Djúpivogur
A A

Búlandsnes

Búlandsnes er nes á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Á því norðanverðu (eða austanverðu, eins og innfæddir segja) liggur þorpið Djúpivogur.

Við skiptum nesinu í eftirfarandi hluta;

Norðurland (frá Eyfreyjunesi út að innri Gleðivík)
Suðurland (frá Búlandshöfn út að Fýluvogi)
Útland (sandarnir og eyjarnar)
Hálsar

Ingimar Sveinsson skrifar í bók sinni Djúpivogur - 400 ár við voginn:

Landið norðvestan Djúpavogs er nefnt Norðurland, sunnan og vestan er Suðurland, en Útland sunnan og austan við byggðina. Skilin á milli Suðurlands og Útlands eru um Fýluvog eða Fúlavog...

Samkvæmt ofangreindri skilgreiningu þá tilheyrir Djúpivogur og byggðin þar með talin, hvorki Norðurlandi né Útlandinu. Flestir eru þó sammála um að Útlandið sé utan við Djúpavog, að skilin séu við Bóndavörðu. Við höldum okkur líka við það og bætum því við fimmta hlutanum; Djúpavogi og nágrenni. Þeim hluta tilheyrir svæðið frá Gleðivík út að Bóndavörðu og svo skerum við skilin við Suðurlandið frjálslega eftir útlínum byggðarinnar.

Við undanskiljum landið innan Búlandshafnar að Hálsi, sem þó sannarlega tilheyrir hinu eiginlega Búlandsnesi. Það tilheyrir þó einnig Hamarsfirði en það er kannski huglægt mat hvort menn telji það land tilheyra Hamarsfirði eða Búlandsnesi. Oftast er þó talað um Háls í Hamarsfirði en bær sem er litlu utar, Merki (nú horfinn) er frekar talinn tilheyra Búlandsnesi. Ysti bærinn norðan megin í Hamarsfirði er þá sennilega Hlauphólar.

Sama gildir þá um landið norðan Hálsa, innan Eyfreyjuness að Búlandsá. Við teljum það tilheyra Berufirði frekar en Búlandsnesi.

Hér til hægri er hægt að velja þessi svæði og skoða nánar. Undir hverju og einu eru síðan helstu kennileiti.

Hér að neðan er örnefnakort fyrir Búlandsnes. Til að skoða kortið mælum við með að vista það í tölvu/síma með því að hægri smella og velja Save image as... (í Chrome og Firefox) eða Save picture as (í Microsoft Edge). Einnig er hægt að hægra smella og velja Open image in new tab til að stækka hana.

Var efnið hjálplegt?