Djúpivogur
A A

Kristnitaka

Þangbrandsbryggja í Álftafirði


Í Njálssögu segir frá því er skip Þangbrands stýrimanns, eins og hann er nefndur, kemur inn Berufjörð og í Gautavík. Þangbrandur var sendur til Íslands af Ólafi konungi Tryggvasyni til að boða kristna trú. Bræður sem bjuggu á Berunesi og hétu Þorleifur og Ketill bönnuðu mönnum að eiga kaup við Þangbrand og menn hans. Þetta frétti Síðu-Hallur sem bjó á Þvottá í Álftafirði og bauð Þangbrandi og hans mönnum að búa á Þvottá.

Um haustið var Þangbrandur að syngja í tjaldi við Þvottá og spurði þá Hallur hann í hverja minningu hann héldi þennan dag. Þangbrandur svaraði honum að Mikael engill ætti daginn. "Hver rök fylgja engli þeim?", segir Hallur. "Mörg", segir Þangbrandur. "Hann skal meta allt það sem þú gerir bæði gott og illt og er hann svo miskunnsamur að hann metur allt það meira sem vel er gert". Hallur mælti : "Eiga vildi ég hann mér að vin". "Það munt þú mega", segir Þangbrandur, "..og gefst þú honum þá í dag með guði". "Það vil ég þá til skilja", segir Hallur, "..að þú heitir mér því fyrir hann að hann sé þá fylgiengill minn".


"Því mun ég heita þér", segir Þangbrandur. Tók Hallur þá skírn og öll hjú hans. Mun þetta vera fyrsta kristna skírnin sem framkvæmd er á Íslandi og talið er að skírt hafi verið úr ánni Þvottá í Álftafirði.

Upplýsingaskilti um kristnitökuna, staðsett í Álftafirði, Þvottá á bakgrunni

Var efnið hjálplegt?