Papar, (úr latínu papar: faðir), kristnir írskir einsetumenn, munu hafa siglt á skinnbátum og lagt leið sína til Íslands á 7. -8. öld. Eru þeir því sennilega fyrstu menn, sem til landsins hafa komið.
Elsta frásögn um mannavist hérlendis er komin frá írskum sagnaritara, Dicuil munki, sem í riti sínu De mensura orbis terrae (um stærð jarðar), skráðu um 825, segir, að hann hafi rætt við klerka um 795, er dvöldust á eyjunni Thule, en það nafn höfðu Írar um Ísland, eyland norður í höfum, þar sem dagar eru stuttir um vetrarsólhvörf en um sumarsólhvörf svo bjart um miðnætti að menn gátu tínt lýs úr fötum sínum. Dicuil getur ekki um það hvort þessir Írar hafi verið hinir fyrstu, sem til landsins fóru. Byggð í landinu nefnir hann ekki, en hann segir að Færeyjar hafi verið byggðar Írum frá því um 725; þangað munu þeir hafa flutt með sér sauðfé.
Ari fróði segir í Íslendingabók, að um 870, þegar landnám norrænna manna hefst, hafi verið í landinu "..menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðar á braut af því að þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn og létu eftir bækur írskar, bjöllur og bagla. Af því mátti skilja, að þeir voru menn írskir".
Í Landnámabókum er Papa getið, og að fleiri hlutir hafi fundist eftir þá "þeir, er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn". Ennfremur er þess getið, að gripir þessir hafi fundist í "Papey austur og í Papýli"
Einnig er þess getið í Landnámu, í tengslum við vetursetu Ingólfs Arnarsonar á Geithellum í Álftafirði, að um vorið hafi konur gengið upp í fjall og séð reyk úti í Papey. Þegar farið var að athuga um reykinn, voru þar papar fyrir.
Papey er því einn þeirra staða sem talið er að papar hafi búið. Í Papey má finna mörg örnefni sem benda til veru papa þar, s.s. papatættur og Írskuhólar. Engar minjar hafa þó fundist í eynni sem benda til veru papa þar, þrátt fyrir að nokkuð hafi verið leitað að ummerkjum um veru þeirra í Papey og nágrenni Djúpavogs.
Dr. Kristján Eldjárn var við rannsóknir í Papey, einkum á árunum milli 1970 og 1980, án þess að finna ummerki um veru Papa þar. Hins vegar fann hann rústir bæja í Papey sem ber öll merki norrænna manna sem þar munu hafa verið á landnámsöld.