Fréttir
Skemmtiferðaskipið Ms. Prinsendam á Djúpavogi
Laugardaginn 30. júlí nk. er von á skemmtiferðaskipinu Ms. Prinsendam til Djúpavogs. Skipið er um 37 þúsund brúttótonn að stærð og er farþegafjöldi þess um 800 manns. Gert er ráð fyrir því að skipið verði hér um kl. 09:00 og haldi á haf út aftur kl. 17:00. Farþegum stendur til boða ýmsar ferðir í nágrenninu t.d. ferð í Jökulsárlón, Fossaferð og sigling út í Papey.
Skipið er systurskip skemmtiferðaskipsins Ms.Maasdam, sem hefur komið tvisvar til Djúpavogs og von er á því hingað í þriðja skiptið miðvikudaginn 3. ágúst nk. með um 1200 farþega. Bæði skipin eru í eigu skipafélagsins Holland America Line.
Ferða- og menningarmálafulltrúi
BR
Fótboltaleikir á Djúpavogsvelli í dag
Fótboltaáhugamenn á Djúpavogi eru líklegir til þess að gleðjast við lestur þessarar fréttar en hvorki fleiri né færri en tveir fótboltaleikir verða spilaðir á Djúpavogsvellinum í dag.
Fyrst eru það KAH og UMFB sem spila kl. 18:00 og svo strax að þeim leik loknum eða kl. 20:00 ætla KAH - menn að keppa á móti Þristi.
Allir á völlinn !
UMF Neisti
BR
Sumarlokun skrifstofu Djúpavogshrepps
Skrifstofa Djúpavogshrepps verður lokuð frá 18. júlí til og með 14. ágúst vegna sumarleyfa.
Skrifstofan opnar aftur mánudaginn 15. ágúst kl. 13:00.
Heimasíða sveitarfélagsins mun einnig verða í sumarfríi á þessum tíma.
Sveitarstjóri
Hrafnkell/Neisti - Spyrnir á Neistavelli í kvöld
Sameinað lið Hrafnkels Freygoða og Neista tekur á móti Spyrni á Neistavelli kl. 20:00 í kvöld.
ÓB
Golfklúbbur Djúpavogs auglýsir
Hrafn Guðlaugsson verður með golfnámskeið hér á Djúpavogi dagana 4. og 5. ágúst. Fyrirkomulag og verð á námskeiðinu fer eftir fjölda þátttakenda. Kennslan verður fyrir alla, byrjendur sem lengra komna, börn og fullorðna.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt en eiga ekki kylfur geta fengið lánað hjá Golfklúbbi Djúpavogs.
Frekari upplýsingar og skráningar fara fram hjá Óðni Sævari í síma 848-5600.
UMF Neisti
BR
Ný gjaldskrá í grunnskólanum
Vakin er athygli á því að samþykkt hefur verið ný gjaldskrá í grunnskólanum. Samræmdar voru gjaldskrár á skrifstofu og í skóla eins og hægt er. Auk þess er komin ákveðin sérhæfing á hvorum stað fyrir sig. Sérstaklega skal bent á þá nýbreytni að framvegis verður tekið gjald af þeim sem taka próf í skólanum, krónur 1.500.- fyrir hvert próf (hægt að semja sérstaklega við skólastjóra ef tekin eru mörg próf í einu). Hefur þetta tíðkast um nokkurt skeið hér í fjórðungnum en við tökum þetta upp í fyrsta sinn hér hjá okkur.
Gjaldskrána má finna hér.
Skemmtiferðaskipið Princess Danae á Djúpavogi
Fimmtudaginn 21. júlí nk. er von á fyrsta skemmtiferðaskipi sumarsins til Djúpavogs en það er skipið Princess Danae. Skipið sem skráð er í Panama er 16.531 brúttótonn að stærð og tekur um 500 farþega en fjöldi áhafnarmeðlima er um 220.
Gert er ráð fyrir því að skipið komi hér um kl. 06:00 og fari um kl. 15:00 eftir hádegi.
Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs
BR
Toppskarfar í Papey með unga
Í dag sendi Stefán Guðmundsson hafnarvörður á Djúpavogi heimsíðunni fágætar myndir af toppskarfi sem heldur til í Papey og ekki nóg með það heldur náði hann myndum af skarfinum á hreiðri með tvo unga sér við hlið. Á síðasta ári var staðfest að toppskarfur hefði sést í eyjunni á hreiðri en nú hafa þar sést tvö hreiður. Toppskarfar eru fáséðir hér austur á fjörðum en þeir halda sig að mestu við Breiðafjörð. Má með sanni segja að hér sé um kærkomna viðbót að ræða við hið fjölskrúðuga fuglalíf á svæðinu og er vonandi að toppskarfurinn sé komin til að vera í Papey. Heimasíðan þakkar hér með Stefáni kærlega fyrir myndirnar. AS
Leikhópurinn Lotta á Djúpavogi
Leikhópurinn Lotta sýnir glænýtt íslenskt leikrit um Mjallhvíti og dvergana sjö í Hálsaskógi á Djúpavogi föstudaginn 15. júlí klukkan 18. Þetta er fimmta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi.
Leikgerðina um Mjallhvíti og dvergana sjö gerði Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er fyrsta leikritið sem hún skrifar en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið en auk Önnu koma þar að verki Rósa Ásgeirsdóttir, Oddur Bjarni Þorkelsson og Baldur, Helga og Snæbjörn Ragnarsbörn.
Alls leika fimm leikarar í sýningunni auk tónlistarmanns sem er inni á sviðinu allan tímann. Þessir fimm leikarar skipta á milli sín öllum 12 hlutverkunum og stundum þurfa meðal annars að vera 7 dvergar inni á sviðinu í einu. Sjón er sögu ríkari. Herlegheitunum er síðan leikstýrt af dúettinum Oddi Bjarna Þorkelssyni og Margréti Sverrisdóttur, en þau eru einmitt nýir umsjónarmenn Stundarinnar okkar.
Miðaverð á sýninguna er einungis 1.500 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Sýningin er um klukkustund að lengd, gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra og um að gera að taka með sér teppi til að sitja á. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403.
ÓB
Frá Ferðafélagi Djúpavogs
Laugardaginn 16. júlí mun Ferðafélag Djúpavogs ganga á Slött.
Mæting Við Voginn kl 10:30, öllum velkomið að ganga með.
Upplýsingar veitir Guðný Gréta í síma 843-6673.
ÓB
Eggin í Gleðivík - minjagripir
Um nokkurt skeið hefur verið unnið að gerð minjagripa, sem eru nákvæmar eftirmyndir af listaverkinu Eggin í Gleðivík. Minjagripirnir eru nú tilbúnir og hafa verið settir í sölu í Löngubúð og Bakkabúð. Um er að ræða eftirmyndir af fjórum eggjum úr Gleðivík, egg lundans, fálkans, straumandar og að lokum eitt stærra egg sem er eftirmynd af eggi lómsins.
Myndir af minjagripunum má sjá hér en við minnum að sjálfsögðu á að sjón er sögu ríkari !
Egg fálkans
Egg straumandar
Egg lundans
Egg lómsins en það egg er stærra en hin þrjú
BR
Vísir hf. kaupir búnað frá Marel
Frétt af Marel.is
Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vísir hf., sem er með höfuðstöðvar í Grindavík, hefur undirritað samning um kaup á vinnslubúnaði frá Marel í allar fjórar landvinnslueiningar sínar. Um er að ræða vinnslulínu, skurðarvélar, samvalsflokkara, hráefnisflokkara og vogir, ásamt Innova hugbúnaði.
Samningurinn er mikilvægur áfangi fyrir báða aðila. Fyrir Vísi, er mikilvægt að nýta sér ávallt nýjustu tækni sem völ er á hverju sinni. Fyrirtækið rekur útgerð og landvinnslu á Íslandi, auk þess að taka þátt í sjávarútvegi erlendis. Umfang fyrirtækisins er því mikið og mikilvægt að hafa sem besta yfirsýn og eftirlit með framleiðslunni. Fyrir Marel er hér um að ræða stærstu einstaka sölu á búnaði í íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki.
Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri Vísis
„Við höfum mjög góða reynslu af samstarfi við Marel þegar kemur að tækja- og hugbúnaði. Marel þekkir þarfir sjávarútvegsins og það endurspeglast í virkni og gæðum búnaðarins. Okkar markmið er að byggja á traustum vinnslu- og hugbúnaði sem er í stöðugri þróun og getur fylgt okkur inn í framtíðina. Við teljum Marel uppfylla þær kröfur og því veljum við búnað frá Marel.“
Stærstur hluti vinnslubúnaðarins verður settur upp í starfsstöð Vísis á Húsavík til endurnýjunar á eldri búnaði en einnig verður settur upp búnaður á Djúpavogi og Þingeyri. Nýi búnaðurinn mun bæta mjög alla aðstöðu starfsfólks ásamt því að auka framleiðslugetu og nýtingu í framleiðslu á ferskum fiski til útflutnings. Með þessum samningi er Vísir hf. kominn með Innova hugbúnað frá Marel í allar sínar landvinnslueiningar til notkunar við gæða- og vinnslueftirlit.
ÓB
Frá UMF Neista
Kæru Neistamenn og -konur
Eins og áður hefur komið fram fékk umf. Neisti úthlutað sölutjaldi á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum sem fram fer um verslunarmannahelgina. Tjaldið okkar verður staðsett í tjarnargarðinum þar sem barnadagskráin fer fram, auk þess er okkur heimilt að fara með varning og selja á Vilhjálmsvelli. Opnunartími í tjaldinu hjá okkur miðast því við auglýsta dagskrá í tjarnargarðinum og á Vilhjálmsvelli, þ.e. föstud. 13:00-18:00 laugard. 10:00-17:00 og 20:00-22:00 og sunnud. 10:00-17:00 og 20:00-22:00.
Nú styttist óðum í landsmótið og komið að því að fara að undirbúa söluvarning til að selja í tjaldinu og finna starfsfólk í tjaldið. Búið er að ákveða að selja heimabakstur, sælgæti, samlokur, beyglur, pitsur, ávexti, drykki ofl. Flest af þessu verður keypt tilbúið, kemur frosið og þarf einungis að hita áður en það er selt. Til stendur þó að baka kleinur, ástarpunga og orkubita. Við höfum fengið leyfi til að baka á Helgafelli, því allt sem við seljum þarf að vera bakað og útbúið í vottuðu/löglegu eldhúsi.
Til þess að Neisti geti nýtt sér þetta sem góða fjáröflun þurfa allir foreldrar sem eiga börn sem stunda æfingar hjá Neista að hjálpa til. Því eru hér með allir foreldrar og aðrir sem vilja rétta hjálparhönd boðaðir á fund á morgun fimmtudaginn 14. júlí kl.20:00 í Grunnskólanum. Þar verður bakstur og vaktaplan skipulagt.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér glæsilega og fjölbreytta dagskrá mótsins geta smellt hér
Sjáumst vonandi sem flest
Stjórn umf. Neista
Ýmsar upplýsingar vegna rofs hringvegarins við Múlakvísl
Fjallabaksleið nyrðri F208 er fær 4x4 bílum - F210 er mun erfiðari, sandur og dýpra vað
Hertz bílaleiga, Budget, Avis - Ferðafólk er ferjað yfir ána á rútum og bílarnir fluttir yfir á trukkum/pallbílum, þrír bílar á einum trukk.
Bílaleiga Akureyrar, Europcar - býður uppá ferðir milli Kirkjubæjarklausturs og Hrauneyja yfir Fjallabak. Ferðafólk skiptist á bílum: Bílaleigubíllinn er skilinn eftir og sambærilegur bíll tekinn er á hinum staðnum. Brottfarir frá Kirkjubæjarklaustri og Hrauneyjum kl 10:30 og 15:30 og alla daga þar til samband kemst á. (einnig geta menn fengið 4x4 bíl og keyrt).
Átak bílaleiga – ætla að reyna að fara sömu leið og Hertz.
Sterna áætlunarferðir - Ferja á fólk yfir ána. Búist er við 0:45—1:00 seinkunn á áætlun. Sterna síma 551 1166
Ferja yfir Múlakvísl - Ferjað er á milli 9-17 alla daga. Fyrir litla bíla og húsbíla og þá sem komast ekki Fjallabak. Þegar ferjað er eru tveir bílar í einu og fólk fer með rútu yfir ána.
Hér má finna fréttatilkynningar á íslensku og ensku vegna ástandsins við Múlakvísl.
Einnig er bent á heimasíður hjá eftirtöldum stofnunum sem reglulega birtar fréttir af stöðu mála á svæðinu:
Ferðamálastofa www.ferdamalastofa.is
Vegagerðin www.vegagerdin.is
Almannavarnir www.almannavarnir.is
Íslandsstofa www.iceland.is
BR
Frá UMF Neista
Sumarhátíð ÚÍA var haldin á Egilsstöðum um helgina og að vanda mætti vaskur hópur af Neistakrökkum til keppni á mótinu. Neistakrakkarnir stóðu sig með glæsibrag og unnu stigabikarinn í sundinu og lentu í öðru sæti í stigakeppninni í frjálsum íþróttum, 14 ára og yngri.
Þá varð Kamilla Marín Björgvinsdóttir stigahæst í flokki stelpna 11-12 ára og Ásmundur Ólafsson stigahæstur í flokki 11-12 ára í sundinu.
Við óskum Neistakrökkunum til hamingju með þennan glæsilega árangur.
UMF Neisti
BR
Tónleikar í Djúpavogskirkju
Þriðjudagskvöldið 12. júlí kl. 20:30 ætla Rannveig Káradóttir, sópran og Birna Hallgrímsdóttir píanóleikari að halda tónleika í Djúpavogskirkju en yfirskrift tónleikanna er "Náttúran, íslensk sönglög".
Þessir tónleikar eru góð kynning á íslenskri tónlist, ljóðum og náttúru og tilvalin afþreying fyrir alla.
Allir velkomnir,
Birna Hallgrímsdóttir og Rannveig Káradóttir
BR
Sveitarstjórn: Fundargerð 06.07.2011
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Íslandsmót hnáta 2011
6. flokkur Neista keppir á Íslandsmóti hnáta á morgun, 7. júlí á Neistavelli kl. 13:00.
Mætum á völlinn og styðjum stelpurnar okkar.
Sala veitinga verður á staðnum.
UMF Neisti
Neisti/Hrafnkell leikur í kvöld gegn KAH
Sameinað lið Neista/Hrafnkels Freysgoða tekur á móti KAH í Launaflsbikarnum á Staðarborgarvelli í kvöld kl. 20:00.
Veðurspáin er góð og grasið grænt og því tilvalið að taka rúnt yfir í Breiðdalinn og styðja okkur menn.
ÓB
Upptökur af Karlakórnum Trausta
Norvald Sandö fer mikinn í myndbandagerð en við fundum á JúTjúb upptökur sem hann setti inn af Karlakórnum Trausta sem teknar voru á fyrstu tónleikum kórsins.
Við erum að sjálfsögðu afskaplega montin að eiga svona fínan karlakór og vildum því deila þessum myndböndum með ykkur.
Karlakórinn Trausti er nú í langþráðu sumarfríi en hefur störf aftur á hausti komanda.
ÓB
Gæsluvöllur á leikskólanum
Gæsluvöllur fyrir börn á leikskólaaldri verður opinn á lóð leikskólans frá 18. júlí-16. ágúst.
Opið verður frá kl. 13:00 - 17:00 virka daga.
Gjald er 200 kr. pr. klst og verður innheimt með greiðsluseðli að tímabilinu loknu.
Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarfélagsins.
Sveitarstjóri
Ár í dag frá hamförunum á Búlandsdal
Aðfaranótt 2. júlí 2010 féll aurskriða á vatnsveituna á Búlandsdal sem gerði það að verkum að vatnslaust varð á Djúpavogi í nokkra daga. Það er svosem ástæðulaust að vera að rifja þetta upp en því er þó ekki að neita að veðurfarið í dag, 2. júlí 2011, er keimlíkt því sem var þegar skriðan féll. Hins vegar var töluvert hvassara og meira úrhelli þá.
Hér að neðan eru umfjallanir heimasíðunnar um hamfarirnar:
Myndbönd frá hamfarasvæðinu
Vatnslaust á Djúpavogi
ÓB
Leikskólinn auglýsir
LEIKSKÓLINN / Leikskólakennari
Leikskólinn Bjarkatún, Djúpavogi auglýsir eftir leikskólakennara frá og með 16. ágúst 2011. Auglýst er 75 % stöðu inn á deild leikskólans.
Samkvæmt lögum nr. 87/2008;2 kafli, 3 gr.
Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra. Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
- meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
- öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.
Samkvæmt lögum nr. 87/2008;6 kafli, 17 gr.
Sæki enginn leikskólakennari um auglýst leikskólakennarastarf, leikskólastjórastarf eða aðstoðarleikskólastjórastarf, sbr. 2. mgr. 9. gr., þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hið sama gildir ef umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem nauðsynleg teljast til þess að fá ráðningu í starf. Nú hefur starf starfsmanns verið auglýst í tvígang án þess að leikskólakennari hafi fengist og er þá heimilt að ráða hann í starfið samkvæmt nánari fyrirmælum sveitarstjórnarlaga og hlutaðeigandi kjarasamnings. Starfsmaður sem ráðinn er vegna framangreindra aðstæðna má ekki bera starfsheitið leikskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
Upplýsingar er hægt að nálgast hjá leikskólastjóra, Þórdís í síma 478-8832/860-7277 eða í tölvupósti, bjarkatun@djupivogur.is
Umsóknarfrestir er t.o.m. 14. Júlí 2011. Umsóknum má skila í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is eða í lokuðu umslagi merktu Leikskólinn á skrifstofu Djúpavogshrepps. Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu Djúpavogshrepps eða á heimasíðu Djúpavogs undir eyðublöð. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.
Myndskeið frá Leirási
Ferðafélag Djúpavogs fór sl. helgi inn að Leirási til að ditta að kofanum sem þar er og skipta um pallaefni. Norvald Sandö er búinn að setja saman skemmtilegt myndband frá ferðinni en það er hægt að sjá hér fyrir neðan.
ÓB