Djúpivogur
A A

Útgerð

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hefur fólk við Berufjörð vafalaust dregið fisk úr sjó á sama hátt og lýst er í Íslendingasögum, og lifað af því sem land og sjór gaf. Frá miðöldum íslenskrar byggðar eru til sagnir um erlenda fiskimenn við Berufjörð, danska, hollenska og e.t.v. frá fleiri þjóðum.

Á síðari hluta 19. aldar var blómleg útgerð frá Djúpavogi. Þaðan sigldu til veiða all stór þilskip (skútur) og veiddu hákarl, þorsk o.fl.

Laust fyrir aldamót 1900 lagðist þessi útgerð niður og um skeið voru fiskiveiðar mest stundaðar á árabátum á grunnmiðum.

Árið 1905 er talið að fyrsti vélbáturinn hafi komið til Djúpavogs og næstu árin komu svo fleiri litlir vélbátar, mest svokallaðar trillur.

Á árunum 1920-30 voru bátar frá Seyðisfirði, Norðfirði og Eskifirði gerðir út frá Djúpavogi.

Upp úr 1940 eru keyptir stærri bátar til Djúpavogs, m.a. Papey o.fl. og um 1950 er keyptur 100 tonna bátur, Víðir frá Akranesi, síðar nefndur Mánatindur. Með komu hans var fiskur sóttur lengra og landað með nokkrra daga millibili, (útilegubátur).

Um og upp úr 1960 bætast fleiri stór og góð skip við flotann og voru þá stundaðar togveiðar, netaveiðar og síldaveiðar með hringnót.

Á árunum 1970-80 var talsverð rækjuveiði í Berufirði. Handfæra- línu- og netaveiðar stundaðar á minni bátum í áratugi og síðustu árin mest á hraðskreiðum vélbátum (hraðfiskibátum).

Árið 1946 var Búlandstindur hf. stofnaður af frumkvæði Kaupfélags Berufjarðar og annarra heimamanna og hóf byggingu frystihúss á Djúpavogi. Tók það til starfa um árin 1947-1948. Um sama leyti komu til staðarins fullkomnari bátar, eins og Mánatindur, sem þá var stærsti bátur á Austfjörðum.

Næstu áratugi á eftir rak Búlandstindur hf. margþætti starfsemi á Djúpavogi, svo sem fiskvinnslu, bræðslu og fiskimjölsverksmiðju, auk fiskvinnslu á Breiðdalsvík. Nýtt frystihús var byggt upp úr 1980 og fiskiskipaflotinn efldur jafnt og þétt og náði hámarki á 10. áratugnum þegar fyrirtækið gerði m.a. út Sunnutind SU og aflamarksskipið Mánatind SU.

Í desember 1998 keypti Vísir hf. í Grindavík meirihluta í Búlandstindi hf. og urðu þá verulegar breytingar á starfsemi Búlandstinds, svo sem með sölu fiskvinnsluaðstöðunnar á Breiðdalsvík til heimamanna, sölu skipanna og kaupum á öðrum skipum í staðinn. Þá var fiskimjölsverksmiðjan seld Gautavík hf., sem var í meirhlutaeigu Festis hf. í Grindavík. Árið 2004 hætti Gautavík hf. starfsemi á Djúpavogi og dróst löndun á uppsjávarafla gríðarlega saman í kjölfarið.

Djúpavogshreppur ásamt öðrum fjárfestum keypti fiskimjölsverksmiðjuna af þrotabúi Gautavíkur og hélt uppi vinnslu þar tímabundið á árinu 2005 en síðan þá hefur verksmiðjan ekki verið starfrækt. Árið 2004 yfirtók Búlandstindur hf. Fiskvinnsluna Fjölni hf. á Þingeyri, Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf. og Útgerðarfélagið Garðey ehf.

Sögu Búlandstinds hf. lauk árið 2005 þegar öll félög Vísis hf. voru sameinuð undir einu nafni. Starfsemi Vísis hf. á Djúpavogi er nú fyrst og fremst framleiðsla á saltfiskflökum og hefðbundinn SPIG-fiskur.

Smábátaútgerð fór að eflast í byrjun síðustu síðustu aldar og óx hröðum skrefum fram eftir öldinni. Ástæða öflugrar smábátaútgerð frá Djúpavogi var fyrst og fremst gjöful fiskimið á nálægum slóðum, auk skjólgóðrar og öruggrar hafnar. Smábátaútgerðin náði hámarki á upphafsárum 10. áratugarins þegar kvóti var settur á alla báta, sem voru um og yfir 30 talsins. Flestir gerðu út á handfæri og línu, auk þess sem nokkrir smærri bátar notuðu þorskanet tímabundið meðan á vertíð stóð.

Þá hafa smærri snurðvoðarbátar gert töluvert út frá Djúpavogi í gegnum tíðina, bæði aðkomnir bátar og heimabátar.

Smábátum á Djúpavogi fór ört fækkandi í lok aldarinnar og á árunum 2000-2006 varð svo nánast hrun í hinni hefðbundnu einyrkja smábátaútgerð.

Trillur hafa vikið fyrir um 15 tonna plastbátum með tveggja til fjögurra manna áhöfn. Gera bátarnir ýmist út með handbeittar línur eða nota beitningarvélar sem eru um borð. Af þeim sökum hafa handfæraveiðar dregist stórlega saman á síðustu árum.

Grásleppuveiðar hafa verið stundaðar í mjög litlum mæli frá Djúpavogi, þó hafa 1 til 2 bátar gert tilraunir með grásleppuútgerð í Berufirðinum á síðustu árum með fremur litlum árangri.

Markviss uppbygging laxeldis í Berufirði hófst formlega árið 2002. Árið áður var fyrirtækið Salar Islandica hef. stofnað af heimamönnum. Tilskilin leyfi fengust fyrir allt að 8.000 tonna eldi í sjókvíum í Berufirði.

Salar Islandica ehf. var stofnað árið 2001 af einstaklingum á svæðinu svo og af tveimur fjölskyldum er fluttu búferlum frá Noregi til Djúpavogs með það að markmiði að hefja fiskeldi í sjókvíum í Berufirði. Tilskilin leyfi fengust í firðinum fyrir allt að 8.000 tonna laxeldi. Markviss uppbygging laxeldis í Berufirði hófst í Berufirði hófst síðan formlega árið 2002.

Árið 2003 keytpi HB Grandi í Reykjavík 70% hluti í Salar Islandica og í kjölfar þess hófust samhliða laxeldinu, tilraunir með þorskeldi árið 2004. Ákveðið var jafnframt að færa laxeldið niður á stig tilraunaeldis og var því dregið verulega úr sleppingnum.

Slátrun á eldislaxi hófst í verkunastöð Vísis hf. á Djúpavogi árið 2005. Það ár var um 1500 tonnum slátrað. Skilyrði til laxeldis þykja góð í Berufirði og gekk eldið sem slíkt mjög vel. Á vordögum 2007 var hins vegar tekin sú ákvörðun að hætta tilraunaeldi á laxi í Berufirði og samhliða ákveðið að fækka starfsmönnum hjá Salar Islandica.

Í staðinn hyggst fyrirtækið nú einbeita sér alfarið að tilraunaeldi á þorski á næstu árum með það að markmiði að byggja upp umfangsmikið þorskeldi til framtíðar í Berufirði.

Heimildir: Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 - 2020; Ingimar Sveinsson (1989)

Var efnið hjálplegt?