Djúpivogur
A A

Fréttir

Eldgosið og Hammond

Nú er alls kostar óvíst að fært verði "suðurleiðina" í þessari viku, vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og því trúlegt að þeir sem staddir eru á höfuðborgarsvæðinu eða suðurlandi og ætla að sækja Hammondhátíð akandi þurfi að fara norður fyrir. Hammondhátíð fer fram, eins og allir vita, dagana 22.-24. apríl.

Dúna kíkti til okkar áðan og benti okkur á að AFL starfsgreinafélag er með til sölu fyrir félagsmenn svokallaða Spalarmiða, þ.e. ódýrari ferðir í gegnum Hvalfjarðargöngin. Félagsmenn geta komið við á næstu skrifstofu AFLs og keypt sér miða í göngin á kr. 500.- stykkið. Eins er hægt að hringja í Dúnu í síma 861-4226 og hún getur leiðbeint félagsmönnum hvernig hægt er að nálgast slíka miða.

Sjáumst á Hammond.

Heimasíða Hammondhátíðar
Heimasíða AFLs

ÓB

19.04.2010

ABC - hjálparstarf

Nemendur 3. - 5. bekkjar söfnuðu á dögunum pening fyrir ABC-hjálparstarfið.  Krakkarnir voru mjög duglegir og hefur aldrei safnast jafn mikið.  Það er greinilegt að fólk á Djúpavogi er duglegt að gefa til þeirra sem minna mega sín, þrátt fyrir kreppu.  HDH

Þjálfari óskast

Umf. Neisti á Djúpavogi auglýsir eftir þjálfurum / leiðbeinendum í sumar til að sjá um sund, frjálsar íþróttir, leikjatíma, knattspyrnu yngri flokka o.fl. fyrir um 40 börn á staðnum.
 
Einnig kemur til greina að ráða einstakling með menntun eða reynslu í íþróttaþjálfun sem  framkvæmdastjóra sem héldi þá utan um allt sumarstarf Neista. Æskilegt væri að ferilskrá fylgdi umsóknum.
 
Umsóknafrestur er til 1. Maí.

15.04.2010

Forsala aðgöngumiða á Hammondhátíð hafin

Forsala aðgöngumiða á Hammondhátíð 2010 er hafin !

Fyrstir koma fyrstir fá !!

Hægt er að kaupa miða á hátíðina með millifærslu í einkabanka. Mikilvægt er að setja sem skýringu, nafn þess sem kaupir miðann.

Upplýsingar til þess að greiða fyrir miða á Hammond hátíðina eru eftirfarandi:

Banki 1147-26-2330
Kt.670106-2330

Miðaverð:

Fimmtudagskvöld kr. 2000.-

Föstudagskvöld kr. 3000

Laugardagskvöld kr. 3000

Allur pakkinn saman kr. 6500

Vinsamlega framvísið kvittun fyrir greiðslu, annað hvort útprentun eða með því að senda tölvupost á bibbasin@simnet.is. Miðann verður svo hægt að nálgast á Hótel Framtíð.

Einnig er hægt að kaupa miða í forsölu á Hótel Framtíð mánudaginn 19. apríl frá kl.17:00-21:00

Sjáumst á Hammond hátíðinni, þessu má enginn missa af !!

 

BR

15.04.2010

Djúpavogsbúar takið eftir

Fyrirhugað er að halda handverksmarkað í litla rýminu í Samkaup Strax, laugardaginn 24. apríl.

Seljendum gefst kostur á því að nýta rýmið sér að kostnaðarlausu.

Áhugasamir hafi samband við ferða – og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepps í síma 868-4682 eða á netfangið bryndis@djupivogur.is fyrir kl. 12:00 þriðjudaginn 20. apríl

Ferða –og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps
Samkaup Strax, Djúpavogi

15.04.2010

Bingó á Hótel Framtíð

Kvenfélagið Vaka verður með bingó á Hótel Framtíð sunnudaginn 18. apríl n.k.

Barnabingó hefst kl. 15.00, spjaldið kostar 400 kr.

Fullorðinsbingó hefst kl. 20.30 og spjaldið kostar 600 kr. (miðað við fermingarárið)

Sjáumst

Kvenfélagskonur

14.04.2010

Kórinn auglýsir

Við erum á leið til Ungverjalands í júní. Erum að æfa mikla söngskrá og ætlum að halda fjáröflunartónleika í kirkjunni okkar 1. maí 2010 kl. 14:00.

Á eftir verður boðið upp á léttar veitingar og BINGÓ.

Aðgangur kr. 1.500.-

Frítt fyrir 12 ára og yngri á tónleikana.

Kirkjukór Djúpavogs

14.04.2010

Fuglafréttir ásamt vinsamlegum ábendingum

Hér með er lesendum heimasíðunnar sem áhuga hafa á að fylgjast með fuglalífinu hér á svæðinu bent á að síðustu daga hafa verið færðar inn reglulegar fréttir af komu ýmissa fuglategunda hér inn á landið,  sjá nánar á heimasíðu okkar http://djupivogur.is/fuglavefur/  Jafnframt eru áhugasamir  hvattir til að tilkynna fuglasíðunni ef þeir sjá farfugla koma inn á svæðið sem ekki hafa þegar verið skráðir inn á fuglafréttirnar.  Markmið fuglasíðunnar er m.a. að skrá og halda utan um komur fugla og hvað margar tegundir halda sig árlega hér á svæðinu.  Hið ánægjulega er að á síðustu árum hafa nýjir landnemar fugla verið að hreiðra um sig á svæðinu og því mjög áhugavert að fylgjast með þróun fuglalífsins milli ára.  Leiða má að því líkum að ástæða þessarar jákvæðu þróunar fuglalífsins hér í nágrenninu sé ekki síst sú að íbúarnir hafa tryggt með góðri umgengni um svæðið vöxt og viðgang fuglalífsins.
Þeir sem ekki vita má til gamans geta þess að í mjög mörgum tilfellum eru þetta sömu fuglarnir sem eru að koma hér ár eftir ár t.d. hér í nágrenni vatnanna og velja þeir sér þá gjarnan sömu hreiðurstæðin hafi varp lukkast árinu áður. Þá er tímaskyn fuglanna ótrúlega nákvæmt en nokkur skráð dæmi eru fyrir því hér á heimasíðu fuglanna að þessir sömu fuglar eru að koma nákvæmlega upp á sama dag hér á svæðið milli ára.

Að síðustu eru íbúar sem og aðrir beðnir um að sýna fuglalífinu tilhlýðilega virðingu þegar vorið og varptíminn nálgast  t.d. að sleppa ekki hundum lausum á svæðinu og eða valda fuglalífinu með öðrum hætti óþarfa ónæði sem truflað getur varp m.a. sjaldgæfra fuglategunda. Njótum því okkar frábæra útivistarsvæðis á Búlandsnesi áfram sem og hingað til í sátt við umhverfið og lífríkið á svæðinu.  AS

Félag eldri borgara á Djúpavogi

Félag eldri borgara á Djúpavogi auglýsir

Aðalfundarboð

Laugardaginn 17. apríl 2010

Aðalfundur Félags eldri borgara verður haldinn laugardaginn 17. apríl nk. á Helgafelli.

Fundurinn hefst stundvíslega kl. 14:00  

Dagskrá:

1.    Venjuleg aðalfundarstörf
2.    Önnur mál

Félag eldri borgara á Djúpavogi

 

BR

13.04.2010

Námshestar í apríl

Námshestaverðlaun fyrir marsmánuð voru afhent í morgun.  Nemendur fóru í skemmtiferð út á Hvítasand með Þórunnborgu og Ester.  Þar horfðu þau eftir fuglum, fóru í skeljagreiningu o.fl.  Einnig fóru þau í leiki, þ.á.m. Kubb og Einakrónu.  Að því loknu snæddu þau nesti að heiman, auk þess sem þau fengu snúða frá skólanum.  Myndir eru hér.  HDH

Spurningakeppni Neista 2010 - Lokakvöld

Lokakvöld spurningakeppni Neista fór fram í gær á Hótel Framtíð að viðstöddu fjölmenni.

Kvöldið hófst á því að tvö stigahæstu tapliðin, sem enduðu með sama stigafjölda í undankvöldunum, þurftu að taka stutta rimmmu til þess að skera úr um hvort liðið tæki þátt í lokakeppninni sjálfri. Þessi lið voru Eyfreyjunes og kennarar Grunnskólans. Svo fór að kennararnir unnu rimmuna 14-8 og var Eyfreyjunes þar með úr leik.

Bryddað var upp á skemmtilegum nýjungum í gærkvöldi. Leiknir voru bútar úr lögum afturábak sem keppendum var gert að átta sig á og í bjölluspurningunum var boðið upp á ekta bjöllu, í stað ljósanna sem hingað til hafa verið notuð og þurfti einn keppandi úr hvoru liði að hlaupa að bjöllunni. Úr urðu hörkusprettir milli keppenda sem oftar en ekki enduðu með því að annar lá á gólfinu og hinn á sviðinu, ýmist með bjöllu í hönd eða ekki. Áfram var hafður sá háttur á að keppendur áttu að leika nokkur vel valin orð og af því hlaust hin besta skemmtun. Það kom oftar en ekki fyrir að salurinn lá í hlásturkasti þegar keppendur reyndu sem mest þeir máttu að koma liðsfélögum sínum í skilning um hvert orðið væri.

Í fyrstu viðureign lokakvöldsins áttust við HB Grandi, sem eru ríkjandi "meistarar" spurningakeppni Neista, og Ferðaþjónustan á Eyjólfsstöðum. Sú keppni var að vonum hnífjöfn og gríðarspennandi, enda mættust þar stálin stinn. Það fór þó svo að lokum að Eyjólfsstaðabændur höfðu sigur 34-32.

Í annarri viðureign kvöldsins mætti Áhaldahús Djúpavogshrepps kennurum Grunnskólans og var ekki síðri spennan þar. Á endanum varð þó verkvitið að lúta í gólf fyrir bókvitinu því kennararnir höfðu nauman sigur 31-30.

Þá var komið að úrslitaviðureigninni. Einhver skrekkur var þó í kennurunum áður en keppni hófst því þeir byrjuðu á því að lýsa því yfir að ef þeir myndu tapa þá væru þeir samt sem áður sigurvegarar, þar sem þeir hefðu kennt 2/3 af Eyjólfsstaðamönnum megnið af þeirra grunnskólagöngu. Það sannaðist þegar upp var staðið að kennararnir höfðu kennt nemendum sínum vel því eftir spennandi keppni framan af sigu Eyjólfsstaðmenn hægt og rólega fram úr og stóðu uppi sem sigurvegarar 33-27.

Ferðaþjónustan á Eyjólfsstöðum er því sigurvegar spurningakeppni Neista árið 2010.

Eins og stundum vill gerast í spurningakeppnum sem þessari þá telja keppendur sig vita svarið við sumum spurningum betur en spurningahöfundarnir sjálfir. Þetta átti sér stað tvisvar í gær, þegar spurt var um næst hæsta foss Íslands og hversu margar klaufir íslenska kýrin hafi á hverjum fæti. Rétt svar við því hver sé næst hæsti foss landsins mun vera Stigafoss í Öræfum sem er 128 metra hár. Einn keppendanna vildi meina að það væri alls ekki rétt og að Háifoss væri hæstur. Skv. áreiðanlegustu heimildum er Háifoss 120 metrar og þar með fjórði hæsti foss Íslands.

Svarið með klaufirnar á íslenskum kúm er þó aðeins flóknara. Rétt svar skv. spurningahöfundum er tvær klaufir á hverjum fæti, en einn keppendanna var harður á því að þær væru fjórar. Wikipedia (sem fróðustu menn þora ekki einu sinni að reyna að rengja) segir að íslenska kýrin hafi tvær klaufir og tvær lagklaufir. Strangt til tekið eru þær því fjórar, en spyrillinn spurði hins vegar hversu margar klaufirnar væru, en ekki hversu margar lagklaufirnar væru. Þetta er þó umdeilanlegt og jafnvel frekar "klaufalegt" að spyrja svona loðið um jafn mikilvæg líffæri og hér um ræðir. Fróðir menn telja að klaufakerfi kúnna sé svipað og þegar Stjáni frá Steinsstöðum hleypir úr dekkjunum á Hælúxinum sínum eins og hann gerði upp á Öxi í gær, en frá þeirri ferð segjum við betur á heimasíðunni síðar.

Stjórn UMF Neista vill koma kærum þökkum til allra sem aðstoðuðu þeim við spurningar og tæknimál og þúsund kossum á snoppufrítt andlti Egils Egilssonar sem fór á kostum sem spyrill keppninnar. Að sjálfsögðu er öllum þeim fjölmörgu áhorfendum sem mættu á keppnina færðar bestu þakkir fyrir.

Myndir frá kvöldinu má sjá með því að smella hér.

ÓB

09.04.2010

TILKYNNING TIL ÍBÚA DJÚPAVOGSHREPPS

ÞANN 29. MAÍ, 2010, VERÐA HALDNAR SVEITASTJÓRNARKOSNINGAR Í SVEITARFÉLAGINU.
FRESTUR TIL AÐ SKILA INN FRAMBOÐUM RENNUR ÚT ÞEGAR ÞRJÁR VIKUR ERU TIL KJÖRDAGS, ÞAÐ ER ÞANN 8. MAÍ NÆSTKOMANDI.

ÖLL FRAMBOÐ SKULU TILKYNNT SKRIFLEGA YFIRKJÖRSTJÓRN EIGI SÍÐAR EN KL.12 Á HÁDEGI ÞANN 8. MAÍ.

TEKIÐ VERÐUR Á MÓTI FRAMBOÐUM FRÁ KL.11 TIL KL. 12 ÞANN 8. MAÍ AÐ MARKARLANDI 2 (LÖGREGLUVARÐSTOFA).  

ÓSKI MENN AÐ SKILA AF SÉR FYRR ER HÆGT AÐ HAFA SAMBAND VIÐ FORMANN KJÖRSTJÓRNAR Í SÍMA 893 1559/867 7160 EÐA Í HEIMASÍMA 478 8849

EF ENGINN FRAMBOÐSLISTI KEMUR FRAM ÁÐUR EN FRAMBOÐSFRESTI LÝKUR EÐA SVO FÁ NÖFN ERU Á FRAMBOÐSLISTUM AÐ SVEITARSTJÓRN VERÐUR EKKI FULLSKIPUÐ Í BUNDINNI KOSNINGU SKAL ÞÁ KOSNING VERÐA ÓBUNDIN.  ÞAÐ HEFUR Í FÖR MEÐ SÉR ÓBUNDNAR KOSNINGAR ÞAR SEM KOSNING ER EKKI BUNDIN VIÐ FRAMBOÐ EN ALLIR KJÓSENDUR ERU Í KJÖRI NEMA ÞEIR SEM LÖGLEGA ERU UNDANÞEGNIR SKYLDU TIL  AÐ TAKA KJÖRI OG HAFA FYRIR FRAM SKORAST UNDAN ÞVÍ.

Úrdráttur úr lögum um kosningar til sveitarstjórna:

II. kafli. Kosningarréttur og kjörgengi.
2. gr. Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu.
- Nú eiga ákvæði 9. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990, við um hagi manns og telst hann þá ekki hafa glatað kosningarrétti þótt hann hafi tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
-  Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag [og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag],1) enda fullnægi þeir að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
3. gr. Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr. og hefur ekki verið sviptur lögræði.
5. gr. Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 2. gr. og skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag.

 

Djúpavogi, 8. apríl, 2010

Fyrir hönd kjörstjórnar í Djúpavogshreppi,
Magnús Hreinsson, formaður.

08.04.2010

Lokakvöldið er í kvöld

Lokakvöld spurningakeppni Neista verður haldið á Hótel framtíð fimmtudaginn 8. apríl og hefst kl. 20:00.

Kvöldið mun hefjast á keppni milli Eyfreyjuness og kennara Grunnskóla Djúpavogs. En þessi tvö lið voru stigahæstu taplið keppninnar og fá að keppa um hvort kemst í lokabaráttuna með HB-Granda, Ferðaþjónustunni á Eyjólfsstöðum og Áhaldahúsi Djúpavogshrepps.

Búist er við líflegri keppni og eins og venja er verður lokakeppnin örlítið frábrugðin undanförnum keppnum og óhætt að segja að keppendur fái að reyna á ýmsa (hugsanlega leynda) hæfileika !!!

Hótel Framtíð verður með ýmislegt gott á boðstólum og að venju kostar 500kr. inn, frítt fyrir ófermda og þá sem mætt hafa á öll undanúrslitakvöldin !!


Umf. Neisti

08.04.2010

Spilavist í Löngubúð

Spilvist verður í Löngubúð í aprílmánuði sem hér segir:

Föstudaginn 9. apríl

Föstudaginn 16. apríl

Mánudaginn 19. apríl

Sóknarnefnd Djúpavogskirkju

07.04.2010

Tækifæri fyrir handverksfólk og hönnuði

Þorpið og Vatnajökulsþjóðgarður í samvinnu við HANDVERK OG HÖNNUN í Reykjavík bjóða upp á  fyrirlestur á Egilsstöðum miðvikudaginn 7. apríl 2010 kl.20:00 í húsnæði Þekkingarnets Austurlands, Tjarnarbraut 39.

Þar verður Sunneva Hafsteinsdóttir frá Handverk og Hönnun með fyrirlestur um gæðamál í handverki og vöruhönnun. 

Einnig verður kynnt hvers konar vörur Vatnajökulsþjóðgarður og ný Sölumiðstöð á Egilsstöðum sækist eftir að fá í sölu.

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

BR

07.04.2010

Bæjarlífið mars 2010

Þá er komin inn á vefinn bæjarlífssyrpa marsmánaðar.

Hana má sjá með því að smella hér.

ÓB

06.04.2010

Kennara vantar

Við Grunnskóla Djúpavogs vantar kennara í eftirfarandi stöður næsta skólaár:

Íþróttir og sund um 13 kst., heimilisfræði, um 8 kst., textílmennt um 6 kst., myndmennt um 6 kst., upplýsinga- og tæknimennt um 12 kst., dönsku  um 8 kst., náttúrufræði á unglingastigi um 7 kst., kennslu yngri barna um 16 kst., umsjón á unglingastigi.
Auk þess vantar skólastjóra í afleysingar, vegna fæðingarorlofs, frá 1. september 2010 – 15. maí 2011.

Umsóknarfrestur er t.o.m. 10. maí 2010 og skulu umsækjendur taka fram, um hvaða stöðu / kennslugreinar sótt er um og einnig hversu hátt stöðuhlutfall óskað er eftir.

Umsóknareyðublöð má finna á heimasíðu skólans, http://djupivogur.is/grunnskoli/

Nánari upplýsingar veitir skólastjóri, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir; dora@djupivogur.is eða í síma 478-8246.