Fréttir
Sundlaugin lokuð á morgun
Sundlaugin verður lokið á morgun, fimmtudaginn 31. maí, vegna námskeiðs starfsfólks.
AS
Eurovision- Pub Quiz í Löngubúð
Langabúð er í Eurovision Fíling þessa dagana.
Við ætlum að starta Eurovision helginni með Eurovision Pub Quiz á föstudagskvöldið 25. maí kl. 21. Snillingurinn og Pub Quiz sérfræðingurinn Natan er við stjórnina en þó ekki í Stjórninni með Siggu Beinteins.
Gömul og ný Eurovison lög verða í spilaranum til að koma öllum í fílinginn fyrir Laugardagskvöldið þegar Ísland kemur
til með að rúlla þessu upp.
Hlökkum til að sjá ykkur
Starfsfólk Löngubúðar
Skólaslit og útskrift
Laugardaginn 26. maí, klukkan 11:00 verða skólaslit grunn- og tónskólans og útskrift elstu nemenda leikskólans í Djúpavogskirkju. Að athöfn lokinni verður opið hús í grunnskólanum þar sem verk nemenda verða til sýnis.
Allir velunnarar Djúpavogsskóla eru velkomnir. HDH
Hreinsunarvika 2012
Almenn hreinsunarvika á Djúpavogi hefst mánudaginn 4. júní 2012. Eru bæði íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja hér með hvattir til að hreinsa lóðir sínar og lendur og koma hefðbundnum garða- og lóðaúrgangi að vegkanti, þar sem hann verður sóttur af starfsmönnum sveitarfélagsins og fjarlægður.
Fyrsta ferð hreinsunartækis verður mánudaginn 4. júní, önnur ferð miðvikudaginn 6. júní og sú síðasta föstudaginn 8. júní.
Af þessu tilefni eru börn (í 4. bekk og upp úr) sem ætla að taka þátt í hreinsunarátakinu beðin að mæta við áhaldahúsið mánudaginn 4. júní kl. 08:00, klædd eftir veðri og fyrirliggjandi verkefnum.
Vinnutími verður frá 08:00 – 12:00.
Djúpavogi, 23. maí 2012;
Sveitarstjóri
Frá Bakkabúð
Bakkabúð auglýsir sumaropnunartíma, sem verður eins og hér segir:
Mánudaga - föstudaga: 10:00 - 18:00
Laugardaga og sunnudaga: 11:00 - 16:00
Allir velkomnir
ÓB
Fundur hjá áhugafólki um Hammondhátið
Fundi hjá áhugafólki um Hammondhátíð, sem fram fór föstudaginn 18.maí sl., verður framhaldið á Hótel Framtíð miðvikudagskvöldið 23.maí kl. 20:00.
Allir velkomnir.
ÓB
Öxi 2012 - Göngu og hlaupahelgi fjölskyldunnar
Öxi 2012 er þríþrautarkeppni sem fram fer laugardaginn 30. júní nk. Í kringum þessa keppni er búið að sníða flotta dagskrá sem spannar alla helgina.
Búið er að setja upp upplýsingasíðu fyrir helgina og er þar að finna allt um þríþrautina og viðburði tengda helginni.
Hægt er að komast á síðuna með því að smella hér, en einnig er hægt að nálgast hana með því að smella á Öxi 2012 lógóið hér til vinstri á síðunni.
Við hvetjum fólk til að kynna sér þessa frábæru dagskrá og vera duglegt að hjálpa okkur að auglýsa helgina.
ÓB
Lestrarátak grunnskólans
Eins og búið var að lofa höfum við tekið saman upplýsingar um lestrarátakið í grunnskólanum, sem stóð yfir í um 6 vikur. Nemendur lásu alls 258 bækur, meðaltal á nemanda 5 en sá sem las flestar bækur las 16 stk.
Alls voru lesnar 20.277 blaðsíður sem gera 298 bls. að meðaltali á nemanda en sá nemandi sem las flestar bls. las 2571 bls.
Hér meðfylgjandi eru súlurit þar sem skoða má frammistöðu milli bekkja / nemenda og er það niðurstaða þessa lestrarátaks að 1. og 2. bekkur sigra í fjölda bóka en 3. og 4. bekkur sigra í fjölda lesinna blaðsíðna. Súluritin má skoða hér. HDH
Sveitarstjórn: Fundargerð 18.05.2012
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Úrslit í spurningakeppni Neista
Úrslit í spurningakeppni Neista fóru fram miðvikudaginn 16. maí.
Til úrslita kepptu Vísir hf., Djúpavogshreppur, Ferðaþjónustan Eyjólfsstöðum og Hótel Framtíð.
Vísir og Djúpavogshreppur höfðu tryggt sér þátttökurétt eftir sigur á sitthvoru undankeppniskvöldinu, Hótel Framtíð tók þátt sem stigahæsta tapliðið og Ferðaþjónustan á Eyjólfsstöðum átti sjálfkrafa þátttökurétt sem sigurvegari síðasta árs.
Í fyrstu umferð mættust lið Vísis hf. og Ferðaþjónustunnar á Eyjólfsstöðum þar sem Vísir hafði nauman sigur eftir harða keppni. Í annarri umferð mættust Djúpavogshreppur og Hótel Framtíð. Djúpavogshreppur fór með sigur af hólmi úr þeirri umferð.
Í fyrstu tveimur umferðunum var brugðið á leik þar sem einn keppandi úr hvoru liði, hverju sinni, átti að klæða sig í froskalappir og reyna að vippa af þeim svokallaðri tortillaköku upp á hausinn á sér en á hann var búið að festa plastlok. Keppendur sýndu ótrúleg tilþrif í þessari keppni en sú eina sem náði að klára verkefnið var Snjófríður Kristín Magnúsdóttir úr liði Vísis hf.
Í úrslitum mættust því Vísir og Djúpavogshreppur. Að loknum hraðaspurningum var staðan 16-14, Djúpavogshreppi í vil en áður en að síðustu spurningu kvöldsins kom hafði Vísir hf. jafnað. Ótrúleg þekking Skúla Benediktssonar á Bastilludeginum í Frakklandi tryggði Djúpavogshreppi 2 stig og þar með sigur í keppninni 27-25.
Skemmtilegri keppni lokið og óskum við Djúpavogshreppi til hamingju með sigurinn.
Smellið hér til að sjá myndir frá kvöldinu.
Stjórn UMF Neista
Stuðningsfulltrúa vantar í liðveislu í grunnskólann
Stuðningsfulltrúa vantar til liðveislu við nemanda í 5. bekk, í u.þ.b. 60% starf frá 3. september 2012 – 31. maí 2012. Umsóknarfrestur er til 25. maí 2012. Nánari upplýsingar veitir skólastjóri í síma 478-8246 og 899-6913 eða á netfanginu skolastjori@djupivogur.is
HDH
Sveitarstjórn: Fundarboð 18.05.2012
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 18. 05. 2012
25. fundur 2010-2014
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps föstud. 18. maí 2012 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:
1. Ársreikningur Djúpavogshrepps 2011, síðari umræða
2. Samþykkt um B-gatnagerðargjöld, síðari umræða
3. Önnur mál
Djúpavogi, 16. maí 2012;
Sveitarstjóri
Úrslit í spurningakeppni Neista í kvöld
Í kvöld kl. 20:00 á Hótel Framtíð verður hörkuspennandi lokaspurningakeppni Neista. Á svið munu stíga sigurvegarar undan-keppninnar, stigahæsta tapliðið og sigur-vegarar síðasta árs.
Þessi lið munu sjá okkur fyrir skemmtun kvöldsins ásamt hinum geðþekka sveitastjóra sem er spyrill kvöldsins.
Aðgangseyrir 500 kr. sem rennur óskiptur til Ungmennafélagsins.
Fjölmennum kæru Djúpavogsbúar og hvetjum áfram okkar lið og styrkjum starf félagsins.
Stjórn Neista.
Nýr ferðamálafulltrúi
Nýr ferða- og menningarmálafulltrúi er tekinn til starfa. Sá heitir Ugnius Hervar Didziokas og hefur verið ráðinn tímabundið, eða til ársloka, í ljósi þess að enn hefur ekki verið formlega gengið frá hvort og þá með hvaða hætti sameinaðar stoðstofnanir á Austurlandi, Austurbrú, muni koma að ráðningu nýs fulltrúa.
Ugnius útskrifaðist með BA gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands árið 2007, framhaldsgráðu í þróunarfræðum frá sama skóla 2009 og mun ljúka meistaranámi í mannfræði frá HÍ nú í vor.
Ugnius hefur mikla reynslu af störfum í ferðaþjónustu. Hann hefur starfað á Hótel Framtíð, hjá Papeyjarferðum og Hótel Sögu Radisson SAS auk þess sem hann starfaði á skemmtiferðaskipinu Her Majesty Queen Elisabeth II.
Hægt er að ná í Ugnius í síma 478-8288 og hann er með netfangið ugnius@djupivogur.is.
Sveitarstjóri
Förum varlega í umferðinni
Í nótt eða snemma í morgun hefur verið keyrt á tvö hreindýr á þjóðveginum fyrir neðan Ask. Ljóst er að ökumaðurinn hefur keyrt á þau á töluverðri ferð því annað þeirra hefur kastast nokkuð langt út fyrir veginn, enda alla jafna ekki mikið svigrúm til að bremsa þegar dýrin stökkva skyndilega í veg fyrir bílana.
Við viljum brýna fyrir ökumönnum að fara varlega, nú sérstaklega þegar hreindýrin eru farin að færa sig út á Búlandsnesið.
ÓB
Myndir af brandönd
Hér má sjá myndir af brandandarpari sem var við leik í gær á vatninu við svokallaðar Selabryggjur á Búlandsnesi. AS
Frá Löngubúð
Langabúð er opin alla virka daga í maí frá 10:00 - 18:00 og 10:00 - 23:30 föstudaga og laugardaga.
Kökur, kræsingar, bjór og bitar.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Starfsfólk Löngubúðar
Frá UMF Neista
Síðasti neistatími annarinnar er 15. maí. Sumardagskrá verður afhent á skólaslitum.
Enn er laust starf þjálfara fyrir sumarið og þeir sem hafa áhuga hafi samband við Ester í síma 899-7600.
UMF Neisti
Strandveiðifréttir á vefmiðlum
Nokkrir fréttamiðlar hafa fjallað um þá vertíðarstemmningu sem myndaðist hér á Djúpavogi í síðustu viku í tengslum við strandveiðarnar. Látum hér fylgja tengla á þessar fréttir.
Útvarpsfrétt Ríkisútvarpsins (frétt hefst eftir 2:15 mín.)
ÓB
Djúpavogshreppur auglýsir: Sumarvinna 2012
Djúpavogshreppur auglýsir vinnu fyrir sumarið 2012:
1. UNGLINGAR
Nemendum í 8., 9. og 10. bekk í Grunnskóla Djúpavogs stendur til boða vinna á vegum sveitarfélagsins sumarið 2012 sem hér greinir:
8. bekkur: Frá 1. júní til og með 15. ág.: 4 klst. á dag.
9. bekkur: Frá 1. júní til og með 15. ág.: 4 klst. á dag.
10. bekkur: Frá 1. júní til og með 15. ág.: 8 klst. á dag.
Umsóknarfrestur til 25. maí (umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins)
Einnig verður í boði vinna í hefðbundinni hreinsunarviku fyrir 4. – 7. bekk og mun hún verða auglýst í skólanum.
2. STARFSMENN Í ÁHALDAHÚSI
Djúpavogshreppur auglýsir eftirt. tímabundin sumarstörf til umsóknar:
Auglýst eru allt að 4 störf fyrir 17 ára og eldri við slátt lóða og opinna svæða, hreinsun, snyrtingu o.m.fl. Hluti af störfunum verður við flokksstjórn og skulu áhugasamir taka slíkt fram í umsókn. (Fjöldi flokksstjóra verður ákveðinn, þegar fyrir liggur fjöldi umsækjenda úr Grunnskólanum).
Umsóknarfrestur til 25. maí (umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins.)
Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf eigi síðar en í byrjun júní.
Nánari upplýsingar, m. a. um launakjör í síma 478-8288.
Sveitarstjóri
Til kattaeigenda - vinsamleg tilmæli
Á ári hverju berst sveitarfélaginu umtalsverður fjöldi ábendinga og kvartana frá íbúum er varðar kattahald hér í þéttbýlinu á Djúpavogi og eru umkvörtunarefnin með svipuðu sniði milli ára. Ekkert lát hefur heldur verið á kvörtunum þetta árið. Sveitarfélögin hafa sannarlega skyldur að bera í þessum efnum og því er brugðið á það ráð hér að senda vinsamleg tilmæli og fara þess á leit við kattaeigendur að þeir mæti sjónarmiðum þeirra íbúa er gagnrýna mikla lausagöngu katta í þéttbýlinu ekki síst á þessum tíma árs. Kettir geta verið skaðræði í varpi og sumir þeirra virðast ekki vera með bjöllur eða lítið virkar.
Lang flestar kvartanir vegna katta berast einmitt á vorin og í byrjun sumars í tengslum við varptíma fuglanna, en þá hafa kattaeigendur einnig ríkari skyldur en á öðrum tíma árs.
Sjá samþykkt um kattahald í Djúpavogshreppi http://www.djupivogur.is/data/dpv.samth.kattah08.pdf. Kattaeigendum ber m.a. að sjá til þess á varptíma að kettirnir séu hafðir inni á næturnar og séu með bjöllur um háls og er það sérstaklega áríðandi í maí og júní. Þá eiga kettir auðvitað að vera merktir og skráðir en á þessu hefur verið misbrestur.
Að öðru leyti berast einnig jöfnum höndum kvartanir vegna annarra truflana sem kettir valda óskyldum aðilum sem vilja hvorki hafa ketti í húsum sínum eða lóðum. Eigendum katta og hunda ber samkvæmt almennum samþykktum að valda ekki öðrum íbúum ónæði með dýrahaldi sínu.
Kattaeigendur eru því hér vinsamlega beðnir um að virða almennt þær reglur sem í gildi eru svo komist verði hjá hjá frekari aðgerðum en útsendingu þessa bréfs.
Virðingarfyllst AS
ATH!! Úrslitum í spurningakeppni Neista frestað
Vegna óveðurs er spurningakeppni Neista, sem fara átti fram í kvöld, frestað fram á miðvikudaginn 16. maí. Hún fer fram kl. 20:00 á Hótel Framtíð.
Liðin sem mætast þá eru Djúpavogshreppur, Vísir, Hótel Framtíð og Ferðaþjónustan Eyjólfsstöðum.
Nýjar spurningar, ný skemmtiatriði og ótrúlega skemmtileg lið í úrslitum.
Sjáumst sem flest í blíðunni þá.
Stjórn UMF. Neista.
Sauðburður hafinn í Fossárdal
Okkur barst eftirfarandi texti og myndir frá Guðnýju og Hafliða í Fossárdal:
Nú er sauðburður hafinn í Fossárdal. Bændur þar vilja bjóða fólk velkomið í fjarhúsin til að fylgjast með sauðburði, skoða lömb eða jafnvel hjálpa til.
Sólarhringsvakt er í húsunum út maímánuð svo að engin tímamörk eru á heimsóknum. Ef mikið er að gera þegar fólk ber að garði er ekki víst að bændur hafi tíma til að standa og spjalla. Verða gestir að virða það og vera sjálfum sér nógir, þegar svo ber undir.
Gestir eru á eigin ábyrgð.
Vegna smithættu eru gestir beðnir um að koma ekki í skóm sem hafa verið notaðir í öðrum fjárhúsum.
ÓB
Fyrstu lömbin í Fossárdal 2012
Sveitarstjórn: Fundargerð 10.05.2012
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
Strandveiðimyndir frá gærdeginum
Undirritaður skrapp á bryggujna eftir kl. 17:00 í gær og tók nokkrar myndir, en þá streymdu bátaranir inn til löndunar.
Smellið hér til að skoða myndirnar.
ÓB