Djúpivogur
A A

Landnám


Eskilsey og Hrómundarey

Ingólfur og Hjörleifur á Geithellum í Álftafirði

Sú sögn hefur lifað hér um slóðir, að fóstbræðurnir Ingólfur Arnarson, talinn fyrsti landnámsmaður á Íslandi, og Leifur Hróðmarsson (sem síðar nefndist Hjörleifur) hafi haft vetursetu á Geithellum í Álftafirði, sinn fyrsta vetur á Íslandi. Bústaður þeirra átti að hafa verið við hól veðst í túninu.

Landnáma segir:

„Þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virtist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs."

Þjóðrekur og Björn hávi í Berufirði

Þjóðrekur er sá landnámsmaður sem talinn er upphafsmaður byggðar við Berufjörð. Frá honum segir svo í Landnámu:

„Þjóðrekur hét maður. Hann nam fyrst Breiðdal allan, en stökk braut þaðan fyrir Brynjólfi og ofan í Berufjörð og nam alla hina nyrðri strönd Berufjarðar og fyrir sunnan Búlandsnes og inn til Rauðaskriðna öðrum megin og bjó þrjá vetur þar, er nú heitir Skáli. Síðan keypti Björn hinn hávi jarðir af honum og eru frá honum Berfirðingar komnir"

Má því ætla að Skáli sé landnámsjörð og aðsetur fyrsta bónda við Berufjörð. Talið er að Björn hávi hafi búið á Búlandsnesi áður en hann kaupir jarðir af Þjóðreki, enda er nafnið Búlandsnes gamalt og er til þegar Landnáma er skráð.

Gautavík snemma verslunarstaður

Gautavík er við Berufjörð norðanverðan og er elsti verslunarstaðurinn hér um slóðir. Bæði í Njálssögu og Fljótdælasögu segir frá skipakomum og verslun í Gautavík.

Í Njálu segir að Þangbrandur hafi komið í Gautavík, þar sem aðal höfnin við Berufjörð var. Bræður á Berunesi, Þorleifur og Ketill, bönnuðu mönnum að eiga kaup við Þangbrand og menn hans. Þá kom Síðu-Hallur á Þvottá til skjalanna og leysti vandræði Þangbrands.

Úlfur, Eskill og Hrómundur

Í þjóðsögum segir svo frá að á landnáms- eða söguöld hafi þrír bræður, Úlfur, Eskill og Hrómundur, valið sér bústað í eyjum úti fyrir Hamarsfirði og Álftafirði eystri. Eyjar þessar eru síðan við þá kenndar. Sagt er, að þeir séu heygðir hver í sinni ey, og til skamms tíma hafa menn talið sig vita, hvar haugar þeirra væru.

Eyjar þessar eru:

Úlfsey, sem liggur nyrst í eyjaklasa þeim, sem er úti fyrir Búlandstanga.
Eskilsey, sem er nyrst í eyjaklasa þeim, sem er úti fyrir Hamarsfirði og heitir einu nafni Þvottáreyjar.
Hrómundarey er nyrst á sandrifinu, sem liggur fyrir utan við Álftafjörð fyrir Starmýrarlandi.

Var efnið hjálplegt?