Fréttir
Tilkynning frá ferðafélagi Djúpavogs
Laugardaginn 12.september nk. verður farið í berja og skoðunarferð í Jórvíkurskóg.
Umsjón: Stefa símar;478 8862/849 1152. Netfang: stefasig@simnet.is
Eðvald símar; 478 8895/894 2292
Ferðafélag Djúpavogs
Tilkynning frá Neista
Neisti verður með fótboltaæflingar á morgun þó að það sé frí í skólanum.
UMF Neisti
Þeir fiska sem róa - Júlí og ágúst
Landaður afli í ágúst 2009 | |||
Skip/Bátur | Afli | veiðarfæri | Róðra fjöldi |
Öðlingur SU | 1.726 | Handfæri | 3 |
Birna SU | 6.362 | Handfæri | 8 |
Glaður SU | 864 | Handfæri | 4 |
Már SU | 8.789 | Handfæri | 8 |
Orri SU | 1.950 | Handfæri | 3 |
Magga SU | 1.934 | Handfæri | 3 |
Guðný SU | 6.663 | Handfæri | 10 |
Emilý SU | 1.551 | Handfæri | 1 |
Sigurvin SU | 179 | Handfæri | 1 |
Tjálfi SU | 1.384 | Dragnót | 3 |
Benni SF | 50.733 | Lína | 6 |
Daðey GK | 102.336 | Lína | 17 |
Von GK | 52.467 | Lína | 11 |
Kiddi Lár GK | 10.244 | Lína | 3 |
Kristín ÞH | 140.174 | Lína | 2 |
Ágúst GK | 49.765 | Lína | 1 |
Sturla GK | 52.780 | Lína | 1 |
Ásta GK | 29.353 | Lína | 8 |
Þórsnes SH | 45.689 | Net | 3 |
Samt | 564.943 |
Landaður afli í júlí 2009 |
|||
Skip/Bátur | Afli | veiðarfæri | Róðra fjöldi |
Sæljós GK | 4.914 | Handfæri | 4 |
Öðlingur SU | 15.920 | Handfæri | 10 |
Glaður SU | 1.031 | Handfæri | 4 |
Már SU | 15.837 | Handfæri | 9 |
Daðey GK | 18.455 | Handfæri | 6 |
Magga SU | 12.823 | Handfæri | 14 |
Guðný SU | 9.578 | Handfæri | 14 |
Emilý SU | 17.272 | Handfæri | 12 |
Goði SU | 5.292 | Handfæri | 9 |
Sigurvin SU | 469 | Handfæri | 2 |
Tjálfi SU | 25.260 | Dragnót | 13 |
Sólborg RE | 51.144 | Dragnót | 7 |
Grímsnes GK | 2.696 | Dragnót | 1 |
Von GK | 45.105 | Lína | 10 |
Kristín ÞH | 137.968 | Lína | 2 |
Páll jónsson GK | 236.659 | Lína | 3 |
Ásta GK | 20.526 | Lína | 6 |
Samt | 620.949 |
Til umhugsunar
Það er mál manna sem heimsótt hafa Djúpavog á liðnum árum að bærinn okkar sé snyrtilegur og umfram allt fallegur og yfir því eigum við að sjálfsögðu öll að vera stolt, því með með góðri umgengni og snyrtimennsku styrkjum við ímynd okkar bæði inn á við sem út á við.
En um leið og gleðjast má yfir fegurð bæjarins og góðri umgengni í flesta staði finnast undantekningar og nú finnst undirrituðum full ástæða til að gera að umtalsefni hér á vefnum okkar ákveðið efni sem getur ekki verið yfir umræðu hafið á þessum opinbera vettvangi okkar. Hér skal því gert að umtalsefni miður góð umgengni um ákveðin verðmæti í eigu sveitarfélagsins og önnur óbein verðmæti sem okkur snertir. Nú háttar þannig til að einhver/einhverjir virðast finna jöfnum höndum hjá sér hvöt að skemma hluti sem lagðir hafa verið bæði mikil vinna og fjármunir í á liðinum árum.
Eins og bæjarbúum er kunnugt var fyrir nokkuð margt löngu settir niður fallegir ljósastaurar með göngustígum í bænum nánar tiltekið frá versluninni Við Voginn og yfir Bjargstúnið og annarsvegar upp Klifið.
Nú er svo komið að flestir þessara dýrkeyptu staura sem settir voru niður til fegrunar á sínum tíma hafa verið skemmdir mikið á liðnum árum og má heita að sumir þeirra séu nú ónýtir með öllu þar sem þeir hafa verið grýttir mjög illa og eða notað á þá barefli einhversskonar.
Fyrir liggur að mjög erfitt er að útvega nýja skerma og ljós á þessa staura og er því skaðinn umtalsverður.
Í annan stað virðist það nánast árleg uppákoma að ljóskastarar við listaverkið sem felldir hafa verið ofan í stallinn hafa verið brotnir og það gerist því miður ekki óvart. Glerið í ljósakösturum þessum er sérstaklega sterkt, en það þolir hinsvegar ekki hvað sem er og þegar grjóthnullungum er kastað endurtekið ofan á gler þessi þá gefa þau sig á endanum og þá tvístrast glersallinn út um nærsvæði listaverksins með þeim umhverfisspjöllum sem því fylgir.
Fyrir skemmstu var einmitt gler brotið í einum kastaranum við listaverkið og hlýtur það að teljast afskaplega dapurlegt að enn og aftur skuli þurfa að endurnýja þennan búnað með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, auk þrifa á glersallanum á svæðinu. Hvernig sem á því stendur virðist þessi þráhyggja viðkomandi að skemma endurtekið sömu hlutina hér í bænum benda til þess að sömu aðilar eigi oft í hlut og þá líklegast þeir sömu og virðast hafa þráhyggju fyrir því að mæta reglulega inn á vegagerðarlóð sem við köllum og brjóta þar reglulega rúður í bifreiðum sem þar standa ýmist til geymslu eða bíða þess að verða settir í brotajárn. Sem dæmi var settur fólksbíll nú síðsumars inn á lóðina í geymslu og þá liðu ekki margir dagar þangað til allar rúður höfðu verið brotnar í honum og var bíllinn dældaður að auki. Í alla staði er hér um alvarlega verknaði að ræða því bæði er erfitt að laga það sem skemmt hefur verið og í mörgum tilfellum mjög kostnaðarsamt.
Í ljósi þessa eru íbúar beðnir um að hafa augun opin og gera viðvart ef þeir verða vitni að skemmdarverkum sem þessum því hér er um sameiginlegar eigur okkar íbúana að ræða og því sárt að horfa endurtekið upp slíkt virðingarleysi gagnvart þeim verðmætum sem hér eru í bænum.
Markmið okkar hlýtur í hvert sinn þegar slíkt kemur upp á að reyna að finna hver er valdur að skemmdum sem þessum svo hægt verði að kalla eftir að sá er tjóni veldur bæti það að fullu. Ef hinsvegar ábendingar berast ekki um skemmdarverk af þessu tagi er einsýnt að leikurinn heldur áfram með öllu því tjóni sem af hlýst.
Tökum því höndum saman og reynum að uppræta slíka umgengni í eitt skipti fyrir öll.
Með umhverfiskveðjum
Form.Umhverfisnefndar Djúpavogshr.
Andrés Skúlason
Þessi staur er lítið augnayndi í dag og svona eru þeir margir hverjir útlítandi
Ljóskerið undir listaverkinu fær jöfnum höndum að kenna á því
Í þúsund molum og glersalli á víð og dreif, hverjum líður betur með þetta ?
Þessi bíll var óskemmdur fyrir mánuði síðan, skyldi gerandi verið reiðubúin að greiða fyrir tjónið ? Það má kannski gera við fyrir þrjúhundruðþúsund.
Leikjanámskeið Neista - umfjöllun og myndir
Umf. Neisti hefur í sumar haldið 3 leikjanámskeið fyrir börn á aldrinum 4-7 ára. Þátttaka hefur verið góð og alltaf er mikið stuð í tímunum, þar sem börnin skemmta sér í ýmsum leikjum og gönguferðum.
Síðasta leikjanámskeið sumarsins var í síðustu viku, en þá var endað á því að fara í ferð út á sanda að gera sandkastala. Hjálpuðust börnin að við að gera einn stórann sandkastala, skreyta hann með beinum og ýmsu öðru tilfallandi en einnig var lagður vegur að kastalanum. Þegar búið var að mynda hópinn hjá kastalanum var “auðvitað“ næst á dagskrá að rífa bygginguna ... og því var kastalinn jafnaður við jörðu (með miklum látum) áður en við héldum heim.
Hér má sjá myndir úr ferðinni.
SDB
Göngum í skólann 2009
Á morgun, miðvikudaginn 9. september hefst átakið "Göngum í skólann" í þriðja sinn. Nemendur eru hvattir til að ganga eða hjóla í skólann í heilan mánuð. Haldið verður utan um þátttökuna í skólanum og það skráð samviskusamlega hverjir taka þátt.
Börnum úr dreifbýli verður hleypt úr skólabílunum við Samkaup-Strax, þannig að þau geta tekið fullan þátt í verkefninu.
Á morgun eru foreldrar / forráðamenn sérstaklega hvattir til að ganga / hjóla með börnunum í skólann, til að hefja átakið sem lýkur formlega 9. október nk. Dagskrá þann dag verður auglýst síðar.
Með von um góða þátttöku. HDH
Listaverkið í Gleðivík fær góða dóma
Jón Baldur Hlíðberg hefur ýmislegt sér til afreka unnið í áranna rás, en hann hefur m.a. prýtt margar fræðibækur og önnur rit með sínum snilldarteikningum m.a. í spendýrabókina og fiskabókina auk fjölmargra annarra merkra bóka.
Þá hefur Jón Baldur Hlíðberg unnið að verkefnum hér í Djúpavogshreppi m.a. á hann teikningar þær sem eru á upplýsingaskiltunum um fuglana hér á svæðinu en það verk vann hann með okkur á sínum tíma.
Um þessar mundir er svo teiknarinn góði að vinna að öðru ánægjulegu verkefni með okkur hér í Djúpavogshreppi ásamt Jóhanni Ísberg, en þar er um fjöruskilti að ræða en á þeim skiltum verða dregnar fram teikningar ásamt upplýsingum um lífríkið í fjörunni til ánægju og fróðleiks fyrir gesti og gangandi á komandi árum.
Jón Baldur Hlíðberg hefur utan þessa alls verið leiðsögumaður til langs tíma og hefur m.a. flakkað um með mikinn fjölda náttúruskoðara þvert og endilangt um landið og þá ekki síst fuglaskoðara.
Í þessu ljósi er því sérstakt ánægjuefni að koma eftirfarandi bréfi frá Jóni Baldri Hlíðberg á framfæri sem hann sendi okkur vegna listaverksins í Gleðivíkinni þar sem hann fer miklu lofsorði um verkið.
Við þökkum Jóni Baldri að sjálfsögðu kærlega fyrir bréfið sem sjá má hér að neðan. AS.
Jón Baldur Hlíðberg við greiningu í lífríkinu í fjörunum á nærsvæði Djúpavogs fyrr í
sumar, Bryndís ferðamálafulltrúi fylgist áhugasöm með.
Bréf frá Jóni Baldri Hlíðberg um listaverkið í Gleðivík.
Undirritaður hefur sjaldan séð ástæðu til að tjá sig skriflega um listir, raunar má segja að í einu skiptin sem ég hef skrifað um list eða listaverk þá hafi það verið í önuglegheitum til að fjasa yfir staðsetningu þeirra úti í ósnortinni náttúru okkar sem sótt er að úr öllum áttum.
Nú sé ég mig knúinn til að tjá mig einu sinni enn og í þetta sinn verður sleginn nýr tónn.
Þegar ég frétti af tilvonandi listaverki Sigurðar Guðmundssonar í Gleðivík við Djúpavog fyrir nokkru var ég ekki alveg viss um að þessi hugmynd myndi ganga upp. Hún virtist mjög vandasöm í framkvæmd en nú eftir að hafa séð verkið og umhverfi þess verð að viðurkenna að ég er stórhrifinn.
Í mínu starfi sem teiknari náttúrufyrirbæra hef ég lært að meta fegurðina sem býr í öllu okkar náttúrulega umhverfi hvort heldur er í lit eða formi, angan eða hreyfingu, náttúran er allstaðar falleg og hrífandi á einhvern hátt, í allri sinni fjöbreytni. Sú hugmynd að taka fjölda eggja mismunandi tegunda og horfa fyrst og fremst á form þeirra finnst mér snilldarleg.
En eggið er svo miklu meira en stúdía í formi. Egg er hlaðið táknmyndum margvíslegra gæða. Egg er fyrirheit, egg er öryggi, egg er endunýjun og í egginu hvílir framtíðin. En fuglsegg eru líka öll fagurlega löguð þótt þau séu mjög mismunandi . Sigurður stillir upp þessum stóru fullkomnu eggjum eins og ákalli til móður náttúru um að hún veiti okkur í framtíðinni af þeim gæðum sem eggið vissulega ber ætíð með sér.
Steinninn sem valinn hefur verið í eggin ljáir þeim eðlilegt yfirbragð, mér finnst strax eins og litur, áferð og lögun fari saman. Fá form eru tilgerðarlausari en eggið í einfaldleika sínum, en um leið er það mjög viðkvæmt, þarna er því farin vandrötuð leið, en mér finnst þetta hafa heppnast eins vel og hugsast getur.
Það er svolítið undarlegt að upplifa svona verk á svona stað. Það að ekki stærra pláss en Djúpivogur skuli skarta þessu verki, einu stærsta og best heppnaða listaverki landsins, ber vott um einhvern sérstakan kraft, áræði og bjartsýni sem ég er fullviss um að muni fleyta þessum litla bæ inn á margt kortið, í marga ferðasöguna og á marga landkynningarbæklinga. Fyrir marga munu þetta verða sjálf fjöreggin.
Ég er sannfærður um að þetta verk Sigurðar á eftir að vekja vaxandi athygli og ánægju. Sömuleiðis spái ég því að þarna sé komin ný táknmynd fyrir ykkar landshluta, nokkuð sem þið megið vera stolt af um fjölmörg ókomin ár.
Til hamingju.
Jón Baldur Hlíðberg teiknari og leiðsögumaður.
Jón Baldur Hlíðberg og Jóhann Ísberg við Hvaleyjarvatn á Búlandsnesi síðastliðið sumar. AS.
Ásta Birna meðal þeirra bestu
Ljóst er að Ásta Birna Magnúsdóttir frá Djúpavogi hefur enn einu sinni sannað að hún er ein af allra bestu golfurum landsins og á framtíðina sannarlega fyrir sér. Ásta Birna varð í þriðja sæti á Íslandsmótinu að þessu sinni og í öðru sæti í holukeppninni, sem hún vann á síðasta ári. Við sendum Ástu Birnu hamingjuóskir með þennan frábæra árangur með baráttukveðjum frá Djúpavogi. Við erum jafnhliða þess full viss að Ásta Birna á einhvern góðan veðurdag eftir að vinna Íslandsmeistaratitilinn líka. AS
Fundargerð frá 3. sept. 2009
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
Eggin í Gleðivík vekja verðskuldaða athygli
Eins og flestir kannast við hefur fréttaflutningur almennt verið frekar neikvæður síðustu misserin og jákvæðar fréttir virðast oft týnast innan um fréttir af efnahagsmálum. Fréttin um "Eggin í Gleðivík" sem birtist í Morgunblaðinu þann 19.ágúst sl. vakti þó greinilega athygli og fjölmargir hafa haft samband við okkur og lýst yfir ánægju sinni með þetta glæsilega listaverk.
Þeir sem ekki sáu fréttina í Morgunblaðinu geta smellt hér
Einnig er gaman að segja frá því að við fengum fréttir af íslenskri fjölskyldu sem ferðaðist hringinn í kringum Ísland nú í sumar, en nokkur ár voru liðin frá síðustu hringferð og var Djúpavogi hrósað sérstaklega sem áfangastað ferðamanna. Það er því aldeilis nóg um jákvæðar fréttir frá Djúpavogi.
BR
Fundarboð 03.09.2009
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 03. 09. 2009
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 3. september 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:
1. Fjárhagsleg málefni, stofnanir o. fl.:
a) Áformuð lántaka hjá SpHorn. Uppl. um kjör ef af verður.
b) Ákv. HSA um lokun Helgafells.
c) Hugm. um lækkun á launa- ferðakostnaði. (Kynntar á fundinum).
d) Mötuneytismál í Leikskólanum Bjarkatúni. (Leikskólastjóri mætir á fundinn).
e) Yfirferð um þjónustuframboð á vegum Djúpavogshr. og hugsanlegan niðurskurð.
f) Breytingar á gjaldskrá vegna félagslegrar heimaþjónustu.
g) Eggin í Gleðivík, uppsetning, styrkir og fleira. (Kynnt á fundinum).
h) Djúpavogshreppur, Vopnafjarðarhreppur. Opinber rannsókn á Gift ehf.
i) Samræmd innkaup stofnana. (Hugm. kynntar á fundinum).
j) „Ólafshjáleiga“, gögn frá Eðvald Smára Ragnarssyni og Ólafi Áka Ragnarssyni. (LFF = Lögð fram á fundinum).
2. Fundargerðir / afgreiðslumál frá nefndum:
a) Landbúnaðarnefnd, 27. júlí 2009.
b) Landbúnaðarnefnd, 25. ágúst 2009.
c) Hafnarnefnd 31. ágúst 2009..
d) Skólaskrifstofa Austurlands, 2. júlí 2009.
3. Skipulagsmál:
a) Aðalskipulag – kynnt drög að svörum vegna athugasemda. (LFF)
4. Erindi og bréf:
a) AFS á Íslandi, dags. 20 júlí 2009
b) Hrossaræktarsamtök Austurlands dags. 15. júlí 2009
c) Félag fagfólks í frítímaþjónustu dags. 15. júlí 2009
d) Þjóðkirkjan dags. 14. júlí 2009.
e) SÍS dags. 9. júlí 2009. Tilkynning um sveitarstjórnarkosningar 29. maí 2010.
f) Baldur Gunnlaugsson dags. 6. júlí 2009.
g) R-3 Ráðgjöf. dags. 4. ágúst 2009.
h) Ólafur Áki Ragnarsson, dags. 11. ágúst 2009.
i) UNICEF Ísland, dags. 29. júlí 2009
5. Skýrsla sveitarstjóra:
Djúpavogi 31. ágúst 2009;
Sveitarstjóri
Frá Löngubúð
Frá og með þriðjudeginum 1. September verður opnunartími Löngubúðar alla daga frá 10 til 16.
Þriðjudagurinn 15 september verður síðasti dagur sumaropnunar en eftir það tekur við venjulegur vetraropnunartími, þ.e. einungis föstudags- og laugardagskvöld frá 21:00 til 23:30
Starfsfólk Löngubúðar vill þakka Djúpavogsbúum, sem og öðrum sem litu við hjá okkur, kærlega fyrir frábært sumar. En minnum jafnframt á að við erum hvergi nærri hætt, fyrsta pubquiz haustsins er á næstu grösum ásamt spilavistum og fleiri skemmtilegum uppákomum í vetur.
Sjáumst!