Djúpavogshreppur varð til þann 1. október 1992 við sameiningu þriggja hreppa: Búlandshrepps, Beruneshrepps og Geithellnahrepps.
Sveitarfélagið er víðfemt, samtals um 1.153 km2, en í því eru þrír firðir; Álftafjörður, Hamarsfjörður og Berufjörður. Kauptúnið Djúpivogur stendur á Búlandsnesi sem er á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Hinn formfagri Búlandstindur (1.069 m.) er þekktasta kennileitið í Djúpavogshreppi. Safna- og menningarhúsið Langabúð, byggt árið 1790, setur einnig mikinn svip á bæjarmynd Djúpavogs.
Eyjan Papey tilheyrir Djúpavogshreppi. Hún er stærsta eyjan fyrir Austurlandi, u.þ.b. 2 km², þvínæst beint austur af Hamarsfirði og var eina eyjan í byggð, en er nú í eyði. Þar var eitt býli og kirkja frá 1902, sem er útkirkja frá Djúpavogi.
Í sveitarfélaginu eru tveir jöklar, Þrándarjökull (22 km2) og Hofsjökull (13 km2).