Fréttir
Flugeldasalan í fullum gangi
Í húsi SVD Báru er flugeldasalan í fullum gangi. Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér flugelda fyrir kvöldið en sölu verður hætt kl. 14:00. Undirritaður leit við í slysavarnahúsinu í morgun.
ÓB
Spenntir flugeldakaupendur
Þó þeir séu í felum á þessari mynd er Kiddi sölumaður fram í fingurgóma
Billi og Bjössi
Elva og Kristborg voru ekkert sérlega ánægðar með myndatökumanninn
En til allrar guðs lukku er alltaf hægt að finna einhverja sem vilja ólmir láta taka af sér myndir. Bjössi Heiðdal er einn þeirra.
Jólabærinn Djúpivogur
Andrés Skúlason tók lítinn jólarúnt og úr varð frábært sýnishorn um hversu bæjarbúar hafa verið duglegir við að skreyta hús sína og garða.
Hægt er að skoða myndandið hér fyrir neðan.
ÓB
Áramótabrennan
Áramótabrennan verður haldin á Hermannastekkum á gamlárskvöld, kl. 20:30.
Golfklúbbur Djúpavogs og Djúpavogshreppur
Jólamyndir frá Andrési
Nú rétt í þessu voru að berast myndir frá Andrési Skúlasyni sem hann er búinn að vera að taka yfir jólin, m.a. af jólasveinum á aðfangadag.
Myndirnar er hægt að skoða með því að smella hér.
ÓB
Jólamyndir frá Önnu Sigrúnu
Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir, skrifstofustjóri Djúpavogshrepps, fór á stúfana með myndavél hreppsins í dag og myndaði byggðina okkur í bak og fyrir með prýðilegum árangri.
Myndirnar er hægt að skoða með því að smella hér.
ÓB
Í leikskólanum
Leikskólinn Bjarkatún var opinn milli jóla og nýárs og voru nokkur börn sem nýttu sér opnunina þó svo að meirihluti barnanna hafi verið í jólafríi. Þó svo að börnin hafi ekki verið mörg var tíminn nýttur vel. Starfsmenn gátu sinnt ýmsum verkefnum sem hafa setið á hakanum í vetur, búnar voru til áramótagrímur og leikið sér í snjónum.
Starfsfólk og börn Bjarkatúns óska ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum kærlega fyrir það liðna. Megi árið 2010 verða okkur öllum gott.
Fleiri myndir er hægt að sjá hér
ÞS
Föstudagsgátan
Við viljum bara minna á þessa gátu sem nú er í gangi:
Föstudagsgátan að þessu sinni er stór og mikil, en hana fengum við senda alla leið frá Noregi, n.t.t. frá Ingþóri Sigurðarsyni. Ekki fylgdi sendingunni hver væri höfundurinn. Þetta er semsagt nafnagáta og kemur eitt karlmannsnafn fyrir í hverri línu. Ætli sé ekki best að gefa lesendum jólahátíðina til að ráða gátuna og því setjum við frestinn á föstudaginn 8. janúar 2010. Svör sendist á netfangið djupivogur@djupivogur.is.
Einn í dufti ávallt skríður
annar skort á mörgu líður
oft hinn þriðja eykir draga
auga úr kind vill fjórði naga
Er sá fimmti aðkomandi
ætli ég sjötti i veggjum standi
sjöundi gamall alltaf er
áttunda a hverri nál þú sérð
Níundi múgur nefnist manns
nafn ber tíundi skaparans
ellefti verður aldrei beinn
á þeim tólfta er saur ei neinn
Sá þrettándi byrjar viku hverja
dauðinn mun ei a þann fjórtanda herja
sá fimmtándi hirðir mest um slátt
með þeim sextánda næ ég andanum brátt
ÓB
Umsóknarfrestur vegna styrkja til úrbóta á ferðamannastöðum
Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2010. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni tengd sjálfbærri ferðaþjónustu fyrir alla sem hafa heildrænt skipulag og langtímamarkmið að leiðarljósi.
Íslensk náttúra er eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest í anda sjálfbærni. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar íslenskrar náttúru.
Styrkir skiptast í tvo meginflokka
1. STYRKIR TIL SMÆRRI VERKEFNA ER VARÐA ÚRBÆTUR Á FERÐAMANNASTÖÐUM:
Veittir verða styrkir til smærri verkefna til úrbóta í umhverfismálum. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur og er hann ætlaður fyrir efniskostnaði. Ekki er veittur styrkur vegna vinnuframlags. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum lýkur.
Umsókn skal innihalda:
a) Kostnaðar- og framkvæmdaáætlun
b) Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisins
c) Teikningar af mannvirkjum, þar sem það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúa
d) Skriflegt samþykki allra landeigenda og húsráðenda
Ekki kemur til greiðslu styrks fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.
2. STYRKIR TIL UPPBYGGINGAR Á FJÖLSÓTTUM FERÐAMANNASTÖÐUM OG NÝJUM SVÆÐUM:
Veittir verða styrkir til úrbóta í umhverfismálum og uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Styrkupphæð getur að hámarki orðið 50% af kostnaðaráætlun. Verkefni þar sem skipulag, fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi liggur fyrir njóta áfram forgangs en nú verður einnig hægt að sækja um styrki fyrir skipulags- eða hönnunarvinnu ásamt undirbúningsrannsóknum. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem hafa sjálfbærni og langtímamarkmið í umhverfismálum að leiðarljósi. Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir skipulag og hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
Umsókn skal innihalda:
a. Kostnaðar- og framkvæmdaáætlun
b. Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisins
c. Teikningar af mannvirkjum, þegar það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúa
d. Skriflegt samþykki allra landeigenda og húsráðenda
Vakin er athygli á að styrkþegi stjórnar framkvæmdum sjálfur og er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkjum er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum líkur. Ekki kemur til greiðslu styrks fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.
Hverjir geta sótt um:
Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi á svæði, og mikilvægi aðgerðanna út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum.
Umsóknarfrestur:
Umsóknarfrestur er til og með 8. janúar 2010. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.
Meðfylgjandi gögn:
Með öllum umsóknum skal skila inn gögnum er sýna fram á mikilvægi framkvæmdarinnar sem og skriflegt samþykki hlutaðeigandi aðila s.s. landeigenda, sveitarfélags, og umhverfisyfirvalda ef með þarf.
Hvar ber að sækja um:
Umsóknir berist með rafrænum hætti á meðfylgjandi umsóknareyðublaði (sjá hér www.ferdamalastofa.is). Umsóknareyðublöð má einnig fá á skrifstofu stofnunarinnar að Strandgötu 29, 600 Akureyri.
* Umsókn um styrk til úrbóta á ferðamannastöðum 2010.
Þeir sem vilja eiga útprent af umsókn sinni geta fyllt út meðfylgjandi Excel-eyðublað. Athugið að eftir sem áður er nauðsynlegt að fylla út rafrænu umsóknina hér að ofan.
Excel-eyðubað til útprentunar
Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5510 eða á sveinn@icetourist.is
Afsláttur af fasteignaskatti 2010
Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá Djúpavogshreppi 2010.
1. gr.
Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Djúpavogshreppi er veittur afsláttur af fasteignaskatti af samþykktu íbúðarhúsnæði, samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
2. gr.
Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur í Djúpavogshreppi (sjá efr. 1. gr.) , sem sækja um afsláttinn á þar til gerðu eyðublaði, búa í eigin íbúð og ............
a. eru 67 ára eða eldri við upphaf álagningarárs,
b. hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar fyrir upphaf álagningarárs,
c. hafa ekki leigutekjur af viðkomandi húsnæði,
d. hafa ekki fullvinnandi einstakling / einstaklinga, aðra en maka búsetta á heimilinu,
e. skilað hafa inn með umsókninni staðfestu afriti af skattframtali síðast liðins árs, ásamt yfirliti yfir fjármagnstekjur sama árs.
3. gr.
Hjón og samskattað sambýlisfólk fær fullan afslátt þó einungis annar aðilinn uppfylli skilyrði 2. gr. Ef um fleiri en einn íbúðareiganda er að ræða að eign, sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., er veittur afsláttur til þeirra sem uppfylla skilyrði 2. gr., í samræmi við eignarhluta þeirra.
4. gr.
Afsláttur af fasteignaskatti er tekjutengdur og er allt að kr. 28.000.-
Afsláttur er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna, þ.m.t. eignatekna og 50% fjár-magnstekna síðast liðins árs, samkvæmt skattframtali. Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks (tekjur í reitum 2.7 og 3.10 á skattframtali).
5. gr.
Tekjumörk eru sem hér segir:
Einstaklingar
Fullur afsláttur skv. 4. gr. með tekjur allt að kr. 1.975.000
Enginn afsláttur með tekjur yfir kr. 2.530.000
Hjón og samskattað sambýlisfólk
Fullur afsláttur skv. 4. gr. með tekjur allt að kr. 2.897.000
Enginn afsláttur með tekjur yfir kr. 3.563.000
Ef tekjur eru á framangreindu bili er veittur hlutfallslegur afsláttur.
6. gr.
Sækja skal um afslátt af fasteignaskatti á eyðublöðum frá Djúpavogshreppi. Hægt að sækja umsóknareyðublað á heimasíðuna www.djupivogur.is Með umsókn skal skila afriti af skattframtali, staðfestu af skattstjóra, vegna síðast liðins árs og afriti af örorkuskírteini ef ums. er 75% öryrki.
7. gr.
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps endurskoðar reglurnar tímanlega fyrir álagningu hvers árs.
Samþykkt í sveitarstjórn Djúpavogshrepps 22. des. 2009;
Vetrarfuglatalning - hvinendur í Hamarsfirði
Í dag var vetrarfuglatalning sem Náttúrufræðistofnun stendur árlega fyrir á þessum tíma árs, en þá fara menn út af örkinni og telja fugla á ákveðnum afmörkuðum svæðum. Undirritaður fór að þessu tilefni í dag á svæðið frá Hamarsá að Búlandshöfn í Hamarsfirði og taldi þar ásamt Kristjáni Ingimarssyni og föður hans Ingimar Sveinssyni en Ingimar hefur séð um að telja á þessu svæði í áratugi. Hér eftir mun undirritaður og Kristján hinsvegar sjá um að telja á þessu svæði og vænti ég að Ingimar verði með okkur áfram í för við talningar. Mest voru þetta hefðbundnir fuglar sem voru á sveimi í dag en hið gleðilega var hinsvegar undantekning er við sáum tvo hvinandarsteggi og þrjár kollur á sjónum undan Rauðuskriðu. Að öðru leyti voru þetta mest æðarfugl, hávellur, stokkendur, skarfar. Svo sáum við stakan stelk, slatta af sendlingum og nokkuð stóra hópa af tjaldi en þeir hafast við hér á vetrin inn í Hamarsfirði. Stokkendur voru líka í töluverðum mæli og aðrir algengari fuglar. Sem sagt hinn besti dagur og veðrið slapp vel til, en þó var smá éljagangur um það leyti er við byrjuðum að telja.
Afrakstur dagsins munum við svo senda Náttúrufræðistofnun hið fyrsta. Andrés Skúlason
Þarna eru hvinendurnar, tveir steggir og þrjá kollur - Ingimar Sveinsson og Andrés Skúlason
Kristján Ingimarsson kíkir yfir Hamarsfjörðinn
Hér gefur á að líta marga dílaskarfa á skeri í dag og þegar betur er að gáð eru þarna líka mjög margir tjaldar
auk annarra fuglategunda.
Andrés schopar fjörurnar í Hamarfirðinum
Feðgarnir Ingimar Sveinsson og Sveinn Kristján Ingimarsson horfa eftir fuglum
Andrés Skúlason með sjónaukann á lofti
Ingimar hefur stundað vetrarfuglatalningu um áratuga skeið inn með Hamarsfirði.
JólaPubQuiz í kvöld í Löngubúð
JólaPubQuiz Löngubúðar að kvöldi annars dags jóla.
Spurningaflóðið hefst kl 21:00
Enginn aðgangseyrir
Sjáumst!
Nýjar gjaldskrár
Gjaldskrá Djúpavogshrepps fyrir árið 2010 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Djúpavogshrepps í gær, 22. desember 2009. Jafnframt var gjaldskrá Djúpavogshafnar fyrir árið 2010 samþykkt á fundi hafnarnefndar þann 21. desember.
Gjaldskrárnar er hægt að kynna sér með því að smella hér.
Sveitarstjórn - Fundargerð 22.12.2009
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
V.Í.S. gefur umferðaröryggisvesti
Leikskólanum barst góð gjöf frá VÍS fyrir stuttu þegar Guðný Helga færði okkur 10 umferðaröryggisvesti frá VÍS. Þessi vesti eru nauðsynleg í gönguferðir með börnin. Við þökkum VÍS kærlega fyrir.
Frá bókasafninu
Bókasafnið verður opið í dag (þriðjudag) frá 17:00 - 19:00. Sannkölluð jólastemmning, kaffi og piparkökur í boði.
Á milli jóla og nýárs verður opið þriðjudaginn 29. frá 17:00 - 19:00. Það er síðasti opnunardagur á þessu ári.
Á nýju ári verður síðan hefðbundin opnunartími, fyrsta opnun þriðjudaginn 5. janúar.
Gleðilega hátíð;
Bókasafnsvörður
Þorláksmessa í Löngubúð
Líkt og undanfarin ár verða dyr Löngubúðar opnar gestum og gangandi á Þorláksmessu, frá 16:00 til 23:30.
Það verður að sjálfsögðu heitt á könnunni, rjúkandi heitt kakó með rjóma og ýmislegt góðgæti til að gæða sér á, séu einhverjir ekki búnir að lauma fingrunum ofan í smákökudallana heima við.
Um kvöldið (kl 22:00) mæta svo Íris og Ýmir og leika fyrir okkur nokkra hugljúfa tóna til að hringja inn jólaskapið, innan um jólaglögg og kertaljós.
Tilvalið að setjast örlítið niður svona korter fyrir jól, sýna sig og sjá aðra og eiga notalega stund saman.
Með ósk um gleðileg jól,
Hlökkum til að sjá ykkur!
Starfsfólk Löngubúðar
BR
Umboðsmaður sveinka
Foreldrar athugið
Umboðsmaður sveinka verður í Zion frá kl. 17-18 á Þorláksmessu og tekur á móti pökkum sem dreift verður á aðfangadag. 500 kr á hús.
UMF Neisti
Sveitarstjórn - Fundarboð 22.12.2009
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 22. 12. 2009
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjud. 22. des. 2009 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.
Dagskrá:
1. Fjárhagsáætlun 2010; fjárhagsleg málefni, málefni stofnana o. fl.
a) Mál, sem frestað var á fundi 15. des. 2009:
I. Bændur græða landið.
II. Erindi Eðvalds Smára og Ólafs Áka Ragnarssona.
b) Gjaldskrár 2010.
c) Reglur um afslátt á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþegan árið 2010.
d) Eignabreytingar og framkvæmdir 2010.
e) Viðhaldsáætlun Eignasjóðs og stofnana.
f) Erindi um styrki o.fl. til afgreiðslu.
g) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2010. Síðari umræða.
2. Erindi og bréf
a) Jafnréttisstofa. Dags 2. desember 2009.
b) Matvælastofnun dags. 7. september 2009.
c) Bréf Þórarins Lárussonar og sr. Bjarna Guðjónssonar dags. 23. júní 2009.
d) Ildi / Sigurborg Kr. Hannesdóttir. Dags. desember 2009.
e) Vinnumálastofnun dags. desember 2009.
f) KPMG, fjárhagslegar upplýsingar vegna „tengdra aðila“. Ódagsett.
3. Dómur í búfjárhaldsmáli.
4. Skipulags- og byggingarmál
5. Fundargerðir
a) Landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps 15. desember.
b) Hafnarnefnd 21. desember. (Verður send í tölvupósti).
6. Skýrsla sveitarstjóra
Djúpavogi 20. desember 2009.
Sveitarstjóri
Jólastund í Löngubúð
Sunnudagskvöldið 20. desember kl.20:30 verður sérstök jólastund í Löngubúð þar sem nokkrir einstaklingar ætla að rifja upp sínar jólaminningar. Þar er ætlunin að eiga saman hugljúfa stund og rifja upp minningar jólanna, m.a. hvernig undirbúningur og jólahald hefur breyst í áranna rás.
Tilvalið að taka smá hvíld frá jólaundirbúningnum og eiga saman góða stund í Löngubúðinni.
Allir velkomnir
Jól á Djúpavogi
Vinsamlegast athugið að hér er sífellt verið að bæta við viðburðum eða tilboðum og því gott að fylgjast reglulega með.
Hér hefur verið safnað saman ýmsum viðburðum og tilboðum sem eru í gangi í desember. Þeir sem hafa áhuga á að auglýsa hér á síðunni eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á netfangið bryndis@djupivogur eða hringja í síma 478 8228.
Við Voginn
23. desember - Skötuhlaðborð
Hótel Framtíð
23.desember - Pizzatilboð frá kl.16:00-19:00
30.desember - Pizzatilboð frá kl.18:00-20:00
31. desember – Áramótagleði á Hótel Framtíð. Forsala 28.,29. og 30.des.
Langabúð
23. desember – Opið frá kl. 16:00-23:30, ljúfur lifandi söngur
26. desember - Jólapubquiz
Klörubúð
Opnunartími fyrir jólin
21.desember frá kl. 13:00-18:00
22. desember frá kl.13:00-18:00
23. desember frá kl. 11:00-23:00
24.desember frá kl. 10:00-12:00
30%afsláttur af ýmsum jólavörum ásamt ýmsum öðrum tilboðum.
Gleðileg jól
Djúpavogskirkja
24.desember - aftansöngur á aðfangadagskvöld kl. 18.00 í Djúpavogskirkju
26. desember - hátíðarguðsþjónusta í Berufjarðarkirkju kl. 14.00 á
27. desember - hátíðarguðsþjónusta í Hofskirkju kl. 14.00
31. desember
Áramótabrenna og flugeldasýning á Djúpavogi
Ferða – og menningarmálafulltrúi Dpv.
Litla jólaball leikskólans
Litla jólaball leikskólans var miðvikudaginn 16. desember. Byrjað var kl. 10:45 að dansa í kringum jólatréð en börnin mættu prúðbúin í leikskólann. Þegar búið var að syngja og dansa birtist rauðklæddur maður sem sagðist heita Gluggagægir í leikskólann með staf og poka fullan af pökkum. Börnin (flest) tóku fagnandi á móti honum þó sum hver urðu ansi skelkuð við manninn. Auðvitað voru teknir nokkrir hringir með jólasveininum og á meðan sum kepptust um að fá að leiða jólasveinin voru aðrir sem vildu frekar draga sig til hlés og fannst öruggast að vera í fangi fullorðna. Þegar búið var að dansa fór jólasveinninn að skima eftir pokanum sínum sem fannst nú fljótt enda vissu krakkarnir alveg hvað nú var í vændum. Jólasveinninn gaf hverju og einu barni jólagjöf sem þau fóru með heim, eftir útdeilingu jólagjafa kvaddi sveinki og hélt af stað enda fleiri jólaböll í vændum um allt Ísland. En veislunni á leikskólanum var ekki lokið því komið var að hádegismat á yngri deildinni sem er hálftíma á undan eldri deildinni. Í hádegismat var hangikjöt, kartölfur og meðlæti og í eftirrétt var jólaís og blandaðir ávextir. Börnin létu vel af matnum og hlakka til að bragða á jólamatunum heima fyrir þegar jólin ganga í garð. Sjá myndir hér.
ÞS
Föstudagsgátan - svar og ný gáta
Fyrir nokkru birtum við vísu eftir Ingimar Sveinsson. Lausnarorðið kom fyrir í tveimur línum í vísunni.
Þar sem allir fiskinn fá
fleygði ég litlu blaði.
Ég var ekkert í að spá
hvort af því hlytist skaði.
IS
Okkur barst einungis eitt svar, en það var frá Aðalsteini Aðalsteinssyni. Hann vildi meina að lausnarorðið væri "mið" og var það samþykkt af höfundi.
Við þökkum Ingimar fyrir vísuna og Aðalsteini fyrir svarið. Ný gáta er hér fyrir neðan.
Föstudagsgátan að þessu sinni er stór og mikil, en hana fengum við senda alla leið frá Noregi, n.t.t. frá Ingþóri Sigurðarsyni. Ekki fylgdi sendingunni hver væri höfundurinn. Þetta er semsagt nafnagáta og kemur eitt karlmannsnafn fyrir í hverri línu. Ætli sé ekki best að gefa lesendum jólahátíðina til að ráða gátuna og því setjum við frestinn á föstudaginn 8. janúar 2010. Svör sendist á netfangið djupivogur@djupivogur.is.
Einn í dufti ávallt skríður
annar skort á mörgu líður
oft hinn þriðja eykir draga
auga úr kind vill fjórði naga
Er sá fimmti aðkomandi
ætli ég sjötti i veggjum standi
sjöundi gamall alltaf er
áttunda a hverri nál þú sérð
Níundi múgur nefnist manns
nafn ber tíundi skaparans
ellefti verður aldrei beinn
á þeim tólfta er saur ei neinn
Sá þrettándi byrjar viku hverja
dauðinn mun ei a þann fjórtanda herja
sá fimmtándi hirðir mest um slátt
með þeim sextánda næ ég andanum brátt
ÓB
Jólaball Grunnskólans og Hótel Framtíðar
Sameiginlegt jólaball Grunnskóla Djúpavogs og Hótel Framtíðar fór fram nú í morgun. Undirritaður brá sér niður á hótel og skaut af nokkrum myndum þar sem dansinn í kringum jólatréð dunaði undir framúrskarandi undirleik Józsefs, tónskólanemendanna Auðar og André og forsöngvarans Berglindar. Stuttu seinna reimaði Bryndís á sig dansskóna og tók fleiri myndir.
Myndir má sjá með því að smella hér.
Texti: ÓB
Myndir: ÓB/BR
Sveitarstjórn - Fundargerð 15.12.2009
Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.
ÓB
Tónleikar á Hótel Framtíð um helgina
Tónleikafélagið Ægir (áður Tónleikafélag Djúpavogs) heldur tónleika á Hótel Framtíð laugardaginn 19. des nk. kl. 21:00.
Þemað í ár verður "Gott íslenskt" - nánar tiltekið tónlistarperlur úr íslenskri tónlistarsögu, allt frá Villa Vill til Mugison.
Auglýsingu er hægt að sjá með því að smella hér.
ÓB