Djúpivogur
A A

Blábjörg

Blábjörg eru hluti af flikrubergslagi, sem hefur verið kallað Berufjarðartúff. Berufjarðartúffið má rekja upp með fjöllunum til norðausturs frá Blábjörgum og er t.d. áberandi í Berunestindi. Þetta flikruberg myndaðist fyrir 9-10 milljón árum við gjóskuhlaup í miklu sprengigosi. Það er að mestu úr sambræddum líparítvikri, en basaltbergbrot finnast einnig. Vikurinn var það heitur þegar hann lagðist yfir landið að hann bráðnaði saman að hluta og varð að þéttu bergi. Löngu síðar þegar túffið hafði grafist djúpt í jarðlagastaflann ummyndaðist bergið og steindin klórít myndaðist í því, en það er hún sem gefur berginu grænleitan blæ. Enn síðar grófu jöklar ísaldar sig niður í jarðlagastaflann og opnuðu okkur sýn í berggrunninn.

Gjóskuhlaup eins og það sem myndaði Berufjarðartúffið eru hættulegastu fyrirbæri sem myndast geta í eldgosum en í þeim þeytist brennheit gjóska á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins. Í öflugum sprengigosum myndast mikil gjóska sem stígur upp í andrúmsloftið og myndar gosmökk yfir eldstöðinni. Ef gosmökkurinn reynist þyngri en andrúmsloftið fellur hann saman og myndar gjóskuhlaup sem renna eftir yfirborði jarðar. Algengur hraði gjóskuhlaupa er á bilinu 100-150 km/klst og það er því ekki á færi nokkurs manns að koma sér undan slíku. Gjóskuhlaup geta líka myndast við hrun í eldfjöllum og hafa stundum verið nefnd eldský, enda er hitastig þeirra mörg hundruð gráður. Gjóskuhlaup hafa valdið mesta beina manntjóni sem þekkt er samfara eldgosum.

Meiriháttar gjóskuhlaup á Íslandi eru ekki þekkt á nútíma, en í eldri jarðmyndunum er nokkuð um flikruberg. Í Þórsmörk er þykkt flikrubergslag sem myndaðist í meiri háttar gjóskuhlaupi frá Tindfjallajökli fyrir um 54.500 árum. Meiriháttar sprengigos, líkleg til þess að valda miklum gjóskuhlaupum jafnframt því að dreifa miklu magni af gjósku yfir hafið umhverfis Ísland, verða sem betur fer aðeins á tuga eða hundruð þúsunda ára fresti. Rannsóknir á hafsbotnsseti umhverfis landið benda til þess að slíkt hafi gerst 45 sinnum síðustu 6 milljón árin, eða á 130.000 ára fresti að jafnaði.

Í Blábjörgum eru varðveittar merkar upplýsingar um mikilvægt augnablik í jarðsögu Íslands. Þetta er besta heimildin sem við höfum um stórkostlegan atburð. Blábjörg hafa því mikið gildi á svipaðan hátt og handritin sem geyma sögu þjóðarinnar. Auk þess eru Blábjörg sérlega aðgengilegur staður til að skoða flikruberg og fræðast um gjóskuhlaup.

Kristján Jónasson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun (eftir ýmsum heimildum)

Úr erindi sem flutt var við friðlýsingu Blábjarga 2012

Um friðlýsinguna

Þann 28. nóvember voru Blábjörg á Berufjarðarströnd formlega friðlýst í Löngubúð með staðfestingu umhverfis- og auðlindaráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Gauti Jóhannesson sveitarstjóri stýrði athöfninni í Löngubúð eftir að heimamenn og gestir höfðu haft viðkomu á vettvangi hins friðlýsta undir handleiðslu landeigenda.

Auk ráðherra og embættismanna úr ráðuneytinu voru viðstaddir friðlýsingarathöfn þessa fulltrúar frá náttúrufræðistofnun og umhverfisstofnun ásamt landeigendum að Fagrahvammi þeim Auðbergi og Katrínu sem og fulltrúum frá Djúpavogshreppi. Í ávarpi ráðherra að þessu tilefni kom m.a. fram mikil ánægja með framlag Djúpavogshrepps til umhverfis- og náttúruverndarmála á síðustu árum sem sjá má meðal annars í stefnu sveitarfélagsins í aðalskipulagi 2008 - 2020. Taldi ráðherra að með stefnu þessari hafi Djúpavogshreppur sýnt mikla framsýni og skapað sér jákvæða sérstöðu til framtíðar litið.

Önnur ávörp fluttu þau Sigrún Ágústdóttir frá umhverfisstofnun, Andrés Skúlason oddviti Djúpavogshrepps, Auðbergur Jónsson landeigandi að Fagrahvammi og síðast en ekki síst lýsti Kristján Jónsson frá náttúrufræðistofnun á skemmtilegan og fræðandi hátt hinum friðlýstu náttúruminjum að Blábjörgum.

Markmiðið með friðlýsingu Blábjarga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa hátt fræðslu- og vísindagildi. Blábjörg eru aðgengilegur staður til að skoða flikruberg enda vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Hið friðlýsta svæði er 1,49 hektarar að stærð en með friðlýsingunni er óheimilt að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir innan marka þess. Almenningi er áfram heimil för um náttúruvættið en umsjón og rekstur þess er í höndum landeigenda

Umhverfis- og auðlindaráðherra Svandís Svavarsdóttir staðfestir friðlýsingu Blábjarga

Umhverfisráðherra hrósaði aðalskipulagi sveitarfélagsins í hástert og þeirri stefnu sem Djúpavogshreppur heldur þar á lofti er varðar umhverfis- og náttúruvernd.

Kristján Jónsson frá Náttúrufræðistofnun með fróðlegt erindi um flikrubergið á Blábjörgum

Oddviti með erindi um næstu skref er varðar friðlýsingar í sveitarfélaginu

Sigrún Ágústdóttir frá Umhverfisstofnun flytur ávarp og fer lofsamlegum orðum um sveitarfélagið. Landeigandinn að Blábjörgum, læknirinn og stórbóndinn í Fagrahvammi, Auðbergur Jónsson flytur skemmtilegt ávarp.

Landeigendur og fulltrúi sveitarfélagsins skrifa undir f.v. Auðbergur, Katrín og Gauti.

Landeigendur og fulltrúi sveitarfélagsins skrifa undir f.v. Auðbergur, Katrín og Gauti.

Sigrún Ágústdóttir frá UST með landeigendum við undirskrift

Kristján Jónsson frá NI og Guðríður Þorvarðardóttir sérfræðingur frá umhverfisráðuneytinu.

Sigrún Ágústdóttir færir landeigenda gjöf frá Umhverfisstofnun og sveitarfélaginu einnig.

Oddviti færir ráðherra gjöf frá Djúpavogshreppi - mynd af Blábjörgum með Búlandstindinn í bakgrunni.

Var efnið hjálplegt?