Djúpivogur
A A

Áhugaverðir staðir

Eggin í Gleðivík

Við höfnina í Gleðivík er útilistaverkið Eggin í Gleðivík eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson. Listaverkið samanstendur af 34 eftirmyndum eggja jafnmargra varpfugla í Djúpavogshreppi. Eggin hafa öll lögun eggja þeirrar fuglategundar sem þau líkja eftir og standa á stöplum tengdum fyrri starfsemi bræðsu í víkinni. Hver stöpull er merktur þeim fugli sem eggið á, bæði á íslensku og latínu. Sigurður býr og starfar stóran hluta ársins í Kína og eru eggin því úr graníti og búin til þar. Eitt egg er hinum stærra, en það er egg lómsins, sem er einkennisfugl Djúpavogs.

Listaverkið var vígt við formlega athöfn þann 14. ágúst, 2009.

Útilistaverkið er í þægilegri göngufjarlægð frá þorpinu, en frá þorpsmiðjunni eru um 900 metrar í Gleðivík.

Eggin í Gleðivík


Bóndavarða

Austan við kauptúnið á Djúpavogi er allhár ás sem heitir Bóndavörðuhraun og efst á honum Bóndavarða. Ekki er ljóst í hvaða tilgangi varðan var upphaflega hlaðin en munnmæli eru um að eftir Tyrkjaránið hafi menn staðið vörð þar á hrauninu og þá tínt saman í vörðu. Aðrir telja hana verk bænda sem komu í kauptíð til Djúpavogs og lituðust þaðan um eftir skipakomu. Nú tróna loftnet og endurvarpstaurar við hlið vörðunnar til vitnis um breytta tíma. Útsýnisskífa auðveldar mönnum leitina að örnefnum nær og fjær um svið sem nær frá Hvalneshorni sólarsinnis um fjöll við Álftafjörð, Hamarsfjörð og Berufjörð; í austri sést til Papeyjar og niður undan liggur byggðin og vogskorin suðurströnd Berufjarðar en yfir gnæfir Búlandstindur (1069 m), eitt formfegursta fjall á Austurlandi og þótt víðar væri leitað.

Útsýnisskífa við Bóndavörðuna


Sandarnir

Eitt vinsælasta útivistarsvæðið á Djúpavogi er í daglegu tali nefnt sandarnir, en það er svæðið í kringum vötnin, Fýluvog og Breiðavog, við flugvöllinn út á Búlandsnesi. Á þessu svæði er fuglalíf mjög fjölbreytt og svæðið eitt það besta til fuglaskoðunar á Djúpavogi. Við enda flugbrautarinnar er fallega strandlengja þar sem vinsælt er að ganga meðfram sjónum.

Sandarnir, fyrir miðri mynd sést í Ketilboðafles

Rakkaberg

Rakkaberg er hár berggangur sem myndar nær lóðréttan vegg mót austri, en inn frá honum gengur klettabrík eins og mænir og hallar frá henni til beggja hliða. Skiptar skoðanir eru um merkingu örnefnisins, sumir telja klettinn minna á sitjandi rakka, aðrir halda að nafnið sé dregið af lýsingarorðinu rakkur í merkingunni upprétt. Margir vilja meina að Rakkaberg sé álfakirkja og ýmsar sögur eru til um álfa sem sést hafa við Rakkabergið, prúðbúnir á leið til kirkju. Innan við Rakkaberg eru Hermannastekkar, nafn frá Tyrkjaráni, og er þar nú grafreitur.

Hálsaskógur

Hálsaskógur er staðsettur í um 2.km. fjarlægð frá Djúpavogi, beygt til hægri við afleggjarann út á Djúpavog. Í skóginum eru nokkrar gönguleiðir, listaverkum skreyttar eftir yngstu íbúa Djúpavogs, börnin á leikskólanum. Þar er einnig tilvalinn staður til þess að setjast niður og borða nesti í notalegu umhverfi.

Var efnið hjálplegt?