Djúpivogur
A A

Fréttir

Foreldrafundur leikskólans

Foreldrafundur leikskólans verður haldinn 8. október í leikskólanum kl. 17:30.  Á dagskrá er kynning á vetrarstarfi leikskólans, kosning í foreldraráð/félag, spjall um leikskólamál og mótun leikskólastarfsins á Djúpavogi. 

 

Leikskólastjóri

Kveðja frá Jóni Eysteinssyni

Ágætu Djúpavogsbúar.

Síðbúnar hamingjuóskir til ykkar allra vegna þess mikla framtaks ykkar að koma þessu frábæra listaverki fyrir á þessum stað.

Hlökkum til að heimsækja ykkur næsta sumar".

Kærar kveðjur.

Jón Eysteinsson og fjölskylda.

BR

06.10.2009

Bæjarlífið - september 2009

Seint og um síðir birtist hér bæjarlífssyrpa septembermánaðar. Segjast verður eins og er að undirritaður var alls ekki nógu duglegur að vera með myndvélina á lofti í liðnum mánuði, en vonandi stendur það til bóta í október.

Syrpuna má skoða með því að smella hér.

ÓB

05.10.2009

Austfirskar krásir - tækifæri til nýsköpunar

Þann 7.október standa samtökin Austfirskar Krásir fyrir ráðstefnunni -  Austfirskar Krásir - Tækifæri til nýsköpunar, rástefnan verður haldin á Gistihúsinu á Egilsstöðum kl 16:00

Framsögumenn verða Eirný Sigurðardóttir frá Ostabúðinni Búrinu sem ætlar að vera með vangaveltur um vannýt tækifæri í matvælaframleiðslu, Eygló Ólafsdóttir mun fjalla um Slow food hugmyndafræðina og Þórarinn Egilsson atvinnumálafulltrúi Fljótsdalshéraðs og ostagerðamaður mun fjalla um Ostagerð.

Einnig verður stutt kynning á Matvælamiðstöð Austurlands sem er að taka til starfa.

BR

05.10.2009

Vetur konungur

Vetur konungur,
lokaðu mig inni ef þú þarft.
Vetur konungur,
láttu mér nú verða svolítið kalt...

...sagði skáldið einhverntíma.

Ekki að það sé óskhyggja í undirrituðum að veturinn heimsæki okkur svona snemma, en það er óhætt að segja að þessi merki konungur hafi lagt drögin að komu sinni með því að sveipa fjallahringinn hvítri hulu.

Afraksturinn fengum við að sjá í morgun þegar létti til og er ekki úr vegi að deila honum með lesendum.

Hann má sjá með því að smella hér.

ÓB

 

03.10.2009

Föstudagsgátan

Síðasta gátan sem við birtum var ansi strembin. Sú var eftir Guðmund frá Lundi og í vísunni var að finna, í réttri röð; starfsheiti, karlmannsnafn og heimilisfang en vísan hafi verið rituð utan á umslag sem sent var á Kópasker. Sagt er að fólkið á pósthúsinu hafi hvorki skilið upp né niður í áletruninni en ákveðið að ráða í hana og tekist það að lokum. Bréfið komst því á réttan stað.

Skollafjandi, sköglar traf,
skessudrösull, hægt að fer.
Undir hömrum, elfar skraf,
ægis þröm við Kópasker.

Tveir lesendur sendu inn, þær Björg Stefa Sigurðardóttir og Jónína Guðmundsdóttir og voru báðar ansi nálægt réttu svari. Þær sögðu að bréfið hefði átt að fara á:

Refaskytta
Elfar
Kópaskeri.

Rétt svar er hins vegar (og nú er það þeirra sem sendu inn að láta Ingimar útskýra nákvæmlega fyrir sér hvernig rétt svar fæst út):

Refaskytta
Brynjólfur Jónsson
Bakki við Kópasker

Við þökkum Björgu og Jónínu fyrir tilraunina og hvílum nú föstudagsgátuna um tíma, a.m.k. í eina viku eða svo.

ÓB

02.10.2009

Kuldalegt ?

Já, það var kuldalegt um að litast í morgun.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

02.10.2009

Tölvugjafir í skólann

Fyrir nokkru sendi skólastjóri "betlibréf" til helstu fyrirtækja og félagasamtaka sem hafa aðsetur og / eða starfsemi í Djúpavogshreppi.  Tilgangurinn var að biðja fyrrnefnda aðila um að vera svo elskulegir að gefa skólanum andvirði 1-2 tölva.
 
Forsaga málsins er sú að eitt af markmiðum skólans er að bjóða nemendum upp á tölvukennslu "eins og best verður á kosið hverju sinni".  Síðustu 2-3 ár má segja að við höfum ekki náð að koma til móts við þessi markmið, þar sem gömlu tölvurnar voru orðnar mjög hægvirkar og náðu ekki að keyra öll þau forrit sem ætlast er til að börnin læri á í dag.  Ljóst var að skólinn hefði ekki bolmagn til að ráðast í verkefnið, að þessu sinni og því var "betlibréfsleiðin" valin.

Send voru út fjórtan bréf og í raun vissum við ekki hverjar viðtökurnar yrðu.  En í ljós kom að hér í sveitarfélaginu eru fyrirtæki og félagasamtök sem hafa metnað fyrir hönd skólans síns og bera hag barnanna fyrir brjósti.  Alls náðist að safna fyrir 7,5 tölvum.  Þau fyrirtæki sem gáfu okkur tölvur eru:

Samkaup - Strax, 2 tölvur
Ósnes, 2 tölvur
Kvenfélagið Vaka, 2 tölvur
Lionsklúbbur Djúpavogs, 1 tölva
Styrktaraðili sem ekki vill láta nafns síns getið, 30.000.-


Við hér í skólanum sendum forsvarsmönnum þessara fyrirtækja / félagasamtaka hinar bestu þakkir fyrir og óskum þeim velfarnaðar við leik og störf.  HDH