Fréttir
Gönguferð um póstleiðina á milli Berufjarðar og Reyðarfjarðar aflýst
Ákveðið hefur verið að stofna til gönguferðar um gömlu póstleiðina milli Berufjarðar og Reyðarfjarðar, 6. – 9. ágúst 2011.
Nánari upplýsingar má finna hér á heimasíðu Útivistar.
Sérstaklega er gert ráð fyrir að Austfirðingar geti tekið þátt í göngunni eða hluta hennar, með því sleppa gistingu og taka þátt í einni eða fleiri göngum með rútuferð. Er þá gert ráð fyrir að fólk komi sér að morgni, á eigin bíl þangað sem viðkomandi ganga endar og taki rútu að upphafsstað göngu. Er síðan gengið í bílana, óháð tíma.
Fararstjóri verður Ísar G. Arnarson, sími 563 3287 / Farsími 664 3287 Netfang: isar@ejs.is
Vinsamlega hafið samband við skrifstofu Útivistar í síma 562-1000 til að leggja inn pöntun um þátttöku eða fá frekari lýsingu á fyrirkomulagi.
Auk þess er gert ráð fyrir að fá staðkunnuga leiðsögumenn í hvern áfanga.
Tannlæknastofan á Djúpavogi auglýsir
Tannlæknastofan verður opin eftirfarandi föstudaga:
1. júlí
5. ágúst
19. ágúst
9. september
23. september
7. október
21. október
4. nóvember
25. nóvember
9. desember
13. janúar
9. mars
Tímapantanir í síma 471-1430.
Tannlæknastofan á Djúpavogi
Opnun bókasafnsins og aðeins um óskilafatnað
Athygli er vakin á því að svolítið er enn af óskilafatnaði í grunnskólanum. Bókasafnið er opið í dag frá 17:00 - 19:00 og er hægt að nálgast fatnað þá. Allur ómerktur fatnaður sem eftir stendur eftir þriðudaginn verður gefinn til Rauða krossins.
Opnunin á bókasafninu í dag verður sú síðasta fyrir sumarfrí. Stefnt er að því að opna bókasafnið aftur í lok ágúst.
KBG
Neisti/Hrafnkell - Þristur á Neistavelli - Breytt tímasetning
Sameinað lið Neista/Hrafnkels Freysgoða mætir hinu fornfræga félagi, Þristinum á Neistavelli mánudaginn 27. júní kl. 20:00.
Mætum og styðjum okkar menn.
ÓB
Skógardagur leikskólans
Skógardagur leikskólans verður haldinn 10. árið í röð nú á laugardaginn 25. júní kl. 14:00 í Hálsaskógi. Við munum að venju mála steina og raða þeim síðan við upphaf göngustígsins síðan verður gengið saman um skóginn og listaverk barnanna þetta árið skoðuð. Síðan geta þeir sem vilja sest niður í Aðalheiðarlundi og þeir sem vilja geta borðað nestið sitt. Njótum dagsins og samverunnar.
Listaverkin fá síðan að hanga í skóginum fram eftir sumri.
ÞS
Lífsviljinn - Stuttmynd um Rafn Heiðdal
Eins og flestir vita greindist Rafn Heiðdal með krabbamein sl. sumar. Rabbi er nú á batavegi eftir erfiða baráttu og horfir bjartsýnn fram á veginn. Skúli Andrésson fylgdi Rabba í gegnum þessa erfiðu lífsreynslu vopnaður myndavél og afraksturinn, suttmyndin Lífsviljinn, hefur nú litið dagsins ljós. Myndin var sýnd á hátíð íslenskra heimildamynda, Skjaldborg, helgina 10.-12. júní sl.
Um myndina:
Lífið tók miklum breytingum hjá Rafni Heiðdal þegar hann greindist með illkynja æxli um miðjan júní 2010, þá aðeins 23 ára að aldri. Á þessum tíma var Rafn að klára nám í rafvirkjun og var sömuleiðis að spila fótbolta af krafti í 1. deildinni. Rafn og kærastan áttu von á sínu fyrsta barni um miðjan október sama ár. Æxlið fannst í stoðkerfinu og var ummál þess 12 cm á lengd og 7 cm á breidd. Rafn þurfti að taka eitt skref í einu og hans biðu erfiðir tímar, endalaus bið, föðurhlutverk og óljós framtíð.
Við hvetjum fólk til að horfa á þessa mynd, en það er hægt að gera með því að smella hér.
ÓB
17. júní 2011 á Djúpavogi
Óhætt er að segja að gamla góða 17. júní stemmningin hafi verið endurvakin þegar sá ágæti dagur var haldinn hátíðlegur hér á Djúpavogi í ár. Farið var þá leið að efna til hverfakeppni, eins og þekkist víða á landinu, og var Djúpavogshreppi skipt í 4 hverfi. Það er skemmst frá því að segja að þessi tilhögun tókst einstaklega vel og var þátttaka hreppsbúa algerlega til fyrirmyndar. Strax í vikunni fyrir 17. júní var byrjuð að myndast stemmning og hverfin farin að leggja drög að skreytingum, en formlegur skreytingardagur var 16. júní.
Hverfunum var þannig skipt að í rauða hverfinu voru Hammersminni, Eyjaland, Varða, Vogaland, Mörk og dreifbýli í Hamarsfirði og Áltafirði. Bláa hverfið var skipað Markarlandi, Kambi, Brekku, Víkurlandi og dreifbýli í Berufirði. Appelsínugula hverfið skipuðu Búland, Steinar, Hraun og Hamrar. Gula hverfið var síðan skipað Borgargarði, Borgarlandi og Hlíð.
Það var mikið fjör í bænum seinni part 16. júní og fyrri part þess 17. þegar hverfin kepptust um að hrúga upp skreytingum, en á hádegi 17. júní fór dómnefnd um bæinn og valdi það hverfi sem henni þótti best skreytt.
Skrúðganga var farin kl. 14:00 frá Grunnskólanum. Það eru sennilega nokkuð mörg ár síðan að skrúðganga á Djúpavogi hefur verið svo fjölmenn, því um 150 manns þrömmuðu sem leið lá á íþróttavöllinn þar sem hátíðardagskrá skyldi fara fram. Sem varð sannarlega raunin.
Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg. Margrét Vilborg Steinsdóttir, fjallkona, flutti ávarp og fulltrúar hverfanna tóku þátt í hinum ýmsu þrautum, allt frá kappáti til fótboltasparks.
Að lokinni dagskrá var komið að því að telja saman stigin til að sjá hvaða hverfi myndi hljóta farandbikarinn þetta árið. Gefin voru stig fyrir bestu skreytingu, fyrir sigur í Pub-Quiz að kvöldi 16. júní, bestu mætingu á keppnissvæði og fyrir þær þrautir sem keppt var í á íþróttavellinum.
Það varð úr að Gula liðið stóð uppi sem sigurvegari en það fékk bæði stig fyrir bestu skreytingu og bestu mætingu. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út meðal þeirra gulklæddu, enda keppnin búin að vera einstaklega hörð og tvísýn. Stefán Kjartansson og Egill Egilsson, kóngar Gula hverfisins lyftu því, fyrstir konunga, farandbikarnum sem smíðaður var af Vilmundi í Hvarfi.
Ljóst er að þessi hverfakeppni er komin til að vera og íbúar sumir hverjir strax farnir að huga að skreytingum fyrir næsta ár.
17. júní nefndin vill koma á framfæri þökkum til Vilmundar í Hvarfi fyrir farandbikarinn og svo fær Við Voginn þakkir fyrir kjötsúpuna dásamlegu.
Myndir má sjá með því að smella hér.
Texti: ÓB
Myndir: ÓB/AS/PFS/UMJ
Djúpivogur í Landanum
Djúpivogur er að verða tíður gestur í þjóðlífsþættinum Landanum á RÚV, sem er vel. Í þetta sinn var spjallað við Andrés Skúlason og Kristján Ingimarsson um fuglalífið í Djúpavogshreppi og verkefnið birds.is.
Hægt er að skoða innslagið með því að smella hér. Ekki er búið að klippa þáttinn þegar þetta er skrifað en innslagið frá Djúpavogi byrjar eftir eina og hálfa mínútu.
ÓB
Gunnar Stefáns týndur í Asíu
Gunnar Stefánsson, yfirleitt kenndur við Ösp, eða bara Nínu og Stebba, er nú á ferðalagi um Asíu og mun næstu vikur kanna þar hvern krók og kima. Hann heldur úti heimasíðunni www.lostinasia.net þar sem hægt er að fylgjast með ferðalaginu.
ÓB
Sveitarstjórn: Fundargerð 16.06.2011
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Leikur á Neistavellinum
Í dag, sunnudaginn 19.júní kl. 18:00 fer fram leikur Spyrnis og KAH á Nestavellinum
Hrafnkell/Neisti spilar einnig á móti UMFB á Borgarfirði í dag og hefst sá leikur kl. 18:00
Allir á völlinn
BR
Litadagur í leikskólanum
Í tilefni 17. júní og hverfakeppninnar sem er að byrja þá mættu börnin í sínum hverfislit í leikskólann. Voru því börn og starfsfólk í gulum, rauðum, bláum og appelsínugulum fötum sem mættu í leikskólann í dag. En hvaða hverfi ætli eigi flest leikskólabörnin.
Úr Appelsínugula hverfinu mættu 10 börn en enginn starfsmaður í leikskólanum er úr þessu hverfi. En ef öll börnin hefðu mætt þá væru 11 börn talsins úr þessu hverfi.
Úr bláa hverfinu mættu 6 börn og 2 starfsmenn. En það eru öll leikskólabörn hverfisins.
Úr gula hverfinu mættu 10 börn og 3 starfsmenn leikskólans. (Rétt eftir að þessi mynd var tekin mætti 10unda barnið og því eru þau 9 á myndinni). Ef öll börnin hefðu mætt væru þau 13 talsins og því er gula hverfið með flest börn á leikskólaaldri.
Úr rauða hverfinu mættu 6 börn og 2 starfsmenn. Hér mættu öll börnin í hverfinu í leikskólann.
ÞS
Sjálfsmatsskýrsla 2011
Skv. grunnskólalögum ber grunnskólum að sinna sjálfsmati í skólanum. Slík vinna fór fram í grunnskólanum sl. vetur eins og undanfarin ár. Skýrslan hefur verið send til sveitarstjórnar og skólanefndar til kynningar. Jafnframt er hún birt hér á síðunni, undir sjálfsmat, ásamt fylgiskjölum. HDH
Sveitarstjórn: Fundarboð 16.06.2011
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 16. 06. 2011
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 16. júní 2011 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:
1. Erindi og bréf.
a) Umhverfisráðuneytið, dags. 31. maí 2011.
b) Umhverfisráðuneytið, dags. 3. júní 2011.
c) Alcoa á Íslandi, dags. 31. maí 2011.
d) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. júní 2011.
2. Fundargerðir.
a) SBU, dags. 14. júní 2011.
b) SSA, dags. 1. júní 2011.
c) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. maí 2011.
d) Hafnarsamband Íslands, dags. 12. maí 2011.
3. Sjálfsmatsskýrsla Grunnskóla Djúpavogs.
4. Reglur um félagslega liðveislu, heimaþjónustu og fjárhagsaðstoð.
5. Álit Skipulagsstofnunar v/ Axarvegar (939), vegs í Skriðdal og við botn Berufjarðar.
6. Raflínur við Hálsarætur.
7. Upprekstrarsamningur.
8. Kjör oddvita og varaoddvita.
9. Skýrsla sveitarstjóra.
Djúpavogi 14. júní 2011;
Sveitarstjóri
Bókasafnið er lokað í kvöld
Af óviðráðanlegum orsökum verður bókasafnið lokað í kvöld, þriðjudagskvöld.
Bókasafnsvörður
Áætlunarferðir á Austurlandi
Frá og með 8.júní stoppa áætlunarbílar til Hafnar og Akureyrar ekki lengur við Upplýsingamiðstöðina í Miðvangi / Níunni, heldur við nýja tjaldstæðið / Kaffi Egilsstaði.
Farþegar eiga því að mæta á tjaldstæðið.
Pakkamótttaka verður líka á Kaffi Egilsstöðum /tjaldstæðinu, sem og svör við fyrirspurnum.
Síminn á tjaldstæðinu er 470 0750
Brottför Akureyri – Myvatn er kl. 13:00 alla daga
Brottför til Hafnar er kl. 13.30 alla daga
Allar frekari upplýsingar um rútuferðir má sjá með skoða heimasíðu Sterna www.sterna.is
BR
Hrafnkell Freysgoði / Neisti í Launaflsbikarnum 2011
Hrafnkell Freysgoði / Neisti verða með sameiginlegt lið í Launaflsbirkanum í sumar.
Átta lið eru skráð til leiks og leika í tveimur riðlum tvöfalda umferð. Riðlakeppnin stendur fram að verslunarmannahelgi en eftir hana fer úrslitakeppnin í gang. Reglum keppninnar hefur verið breytt á þann veg að leikmenn sem leikið hafa í byrjunarliðum í Íslandsmóti karla í annarri deild eða ofar teljast ógjaldgengir.
Gera má ráð fyrir því að minnsta kosti einn leikur verði spilaður hér á Neistavellinum en ekki liggur fyrir hvaða dagsetning verður fyrir valinu en það verður auglýst hér á heimasíðunni.
Fyrsti leikur liðsins er á sunnudaginn á Neskaupsstað þar sem liðið mætir BN og hefst leikurinn kl. 18:00
Leikjaplan sumarsins má sjá á heimasíðu UÍA www.uia.is
Áfram Hrafnkell Freysgoði/Neisti
BR
Ferðaþjónustuaðilar á Djúpavogi athugið
Nú stendur til að endurútgefa Djúpavogsbæklinginn en hann kom fyrst út sumarið 2009. Þeim, sem vilja endurnýja eldri auglýsingar og nýjum ferðaþjónustuaðilum, sem vilja koma upplýsingum um þjónustu sína á framfæri er bent á að hafa samband við undirritaða á netfangið bryndis@djupivogur.is eða í síma 868-4682 fyrir 20.júní nk.
Bryndís Reynisdóttir
Ferða- og menningarfulltrúi
BR
Siggi Bessa í Landanum
Sigurður Jónsson, Siggi Bessa, var í Landanum á RÚV sl. sunnudagskvöld þar sem hann ræddi við Leif Hauksson um hrakningarnar þegar vélbátinn Björgu rak stjórnlaust suður fyrir land milli jóla og nýárs árið 1947.
Hægt er að horfa á viðtalið með því að smella hér.
ÓB
Gjöf frá foreldrafélögunum
Foreldrafélögin á leik- og grunnskólanum gáfu skólunum sínum góða gjöf. Um er að ræða lestrarkennslu- og málörvunarverkefni sem heitir Sögugrunnur. Verkefnið á eftir að nýtast mjög vel í báðum skólunum bæði til að kenna lestur og hugtök í eldri árgöngum leikskólans og yngstu árgöngum grunnskólans, en einnig til að auka orðaforða nýbúa. Starfsfólk skólanna þakkar foreldrafélögunum kærlega fyrir. HDH
Hvítasunnuguðsþjónusta í sveitinni
Hátíðarguðsþjónusta verður á hvítasunnudag í Beruneskirkju kl. 14.00.
Njótum saman sumardýrðar og útiveru.
Allir velkomnir.
Njótum saman sumardýrðar og útiveru. Allir velkomnir.
Hátíðarguðsþjónusta verður á hvítasunnudag í Beruneskirkju kl. 14.00. Njótum saman sumardýrðar og útiveru. Allir velkomnir.
Frá Ferðafélagi Djúpavogs
Ferð á Norð-austur hornið 11. - 13. júní (ef veður leyfir)
Dagur 1
Lagt af stað frá miðbænum kl. 10:00 árdegis. Egilsstaðir - Vopnafjörður - Þórshöfn. Gengið á Rauðanes, 7 km ca. 2-3 tímar. Ekið sem leið liggur yfir Hófaskarð til Raufarhafnar, gist þar á tjaldstæði (frítt).
Á Raufarhöfn er verið að byggja upp heimskautagerði og þaðan er tíu mínútna akstur í veiði í Hraunhafnarvatni.
Dagur 2
Eki fyrir Melrakkasléttu, farið á Hraunhafnartanga og Rauðanúp hjá Núpskötu, sutt ganga. Farið í byggðasafnið á Snartastöðum. Vesturdalur og Hljóðaklettarm, gist í Ásbyrgi.
Dagur 3
Ekið fyrir Tjörnes, stoppað á Mánárbakka og Hallbjarnarstöðum. Þaðan ekið til Húsavíkur Þar er ýmislegt að skoða ef fólk vill, t.d. Reðursafnið, Hvalasafnið og Safnahúsið.
Síðan verður ekið um Köldukinn, farið í Samgöngusafnið og út á Þjóðveg 1 hjá Ljósárvatni. Kíkt á Goðafoss, gönguferð um Höfða hjá Mývatni og endað í Dimmuborgum.
Upplýsingar og ferðapantanir hjá Steinunni í síma 860-2916.
Hæ hó jibbí jei - 17. júní á Djúpavogi
Í tilefni af 17. júní verður efnt til hverfakeppni í Djúpavogshreppi. Sveitarfélaginu okkar hefur verið skipt upp í 4 lið sem koma til með að keppa um farandgrip og titilinn Hverfa-kóngur ársins. Í hverju liði eru skipaðir tveir hverfakóngar sem halda utan um sitt lið og virkja aðra til þátttöku en ítarlegi upplýsingum hefur verið dreift til allra íbúa í sveitarfélaginu. Hverfin skiptast sem hér segir.
Rauða liðið
Kóngar: Guðlaugur & Kiddi
Hammersminni
Eyjaland
Varða
Vogaland
Mörk
Dreifbýli Hamarsfirði og Álftafirði
Bláa liðið
Kóngar: Billi & Óðinn
Markarland
Kambur
Brekka
Víkurland
Dreifbýli Berufirði
Appelsínugula liðið
Kóngar: Diddi & Ágúst Guðjóns
Búland
Steinar
Hraun
Hamrar
Gula liðið
Kóngar: Stebbi Kjartans & Egill
Hlíð
Borgarland
Borgargarður
Dagskrá 17. júní
Fimmtudagur 16. júní
Hverfin skreytt
Hverfispub-quiz í Löngubúðinni. Hefst kl. 21:00
Föstudagur 17. júní
10:00 Hópsigling frá smábátabryggjunni (ef veður leyfir).
13:00 Andlitsmálning og blöðrusala við íþróttahúsið
14:00 Skrúðganga frá íþróttahúsinu að íþróttavellinum
14:30 Dagskrá hefst á íþróttavellinum með ávarpi fjallkonu
Kassabílarallý
Hjólaþraut og hjólaskoðun fyrir börnin. Mikilvægt er að þátttakendur setji hjólin sín út á íþróttavöll áður en skrúðgangan hefst.
Hverfakeppnin þar sem keppt verður í ýmsum þrautum þar sem reynir heldur betur á útsjónarsemi, snerpu, úthald og keppnisskap keppenda.
Gefin verða stig fyrir eftirfarandi:
-Sigur í Pubquizi Löngubúðar að kvöldi 16.júní.
-Flestir íslenskir fánar dregnir að húni á hádegi 17.júní.
-Hverfið sem best er skreytt sínum lit.
- Besta mæting á hátíðarsvæði (íklædd viðeigandi litum að sjálfsögðu)
-Reiptog
-Kappát
-Hjólakeppni
-Þrautabraut
-Fótbolti
-Hæsti meðalaldur keppenda í fótbolta
-Eiginkvennaburður
Þann 16. júní er mælst til þess að íbúar hvers liðs skreyti sitt yfirráðasvæði í sínum lit og því er um að gera að leggja höfuð í bleyti og fara að föndra skreytingar og draga fram gamla larfa í viðeigandi lit. Að kvöldi 16.júní verður pubquiz í Löngubúð (ath. 18. ára aldurstakmark). Þangað má hver litur senda ótakmarkaðan fjölda keppnisliða til þáttöku en stigahæsta liðið (af þeim lituðu) vinnur stig fyrir sinn lit og er því skrefi nær farandgripnum.
Sett verður upp rennibraut og rennivír á íþróttavellinum fyrir börnin
Í lok dags verða úrslit hverfakeppninnar tilkynnt og afhentur farandbikar
19:00 Grillpartý í Borgargarðsréttinni. Fólk hvatt til þess að mæta með hljóðfæri, hægt verður að grilla á Neista grillinu en þeir sem vilja geta mætt með sín grill.
Íbúar eru hvattir til þess að flagga íslenska fánanum á þjóðhátíðardegi okkar.
Hjálpumst að við að gera 17. júní að fjölskylduskemmtun fyrir unga jafnt sem aldna !
17. júní nefndin
BR
Meðan fæturnir bera mig - góðar móttökur á Djúpavogi
Eins og flestir vita eru tvenn hjón að hlaupa hringinn í kringum landið til að safna áheitum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.
Um er að þau Svein Benedikt Rögnvaldsson og Signýju Gunnarsdóttur foreldra Gunnars Hrafns Sveinssonar, en hann greindist með bráðahvítblæði í janúar 2010. Með þeim í för eru Alma María Rögnvaldsdóttir, systir Sveins og Guðmundur Guðnason eiginmaður hennar. Hugmyndin að þessu hlaupi á rætur að rekja til veikinda Krumma, eins og Gunnar Hrafn er kallaður, og hófst ferðalagið 2. júní sl. Í dag hlupu þau frá Höfn í Hornafirði á Djúpavog.
Um 50 manns höfðu safnast saman við bæjarskiltið til að taka á móti þeim þegar þau beygðu út á Djúpavog, um kl. 17:15. Þar fengu þau góðar móttökur og gerðu örstuttan stans. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri, bauð þeim upp á dýrindis berjasaft og gaf þeim að gjöf Djúpavogsfána og Neistabuff. Eftir stutta hvatningarkveðju sveitarstjórans héldu hlaupararnir áfram og nú í fylgd Djúpavogsbúa af öllum aldri sem hlupu með þeim inn í bæinn og niður að Hótel Framtíð.
Eftir hópmyndatöku fyrir framan Hótelið héldu hlaupagarparnir upp í Íþróttamiðstöð þar sem þeim var boðið í sund og eflaust hefur það verið kærkomið að setjast í heitu pottana eftir þetta 106 km hlaup frá Hornafirði.
Hótel Framtíð sá svo um að gefa þeim að borða í kvöld og býður þeim fría gistingu og morgunverð áður en þau hlaupa næstu leið, sem eru 85 km í Egilsstaði yfir Öxi.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við komu þessara góðu gesta í dag.
ÓB
Samrekstur skólanna í kvöldfréttum RÚV
Fjallað var um fyrirhugaðan samrekstur skólanna á Djúpavogi í kvöldfréttum RÚV sl. laugardagskvöld. M.a. var tekið viðtal við Gauta Jóhannesson, sveitarstjóra.
Fréttina má sjá með því að smella hér.
ÓB
Bæjarlífið maí 2011
Bæjarlífssyrpa maímánaðar inniheldur m.a. myndir frá því sem um var að vera um Hammondhátíðarhelgina ásamt mörgu fleiru.
ÓB
Meðan fæturnir bera mig - á Djúpavogi
Um þessar mundir eru tvenn hjón að hlaupa hringinn í kringum landið til að safna áheitum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Ferðalagið hófst 2. júní sl. og á morgun, þriðjudaginn 7. júní ætlar hópurinn að hlaupa frá Hornafirði á Djúpavog, samtals 104 km.
Við hér á Djúpavogi ætlum að fjölmenna og sýna stuðning okkar með því að fylgja hlaupurunum frá afleggjaranum og út í þorp en hópurinn stefnir að því að vera við afleggjarann um kl. 17:00. Hægt er að fylgjast nákvæmlega með GPS staðsetningu hópsins á heimasíðu þeirra www.mfbm.is. Ef tímasetningar breytast mun koma tilkynning um það hér inn á heimasíðunni, fólk er því vinsamlegast beðið um að fylgjast vel með.
Hver dagur hlaupsins er tileinkaður einu barni sem greinst hefur með krabbamein á Íslandi. Eru þetta börn sem hafa snert hlauparana á einne ða annan hátt.
Þeir sem vilja leggja hlaupurunum lið geta farið inn á heimasíðu þeirra, www.mfbm.is og heitið á þá.
Það er einnig gaman að segja frá því að Hótel Framtíð á Djúpavogi ætlar að styrkja hópinn með því að bjóða upp á fría gistingu, kvöldverð og morgunmat.
Fjölmennum því öll og tökum þátt í þessu stórglæsilega átaki með því að fylgja þeim frá afleggjaranum en fólk getur ráðið því hvort það hleypur eða gengur með hópnum.
BR