Fuglaskoðun í Djúpavogshreppi (Birds.is)
Djúpavogshreppur hefur löngum þótt áhugaverður meðal áhugafólks um fugla og fuglaskoðun. Einn af kostum þessa landsvæðis fyrir fuglaskoðara er gott aðgengi að óspilltri náttúru þar sem hægt er að sjá flestar íslenskar fuglategundir í sínu náttúrulega umhverfi, án þess að þurfa að leggja á sig mikla göngu eða langt ferðalag. Einnig er hægt að ganga að því nokkuð vísu að sjá spendýr eins og seli og hreindýr an mikillar fyrirhafnar. Nokkur svæði í hreppnum hafa alþjóðlega þýðingu og því ber að vernda þau sérstaklega.
Fuglalíf í Djúpavogshreppi er mjög fjölbreytt, ekki síður en landslagið. Hér eru mörg mikilvæg búsvæði og viðkomustaðir margra fuglategunda. Umhverfi vatnanna á Búlandsnesi er mjög aðgengilegt og þar er fuglalíf fjölskrúðugt. Farfuglarnir koma í stórum hópum, fyrst up að Suð-Austurlandi og fara síðast frá landinu af þessu sama svæði. Ennfremur má hér sjá talsvert af flækingsfuglum.
Verkefnið Birds.is hefur verið í vinnslu síðan árið 2002. Markmið verkefnisins er að auka fjölbreytni í ferðaþjónustu á svæðinu og lengja ferðamannatímann, ásamt því að auka áhuga almennings á fugla- og náttúruskoðun.
Fuglaskoðun í Djúpavogshreppi