Djúpavogshreppur og Cittaslow
Þann 13. apríl 2013 var umsókn Djúpavogshrepps um inngöngu í Cittaslow-hreyfinguna formlega samþykkt á fundi Cittaslow International í Kristinestad í Finnlandi. Aðild sveitarfélagsins að hreyfingunni var í burðarliðnum um nokkuð langt skeið en líta má á hana sem rökrétt framhald þeirrar stefnu sem rekin hefur verið í sveitarfélaginu um árabil.
Í Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 er að finna mjög metnaðarfulla stefnu um verndun náttúru og menningarminja. Lögð er áhersla á sérstöðu náttúrunnar, t.d. með friðlýsingu náttúru- og menningarminja á fjölmörgum svæðum sbr. Teigarhorn. Flokkun og endurvinnsla sorps hefur verið innleidd ásamt því sem stór skref hafa verið tekin til fegrunar umhverfis. Leitað hefur verið leiða til að finna gömlum byggingum nýtt hlutverk. Lögð er áhersla á að tryggja fjölbreytni í atvinnumálum þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki með vistvænan atvinnurekstur eru sérstaklega boðin velkomin.
Skólar á svæðinu starfa undir merkjum Grænfánans, og kaffi- og veitingahús leggja sig fram um að bjóða upp á staðbundin hráefni og framreiðslu. Auk þess að horfa til lífræns landbúnaðar og afurða úr sveitum Djúpavogshrepps er sérstaklega lögð áhersla á sjávartengdar afurðir og strandmenningu m.a. með það fyrir augum að koma sögu sjávarútvegs og útgerðar á svæðinu á framfæri í máli og myndum, t.d. á hafnarsvæði Djúpavogs. Þá er hvatt til íþróttaþátttöku og félagslegra samskipta með margvíslegum uppákomum, samkomu- og mótahaldi, svo fátt eitt sé talið.
Þegar valið stendur á milli einsleitni eða fjölbreytni, hnattvæðingar eða sérstöðu, hraða eða vitundar, þá hefur Djúpavogshreppur markað sér stefnu til framtíðar.
Djúpavogshreppur er Cittaslow.