Djúpivogur
A A

Fréttir

Ferðafagnaður 2009

Ferðafagnaður 2009 verður haldinn á landsvísu laugardaginn 18.apríl. Ferðaþjónustuaðilar á Djúpavogi ætla að sjálfsögðu að taka þátt og eru heimamenn boðnir sérstaklega velkomnir í heimsókn til þess að kynna sér það sem er í boði á staðnum fyrir ferðamenn.

Hugmyndin er sú að ferðaþjónustan vekji atygli á starfsemi sinni og geri almenning meðvitaðri um allt það góða sem ferðaþjónustan hefur upp á að bjóða.

Dagskrá dagsins í heild er hægt að finna hér en dagskrána fyrir Ferðafögnuð á Austurlandi má sjá hér.

Hægt verður að fara í heimsókn til ferðaþjónustuaðila á Djúpavogi eftir því sem hér segir:

Langabúð: Ókeypis inn á söfnin milli 14:00 og 16:00. Heitt á könnunni.

Við Voginn: Kynning og tilboð á nýrri vöru í grillinu.

Hótel Framtíð: Opið sérstaklega fyrir gesti milli kl.16:00-18:00. Heitt á könnunni. Gestir geta skoðað hótelið.

Sundlaug Djúpavogs: Opið milli kl.11:00-15:00 – frítt í sund fyrir alla fjölskylduna

Birds.is: Býður upp á fuglaleiðsögn um fuglalíf í Djúpavogshreppi kl.10:00. Farið frá fuglasafninu. Frítt inn á fuglasafnið á milli kl.13:00 og 15:00

Ferðafélag Djúpavogs: Verður með gönguferð á sunnudeginum 19.apríl. Allir velkomnir

Fyrir ferðaþjónustuna er þetta frábært tækifæri til þess að kynna það sem er í boði fyrir ferðamenn.

 BR

15.04.2009

Krakkar á kafi

Það var líf og fjör í sundlauginni á síðustu sundæfingu krakkanna fyrir páska. Þá komu Billi og Jón Ingvar í heimsókn með köfunarbúnað með sér og leyfðu krökkunum að prófa. Þetta vakti að sjálfsögðu mikla kátinu meðal krakkanna sem voru yfir sig hrifin af uppátækinu.

Myndir má sjá með því að smella hér.

BR

Fundarboð 15.04.2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  15. 04. 2009

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikud. 15. apr. 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjármál, málefni stofnana o. fl.

a) Undibún. að endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009.
b) 3ja ára áætlun 2009.
c) Greinargerð frá Djúpavogshreppi v/ fjárhagsætlunar 2009.
d) Lausafjárstaða sveitarfélagsins, heimild til yfirdráttar.
e) ParX, tilboð um þjónustu, dags. 27. marz 2009. (Hefur verið sent í tp.)
f) Intrum Justitia, samningsdrög v/ innheimtuþjónustu.
g) Staða mála v/ Dvalarheimilisins Helgafells.

2. Fundargerðir.

a) SBU, 19. febrúar 2009.
b) 1. fundur samstarfsnefndar um samein. DPV. og Fljótsdalshéraðs 19. marz 2009.
c) Skólaskrifstofa Austurlands, 5. marz 2009.

3. Erindi og bréf.

a) Sjóvá, dags. 2. apríl 2009 varðandi tryggingapakka.
b) Sambærilegt erindi frá VÍS (símtal ME við BHG í marz).
c) Fornleifafélag Íslands, styrkbeiðni v/ þýðingar skýrslu um fornleifarannsóknir í Gautavík frá árunum 1979-1980, dags. 26. marz 2009.
d) Daníel Arason, styrkb. v/ útgáfu á verkum Inga T. Lárussonar, marz 2009.
e) KSÍ, ályktun frá ársþingi KSÍ, dags, 14. feb. 2009.
f) UÍA, styrkbeiðni, dags. 10 feb. 2009.
g) Menningarráð Austurlands, ný stefna um menningarmál á Austurlandi til staðf.
h) Saman-hópurinn, dags. 30. marz 2009
i) Alcoa, kynningargögn, marz 2009.
j) Umhverfisstofnun, dags. 16. marz 2009.
k) Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi, dags. 13. marz 2009.
l) Ungmennafélag Íslands, dags. 13. marz 2009.
m) Úthlutun á hluta af slægjulandi neðan við skógrækt.
n) SÍS / Vegagerðin v/ vegaskrá, dags. 3. ap. 2009.

4. Skipulags- og byggingarmál.

a) Skipulagsstofnun, 24. marz 2009.

5. Skýrsla sveitarstjóra.

Djúpavogi 8. apr. 2009;

Sveitarstjóri

13.04.2009

Ferðafélag Djúpavogs - Svínárbali

Sunnudaginn 5. apríl sl. gekk Ferðafélag Djúpavog leiðina Krossanes - Svínárbali í stórkostlegu veðri og landslagi.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Sunnudaginn 12. apríl (Páskadag) mun Ferðafélagið ganga um Melrakkaneshellana. Mæting Við Voginn kl. 13:00

10.04.2009

Ferðafélag Djúpavogs - Krossanes

Sunnudaginn 29. mars sl. gekk Ferðafélag Djúpavog leiðina Þakeyri - Krossanes.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Sunnudaginn 12. apríl (Páskadag) mun Ferðafélagið ganga um Melrakkaneshellana. Mæting Við Voginn kl. 13:00

10.04.2009

PubQuiz í Löngubúð

PubQuiz verður í Löngubúð laugardagskvöldið 11. Apríl kl 21:00

Leikurinn gengur út á það að fjölbreyttar, misþungar og skemmtilegar spurningar eru lesnar upp og fólki (frá einum og upp í fjóra saman í liði) gefið færi á að svara þeim skriflega.

Þegar spurningarnahlutanum er lokið eru svo svörin lesin upp, stigin tekin saman og sigurvegarinn/arnir að sjálfsögðu leystir út með gjöfum í lok kvöldsins.

Aðgangur ókeypis.

Langabúð

09.04.2009

Nýr bátur á Djúpavogi

Nú í morgun skreið að landi nýr bátur á Djúpavogi. Báturinn heitir Sæljós GK 185, keyptur frá Grindavík og eru nýir eigendur Ósnes og Eyfreyjunes á Djúpavogi. Hyggjast nýir eigendur gera bátinn út til fjölveiða og eru þeir m.a. búnir að sækja um leyfi til hrefnuveiða.

Báturinn, sem er stálbátur, var smíðaður á Seyðisfirði árið 1968, er 64.7 brúttótonn, 21 metri að lengd og 4.8 metrar á breidd.

Bar báturinn áður nöfnin Sæmundur GK, Sæmundur SF, Helguvík ÁR, Fossborg ÁR, Arnþór EA og Valur NK.

Báturinn var endurbyggður árið 1998, m.a. lengdur og tekinn í allsherjar yfirhalningu.

Bátnum var siglt af stað um kl. 23:00 á mánudagskvöldið 6. apríl og er því ferðalagið búið að taka rúma 30 tíma. Um borð á leiðinni austur voru bræðurnir Hreinn og Birgir Guðmundssynir, Hringur Arason og Jón Karlsson, skipstjóri.

Nýir eigendur munu á næstunni taka bátinn í gegn og gera hann sem glæsilegastan og vonast til að geta byrjað að róa á honum með sumrinu.

Vonandi sannast hér hið fornkveðna að þeir munu fiska sem róa.

Heimasíðan óskar nýjum eigendum til hamingju með hið nýja skip og þeir eiga von á Hnallþórum, þegar þeir eru búnir að sýna fram á hversu fisknir þeir eru og tekjurnar fara að streyma í hafnarsjóð.

Myndir af komu nýja bátsins má sjá með því að smella hér.

Texti: ÓB/BHG
Myndir: ÓB

08.04.2009

Vor í lofti

Líkt og fuglarnir eru ferðamenn farnir að leggja leið sína til Djúpavogs enda vorið á næsta leiti. Þó nokkuð af ferðamönnum hafa verið hér það sem af er ári og eru ferðaþjónustuaðilar almennt bjartsýnir á að framundan sé gott ferðamannasumar.

Eins og áður, vekur fjölbreytt fuglalíf á svæðinu athygli ferðamanna og nú á dögunum sáust ferðamenn í fuglaskoðunarhúsinu út við ytri Selabryggjur. Á fuglavefnum okkar, www.birds.is má sjá fréttir og myndir af fjölmörgum fuglategundum sem streymt hafa inn á svæðið síðustu vikur. Þar er m.a. skemmtileg mynd af svörtum svani sem nýlega sást við Hvalnesbæinn.

BR

 

08.04.2009

Íþróttamiðstöðin - Opnunartími um páska 2009

Opnunartími um Páska 2009:   

Skírdagur 9. apríl. Lokað

Föstudagurinn langi 10.apríl. Lokað

Laugardagurinn 11.apríl. 11:00 – 15:00

Sunnudagur 12.apríl. Lokað

Mánud. Annar í páskum 11:00 – 16:00
                       
Gleðilega páska
Starfsfólk ÍÞMD

07.04.2009

Mömmur og pabbar í Djúpavogshreppi

Á miðvikudagsmorgnum milli kl. 9:00-12:00 stendur Höfn (Zion) opið fyrir mömmur og / eða pabba með litlu krílin sín. 

Fyrsti morguninn verður þann 8. apríl nk.

Kristján Ingimarsson í Samfélaginu í nærmynd

Kristján Ingimarsson er staddur í Reykjavíkurhreppi til að halda fyrirlestur á vegum Fuglaverndunarfélagsins um verkefnið Birds.is sem á dögunum hlaut "Frumkvöðulinn", verðlaun Markaðsstofu Austurlands fyrir að hafa aukið fjölbreytni í ferðaþjónustu á Austurlandi.Hann mun segja frá hvernig það kom til að farið var að leggja áherslu á fuglaskoðun á Djúpavogi og nágrenni, hvað hefur verið gert á vegum birds.is og hvað er framundan í
verkefninu. Kristján mun einnig kynna þau svæði sem henta best til fuglaskoðunar þar um slóðir en Álftafjörður og Hamarsfjörður í næsta nágrenni eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði vegna þúsunda jaðrakana og hundruða álfta sem hafa þar viðkomu .

Fyrirlesturinn verður haldinn þriðjudaginn 7. apríl og hefst kl. 20:30 á nýjum stað fræðslufunda Fuglaverndar, í húsi Kaupþings við Borgartún 19 (jarðhæð) gengið inn um aðalinngang. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en kostar annars 200 kr.

Kristján var í viðtali í þættinum Samfélagið í nærmynd í morgun vegna þessa og er hægt að hlusta á viðtalið með því að smella hér. Viðtalið byrjar á mínútu 15 í þættinum, en hægt er að "spóla" þangað með þeirri óskaplegu tækni sem veraldarvefurinn býr yfir.

ÓB

Mikið að gera í skólanum

Mikið hefur verið um að vera í skólanum síðustu viku.  Sl. föstudag fóru nemendur 1.-4. bekkjar, ásamt Unni og Þórunnborgu upp í Vísi í tengslum við grenndarnámið.  Þar fengu þeir að sjá hvernig saltfiskur er unninn og hittu mörg barnanna ýmist foreldra eða afa.
Snjórinn kom og þá þurfti að moka og renna sér.  Strákarnir í 5. og 6. bekk voru sérstaklega duglegir að hreinsa snjóinn frá skólanum og eiga hrós skilið fyrir það.
Ragnhildur Sigurðardóttir, sem er í Mastersnámi, frá Háskóla Íslands kom í örstutta æfingakennslu, þar sem hún fékk nemendur 7. og 8. bekkjar lánaða í nýsköpun.  Í gær kynntu nemendurnir afrakstur vinnunnar og mátti þar kenna ýmissa grasa, fundinn var upp segulbolli, vatnskallari, spilastokkari o.m.fl. 
Kristján Ingimarsson, frá Granda, kom færandi hendi með alls konar furðudýr sem þeir Grandamenn fengu í netin hjá sér í fyrradag.  Þar mátti m.a. finna pínulitla grásleppu, sprettfisk, burstaorma og sæbjúga.  Nemendur skólans fengu að skoða þessi furðudýr og höfðu gaman af.
Þá unnu nemendur 3. og 4. bekkjar falleg verkefni í kristinfræði í tilefni páskanna.  Þeir unnu klippimyndir sem sýna m.a. föstudaginn langa og páskadag.
Myndir af öllum þessu skemmtilegu viðburðum eru hér.  HDH

Idolið í kvöld!!!

Jæja góðir Djúpavogsbúar, nær og fjær.
Í kvöld heldur Idol keppnin áfram.  Hún Hrafna Hanna keppir að sjálfsögðu og í kvöld eru  8 keppendur sem stíga á svið í Smáralindinni og að þessu sinni flytja þeir nokkur af skemmtilegustu og vinsælustu lögum úr heimi kvikmyndanna. Lagið sem Hrafn Hanna flytur er lagið Sound of Silence og til að kjósa hana hringið þið í númerið:  900 9007. 
Allir Austfirðingar eru hvattir til að styðja við bakið á henni.  Áfram Hrafna Hanna Elísa!!!   HDH

03.04.2009

Bakarí á Djúpavogi

Í dag var tekið í notkun bakarí í húsnæði Samkaup-Strax á Djúpavogi. Fréttin barst reyndar út eins og eldur í sinu í gær, 1. apríl, en flestir héldu að um gabb væri að ræða, þangað til búðargestir sáu heljarstóran ofn, sem afgreiðslufólkið sagði mönnum að tekinn yrði í notkun daginn eftir. Þegar fréttaritara heimasíðunnar bar að garði fyrir hádegið í dag, var verið að taka ilmandi brauð út úr bakaraofninum, sem Bjarni Helgason bakari frá Myllunni hafði skellt deigi í af ýmsum tegundum fyrr um morguninn. Það var heimamaðurinn Kristján Karlsson, alþekktur sælkeri og áhugamaður um allt, er að kjafti kemur, sem beið spenntur eftir fyrstu afurðunum. Brátt dreif að fleiri, sem komast vildu í ilmandir afurðir bakarans.

Heimasíðan óskar okkur öllum til hamingju með þessa ánægjulegu nýjung.

Þess má geta að Bjarni bakari er Austfirðingur, ættaður af Jökuldal og í samtali við hann rifjaðist upp að hann hefði m.a. verið trommari og aðalsöngvari í þeirri ágætu hljómsveit, Völundi, sem gerði garðinn frægan upp úr 1970.

Var því leitað í smiðju félaga hans, Stefáns Bragasonar, sem spilaði á hljómborð í Völundi um aðstoð við að lýsa kostum bakarans (og einum af ókostum sveitarstjórans).  Myndir eru hér.

Djúpavogs- mun -hreppnum ekki hraka,
heimamenn nú fitna á því landsvæði.
En kenna þarf ei Birni H. að baka
Bjarni, einnig  þekktur fyrir vandræði.

                                                         SSB / BHG

 BHG

02.04.2009

Tilkynning frá bókasafninu

Vinsamlegast athugið að bókasafnið verður lokað þriðjudaginn 7. apríl nk.  Næst verður opið þriðjudaginn 14. apríl.  Bókavörður

Spurningakeppni Neista 2009 - úrslitakvöld

Í gær fór fram úrslitakvöld spurningakeppni Ungmennafélagsins Neista 2009, sem haldin var á Hótel Framtíð. Fjögur lið voru í úrslitum:

Grunnskólinn (kennarar)
Fiskmarkaður Djúpavogs
HB Grandi
Eyfreyjunes


Spurningahöfundar ákváðu að "skreyta" umferðirnar dálítið, m.a. annars með tóndæmum, að láta liðin leika o.fl. Óhætt að segja að þessa viðbætur hafi mælst vel fyrir og eins kom berlega í ljós að stórleikarar leyndust í hverju liði því leiksigrar voru unnir hvað eftir annað í, þar sem einn úr hverju liði átti að leika 15 orð á þremur mínútum. Þó tókst leikurunum ekki að sýna fram á hvernig á að leika skjaldböku, þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir, en við látum það nú liggja á milli hluta.

Í fyrstu umferð kvöldsins mættust kennarar Grunnskólans og Fiskmarkaðurinn í hnífjöfnum og æsispennandi leik, framan af allavega, en kennarar höfðu loks sigur 27-23.

Í annarri umferð mætust HB Grandi og ríkjandi meistarar Eyfreyjuness sem þurftu að sætta sig við ósigur gegn Grandamönnum, sem unnu nokkuð örugglega 35 - 25

Bæði fyrir og eftir hlé var boðið upp á tónlistaratriði, þar sem Tónskólastjóri Djúpavogs, hinn ungverski József Gabrieli-Kiss fór sannarlega á kostum, enda óperusöngvari á heimsmælikvarða þar á ferð.

Í lokaumferð kvöldsins mættust síðan kennarar Grunnskólans og HB Grandi þar sem skorið var úr um hver stæði uppi sem sigurvegari spurningakeppninnar. Það var ljóst frá upphafi að Grandamenn ætluðu sér sigurinn, enda höfðu þeir innanborðs Kristján nokkurn Ingimarsson sem áður hefur sannað sig sem fjölfróðan mann, en hann býr bæði yfir hagnýtum og ekki síður einskis nýtum fróðleik sem, þegar upp var staðið, landaði Grandamönnum sigurinn nokkuð örugglega, en viðureignin endaði 33 - 23.

HB Grandi er því sigurvegari spurningakepnni Neista 2009 og við hér á heimasíðunni óskum þeim til hamingju með árangurinn.

Um 80 manns mættu í gær og virtust gestir almennt mjög ánægðir með þetta framtak Ungmennafélagsins og þó nokkuð margir áhorfendur mættu á öll kvöldin fjögur.

Myndir frá kvöldinu má sjá með því að smella hér.

ÓB

01.04.2009