Djúpivogur
A A

Afþreying

Afþreying Á Djúpavogi

  • Sjálfsleiðsögn um Djúpavog með smáforritunum Wapp eða PocketGuide. Hægt er að sækja forritin í snjallsíma á App Store og Play Store.
  • Eggin í Gleðivík eru útilistaverk eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson. Um er að ræða 34 eftirmyndir eggja jafn margra varpfugla í Djúpavogshreppi.
  • Rúllandi snjóbolti/7, Djúpivogur er listasýning með verkum alþjóðlegra samtímalistamanna í Bræðslunni í Gleðivík. Opið alla daga 2. júlí - 21. ágúst, kl. 11-16:00. Sýningin er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps, CEAC (Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar) og listaháskólans Rijksakademie í Amsterdam.
  • Fuglaskoðun Búlandsnesið er einstaklega vel fallið til fuglaskoðunar og um það liggja ótal gönguleiðir. Fuglaáhugafélagið birds.is hefur sett upp fuglaskoðunarhús, útbúið kynningarefni um fugla sem hægt er að nálgast á upplýsingamiðstöðinni á Djúpavogi og merkt gönguleiðir um ákjósanleg fuglaskoðunarsvæði í nágrenni Djúpavogs.
  • Sund og sull Íþróttamiðstöðin býður m.a. upp á sundlaug, tvo heita potta og vaðlaug.
  • Tóftir og hleðslur Leggðu leið þína um ása og lægðir innanbæjar og taktu eftir þeim fjölda tófta og grjóthleðsla sem finna má innan þorpsins og vitna til um langa sögu þess.
  • Gömul hús Langabúð (1790) er eitt elsta verslunarhús landsins. Hún hýsir nú einstakt safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara, ráðherrastofu Eysteins Jónssonar ráðherra, byggðasafn undir risi og notalegt kaffihús. Bæjarskrifstofan er til húsa í Geysi (1900), Hótel Framtíð (1905) er til staðar í huggulegu samnefndu húsi, og Faktorshúsið (1848) og gamla kirkjan (1893) eru í endurbyggingu.
  • Bóndavarðan stendur á ási yfir þorpinu. Hún var mögulega hlaðin af bændum sem stóðu þar vörð í kjölfar Tyrkjaránsins 1627. Hjá vörðunni er útsýnisskífa.
  • Söfn Steinasafn Auðuns með austfirsku bergi og gallerí Bones Stick & Stones eru engu lík. Ekki má heldur láta fram hjá sér fara söfnin í Löngubúð: Ríkarðssafn, ráðherrastofu Eysteins Jónssonar og byggðasafn sveitarfélagsins.
  • Handverk eftir innfædda listamenn má skoða og kaupa í Arfleifð, Bones Stick & Stones, Bakkabúð og JFS listasmiðjunni.
  • Borðaðu vel eða fáðu þér snarl á Hótel Framtíð, Við Voginn eða í Löngubúð.
  • Stuttar göngur frá Djúpavogi:

Æðarsteinsviti - fallegur viti sem stendur á tanga stuttan spöl frá Eggjunum í Gleðivík. Þaðan má ganga áfram að fiskihjöllum og álfakirkjunni Rakkabergi.

Hvítisandur - liggur utarlega á Langatanga. Náttúrulegur fallegur skeljasandur ljáir ströndinni ljósan lit.

Sandarnir - að því er virðist endalausar strendur yst á Búlandsnesi.

Fuglaskoðunarsvæði - er einstakt á Búlandsnesi þar sem ægir saman votlendi, vötnum og söndum.

Afþreying í Djúpavogshreppi

  • Sjálfsleiðsögn um Djúpavogshrepp með smáforritinu PocketGuide. Hægt er að sækja forritið í snjallsíma á App Store eða Play Store.
  • Gönguleiðir liggja um fjörur, dali, fjöll og jökla. Gönguleiðakort fæst m.a. á upplýsingamiðstöðinni, Djúpavogi og Teigarhorni.
  • Hreindýr sækja í stórum hópum niður á láglendi Djúpavogshrepps, sérstaklega á haustin, veturna og vorin, en mögulegt er að sjá hreindýr á svæðinu allan ársins hring.
  • Selir sjást gjarnan flatmaga á steinum eða synda rétt undan ströndinni. Botn Berufjarðar og Fossárvík eru heillavænlegir staðir til selaskoðunar.
  • Silungsveiði er í tveimur ám í Djúpavogshreppi: Hamarsá og Búlandsá. Veiðileyfi í Hamarsá fæst á Bragðavöllum og veiðileyfi í Búlandsá á Teigarhorni og upplýsingamiðstöðinni, Djúpavogi.
  • Strendur í sveitarfélaginu eru svartar, rauðar og ljósar. Þær henta mjög vel í fjöruferðir, skeljatínslu og kerlingafleytingar.
  • Fossaskoðun. Mikilfenglega og fallega fossa gefur að líta í Fossárdal, við Öxi og nærri Bragðavöllum.
  • Blábjörg í Berufirðieru friðlýst náttúruvætti. Björgin eru hluti af sambræddu flikrubergi sem hefur verið kallað Berufjarðartúffið og myndaðist í gjóskuflóði frá súru sprengigosi. Áberandi blágrænan lit bergsins má rekja til myndunar klórítsteindar við ummyndun bergsins. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á einhvern hátt jarðmyndanir á þessu svæði.
  • Gautavíkur við norðanverðan Berufjörð, er getið um í Íslendingasögum. Þar mun hafa verið ein aðalhöfn Austurlands fyrr á öldum og mikill verslunarstaður. Rústir sem fundist hafa á svæðinu eru leifar mannvirkja sem talin eru hafa verið reistar fyrir árið 1362. Rústirnar við Gautavík eru staðsettar beggja vegna Búðaár rétt undir hlíðum, ekki langt frá sjónum. Minjarnar eru friðlýstar.
  • Búlandstindur er óumdeilanlegur konungur fjallanna í Djúpavogshreppi og gnæfir yfir Búlandsnesi, á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Hann er hæsta fjall sem rís úr sjó við strendur Íslands, 1.069 metrar á hæð, og auðþekktur á pýramídalaga formi sínu.
  • Teigarhorn við Berufjörð er friðlýst náttúruvætti og öll Teigarhornsjörðin friðlýst sem fólkvangur. Innan jarðarinnar má finna geislasteina í sínu náttúrulega umhverfi, en sérstaklega falleg eintök má skoða á geislasteinasafni staðarins. Óheimilt er samkvæmt lögum að hrófla við geislasteinunum eða taka lausa steina. Við Teigarhorn stendur Weywadthús sem byggt var á árunum 1880-1882 og er nú hluti af Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Á Teigarhorni starfaði fyrsti menntaði kvenljósmyndari Íslands, Nicoline Weywadt. Landvörður starfar á jörðinni og veitir nánari upplýsingar.
  • Hálsaskógur er á vegum Skógræktarfélags Djúpavogs. Þá er nokkuð um tóftir og hleðslur í skóginum tengdum gamla Búlandsnesbænum, sem og útilistaverk eftir Vilmund Þorgrímsson úr efnivið úr skóginum. Svæðið hentar vel fyrir léttan göngutúr eða sem indælis nestisstaður.
  • Þrándarjökull liggur innan Djúpavogshrepps og prýðir hálendið milli botna Hamarsdals og Geithelladals sem gengur inn úr Álftafirði. Mestur hluti bræðsluvatns frá jöklinum fellur í Geithellaá sem sem liðast um Geithelladal. Gaman er að ganga að jöklinum upp úr dalnum.
  • Djáknadys er toppmynduð grjóthrúga innarlega í Hamarsfirði. Í þjóðsögum er greint frá því að þar sem dysin er nú staðsett hafi prest­ur­inn á Hálsi mætt djákn­an­um á Hamri. Þeim varð sundurorða og endaði með því að þeir börðust og drápu hvorn annan. Presturinn var jarðsettur í kirkjugarðinum á Hálsi, en djákninn dysjaður þar sem báðir fundust og kallað Djáknadys. Dys­in er frið­lýst.
  • Fuglaskoðun. Álftafjörður og Hamarsfjörður eru grunn sjávarlón. Á leirurnar sækja fjölmargar fuglategundir sem vel er vert að skoða.
  • Þvottá er svo nefnd því þar er talin hafa farið fram fyrsta skírnin á Íslandi. Ólafur Noregskonungur sendi Þangbrand prest utan til að snúa Íslendingum til kristinnar trúar undir lok 10. aldar. Þangbrandur hafði vetursetu hjá Síðu-Halli, bónda í Álftafirði, og skírði allt hans heimilisfólk í Þvottá. Árið 1000 var svo ákveðið á Alþingi að Ísland skyldi kristið.
  • Stapinn í Stapavík og ströndin sunnan Álftafjarðar er einstök náttúruperla og frábær viðkomustaður.

Viðburðir í Djúpavogshreppi

Hammondhátíð
17. júní
Sjómannadagurinn
Cittaslow sunnudagur
Rúllandi snjóbolti, Djúpivogur
Dagar myrkurs o.fl.

Sjá viðburðadagatal á www.djupivogur.is.


Smelltu á tengla hér til hægri til að skoða betur.

Var efnið hjálplegt?