Djúpivogur
A A

Fréttir

Unnsteinn í Úthlíð gefur út plötu

Djúpavogsbúinn Unnsteinn Guðjónsson, eða Ummi, er að gefa út sína fyrstu sólóplötu. Unnsteinn er þekktastur fyrir að vera annar helmingur Sólstrandargæjanna. Hér að neðan gefur að líta fréttatilkynningu um plötuútgáfuna. Einnig bendum við á heimasíðu Umma, www.ummi.is:

 

Listamaðurinn Ummi Guðjónsson sendir frá sér sína fyrstu sólóplötu þann 10.04.2010. Platan kemur út á vínyl og stafrænu formi og inniheldur 13 lög. Öll lögin og textarnir eru samin af Umma sjálfum og sá hann einnig um hönnun á umslagi. Um þá ákvörðun að gefa plötuna út á vínyl hefur Ummi þetta að segja: Ástæðan fyrir því að platan er gefinn út á vínyl er einfaldlega sú að það er það form sem mér fannst mest við hæfi fyrir lögin mín. Einnig er það gamall draumur að gefa eitthvað út á vínyl. Platan er líka fáanleg á stafrænu formi á usb minnislykli sem fylgir vínylnum og hún verður einnig aðgengileg á netinu á www.ummi.is.

Ummi, sem er fæddur og uppalinn á Djúpavogi, ætti ekki að vera íslendingum með öllu ókunnugur en hann hefur m.a. fært okkur lög eins og Rangur Maður og Sólstrandargæji frá því að hann var hluti af Sólstrandargæjunum ásamt Jónasi félaga sínum.

Ummi hefur verið búsettur erlendis síðastliðin fjórtán ár en hann tók BA gráðu í Computer Animation í Englandi og hefur starfað við kvikmyndagerð í London undanfarin ár. Á ferli sínum sem 3D listamaður hefur Ummi starfað við nokkrar af stærstu kvikmyndum samtímans eins og Avatar, Harry Potter and the order of the Phoenix og Batman Begins, auk þess sem hann var hluti af teyminu sem vann Óskarinn og Bafta verðlaunin fyrir bestu sjónbrellur/VFX í myndinni The Golden Compass (2007) og sjónbrellur/VFX Óskarinn fyrir Avatar (2009).

Platan hefur verið lengi í vinnslu og fóru upptökur fram í Hafnarfirði, Kaupmannahöfn, Hróarskeldu og London. Fjölmargir listamenn frá Íslandi, Færeyjum, Danmörku og Englandi lögðu hönd á plóg við gerð plötunnar á tímabilinu 2006-2009.

Um tilurð plötunnar hefur Ummi þetta að segja: Lögin á plötunni voru samin á tímabilinu 2001 til 2006. Hugmyndir, tilfinningar og hugsanir á bakvið þessi lög koma úr öllum áttum en eru eflaust á margan hátt endurspeglun á lífi mínu, draumum, áföllum, sorgum og gleði á því tímabili. Þetta eru bara nokkur af þeim lögum sem ég átti í skúffuni hjá mér og ég hafði á tilfinningu að gæti verið gaman að taka upp og leyfa öðrum að heyra. Ég hef ekki gefið neitt út af tónlist síðan ég og Jónas vorum saman í Sólstrandargæjunum en tónlistarbakteríuna losnar maður seint við og mig hefur lengi langað að takast á við að gefa út eitthvað af mínu eigin efni.

Lag valið til spilunar:
Fyrsti singullinn af plötunni er lagið Glasið (vangaveltur um innihaldshlutfall) og þar er líka að finna lagið Svefnleysi sem b hlið. Ummi verður á Íslandi að kynna plötuna dagana í kringum útgáfudag og mun glaður veita fleiri upplýsingar um tónlistina en einnig má finna meira um útgáfuna og listamanninn á www.ummi.is eða hafa samband á ummi@ummi.isEldri umfjallanir um Umma á heimasíðu Djúpavogshrepps:

Grafískur listamaður frá Djúpavogi (25.08.2007)
Unnsteinn heldur áfram að slá í gegn (07.04.2008)

31.03.2010

Íþróttamiðstöð Djúpavogs auglýsir

Um páskana verður lokað sem hér segir:

Skírdag, fimmtudag 1. apríl
Föstudaginn langa, 2. apríl
Páskadag og annan í páskum.   

 
Lengri laugardagur verður þann 3. apríl en þá verður opið frá kl 11:00 – 18:00.      

Forstöðumaður ÍÞMD

30.03.2010

Spurningakeppni Neista 2010 - 3. kvöld

Í gær fór fram síðasta undankvöld spurningakeppni Neista 2010. Fullt var út úr dyrum eins og verið hefur og æsispennandi keppni átti sér stað.

Í fyrstu umferð áttust við Eyfreyjunes og Leikskólinn Bjarkatún. Þar hafði Eyfreyjunes sigur 18 - 13

Í annarri umferð öttu kappi Áhaldhús Djúpavogshrepps og nemendur Grunnskólans. Eftir hetjulega baráttu nemendanna framan af spýttu hreppararnir í lófana og sigu fram úr í seinni hlutan og höfðu sigur að lokum 19 - 9.

Í úrslitum mættust áhaldhúsið og Eyfreyjunes. Óhætt er að segja að þar hafi farið fram gríðarlega spennandi keppni sem endaði með sigri áhaldahússins 28-26.

Þar með var áhaldahúsið komið í úrslitin, en það vill svo skemmtilega til að Eyfreyjunes og kennarar Grunnskólans eru jöfn sem stigahæstu tapliðin, bæði með 26 stig.

Ekki er alveg búið að ákveða hvernig skorið verði úr um hvort liðið keppir til úrslita, þar sem þessi staða hefur aldrei komið upp áður, en líklegast þykir að háður verði einhverskonar bráðabani sem greint verður frá nánar síðar.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá hér að neðan.

ÓB

 


Lið Leikskólans Bjarkatúns: Helga Björk Arnardóttir, Svala Bryndís Hjaltadóttir og Ingibjörg Helga Stefánsdóttirið Eyfreyjuness: Guðjón Viðarsson, Óðinn Sævar Gunnlaugsson og Guðlaugur Birgisson


Lið áhaldahúss Djúpavogshrepps: Stefán Guðmundsson, Skúli Heiðar Benediktsson og Ýmir Már Arnarsson


Lið nemenda Grunnskóla Djúpavogs: Auður Gautadóttir, Vigdís Heiðbrá Guðmundsdóttir og Gabríel Örn Björgvinsson


Klapplið nemenda Grunnskólans

26.03.2010

Föstudagsgátan - hver er höfundurinn

Föstudagsgátan að þessu sinni er með örlítið breyttu sniði í þetta skiptið en heimasíðunni barst þessi fallega mynd á dögunum.

Föstudagsgátan er því eftirfarandi:

Hver er höfundur verksins ?

Hvað heitir bátarnir sem sjást á myndinni ?

Hvaða ár er líklegt að myndin sé máluð ? Eða hvaða ár er líklegt að ljósmynd, sem verkið kann að vera málað eftir, hafi verið tekin?

(og munið að ekki er ár nema í árabát sé)

 

 

 

BR

26.03.2010

Páskafrí og foreldraviðtöl

Nemendur og starfsfólk grunnskólans eru nú komnir í páskafrí.
Starfsfólk skólans mætir til vinnu, þriðjudaginn 6. apríl, en nemendur mæta skv. stundaskrá miðvikudaginn 7. apríl.  Kennt verður fram að hádegi.  Eftir hádegi verða foreldraviðtöl og eiga fundarboð að hafa borist heim til foreldra. 

Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska.  Megið þið njóta hátíðarinnar og koma endurnærð til starfa að afloknu fríi.  Skólastjóri.

Langabúð auglýsir

Langabúð auglýsir eftir rekstraraðila.

Starfið felur í sér umsjón með söfnum í Löngubúð, rekstur veitingasölu s.s. innkaup, uppgjör og fleira.

Ferilskrá skal fylgja umsókn.

Umsóknarfrestur er til 29 mars næstk.

Upplýsingar veitir ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps á skrifstofu sveitarfélagsins eða á netfangið bryndis@djupivogur.is

BR

26.03.2010

Húsaskoðun 5

Þá hafa nemendur 1.-5. bekkjar, ásamt Þórunnborgu og Gesti lokið skoðunarferð sinni um þorpið.  Þau hafa skoðað eldri húsin í þorpinu og fræðst um sögu þeirra.  Síðustu ferðina fóru þau sl. miðvikudag og heimsóttu þau:  Mela, Sunnuhvol, Hlíð, sumarbústaðinn í Hlíð, Ás, Borg, Borgargarð, Borgargerði og Sólheima.  Myndir eru hér.  HDH

Boðskaffi í leikskólanum

Í dag var svokallað boðskaffi í leikskólanum þar sem starfsfólk og nemendur buðum gestum og gangandi í heimsókn til okkar.  Áður fyrr var þetta kaffi kallað ömmu og afa kaffi en þar sem sum leikskólabörn höfðu ekki aðgengi að ömmu eða afa á staðnum langaði okkur að opna á þann möguleika að fleiri gætu komið og kynnt sér starf leikskólans, eins og frænka, frændi, vinkona eða vinur leikskólabarnsins.   Það hefur tekist mjög vel og var mætingin mjög góð og mátti sjá mömmur, pabba, systkini, afa og ömmur auk annarra góðra gesta.

ÞS

 

Mamma og pabbi komu í heimsókn

Afi og amma komu í heimsókn

Fullt af fólki

Frænkan kom líka við og hún er sko frænka margra hér í leikskólanum

Alltaf gaman þar sem ömmur eru saman komnar

Þessi tvö kíktu á stóru systkinin sín á leikskólanum og voru líka að kynna sér aðstæður og prófa dótið

Fleiri myndir hér

ÞS

3. kvöld spurningakeppni Neista

Spurningakeppni Neista í kvöld

Í kvöld (fimmtudag 25. mars) kl 20 í Löngubúð verður síðasta undanúrslitakvöldið í spurningakeppni Neista.

Þar munu eigast við:

Eyfreyjunes - Leikskólinn

Grunnskólinn/nemendur -Djúpavogshreppur/áhaldahús

Nú fer hver að verða síðastur til að fylgjast með hverjir munu lenda í úrslitum spurningakeppnarinnar en síðustu tvær keppnir hafa verið æsispennandi og hafa stigamet fallið.  Spurning hvort Grunnskólinn/kennarar komist áfram sem stigahæsta tapliðið eða ...

500 krónur inn. Frítt fyrir ófermda. 

25.03.2010

Spurningakeppni Neista 2010 - 2. kvöld

Annað undankvöld í spurningakeppni Neista 2010 fór fram í Löngubúð í gær. Óhætt er að segja að húsið hafi verið kjaftfullt, en töf var á að keppni gæti hafist þar sem sækja þurfti fleiri stóla út í bæ svo allir gestir gætu nú fengið sér sæti.

Í fyrstu viðureign áttust við kennarar Grunnskólans og Vísir hf. Kennararnir fóru nokkuð létt með Vísismenn og höfðu sigur 27-12.

Í annari viðureign áttust við Ferðaþjónustan á Eyjólfsstöðum og skrifstofa Djúpavogshrepps. Svipað var uppi á teningnum í þeirri viðureign, einu stigi munaði á liðunum eftir hraðspurningar en eftir það jók Ferðaþjónustan muninn hratt og örugglega og hafði sigur að lokum 22-13.

Þá var komið að því að Ferðaþjónustan og kennarar þyrftu að kljást um sæti í úrslitum. Sú viðureign var hnífjöfn og æsispennandi alveg fram á síðustu spurningu en þá var staðan 26-25 fyrir kennurum. Í þeirri spurningu nældu Eyjólfsstaðamenn sér í tvö stig og höfðu sigur 27-26 og tryggðu sér þar með sæti í úrslitunum.

Kennarar Grunnskólans eru hins vegar, eins og staðan er núna, komnir áfram sem stigahæsta tapliðið en það kemur í ljós á síðasta undankvöldinu, sem fram fer á morgun (fimmtudag), hvort tapliðin þar nái í hærri stigafjölda en kennararnir.

Semsagt - frábært kvöld að baki, mætingin fram úr björtustu vonum og stemmningin góð.

Síðasta undankvöldið fer semsagt fram á morgun, fimmtudag, kl. 20:00 - 500 kr. inn, frítt fyrir ófermda.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá með því að smella hér.

ÓB

24.03.2010

Óður til hreindýrsins

Málþing um hreindýr á Vetrarhátíð Ríki Vatnajökuls í Nýheimum á Höfn í Hornafirði

Miðvikudaginn 31.mars 2010, (daginn fyrir Skírdag)

Setning 10:30 Signý Ormarsdóttir Menningarráði Austurlands

• Saga hreindýra á Íslandi, Skarphéðinn G. Þórisson Náttúrustofa Austurlands
• Lifnaðarhættir hreindýra í nýju ljósi, Skarphéðinn G. Þórisson NA
• Veiðistjórnun hreindýraveiða, Jóhann G. Gunnarsson UST
• Hreindýr í ferðaþjónustu, Ásta Þorleifsdóttir Markaðsstofa Austurlands
• 12:00 – 13:00 Hádegishlé og handverksupplifun
• Hreindýrabóndi á Íslandi- reynslusaga, Aðalsteinn Jónsson Klausturseli Jökuldal
• Upplifun veiðimannsins, Emil Björnsson
• Með linsuna að vopni, Skúli Ben hreindýraleiðsögumaður
• Auðlendur, Fjölnir Torfason ferðaþjónustubóndi, Hala í Suðursveit
• Auðlindin hreindýr, hagsmunasamtök um nýtingu hreindýra, Aðalsteinn Jónsson
• Vinir Vatnajökuls, hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs, Kristbjörg Hjartardóttir

14:30 – 14:45 Kaffihlé

14:45 – 15:30 Pallborðsumræður, stjórnandi Þorvarður Árnason Umhverfisfræðingur

Handverksfólk og hönnuðir sýna og selja afurðir sínar í miðrými Nýheima

Óvissuferð á hreindýraslóðir

19:30 Matur úr héraði, Hótel höfn kvöldverður úr matarkistu Austur og Suðausturlands

Óður til hreindýrsins, Charles Ross frumflytur tónlistaratriði

Tilkynna þarf þátttöku fyrir föstudaginn 26. mars, tilkynna þarf sérstaklega þátttöku í kvöldverð ( rosa@rikivatnajokuls.is )

Fundarstjóri Rósa Björk Halldórsdóttir, Framkvæmdastjóri Ríki Vatnajökuls, ferðaþjónustu, matvæla,-og menningarklasa Suðausturlands

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

24.03.2010

Frá bókasafninu

Bókasafnið verður lokað þriðjudaginn 30. mars, eins og áður hefur komið fram.

Bókasafnið verður lokað á skírdag en það verður opið þriðjudaginn 6. apríl.

Bókasafnsvörður

Spurningakeppni Neista 2 umferð

Spurningakeppni Neista í kvöld

Í kvöld (þriðjudaginn 23. mars) kl 20 í Löngubúð verður spurningakeppni Neista fram haldið.

Þar munu eigast við:

Grunnskóli Djúpavogs kennarar gegn Vísir hf. og
Djúpavogshrepps-skrifstofa gegn Ferðaþjónustunni Eyjólfsstöðum

500 krónur inn. Frítt fyrir ófermda.

 Stjórn Neista

23.03.2010

Boðskaffi í leikskólanum kl.9:30-10:30

Við í leikskólanum ætlum að bjóða þeim sem vilja kynna sér leikskólann og hitta nemendur hans og starfsfólk í heimsókn til okkar á fimmtudaginn, 25. mars milli kl. 9:30-10:30.  Heitt verður á könnunni. 

Allir velkomnir

Starfsfólk og nemendur Bjarkatúns

Menningarráð Austurlands auglýsir

Við leitum að austfirskum tónlistarmanni/tónskáldi til að taka þátt í skapandi tónlistarverkefni á Írlandi

Menningarráð Austurlands leitar að tónlistamanni í samstarfi við Menningarráð Donnegal og Vesterålen, í verkefni á Írlandi sumarið 2010.

Hvar: Donegal sýsla á Írlandi.
Hvenær: 26.-28. apríl & 12.-17. júlí 2010.
Hvað: Tónlistarmenn frá Donegal, Vesterålen í Noregi og Austurlandi vinna saman að tónsmíðum og flutningi á tónverkum sem sækja innblástur í ferðir írskra munka yfir Atlantshafið fyrr á öldum. Yfirheitið er THE EDGE OF THE SEA.
 
Hverjir geta sótt um:
Starfandi ungir tónlistarmenn (20-35 ára) sem eru frá Austurlandi eða búsettir á Austurlandi og hafa reynslu á sviði þjóðlagatónlistar, samtímatónlistar, raftónlistar eða djass og/eða blöndu af þessu.
 
Nánari upplýsingar um verkefnið og gögn vegna umsóknar veitir Signý Ormarsdóttir menningarfulltrúi í síma 471-3230 og á netfang menning@menningarrad.is.
 
UMSÓKNARFRESTUR ER TIL  31. mars

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

BR

23.03.2010

Í skólanum er skemmtilegt að vera

Í morgun fóru þrír gallvaskir nemendur leikskólans upp í grunnskóla til að taka þátt í og kynnast starfi því hvernig það sé nú að vera í 1. bekk.  Lagt var af stað kl. 8:00 þar sem stefnt var að því að mæta í samsöng með 1-7 bekk.  Leikskólabörnin lögðu af stað á móti vindi og fannst hann heldur sterkur svona beint í fangið en á áfangastað komust við að lokum og flýttum okkur að klæða okkur úr útifötunum og taka þátt í samsögnum þar sem allir nemendurnir voru þegar komnir á svæðið og biðu eftir okkur.  Byrjað var á upphitunaræfingum og síðan var tekið lagið og sungum við mörg lög bæði sem við þekktum en líka lög sem við lærðum bara á staðnum. 

 

Eftir samsöng var farið í röð þar sem við gengum prúð og stillt inn í 1. og 2. bekkjar stofuna.  Við fengum okkur sæti en búið var að koma fyrir þremur nýju borðum í stofuna fyrir okkur leikskólabörnin.  Þórunnborg lét okkur fá verkefnabók til að vinna í og nemendurnir í 1. bekk og 2. bekk tóku upp sínar verkefnabækur.  Við unnum í bókunum fram að nestistíma þá gengum við frá og tókum upp nestið okkar og borðuðum það.  Eftir nestið komu frímínútur og auðvitað drifum við okkur með í þær og fengum að taka þátt í leikjum og líka að prófa leiktækin við grunnskólann. 

Mark Anthony að vega salt við hverja..

við Kira Lauru sem er ekki eins hrifin þar sem hún er uppi..

En hún Elísa Rán kemur og hjálpar henni og þá er Mark uppi.

Þegar bjallan hringdi og frímínúturnar voru búnar þustu allir krakkarnir í röð við sinn inngang en við fylgdum 1. og 2. bekk sem áttu að fara í tjáningu í íþróttahúsinu.  Þar þurfum við að klæða okkur úr útifötunum og fara niður í salinn.  Í tjáningu er krakkarnir að dansa.  Byrjað var á upphitun sem voru nokkrir hreyfileikir, síðan tókum við okkur stöðu tvö og tvö saman og dönsuðum klappdansinn.  Eftir hann æfðum við bíladansinn og í lokinn fórum við í leikinn um eyjurnar.  Þá var tíminn búinn og við fórum í röð og gengum svo fallega upp til að klæða okkur í útifötin.  Við þökkuðum fyrir okkur því nú átti að halda af stað út í leikskóla aftur. 

Í upphitun

Í bíladansinum

Í eyjaleiknum

Grunnskólakrakkar og kennarar takk kærlega fyrir okkur þetta var rosalega skemmtilegur tími og við hlökkum til að koma til ykkar í haust og byrja í fyrsta bekk.

Fleiri myndir hér

ERB;MARG;KLK;

ÞS

Sumarafleysingar í Íþróttamiðstöð Djúpavogs

Laus eru til umsóknar störf vegna sumarafleysinga við Sundlaug Djúpavogs fyrir sumarið 2010.

Starfið fellst í meginatriðum í gæslu / eftirliti við sundlaug og í baðklefum - afgreiðslu - þrifum og eftir atvikum öðrum tilheyrandi verkum er falla til í ÍÞMD.  

Nýjir starfsmenn skulu sækja sérstakt grunnnámskeið ætlað starfsfólki sundstaða sem
verður haldið á Egilsstöðum 7 - 8 júní.
Upprifjunarnámskeið verður hinsvegar á Djúpavogi 27 maí.

Ráðningatímabil: 15. júní – 15. ágúst.

Umsóknarfrestur er til 20 apríl.

Óheimilt er að ráða starfsmenn yngri en 18 ára.

Allar fyrirspurnir vegna umsókna skulu berast á netfangið andres@djupivogur.is

Ferilskrá skal fylgja umsóknum.

Andrés Skúlason
Forstöðum. ÍÞMD

22.03.2010

Íþróttamiðstöð Djúpavogs auglýsir sumarstörf

Laus eru til umsóknar störf vegna sumarafleysinga við Sundlaug Djúpavogs fyrir sumarið 2010.

Starfið fellst í meginatriðum í gæslu / eftirliti við sundlaug og í baðklefum - afgreiðslu - þrifum og eftir atvikum öðrum tilheyrandi verkum er falla til í ÍÞMD.  

Nýjir starfsmenn skulu sækja sérstakt grunnnámskeið ætlað starfsfólki sundstaða sem verður haldið á Egilsstöðum 7 - 8 júní.
Upprifjunarnámskeið verður hinsvegar á Djúpavogi 27 maí.

Ráðningatímabil: 15. júní – 15. ágúst.

Umsóknarfrestur er til 20 apríl.

Óheimilt er að ráða starfsmenn yngri en 18 ára.

Allar fyrirspurnir vegna umsókna skulu berast á netfangið andres@djupivogur.is

Ferilskrá skal fylgja umsóknum.

Andrés Skúlason
Forstöðum. ÍÞMD

22.03.2010

1. kvöldið í spurningakeppninni

Í gærkvöldi fór fram 1. kvöldið í æsispennandi spurningakeppni Neista. Góð mæting var á svæðið og fín stemning í húsinu.

Kvöldið hófst með viðureign HB-Granda og Við voginn. HB-Grandi á titil að verja og byrjuðu þeir titilvörn sína vel með nokkuð öruggum sigri 21-8 á Við voginn.

Þá áttust við lið Kvenfélagsins Vöku og Hótel framtíð.  Þar sigruðu Kvenfélagskonur 18-9

Í lokaslagnum mættust svo stálin stinn þar sem kvenfélagskonur og HB-Granda-menn  tókust á  í hnífjafnri og skemmtilegri keppni. Það fór þó svo að lokum að Eðvald og félagar hjá HB-Granda höfðu kvenfélagskonurnar undir 24-23 eftir framlengingu og að lokum bráðabana.

HB-Grandi er því kominn í úrslit sem sigurvegari 1. kvölds en ekki er öll von úti fyrir vöku-konur því að stigahæsta tapliðið fær einnig sæti á úrslitakvöldi keppninnar.

Þar sem myndavélin gleymdist og fréttaljósmyndari heimasíðnar vant við látinn voru engar myndir teknar frá kvöldinu en úr því verður bætt næstu kvöld og meðfylgjandi mynd er af sigurvegurum síðasta árs HB- Granda. 

Næsta viðureign verður milli Grunnskólans-kennarar á móti Vísi og Djúpavogshrepps-skrifstofa á móti Ferðaþjónustunni Eyjólfsstöðum.  Það lítur því út fyrir skemmtilegar keppnir næsta þriðjudag og hvetjum við sem flesta til að mæta.

Stjórn Neista/ÞS

19.03.2010

Spurningakeppni Neista hefst í kvöld.

Spurningakeppni Neista hefst í kvöld.

 

Í kvöld, fimmtudaginn 18. mars, kl 20 í Löngubúð munu eigast við:

Við Voginn - HB Grandi 
Kvenfélagið Vaka - Hótel Framtíð

Hvetjum sem flesta til að mæta og sjá æsispennandi viðureignir þar sem keppt verður að því að komast í úrslitakeppnina. 

 

Aðgangseyrir er kr.500

Stjórn Neista

18.03.2010

Gestavika

Gestavikan í skólanum stendur nú sem hæst.  Góð þátttaka hefur verið hjá forráðamönnum, sérstaklega yngri barnanna.  Börnin hafa fengið heimsóknir í smíðatíma, heimilisfræði, tjáningu, inni í stofu, samsöng o.m.fl.
Hann Brynjar Dagur, sem sést hér á myndinni, hefur verið duglegur að heimsækja systkini sín og skemmti sér hið besta í samsöngnum í morgun, þar sem hann bæði dansaði og söng.  Enn eru tæpir tveir skóladagar eftir þannig að enn er svigrúm til að heimsækja börnin.  HDH

Tónleikar á Hótel Framtíð

Laugardagskvöldið 20. mars munu Ýmir Már og Berta Dröfn standa fyrir tónleikum á rólegu nótunum. Tónleikarnir verða haldnir á barnum á Hótel Framtíð frá kl. 23:00 til 01:00.

Reynt verður að skapa kósýstemmingu í anda Damien Rice, Ragnheiðar Gröndal og The Cranberries.

Aðgangseyrir: 1.000 kr.

Vonumst til að sjá sem flesta.

18.03.2010

Jafnréttið virt

Í upphafi kjörtímabils 2006 – 2010 blasti við sú staðreynd, að 5 karlar skipuðu sveitarstjórn Djúpavogshrepps. Að einhverju leyti stafaði það af því að konur munu hafa haldið sig til hlés, þegar gengið var frá framboðslistunum 2, sem í boði voru á kjördegi.

Mál hafa hins vegar þróast þannig að konur hafa a.m.k. seinni hluta kjörtímabilsins setið fundi og stundum fleiri en ein (sem betur fer).

Í gær urðu hins vegar þau tíðindi að meirihluti sveitarstjórnar var skipaður konum og af því tilefni þótti við hæfi að taka mynd, enda hækkaði fegurðarvísitalan umtalsvert, án þess að það bitnaði á vitrænni ákvarðanatöku.

Texti og mynd: BHG

 

 

 


Sveitarstjórn Djúpavogshepps á fundi 15. mars 2010: Sóley Dögg Birgisdóttir (N), Þórdís Sigurðardóttir (N), Andrés Skúlason oddviti (N), Klara Bjarnadóttir (L) og Guðmundur Valur Gunnarsson (L)

17.03.2010

Spurningakeppni Neista

Eftir smá tilfæringar höfum við nú fengið 12. liðið inn í keppnina til að keppa við skrifstofulið hreppsins, en það er hún Alda á Fossárdal með sitt ferðaþjónustulið sem hyggst reyna að velgja þeim undir uggum. Til að þetta gengi allt saman upp þurftum við að svissa liðum á 2. og 3. kvöldi og eru liðstjórar beðnir um að ítreka það við sín lið.

Þá er ný dagskrá eftirfarandi:

1. kvöld - fimmtudaginn 18. mars:

Við Voginn - HB Grandi
Kvenfélagið Vaka - Hótel Framtíð

2. kvöld - þriðjudaginn 23. mars:

Grunnsk. kennarar - Vísir hf.
Dpvhr.skrifstofa – Ferðaþjónustan Eyjólfsstöðum

3. kvöld - fimmtudaginn 25. mars:

Eyfreyjunes - Leikskólinn
Grunnsk. nemendur – Djúpavogshr. áhaldahús

Viðureignirnar fara allar fram í Löngubúð kl. 20:00. 500 krónur inn. Frítt fyrir ófermda.

Úrslitakvöldið verður auglýst síðar.

 

Stjórn Neista

16.03.2010

Sveitarstjórn: Fundargerð 15.03.10

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

16.03.2010

Gestavika í Neistatímunum

Þessa vikuna (15.-19.mars) er gestavika í grunnskólanum okkar, þar sem öllum er frjálst að kíkja í heimsókn og kynna sér hvað er börnin eru að gera í skólanum.

Neistatímar eru beint í framhaldi af skóladegi barnanna og því fannst okkur tilvalið að hafa líka gestaviku hjá okkur.

Því bjóðum við hér með alla sérstaklega velkomna að kíkja í heimsókn í íþróttahúsið að fylgjast með æfingum barnanna þessa viku.

Sjáumst, þjálfarar og stjórn Neista

Sveitarstjórn - Fundarboð 15.03.10

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 15. 03. 2010

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps mánud. 15. marz 2010 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsáætlun 2010; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.

a) Þriggja ára áætlun 2011 – 2013. Síðari umræða.
b) Endurskoðun á framkvæmda- og fjárfestingaáætlun 2010.
c) Staða mála við gerð ársreiknings 2009.
d) Skólaakstur. Samantekt um kostnað 2009 og endurgr. Jöfnunarsjóðs.
e) Reglur um minkaveiðar frá og með 1. maí 2010.
f) Ráðning verktaka við minkaveiðar til eins árs.
g) Sumarlokun leikskólans 2010.
h) Heimild til handa Lánasj. sveitarfélaga um birtingu uppl. v/ lána Dpv.hr.
i) Umboð á aðalfund Lánasjóðs sveitarfélaga 26. marz 2010.

2. Erindi og bréf.

a) Umhverfisráðuneytið, dags. 2. marz 2010.
b) Fél. ísl. hjúkrunarfræðinga, dags. 8. marz 2010.
c) SSA, dags. 11. marz 2010 v/ aukaaðalfundur 19. maí 2010.
d) Ríkissaksóknari, dags. 19. feb. 2010.
e) Jafnréttisstofa, dags. 12. feb. 2010.
f) Sjávarútvegsráðuneytið v/ Byggðakvóti, dags. 17. feb. 2010.
3. Skipulags- og byggingarmál.
a) Stýring á umferðarhraða í íbúagötum á Djúpavogi. Endursk. á fyrri ákv.
b) Skipulagsstofnun 1. marz 2010.

4. Fundargerðir.

a) LBN 24. feb. 2010.
b) LBN 4. marz 2010.
c) HFN 5. feb. 2010.
d) SBU 17. feb. 2010.
e) Samráðsf. með Vegagerðinni 10. feb. 2010.
f) Samráðsf. með landeigendum í Beruf. og Hvannabr. 19. feb. 2010

5. Skýrsla sveitarstjóra.


Djúpavogi 12. marz 2010;

Sveitarstjóri

13.03.2010