7 flokkar - 72 viðmið
Með því að gerast aðili að Cittaslow-hreyfingunni skuldbindur bæjarfélag/sveitarfélag sig til að vinna að 72 viðmiðum sem sett eru fram í eftirfarandi sjö flokkum:
- Stefan um orku og umhverfismál
Loft-, vatns- og jarðvegsgæði skulu vera í samræmi við gildandi lög og reglugerðir en einnig skal gætt að rafsegulmengun, hávaðamengun og mengunar vegna raflýsingar. Úrgang skal flokka og endurvinna og hvetja skal til moltugerðar. Bann er lagt við notkun og ræktun erfðabreyttra lífvera í landbúnaði, mælst er til þátttöku í Staðardagskrá 21 sem og innleiðingu umhverfisstaðla á borð við EMAS og ECOLABEL.
- Stefna um innviði
Vinna skal að uppbyggingu og endurgerð menningarminja, fegrun þéttbýlis og endurskipulagningu svæða í niðurníðslu. Efla skal umferðaröryggi, veita öllum gott aðgengi að þjónustu og eftirsóknarverðum áningarstöðum, skipuleggja skal góðar göngu- og hjólaleiðir og skapa aðlaðandi almennings- og útivistarsvæði. Vinsamlegt viðmót og rík þjónustulund skal í hávegum höfð og gerðar skulu áætlanir er miða að ánægjulegri og aukinni samveru og samvinnu íbúa og gesta.
- Stefna um lífsgæði í þéttbýli
Horfa skal til þess að uppbygging falli vel að umhverfi og byggingarefni séu umhverfisvæn. Setja skal fram áætlun um plöntun gróðurs á almenningssvæðum og einkagörðum, tryggja skal að ruslafötur, sem falla vel að umhverfi, séu fyrir hendi sem og áætlanir um hávaðastjórnun og litaval utanhúss. Nýta skal tækni í þágu íbúa og samfélags, t.d. með eflingu fjarvinnu og fjarnáms, en einnig með gagnvirkum vefsíðum sem veita milliliðalaust samband við yfirvöld eða þjónustuaðila.
- Stefna um landbúnað, ferðamenn og handverk
Þróun lífræns landbúnaðar skal efld og stuðla skal að notkun lífræns og staðbundins hráefnis í matargerð, s.s. á veitingahúsum og í skólum. Áhersla er lögð á að haldin séu námskeið fyrir leik- og grunnskólanemendur um mat og matargerð í samstarfi við SlowFood. Þá skal tryggja gæði framleiðslu og verndun staðbundinna framleiðsluaðferða, skapa vettvang fyrir markaðssetningu staðbundinnar framleiðslu, og hafa í heiðri og efla ennfrekar staðbundna menningarviðburði og hefðir.
- Reglur varðandi gestrisni, vitund og þjálfun
Leggja skal upp úr vinsamlegu viðmóti og hæfni þeirra sem taka á móti ferðamönnum, hafa sveigjanleika í opnunartíma verslana og hvers kyns þjónustu og greitt aðgengi að upplýsingum. Bjóða skal upp á gönguferðir með leiðsögn og merkja með skýrum hætti ferðamannastaði og áhugaverðar gönguleiðir.
- Félagsleg samheldni
Gera skal grein fyrir með hvaða hætti viðmið Cittaslow verða aðlöguð samfélaginu sem og gerð áætlana um hvernig stuðla skuli að þátttöku og samheldni íbúa á þeim sviðum sem viðmið Cittaslow ná til. Hlúið sé að minnihlutahópum og rýmt sé til fyrir alla samfélagshópa. Fjölmenningarleg samþætting er í fyrirrúmi og að hlúa að minnihlutahópum og skapa rými fyrir fatlað fólk, börn og ungmenni .
- Samstarf
Stuðningur við herferðir og slowfood aðgerðir. Samstarf við önnur samhliða samtök. Stuðningur við tengslaverkefni og útbreyðslu hugmyndafræðinnar.