Djúpivogur
A A

Saga Cittaslow

Undir lok síðustu aldar, sammæltust fjórir bæjarstjórar á Ítalíu um að nóg væri komið af hnattvæðingu og hraðaáráttu nútímans. Þeirra tilburða að vilja steypa ólíka menningarheima umhugsunarlaust í sama mót og skeyta lítið áhrif þess á samfélög og umhverfi. Töldu þeir nauðsynlegt að sett væri fram stefna sem legði áherslu á hið gagnstæða; þar sem virðing fyrir fólki, staðbundinni menningu og umhverfi væri í heiðri höfð. Með þessa sýn og hugmyndafræði SlowFood-samtakanna að leiðarljósi varð Cittaslow-hreyfingunni hleypt af stokkunum árið 1999.

Síðan þá hafa margir fundið samhljóm með Cittaslow-hreyfingunni. Henni hefur vaxið hratt fiskur um hrygg og í apríl árið 2013 höfðu 176 bæir og sveitarfélög í 27 löndum víðsvegar um heiminn gerst aðilar að hreyfingunni. Árið 2021 eru löndin orðin 30 og bæir og sveitarfélögin orðin 272.

Í stærra samhengi

Cittaslow-hreyfingin er afsprengi „Hæglætishreyfingarinnar“ (The Slow Movement) sem rekja má allt aftur til ársins 1986, þegar blaðamaðurinn Carlo Petrini mótmælti opnun veitingastaðar McDonald's skyndibitakeðjunnar á hinu fræga Piazza di Spagna-torgi í Róm, þeim fyrsta á gjörvalli Ítalíu. Síðan þá hefur Hæglætishreyfingin með SlowFood-samtökin í fylkingarbrjósti unnið að því að upphefja manneskjuleg gildi og staðbundna menningu með virðingu og vitund fyrir umhverfi og uppruna í öndvegi.

Á undanförnum árum hefur „hæglætis“-hugmyndafræðinni vaxið ásmegin og hefur hún verið heimfærð á fjölmörg svið samfélagsins, en auk Cittaslow má t.d. nefna Slow Living, Slow Travel, Slow Design & Slow Fashion.