeildar
Kríudeild fór á dögunum í göngu/fjöruferð. Í fjörunni var árabátur sem krakkarnir prófuðu og úr varð heljarinar leikur þar sem farið var út á hafið og siglt alla leið til Kína og auðvitað líka til baka svo þau gætu nú farið aftur í leikskólann. Allir skemmtu sér vel eins og sjá má á myndunum
Lagt af stað í gönguferð
Allir út á sjó
Síðan var haldið af stað og endað út í leikskóla
ÞS
Sumargrill foreldrafélagsins
Foreldrafélag leikskólans stóð fyrir foreldragrilli síðustu opnunarviku
leikskólans fyrir sumarfríið. Þetta grill hefur verið árvisst í þó nokkuð
mörg ár en var þetta í síðasta skipti sem það verður með þessu sniði.
Grillið var haldið í hádeginu þannig að flestir foreldrar og systkini
leikskólabarnanna hefðu tök á að mæta en grillaðar voru pylsur og fengu
leikskólabörnin svala. Blásin var upp hoppukastali sem allir gátu prófað og
leikið sér í. Veðrið lék við okkur og allir voru í sumarskapi.
Hótel Framtíð gaf pylsur í grillið. Fellabakarí gaf pylsubrauðin.
Securitas styrkti félagið um 10.000 kr. og Vísir ehf styrkti okkur líka um
20.000 þannig að hægt væri að leigja hoppukastalann.
Í hoppukastalanum
Í grillveislunni
ÞS
VAXA auglýsir eftir umsóknum
Auglýst er eftir umsóknum í Vaxtarsamning Austurlands. Umsóknarfrestur er til og með 9. september n.k. Umsóknareyðublað er hægt að nálgast á heimasíðu Vaxtarsamningsins www.austur.is og eru umsækjendur hvattir til að kynna sér samninginn á sömu heimasíðu.
Nánari upplýsingar og ráðgjöf veitir Ólafur Áki Ragnarsson hjá Austurbrú, netfang: olafur@austur.is eða í síma 472-1690.
Nöfn ferðafélaga úr Víðidalsferð
Óhætt er að segja að ein mynd úr myndasafni Elísar Þórarinssonar hafi öðrum fremur vakið athygli í hinu stóra safni gamalla mynda hér á heimasíðunni. Að minnsta kosti er hún ein mest skoðaða myndin frá upphafi, enda merkileg fyrir margra hluta sakir.
Um er að ræða mynd sem tekin var í Víðidalsferð á milli 1940 og 1950. Ef einhver er með nákvæma tímasetningu má hinn sami endilega hafa samband.
Kristín Rögnvaldsdóttir hafði samband í sumar og útlistaði fyrir okkur hverjir væru á myndinni. Með fylgdi bréf svohljóðandi:
Sá á vefnum ykkar myndir frá Elís Þórarinssyni. Þar sem ég átti eina þessara mynda, með nöfnum ferðafélaganna í þessari Víðidalsferð, fannst mér tilvalið að koma þessu til ykkar.
Kristín Rögnvaldsdóttir
Við þökkum Kristínu kærlega fyrir þessar skemmtilegu upplýsingar.
ÓB
(Smellið á myndina til að stækka hana)
1. Þorgeir Guðmundsson - Þvottá
2. Nanna Sigurðardóttir- Stafafelli
3. Vilborg Þórarinsdóttir - Starmýri
4. Óskar Guðlaugsson - Hærukollsnesi
5. Kristinn Guðmundsson - Þvottá
6. Gunnar Guðlaugsson - Hnaukum
7. Jón Karlsson - Múla
8. Dagný Karlsdóttir - Múla
9. Ásta Guðlaugsdóttir - Reyðará
10. Elís Þórarinsson - Starmýri
11. Sigurmundur Guðmundsson - Svínhólum
12. Sigurður Jónsson - Stafelli
13. Sigurjón Snjólfsson - Svínhólum
14. Sigurbjörg Guðmundsdóttir - Þvottá
15. Ragnheiður Pálsdóttir - Geithellum
16. Jón Björnsson - Bragðavöllum
17. Óskar Karlsson - Geithellum
18. Snorri Guðlaugsson - Starmýri
19. Dagný Jónsdóttir - Múla
20. Ingibjörg Guðmundsdóttir - Þvottá
21. Baldur Björnsson - Hofi
22. Bragi Björnsson - Hofi
Myndina tók Rögnvaldur Karlsson
Sumarstarf
Það hefur ýmislegt verið brasað í leikskólanum í sumar enda hefur veðrið leikið við okkur þó svo að hitastigið hafi kannski ekki alltaf farið hátt.
Við æfðum okkur að dansa
Við borðuðum úti
Fengum unga í heimsókn sem flæktist um á pallinum okkar og komst ekki í burtu
Lékum okkur í sandinum
og sulluðum í sullukarinu okkar
Það er búið að vera ótrúlega gaman hjá okkur og nú erum við komin aftur til starfa í leikskólanum eftir sumarfríið og eigum eftir að gera fullt fullt af skemmtilegum hlutum það sem eftir er af þessu sumri og allan næsta vetur. Hægt er að sjá miklu fleirri myndir af sumarstarfinu hér
ÞS
Skemmtiferðaskip á Djúpavogi
Sunnudaginn 26. ágúst nk. er von á skemmtiferðaskipinu Quest of Adventure til Djúpavogs. Skipið er um 18.500 brúttótonn að stærð og er farþegafjöldi þess um 500 manns, auk 220 manna áhafnar. Gert er ráð fyrir því að skipið verði hér um kl. 12:00 og haldi á haf út aftur kl. 23:00.
Skipið er systurskip skemmtiferðaskipsins Spirit of Adventure, sem hefur komið tvisvar til Djúpavogs. Bæði skipin eru í eigu skipafélagsins Saga Cruises.
Sveitarstjóri
Kristján Ingimarsson sigraði í sönglagakeppni Ormsteitis
Sönglagakeppni Ormsteitis á Fljótsdalshéraði fór fram föstudagskvöldið 10. ágúst sl. Tíu lög kepptu til úrslita en þau höfðu verið valin úr hópi allra þeirra laga sem send voru inn í keppnina.
Þrjú þessara tíu laga voru ættuð frá Djúpavogi, tvö úr smiðju Kristjáns Ingimarssonar og eitt frá Birni Hafþór Guðmundssyni. Þegar flutningi laga var lokið tók við símakosning og sérstök dómnefnd réði ráðum sínum. Á endanum stóð lag Kristjáns Ingimarssonar, Vor, uppi sem sigurlag kvöldsins.
Verðlaunin fyrir sigurlagið voru ekki af verri endanum en Kristján fékk gítar, míkrófón, heyrnartól, gistingu fyrir tvo, 30 tíma í hljóðveri og svo farandhörpuna, sem er verðlaunagripur keppninnar.
Glæsilegur árangur hjá Kristjáni sem síðan flaug til Reykjavíkur helgina eftir til að hlaupa eitt stykki maraþon og var svo mættur að kvöldi þess sama dags í Valaskjálf á Egilsstöðum til þess að spila á balli. Er það eitthvað sem þessi maður getur ekki gert?
Til hamingju Kristján.
Hér að neðan má sjá upptöku frá flutningi sigurlagsins og myndir frá verðlaunaafhendingunni.
ÓB
mynd: ormsteiti.is
mynd: ormsteiti.is
Grunnskóli hefst
Þann 3. september nk. verður opið hús í grunnskólanum. Nemendur og forráðamenn koma þá í skólann, sækja stundatöflur og bækur, hitta nýja umsjónarkennara o.fl. Formleg kennsla hefst þriðjudaginn 4. september, skv. stundatöflu.
Í vikunni 27.-31. ágúst fá forráðamenn sent heim umslag með nánari upplýsingum, ýmsum skráningarblöðum o.fl.
Beiðni um leyfi þarf að berast til skólastjóra. Eyðublað má finna á heimasíðu grunnskólans.
Við hlökkum við að hefja starf að nýju og til að vinna með ykkur öllum í vetur.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir,
skólastjóri
Frá Ferðafélagi Djúpavogs
Fjallabaksleið syðri: 10. - 12. ágúst
10. ágúst, föstudagur: Farið frá Djúpavogi og gist á tjaldstæðinu í Hrífunesi. Seinni gististaður ekki ákveðinn.
Ýmsir staðir á leiðinni sem áhugavert er að skoða, t.d. Álftavatn, Hvanngil og fleiri.
Þeir sem hafa áhuga á þessari ferð hafi samband í síðasta lagi fimmtudaginn 9. ágúst.
Upplýsingar gefa Haukur í síma 844-6831 og Steinunn í síma 860-2916.
Ath. - farið verður ef veður leyfir.
Ferðafélag Djúpavogs
Sund og fimleikanámskeið á Djúpavogi í ágúst
Íþróttaskóli fyrir 8-12 ára
Íþróttaskóli fyrir 8-12 ára verður haldinn hér á Djúpavogi dagana 13 - 17 ágúst (mánud- föstud) frá kl 13:00 - 15:00).
Boðið verður uppá mikla fjölbreytni og skemmtun, meðal annars verður farið í fótbolta, handbolta,
fimleika, sund og fullt af skemmtilegum leikjum. Timarnir verða bæði úti og inni.
Uppröðun tíma verður sem hér segir.
Mánudagur: fótbolti, handbolti og fleira (spakvöllur), þriðjudagur: sund, miðvikudagur: fimleikar og ýmsir leikir, fimmtudagur: æfingar, leikir og keppni úti, föstudagur: óvænt J (taka með sundföt og föt fyrir íþróttasalinn)
Mikilvægt að mæta með viðeigandi fatnað eftir hvað við erum að gera hverju sinni, mæta með föt og skó fyrir innitímana, sundföt og gleraugu í sundið og klæða sig eftir veðri þegar við erum úti.
Mæting er alltaf í Íþróttamiðstöðinni !
Verð fyrir námskeið er 4.500 ( systkinaafsláttur, 50% fyrir barn nr. 2 )
Skránig er í Íþróttmiðstöðinni eða hjá Árný í síma 847-3525
( foreldrar þurfa að vera búin að skrá barnið fyrir 10. ágúst)
Sund og fimleikanámskeið fyrir 5 - 7 ára
Haldið verður sund og fimleikanámskeið í Íþróttamiðstöð Djúpavogs fyrir 5 - 7 ára dagana 13 - 17 ágúst (mánud- föstud) Tímarnir verða alla dagana frá kl. 10:00 - 12:00. Farið verður í grunntækni í bæði sundi og fimleikum ásamt ýmsum skemmtilegum æfingum.
Uppröðun tíma verður sem hér segir.
Mánudagur : fimleikar, þriðjudagur: sund, miðvikudagur: fimleikar, fimmtudagur: sund, föstudagur: fimleikar
Verð fyrir námskeið er 4.500 ( systkinaafsláttur, 50% fyrir barn nr. 2 )
Skránig er í Íþróttmiðstöðinni eða hjá Árný í síma 847-3525
( foreldrar þurfa að vera búin að skrá barnið fyrir 10. ágúst)
Hlakka til að sjá ykkur
Árný Andrésdóttir íþróttafræðingur